...og hann Úlli minn

Hann Úlfar minn er glasabarn. Eftir að hafa reynt í mörg ár og eftir tvö utanlegsfóstur ákváðum við hjónin að fara í glasafrjóvgun. Það gekk mjög brösuglega til að byrja með. Ég svaraði hormónameðferðinni illa og fyrst þurfti að hætta vegna sumarleyfa á glasadeild. Ég byrjaði aftur í meðferð en þá þurfti að hætta meðferðinni vegna jólafría. Við vorum alveg að gefast upp en ákváðum að reyna aftur og það tókst. Við erum hörð á því núna að þetta hafi verið vegna þess að það var Úlfar sem átti að fæðasta og hann var bara ekki tilbúinn fyrr.

Eftir að við fengum að vita að þetta hefði tekist var hann í hættu í smátíma þar sem þungunarhormónin hækkuðu mjög hægt. Síðan tóku þau við sér og við alveg alsæl. Svo byrjaði að blæða hjá mér og ég hélt að ég væri búin að missa hann. Það voru þá bara hin tvö eggin sem voru að fara. Loks tókst mér að detta niður stiga og varð enn og aftur skíthrædd. En hann hélt sér sem fastast þangað til hann fæddist 22. júní 1993. Hann hafði verið settur á 2. júlí, sem er afmælisdagur eldri sonar míns, það hefði nú verið fyndið að eignast tvö börn með 20 ára millibili á sama deginum.

Þegar hann var rúmlega sólarhrings gamall kom ljósmóðir með hann til mín og sagði: Þessi vill láta halda á sér. Það reyndust orð að sönnu, Úlli hefur alltaf verið algjör kelirófa og heimtar kossa og faðmlög enn þann dag í dag. Hann var mjög vær, vaknaði brosandi og sofnaði brosandi. Eitt var þó merkilegt með hann. Hann vildi hvorki brjóst né pela og drakk úr glasi frá byrjun. Ég var  vitanlega spæld út af þessu með brjóstagjöfina, en kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða.

Úlfar átti Baby Björn stól sem hann sat alltaf í. Þegar hann var nokkurra mánaða uppgötvaði hann að hann gat ferðast um íbúðina með því að rugga sér fast í stólnum. Fyrr en varði var hann kominn á fleygiferð um allt hús í stólnum, yfir þröskulda, tók beygjur og allt.

Úlfar ákvað algjörlega sjálfur hvenær honum þóknaðist að hætta með bleiu. Um leið og sú ákvörðun hafði verið tekin fór hann alltaf á koppinn og vætti aldrei rúmið. Ég hélt að hann héldi bara svona vel í sér á nóttinni. En eina nóttina vakti hann mig til að biðja mig að hjálpa sér að hneppa náttgallanum. Hann hafði sem sagt farið sjálfur á klósettið án þess að vekja mig.

Hann elskaði að láta teikna fyrir sig. Þar sem ég get ekki teiknað frekar en ég veit ekki hvað skrifaði ég fyrir hann bókstafi og honum fannst það alveg jafngaman. Hann kunni þess vegna alla stafina áður en hann varð tveggja ára. Við keyptum fyrir hann forritið Stafakarlana og lærði hann að lesa á methraða. Var farinn að lesa textann í sjónvarpinu rétt fjögurra ára. Hann var meira að segja látinn lesa fyrir yngri börnin á leikskólanum. Leikskólinn hans Úlfars var Steinahlíð, þar hafði ég verið og eldri systur mínar. Steinahlíð er frábær leikskóli hefur yfir miklu landi að ráða og þar er heilmikill skógur sem börnin geta leikið sér í.

Úlfar var og er einstaklega skemmtilegur og orðheppinn krakki sem velti hlutunum mikið fyrir sér. Ég man þegar hann spurði mig hvað hjartað gerði. Það dælir blóði fyrir líkamann, sagði ég. Á þá líkamaðurinn blóðið? var svarið sem ég fékk. Svo hætti hann á Steinahlíð og fór í skóla. Þar var tekið tillit til þess að hann var fluglæs og kunni talsvert að reikna svo fyrsta árið var hann meira og minna á bókasafninu í skólanum. Einu sinni þegar ég var að sækja hann í 6 ára bekk kom maður hlaupandi á eftir mér og spurði hvort ég væri mamma hans. Ég játti því. Þá sagðist hann aldrei hafa kynnst öðru eins barni. Þetta var kennarinn hans í tölvutímum og sagði hann að hann hefði beðið börnin um að segja frá bókum sem þau hefðu lesið og var hann alveg bit á hvað Úlfar hefði lesið mikið og hann vissi eftir hverja bækurnar voru. Ég varð vitanlega mjög stolt. Úlfar elskaði að láta lesa fyrir sig þótt hann væri orðinn læs. Þegar ég var að lesa fyrir hann Bróður minn Ljónshjarta og Elsku Míó minn reif hann sig úr fötunum um leið og hann kom heim úr leikskólanum og heimtaði að fá að fara upp í að lesa. Sem var vitanlega látið eftir honum.

Frá byrjun hefur Úlfar verið mikið fyrir að fara á veitingahús og var ekki nema 4-5 ára þegar hann stórmóðgaðist ef honum var boðinn barnamatseðill. Hann hefur alltaf verið til í að prófa eitthvað nýtt og naut sín í botn í Kína þar sem hann smakkaði m.a. steikta ánamaðka, hænulappir, marglyttur og ég veit ekki hvað og hvað. Hann var bara svekktur yfir því að fá hvergi hundakjöt.

Nú er hann Úlli minn að verða 15 ára, var fermdur borgaralega í fyrra. Hann er enn sami ljúfi drengurinn og verður vonandi áfram. Ég sé engin merki um annað.

Fyrir þó nokkrum árum lét ég gera stjörnukort fyrir báða strákana. Sú sem gerði kortin þeirra endurtók þau þrisvar þar sem hún trúði ekki niðurstöðunum. Kortin þeirra voru nefnilega eiginlega alveg eins. Engin furða þar sem þeir eru báðir jafnfrábærir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 9.4.2008 kl. 16:07

2 Smámynd: Ragnheiður

Já ég sé það, las yfir mig hrifin um þann eldri um daginn og núna kemurðu með ekki minna heillandi snilling fram á sjónarsviðið...

Takk fyrir

Ragnheiður , 9.4.2008 kl. 16:09

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

FLott hjá þér greinilegt að drengirnir þínir eru alveg frábærir, Úlfar er örugglega að flýta sér að verða stór.  Vill gera þetta allt sjálfur.  Knús á þig Helga mín og drengina þína.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.4.2008 kl. 16:15

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Takk stelpur

Helga Magnúsdóttir, 9.4.2008 kl. 16:21

5 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 10.4.2008 kl. 12:03

6 Smámynd: Ragnhildur Sverrisdóttir

Þegar uppskriftin heppnast svona frábærlega í fyrstu tilraun er auðvitað óðs manns æði að breyta út af henni.

Til lukku með tvo frábæra gutta!

Ragnhildur Sverrisdóttir, 11.4.2008 kl. 15:24

7 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Almáttugur minn - við höfum verið í þessu á sama tíma með þau bekkjarsystkin!!

Við hjón fórum 3svar til Englands í glasa meðferð. Vorum á leið út í fjórða sinn þegar BÚMM ég ólétt!!!

Svo vorum við að byrja ferlið aftur, og þá hér heima,  þegar Bryndís ákvað að nú væri hennar tími kominn.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 17.4.2008 kl. 13:13

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Flott hjá Bryndísi. Við vorum á leið til Englands þegar ég fékk seinna utanlegsfóstrið og þurftum þá að hætta við.

Helga Magnúsdóttir, 21.4.2008 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband