Kóngulær

Ég er ekki eins hrædd við nokkurn skapaðan hlut eins og kóngulær. Ég hef tvisvar sinnum nánast fengið taugaáfall út af þessum kvikindum. Margir vilja meina að þessi ótti minn sé lærður frá móður minni sem var líka ákaflega hrædd við kóngulær. Ég man að einu skiptin sem pabbi tók þátt í húsverkum var þegar hann þreif neðri skápana í eldhúsinu fyrir jólin, mamma þverneitaði nefnilega að setja hendurnar þar sem hún sá þær ekki, því aldrei að vita nema í skápunum leyndist eins og eitt stykki kónguló.

Þegar ég var tólf ára fór ég til Danmerkur með foreldrum mínum og tengdaforeldrum bróður míns til að vera viðstödd þegar hann útskrifaðist úr Odense Teknikum. Svo fórum við til Kaupmannahafnar þar sem tengdamóðir bróður míns fór með mig í dýragarðinn. Þar sá ég hús sem stóð á stórum stöfum: Slanger og krokodiller. Entré 1 krone. Ég vildi óð og uppvæg fara þangað inn en Ásta vildi ekki koma með mér, leist ekkert á svona kvikindi. Ég fór þá ein og ég meina ein því það var enginn þarna inni nema ég. Á gólfinu voru opin steinker með krókódílum og veggirnir þaktir glerbúrum með ýmiss konar skepnum. Sem ég gekk um og skoðaði kom ég að búri þar sem virtist bara vera gróður. Ég bankaði í glerið og þá birtist stærsta kónguló sem ég hafð á ævi minni séð. Ég stirðnaði upp og gat varla hreyft mig. Var virkilega að velta því fyrir mér að hoppa ofan í til kródódílanna. Svo tók ég mig taki og hentist að útganginum. Ýtti og ýtti á hurðina áður en ég uppgötvaði að dyrnar opnuðust inn. Var farin að háorga af skelfingu þegar ég komst loksins út.

Næsta skipti var rúmlega þrjátíu árum síðar þegar ég var stödd hjá systur minni í London með yngri strákinn 5 ára. Einn morguninn þegar ég var frammi í eldhúsi að hita kaffi ætlaði systir mín að klæða strákinn. Skyndilega heyrði ég óp. Ég stökk inn í stofu og þar á miðju gólfinu stóð kónguló sem var næstum því jafnstór og sú fyrri. Ég þaut út úr stofunni og ég, sem er sko engin smásmíði, tróð mér ofan í eldhúsvaskinn. Systir mín, sem er ekki hrædd við kóngulær heldur brá henni bara við þegar skepnan datt á gólfið úr buxunum hans Úlfars, náði sér í blað og skál og veiddi kóngulóna og henti henni út. Ég var stjörf í eldhúsvaskinum á meðan á þessu stóð og systir mín sagði seinna að hún hefði aldrei vitað mig þegja svo lengi fyrr. Það var eins gott að það var ekki ég sem hélt á buxunum sem kóngulóin datt úr því það hefði að öllum líkindum orðið mér að aldurtila. Eftir þetta gat ég alls ekki sofið því ég bjóst við skepnunni inn aftur eða ættingum hennar.

Ég held að ég ætti kannski að fara til sálfræðings til að komast yfir þessi áföll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Sumir vilja meina að hræðsla margra kvenna við köngulær eigi sér rætur alla leið aftur í mæðraveldi.

En ég er þjáningarsystir þín.  Má ekki hugsa um þessi kvikindi án þess að urlast upp.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.4.2008 kl. 13:36

2 Smámynd: Tiger

  Ég er nú ekki hræddur við svona kvikindi - en mér er þó meinilla við kóngulær. Mér er reyndar meinilla við flest skorkvikindi yfir höfuð. Þegar ég ferðast erlendis, stoppa ég yfirleitt mjög lengi - og ég byrja ætíð á því að eitra alla íbúðina fyrsta daginn minn þarna, enda kæri ég mig ekki um óvænta gleðifundi við óþekkt gæludýr af ýmsum stærðum og gerðum.. nei takk! Knús á þig ljúfan og eigðu yndislegan dag.

Tiger, 22.4.2008 kl. 13:55

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Þetta er líklega satt með mæðraveldið. Yngri sonur minn er alveg skíthræddur við kóngulær.

Helga Magnúsdóttir, 22.4.2008 kl. 14:01

4 Smámynd: Kallý

ég er ekki hrædd við kóngulær en mér er illa við þær og vil helst ekki snerta þær. En ég var stödd í London fyrir 3 árum síðan og var í úthverfi að heimsækja vinkonu mína sem var þar í skóla. Vorum að bíða á lestarstöðinni sem var bara bekkur með þaki. Þetta var sjabbí hverfi, mikið af "féló blokkum" og voða sérstakt lið sem bjó þarna.

Svo sitjum við rólegar á bekknum að bíða eftir lestinni og ég horfi upp í loftið á skýlinu

Þar eru örugglega 1000 RIIIIISA kóngulær. Ég er ekki að ýkja, ég hef ALDREI séð svona margar kóngulær saman komnar!

Þetta skýli var svona 10 metra langt og það var ÞAKIÐ kóngulóm. Þetta var eins og í hryllingsmynd

 En ég hló upphátt þegar ég ímyndaði mér þig í eldhúsvaskinum  

Kallý, 22.4.2008 kl. 14:59

5 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Vefirnir þeirra eru listasmíð! Fallegasta sem ég sé þegar glitrar á þá döggin í morgunsól - en ég er heldur ekkert hrædd við þær.

Hrönn Sigurðardóttir, 22.4.2008 kl. 16:12

6 identicon

Cool...Hús sem stendur á stórum stöfum   Örugglega bara til í kóngsins Kaupmannahöfn.  Annars gæti ég vel trúað að enskar köngulær séu ógeðslegri en þær íslensku.  Sá einu sinni könglær við Iguazú fossana í Suður Ameríku og þá skildi ég fyrst  þá skelfingu og eða viðbjóð sem grípur fólk er þessi skaðræðisdýr birtast.   Allavega fann ég mér feykilega góða ástæðu til að hverfa af vettvangi hið fyrsta.  Já og endilega prófarkalesari góður, drýfðu þig til sálfræðings.  Þeir eru svo billegir á Íslandi.

Simbi Sæfari (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 22:54

7 identicon

Þekki eina sem á Tarantúllu köngulló.Á stærð við lófa.Brún og svört,loðin og svo heillandi óðeðsleg og falleg í sömu andrá.Get varla hætt að glápa á kvikindið Ormar eru minn viðbjóður

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 10:27

8 Smámynd: Brynja skordal

úff fæ nettan hroll við að lesa hérna er með svona Fóbíu líka fyrir þessum ljótu köngulóm Mamma er svona og við systur og mínar dætur líka svo já þetta er mæðraveldi ekki spurning hafðu ljúfan dag

Brynja skordal, 23.4.2008 kl. 11:12

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hræðsla við köngulær er eitt af því sem ég er bara hætt við.  Ýmislegt sem ég óttaðist í mörg ár er bara allt í einu horfið.  Kisses 

Ásdís Sigurðardóttir, 23.4.2008 kl. 11:46

10 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Viðbjóðslegust fyrirbæri EVER. Var einu sinni að hugsa um að fara á fóbíunámskeið en frétti þá að námskeiðið endaði á því að maður væri látinn halda á tarantúllu og snarhætti við.

Helga Magnúsdóttir, 23.4.2008 kl. 18:44

11 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Ég er nú bara búin að grenja úr hlátri her við þessa sögu, ég er nefnilega hata þær eins og pestina, en ég verð sjálf að drepa þær það er  oft bardagi her inni í svefnherbergi á kvöldin, ég leita vel áður en ég leggst uppí rúm á kvöldin og þú ættir að sjá hvað ég nota til að drepa þessi ógeð, það er ýmislegt skal ég seigja þér, en ég get ekki sofnað fyrr en ég er búin að fullvissa mig um að þessi viðbjóður er ekki inni hja mér, eg er sko oft þreitt eftir bardagann

Knus á þig

Kristín Gunnarsdóttir, 23.4.2008 kl. 19:28

12 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Flottar frásagnir hjá þér Helga mín.  Ég er ekki hrædd við kóngulær, þær eru nytjadýr sem halda öðrum og heldur leiðinlegri pöddum í skefjum eins og lús til dæmis.  Gleðilegt sumar til þín mín kæra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2008 kl. 13:12

13 Smámynd: M

Gleðilegt sumar

M, 24.4.2008 kl. 23:22

14 Smámynd: Brynja skordal

Gleðilegt sumar og hafðu ljúfa helgi

Brynja skordal, 25.4.2008 kl. 00:21

15 Smámynd: Halla Rut

Hún er skrítin þessi kóngulólarhræðsla. Arachnophobia eins og það er kallað.

Þú gætir ekki búð hjá mér því ég er hér í miklum vandræðum með kóngulær. Í fyrra sumar þurfti ég að ryksuga vefi daglega. Í vikunni fann ég tvo vefi svo þetta er allt að byrja. Ég er ekkert hrædd við þetta en kallinum er meinilla við þær þótt hann vilji nú ekki viðurkenna það.

Gleðilegt sumar og góða helgi. 

Halla Rut , 25.4.2008 kl. 14:32

16 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Gleðilegt sumar öll og þakka ykkur fyrir innlitlið.

Helga Magnúsdóttir, 25.4.2008 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband