Köttur og mús

Pabbi minn, Magnús Grímsson útgerðarmaður og skipstjóri, og svili hans, Eyjólfur Jónsson sundkappi og lögreglumaður, voru stórir og miklir menn. Báðir voru þeir heljarmenni að burðum og víluðu fátt fyrir sér. Eitt áttu þeir enn sameiginlegt en það var sjúkleg hræðsla við rottur og mýs.

Pabbi átti verbúð vestur á Granda þar sem þeir svilar geymdu dekkin af bílum sínum. Eitt haustið þegar kominn var tími á að sækja vetrardekkin kom babb í bátinn. Mikill rottufaraldur var á Grandanum og fóru verbúðirnar ekki varhluta af því. Þeir voru í standandi vandræðum því hvorugur þorði inn í verbúðina að sækja dekkin. Þeir gripu til þess ráðs að fara með mig, sem var þá algjör písl þótt ég sé stór og mikil í dag, og sendu mig inn í verbúðina að sækja dekkin. Ég rúllaði hverju dekkinu af öðru út úr verbúðinni á meðan þeir tvístigu fyrir utan og gátu varla beðið eftir að komast burt ef rotta skyldi nú birtast. Mér fannst ég algjör hetja og fékk nammi og gos í Kaffivagninum að launum.

Einu sinni var boð heima hjá okkur. Eyjólfur stóð og talaði við afa minn og stóðu þeir upp við skenk sem Eyjólfur hafði lagt handlegginn upp á. Bræður mínir höfðu af skömmum sínum búið til gervimús úr skinnbút og laumuðu henni á handlegginn á Eyjólfi. Afi minn, Grímur Jónsson fyrrverandi hreppstjóri og útgerðarmaður, var afar virðulegur maður. En hann hoppaði samt hæð sína þegar Eyjólfur kom auga á "músina" á handleggnum á sér og rak upp öskur eitt ógurlegt beint framan í afa. Eyjólfur dauðskammaðist sín og bræður mínir fengu skömm í hattinn hjá mömmu en pabba fannst þetta ákaflega fyndið, líklega af því að hann varð ekki fyrir því sjálfur.

Einu sinni sem oftar vorum við í heimsókn hjá Eyjólfi og Kallý móðursystur minni. Þau áttu kött sem var svo snjall að þegar hann vildi komast inn þá stökk hann upp í gluggann á útihurðinni. Það heyrðist í kettinum og Eyjólfur dró pabba með sér fram á gang til að sjá köttinn. Kötturinn stökk upp í gluggann - með mús í kjaftinum. Það var eins og fílahjörð hefði farið af stað. Þessir boldangskarlar komu æðandi inn í stofu með símaborðið á undan sér, síminn slitinn úr sambandi og allt í pati. Kallý frænka varð að að fara út og taka músina af kettinum og henda henni í ruslið til að pabbi þyrði út til að komast heim. Miklar hetjur.

Önnur saga er til af þessum ketti, þótt músarlaus sé. Aftur vorum við í heimsókn í Rauðagerðinu og Eyjólfur vildi sýna okkur hvað kettinum væri illa við að blásið væri framan í hann. Hann sótti köttinn og stillti honum upp á stofugólfinu. Lagðist síðan á fjóra fætur og blés framan í köttinn. Kötturinn kippti sér ekkert upp við þetta og góndi á Eyjólf eins og naut á nývirki. Eyjólfur var ekki þeirrar gerðar að hann gæfist upp og færðist allur í aukana. Hann dró andann djúpt og blés af alefli framan í köttinn. Kannski aðeins of fast því út úr honum fuku fölsku tennurnar beint framan í köttinn. Kötturinn margfaldaðist að umfangi því hvert einasta hár á honum stóð beint út í loftið, hann hentist undir sófa og neitaði að koma þaðan aftur fyrr en daginn eftir. Það er liðin hálf öld frá þessu atviki en ef þörf er á að hressa Atla bróður minn við er þetta bara rifjað upp og hann hlær í viku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Góðar sögur! Það fer greinilega ekki alltaf saman stærð og hugrekki! Án þess að mér detti í hug að halda því fram að þeir hafi endilega verið huglausir....

Hrönn Sigurðardóttir, 15.5.2008 kl. 18:09

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Gjörsamlega óborganlegt!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.5.2008 kl. 18:11

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

 Mouse  Mouse Yndisleg færsla, þetta hafa örugglega vaerið hetjur, þrátt fyrir músahræðslu, þær eru nú svo snöggar og eitthvað ógeðslegar. 

Ásdís Sigurðardóttir, 15.5.2008 kl. 18:29

4 Smámynd: Tiger

   Skemmtilegur lestur og góðar sögur þarna á ferð. Hef séð fullvaxinn karlmann hoppa uppá ruslatunnu eins og lítil jómfrú - bara við það að sjá mús koma hlaupandi með vegg.  Knús á þig ..

Tiger, 15.5.2008 kl. 19:15

5 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

...ég sé fyrir mér fölsku tennurnar frussast framan í köttinn.....hahahahaha ekki það ég skil þá vel, er skíthrædd við mýs..

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 15.5.2008 kl. 21:11

6 identicon

Vá gaman að rifja upp þessar sögur.  Ég man eftir atvikinu í forstofunni, aumingja Hnyðra þorði ekki inn eftir öll þessi læti og við vorum símalaus í nokkra daga því þeir náðu að rífa innstunguna frá veggnum.

Linda frænka (IP-tala skráð) 16.5.2008 kl. 08:32

7 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Altaf jafn gaman að lesa bloggið þitt.

Knus inní kvöldið

Kristín Gunnarsdóttir, 16.5.2008 kl. 17:33

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ó Guð þetta var fyndið sérstaklega þessi síðasta  Takk fyrir mig.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.5.2008 kl. 09:52

9 identicon

hahahhahahhahha, dásamlegar sögur hjá þér

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband