Fótboltaraunir

Maðurinn minn gengur ekki heill til skógar þegar fótbolti er annars vegar. Hann verður að horfa á hvern einasta leik og tekur það fram yfir allt annað. Ég hef oft stungið upp á því við hann að hann fari bara á einhvern pöbb og horfi á þetta með sínum líkum og fái sér bjór og svona. Hef boðist til að keyra hann og sækja hann og jafnvel borga ofan í hann bjórinn. Nei, hann vill horfa á boltann heima hjá sér og langar ekki í bjór. Þessum leikjum fylgir svo mikill hávaði, þulirnir tala rosalega hátt og svo eru áhofendur ekki beint hljóðlátir. Aumingja maðurinn minn fær engan stuðning frá fjölskyldunni, eldri sonurinn horfir að visu á fótbolta en heldur með Liverpool sem er alveg hræðilegt því maðurinn minn er United-maður.

Áður en ég kynntist honum hafði ég heyrt um fótbolta svona utan að mér og að jafnvel væri keppt í honum. Hafði aldrei á ævinni séð fótboltaleik og langaði ekki til þess. Yngri sonurinn er alveg á minni línu, horfir ekki á fótbolta, spilar ekki fótbolta með vinunum í skólanum og vill helst ekkert af fótbolta vita. Þetta er manninum mínum mikil vonbrigði því hann hafði hlakkað til að fara með soninn á völlinn og njóta þessarar áráttu með honum. Ekki að ræða það.

Þegar Úlfar var 5 ára var einhver svona stórkeppni í gangi. Maðurinn minn hringdi utan af sjó og sagðist ætla að taka sér frí næsta túr. Mig grunaði ekkert misjafnt og tók mér sumarfrí til að við gætum farið eitthvað. Þegar maðurinn kom svo í land og ég fór að bera undir hann sumarfrísplön horfði hann á mig eins og ég væri biluð. Fara eitthvað? Vissi ég ekki að það var fótboltakeppni í gangi? Ég varð alveg eiturfúl. Þegar þessi keppni hafði staðið yfir í viku eða tíu daga fengum við Úlfar nóg. Pökkuðum niður í töskur og fórum til London til systur minnar þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti fjarri öllum fótbolta í hálfan mánuð.

Tveimur dögum eftir að við komum heim var kominn tími á að maðurinn færi aftur út á sjó. Við Úlfar keyrðum hann niður á bryggju og fórum heim. Við vorum rétt komin upp í rúm, en sonurinn svaf vitanlega hjá mér þegar pabbi var á sjónum, þegar maðurinn minn kom aftur heim. Vélin hafði bilað og túrnum frestað. Þegar Úlfar kom auga á pabba sinn rak hann upp stór augu og sagði: Hva, er fótbolti í sjónvarpinu? Honum datt engin önnur ástæða í hug fyrir þessari ótímabæru heimkomu. Maðurinn minn má eiga það að hann var hálfskömmustulegur við þessar móttökur.

En nú er þetta skollið á eina ferðina. Bara spurning um hvert við Úlfar eigum að forða okkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahhaha,,, alltaf jafn skondnir þessir pistlar þínir , en sem betur fer er minn maður ekki svona djúpt sokkinn líkt og þinn maður. Ég fæ þó minn til að standa aðeins upp

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 20:25

2 Smámynd: M

Frábært hjá ykkur að hverfa til London. Hef ekki hugsað út í það

Fáðu kortið hjá kalli og farið til Bali

M, 9.6.2008 kl. 21:27

3 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

HAHA gaman að lesa svona sögu því ég þekki þetta ekki minn maður horfir ekki á fótbollta en þeim mun meira á spennu myndir og þætti en það vill til að mér finnst það gaman svo við getum vel setið samn og horft.. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 9.6.2008 kl. 22:17

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Veistu að við erum þjáningarsystur.  Omægodd.  Hahaha, bráðfyndið annars.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.6.2008 kl. 00:26

5 Smámynd: Heiða  Þórðar

Ég vona að maðurinn þinn sé góður að öllu öllu öllu öðru leyti!

Heiða Þórðar, 10.6.2008 kl. 21:10

6 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

hehehehehehe sem betur fer þekki ég þetta ekki, en Guð hvað minn sambýlingur getur setið yfir erlendum fræðslumyndum.

Takk fyrir komment á síðunni minni dúllan mín

Guðrún Jóhannesdóttir, 10.6.2008 kl. 21:58

7 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Sem betur fer er maðurinn minn ekki haldinn fleiri alvarlegum göllum en þessum. Mér finnst þetta alveg nóg sko. Ég er búin að biðja um það í vinnunni að fá að vera á kvöldvöktum á meðan þessi ósköp ganga yfir.

Helga Magnúsdóttir, 10.6.2008 kl. 22:36

8 Smámynd: Heiða  Þórðar

hehehehehe

Heiða Þórðar, 10.6.2008 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband