Yfirvöld bregðast börnum

Kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum eykst gífurlega ár frá ári. Á síðasta ári bárust 8.410 tilkynningar eða 23 ár á dag. Á sama tíma hefur þeim sem sinna þessum málaflokki ekki fjölgað og er því ekki nema um það bil annað hvert tilfelli rannsakað.

Þetta er algjört hneyksli. Í flestum tilfellum eru það foreldrar sem beita börnin ofbeldi. Þau geta því ekki treyst á þá sér til hjálpar. Og svo bregst hið opinbera gjörsamlega, sinnir engan veginn hlutverki sínu að bjarga börnum frá slíkum aðstæðum. Hvernig líður manneskju sem mannar sig upp í að kæra illa meðferð á börnum og í kjölfarið gerist ekki neitt? Kærir hún aftur eða gefst hún upp og lætur kyrrt liggja vegna þess að það þýðir ekkert að tilkynna illa meðferð á börnum?

23 tilkynningar á dag eru ekkert smáræði. Maður stendur lamaður frammi fyrir því að á svo mörgum heimilum séu litlir einstaklingar barðir og jafnvel beittir kynferðislegu ofbeldi og það kemur enginn þeim til hjálpar. Í mörgum tilfellum eru það börnin sjálf sem reyna að leita sér hjálpar og koma að lokuðum dyrum. Hvernig verður viðhorf Þeirra þegar þau vaxa úr grasi? Þau munu telja að ofbeldi og barsmíðar séu viðtekin norm þar sem aldrei sé tekið á þeim. Munu þau berja sín eigin börn þar sem þau kynntust engu öðru í æsku?

Ekki er vitað hvort ofbeldi hafi aukist svona mikið eða hvort fólk sé orðið óhræddara við að kæra. Barnaníðingar hafa nú tölvurnar og MSN til að leita sér að fórnarlömbum. Hætt er við að þau börn sem leiðast í samband við níðingana með þessum hætti séu börnin sem engan stuðning eða hlýju fá heima hjá sér og eru auðveld fórnarlömb níðinga sem þykjast finnast vænt um þau og eru jafnvel betri við þau en foreldrarnir.

Svona á ekki að líðast í íslensku þjóðfélagi á okkar tímum. Rannsóknum barnaverndarnefnda á svona málum hefur tiltölulega fækkað þegar þeim ætti að stórfjölga. Það verður að skera upp herör í þessum málaflokki svo börn séu ekki varnarlaus og enginn komi þeim til hjálpar þegar þau búa við ömurlegar aðstæður hjá gjörsamlega vanhæfum foreldrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Auðvitað er engin hemja að enn skuli látið eins og þessi mál séu örfá og það þurfi ekki að leggja meiri peninga í málaflokkinn.

Ég er hins vegar ekki svo viss að málunum hafa fjölgað, heldur hafi opin umræða orðið til þess að þau koma nú æ oftar upp á yfirborðið sem betur fer.

Takk fyrir góðan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.6.2008 kl. 15:45

2 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

ég reyndar held að málum hafi fjölgað....held að þetta haldist í hendur við hnignandi siðferði....meiri eiturlyfja og áfengisneyslu og brenglaðri viðhorfum í henni veröld, öll mörk eru orðin svo teygð í dag, það sem þótti tabú fyrir 10 árum þykir í lagi í dag...svo er aðgangur að klámi orðin svo aðgengilegur......

auðvitað á að setja miklu meiri pening í þennan málaflokk...ef þessi meinsemd verður ekki stoppuð þá heldur vítahringurinn áfram...brotnar sálir leita í brotna einstaklinga og til verða brotin börn og svona koll af kolli....sorglegt að vita til þess hvað mörg börn þjást.. 

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 16.6.2008 kl. 16:18

3 Smámynd: Alma Jenny Guðmundsdóttir

Hafðu þökk fyrir að taka þetta málefni fyrir.  Það segir kannski mikið um viðhorf okkar ,,almennings" hversu skeytingarlaus við erum um þessi mál, hversu litla athygli þessi frétt fær t.d. hér á bloggheimum.

Annað vildi ég segja og það er að vanræksla á sér ekki eingöngu stað á heimili áfengis-eða vímuefnaneytenda.  Það er mjög mikil og alvarleg tilfinningaleg vanræksla á börnum að forgangsraða þannig að allt of stór hluti af tíma fólks fari í að vinna fyrir ,,hlutum" sem efla eigin sjálfsmynd - og hefur lítið að gera með þarfir barnanna, svo sem margra milljón króna bílar, alls kyns hýsi sem hanga aftan í þessum fínum bílum kannski ekki meira en 10 daga á ári, o.fl. og fl.

Held að forgangsröðun hafi verið mjög röng hér síðustu árin og vona að sú kreppa sem ríður yfir heiminn, breyti áherslum hjá fólki. 

Alma Jenny Guðmundsdóttir, 16.6.2008 kl. 20:18

4 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Góð umræða hér Helga.

Það þarf að sinna þessum málum miklu betur,en ég held líka að þessum málum er ekki endilega að fjölga heldur er umræðan meiri og þess vegna er fólk upplýstara og þá koma oft upp mál sem legið hafa lengi í dvala og enginn þorað að tala um.

Kveðja til þín Heiður. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 17.6.2008 kl. 00:11

5 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Það er rosalegt hvernig er hægt að koma fram við börn og meira er um þetta en kemur fram er ég hrædd um, ég ákvað sjálf þegar að ég var 12 ára að vera aldrey vond við börnin mín, ég gat snúið dæminu við, sem betur fer.

Knus til þín

Kristín Gunnarsdóttir, 17.6.2008 kl. 09:33

6 Smámynd: Tiger

Frábær pistill hjá þér um málefni sem aldrei er of oft talað/skrifað um. Það hefði þurft að leggja miklu meira í þennan málaflokk á öllum sviðum! En, eigðu ljúfa nótt og góðan dag á morgun.

Tiger, 18.6.2008 kl. 03:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband