Mömmumóment

Þegar synir mínir hittast fara þeir svo til undantekningalaust að tala um það sem þeir kalla mömmumóment, þetta gera þeir líka hátt og snjallt í fjölskylduboðum og við aðrar aðstæður við mikla hvatningu og fögnuð viðstaddra.

Mömmumóment eru sögur af mér þar sem óheppnin, fljótfærnin og klaufaskapurinn hafa komið mér í bobba. Bæði atvik sem þeir hafa orðið vitni að eða ég verið nógu vitlaus til að segja þeim. Ég ákvað að taka fram fyrir hendurnar á þeim og gefa ykkur nokkur dæmi um mömmumóment.

Einu sinni fór ég í snyrtivöruverslun og ætlaði að kaupa mér hreinsikrem fyrir feita og óhreina húð. Þar sem ég vind mér inn í búðina hrasa ég um þröskuldinn og rann á maganum inn gólfið. Ég reyndi að halda reisn minni stóð upp og gekk að búðarborðinu og bað um hreinsikrem fyrir feitt og óhreint FÓLK. Þá sprungu afgreiðslustúlkurnar alveg sem fram að því höfðu reynt að stilla sig.

Við Styrmir vorum á leið í brúðkaup í okkar fínasta pússi þegar við föttuðum að við mundum ekki hvort giftingin færi fram á Gunnarsbraut eða Guðrúnargötu. Við stoppuðum því í Svarta svaninum til að fletta upp í símaskrá. Styrmir gekk að afgreiðsluborðinu en ég kom auga á síma á vegg og símaskrá á hillu þar fyrir neðan. Ég tók símaskrána en þar sem ég var gleraugnalaus æddi ég af stað með fjandans símaskrána til að láta Styrmi fletta upp í henni. Ég hafði hins vegar ekki varað mig á að skráin var í snúru sem var fest við vegginn þannig að á miðri leið hrifsaðist símaskráin út úr höndunum á mér og fór að sveiflast út um alla sjoppuna. Þarna stóð ég í síðum kjól með símaskrána dansandi í kringum mig. Styrmir grét af hlátri og átti bágt með sig allt brúðkaupið.

Ég fer oft og borða hádegisverð með nokkrum vinkonum mínum. Að lokinni máltíð í eitt skiptið var ég að borga og kortavélin stóð á sér. Ljós kviknaði á skjá og blikkaði heimild, heimild. Ég var búin að stara á skjáinn dágóða stund þegar ég fékk loks strimilinn og kvittaði. Þegar ég var á leiðinni út kallaði afgreiðslustúlkan á mig. Ég hafði skrifað Heimild Magnúsdóttir á nótuna.

Ég er ein af þeim sem eru alltaf á síðustu stundu. Ég var einu sinni að flýta mér sem oftar, henti mér inn í bíl og skellti hurðinni á eftir mér. Gallinn var bara sá að ég var ekki komin öll inn í bílinn svo hausinn á mér lenti á milli stafs og hurðar. Ég var blá og marin í lengri tíma og eyrun á mér voru eins og blómkál.

Þegar ég var á einu af mínum mörgu heilsukúrum fórum við Styrmir í Hagkaup í Kringlunni. Ég keypti bara baunir og grænmeti og svoleiðis, en Styrmir, sem ætlaði að passa Úlfar um kvöldið ætlaði að elda spaghetti carbonara handa þeim bræðrum og keypti því beikon án þess að ég tæki eftir því. Þegar við vorum komin á kassann og ég fór að tína upp úr körfunni kom ég auga á beikonið. Ég þreif eitt beikonbréfið, snersneri mér við, rak beikonið upp í andlitið á "Styrmi" og sagði hátt: Hvað er þetta beikon að gera í körfunni minni? Mér til skelfingar heyrðí ég þá í Styrmi Mamma, hvað ertu að gera? Ég lét beikonið síga og horfði framan í gjörsamlega bláókunnugan mann, ég hafði troðið beikoninu þvílíkt framan í aumingja manninn að það var nánast stimplað Goði á ennið á honum. Styrmir hafði farið fram fyrir kassann til að raða í pokana. Ég bað manninn milljón sinnum afsökunar en hann starði bara á mig eins og ég væri brjáluð og sagði ekki eitt einasta orð. Lái honum hver sem vill.

Þarna eru nokkur mömmumóment handa ykkur. Aldrei að vita nema ég opinberi mig með fleiri svona þegar vel liggur á mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: M

HAHAHA endilega komdu með meira.

M, 23.6.2008 kl. 21:36

2 Smámynd: Ragnheiður

Djí hvað er flott að sjá að ég er ekki eina klikkaða konan !! ahahaha ég skellihló

Ragnheiður , 23.6.2008 kl. 21:44

3 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Hahahaha ...ég á sko svona móment líka...

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 23.6.2008 kl. 22:45

4 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

  ég elska einmitt svona fólk (ekki af því að ég sé svo óheppin hehehehe) takk fyrir að deila þessum ágætu uppákomum með okkur

Guðrún Jóhannesdóttir, 23.6.2008 kl. 22:47

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Og ég grenja úr hlátri.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.6.2008 kl. 22:59

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

ÆJ!!! Hvað ég hló

Hrönn Sigurðardóttir, 23.6.2008 kl. 23:14

7 Smámynd: Ragnheiður

Það eru líklega litlar líkur á að Steinar rambi hér inn. Hann missti nefnilega sem betur fer af þessu um árið. Við fórum í Bónus og það var margt þar. Hann fór í kælirinn, ég er kuldaskræfa. Ég reif niður úr hillum af miklum móð og setti í körfuna, MÍNA körfu. Svo finnst mér undarlegt að karfan færist nær mér ..vissi að ökumaðurinn var ekki kominn. Lít við og horfi á skelfing vandræðalegan mann, með hálffulla körfu af MÍNUM vörum. Ég hvessti á hann glyrnurnar, reif vörurnar snarlega upp úr körfunni og setti í mína, sem var steinsnar frá. Maðurinn hélt áfram að horfa á mig , skelfingaraugum. Ég brunaði svo virðulega burt með MÍNA körfu og flúði í næsta gang.....þar ætlaði ég að deyja úr hlátri. Svo gerði ég ekki annað en að rekast á sama manninn, hann flúði greinilega þegar hann sá til ferða minna og ég þóttist auðvitað ekki sjá hann... Mér fannst nú samt sætt af gæjanum að elta þessa óðu konu svona kurteislega. Það er augljóst hver ræður á hans heimili, ekki hann

Ragnheiður , 24.6.2008 kl. 00:15

8 identicon

Jæja Heimild mín!! Á að fá sér beikon á næstunni

alva (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 00:55

9 Smámynd: Ásta Björk Hermannsdóttir

Garg ég missti mig af hlátri

Ásta Björk Hermannsdóttir, 24.6.2008 kl. 10:55

10 Smámynd: Dísaskvísa

Arrrg!!!!  Guð hvað þú ert fyndin....

Hef átt nokkur svona móment sjálf  En þetta lífgar bara upp á tilveruna hehe

Dísaskvísan

Dísaskvísa, 24.6.2008 kl. 20:06

11 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Þú gætir nu drepið mann, ég se þig alveg fyrir mer í þessum hrakföllum, var meira að seigja að tala í símann á meðan ég las og emjaði úr hlátri.

Kærleikskveðja

Kristín Gunnarsdóttir, 24.6.2008 kl. 21:52

12 Smámynd: Hulla Dan


Mér finnst alltaf jafn asnalegt þegar ég sit ein heima, með tölvuna fyrir framan mig og skellihlæ... Geri að s.s núna.
Þú ert snillingur

Hulla Dan, 25.6.2008 kl. 07:10

13 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Ég er að kafna úr hlátri komdu endilega með meira...ég á líka svona mömmu sem gerir ýmsar vitleisur ég gæti eflaust fyllt mörg blogg með hennar sögum.

Knús á þig Helga mín. 

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 25.6.2008 kl. 09:03

14 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Ég er að lesa þetta í þriðja skipti í dag og emja úr hlátri i hvert skipti, þetta léttir ekkert smá skapið þó að maður eigi ekki að hlægja að óförum annara, þú ert frábær.

Kærleikskveðjur

Kristín Gunnarsdóttir, 25.6.2008 kl. 11:43

15 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Já þau eru margvísleg mómenin. Og gott að geta hlegið og ég geri það sannarlega núna. Í minni fjölskyldu eru það nú pabbamómen sem oft eru rifjuð upp.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 25.6.2008 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband