14.7.2008 | 10:54
Spítalasaga
Mikið var sorglegt að lesa um þriggja ára barnið sem dó úr blóðeitrun eftir að botnlanginn í því sprakk þrátt fyrir að foreldrar þess hefðu tvisvar leitað læknis með það en verið sendir heim. Það munaði ekki miklu að eins færi fyrir mér fyrir hartnær 50 árum.
Þegar ég var 6-7 ára fór ég að fá mikla kviðverki með reglulegu millibili. Það var flækst með mig á milli lækna og næturlæknar voru að minnsta kosti vikulegir gestir. Loks lagði einn næturlæknirinn mig inn á Landakot til að skera mig upp við botnlanganum upp á von og óvon. Í ljós kom að botnlanginn var mjög illa farinn en ennþá ósprunginn en hafði gróið við bakið og því fannst ekkert við þreifingu. Þetta var heljar mikil aðgerð og þurfti ég að vera þrjár vikur á Landakoti.
Þetta var á þeim tíma þegar einungis mátti heimsækja börn á sjúkrahúsum í eina klukkustund á sunnudögum. Mér leið mjög illa eftir aðgerðina og var með mikla heimþrá. Nunnurnar voru algjörar truntur og sem dæmi um það má nefna að þegar ég var að skæla af heimþrá og verkjum kom ein þeirra og gaf mér duglega utan undir og skipaði mér að hætta þessu væli. Eftir það þorði ég ekki að gráta og leið mjög illa.
Eitt kvöldið heyrðist mikill hávaði frammi á gangi og greinilegt að hörkurifrildi var í gangi. Skyndilega opnuðust dyrnar á stofunni sem ég var á og inn stormaði Þuríður amma mín og þrjár nunnur á eftir henni. Amma kom til mín og faðmaði mig og kyssti. Svo fór hún ofan í tösku sem hún var með og sótti stóran poka fullan af íspinnum. Hún lét eina nunnuna fá pokann og skipaði henni að setja hann í frystinn og með fylgdi að við ættum að fá ís þegar við vildum. Nunnan hlýddi. Amma mín var frægur skörungur á Vestfjörðum í eina tíð og lét ekki einhverjar nunnur segja sér hvenær hún heimsækti sitt barnabarn.
Svo fékk amma sér sæti og fór að tína upp úr töskunum. Þar kenndi margra grasa. Sælgæti, ávextir, spil og bækur komu upp úr töskunni okkur börnunum á stofunni til mikillar ánægju. Amma sat hjá okkur lengi kvölds, spjallaði við okkur og sagði okkur sögur. Ég sagði henni ekki frá nunnunni sem sló mig því ég vissi að þá hefði amma farið fram og barið hana. Ég vildi bara hafa ömmu hjá mér og mér hefur sjaldan þótt eins vænt um nokkra manneskju og hana ömmu mína þetta kvöld. Eftir þessa heimsókn voru nunnurnar eins og smjör og rjómi við mig, hafa örugglega óttast að ég myndi klaga í ömmu ef þær væru ekki almennilegar.
Eitt var dálítið skondið við þessa spítaladvöl mína. Ég var ekki sett í bað allan tímann og enn er það viðkvæði í minni fjölskyldu ef einhver er óhreinn: Ertu nýkominn af Landakoti?
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þvílík meðferð á börnum. Maður sem ég þekki var lagður inn á Landakot sem barn og var að berjast við vanlíðanina við að fá ekki að hitta foreldra sína og hann hélt að hann yrði aldrei sóttur.
Og þessar nunnur, arg. Ég þarf að blogga um þær kerlingar við tækifæri.
Kveðja
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.7.2008 kl. 11:10
Sem betur fer hef ég ekki lent í nunnunum. Lenti samt á spítala þegar ég var smá títla 3 eða 4 ára. Ætli það hafi ekki verið Landspítalinn. Ég er ekki viss. Þar var einmitt ekki leyft að foreldrarnir væru þar í tíma og ótíma. Það var hræðilegt.
Ég var látin sofa á ganginum svo hjúkkurnar gætu litið betur eftir mér. Ég fylgdist líka með þeim í vaktherberginu. Sá eitt kvöldið að þær voru með súkkulaði. Langaði ósköp mikið í súkkulaðið. Beið eftir að þær færu út. Klifraði yfir grindina á rúminu, læddi mér inn í vaktherbergið og át allt súkkulaðið. hehehe
Man eftir hvað ég var skömmustuleg þegar þær föttuðu að ég hafði borðað all súkkulaðið... man nú ekki mikið en það var held ég enginn vondur... en mikið saknaði ég múttu.
Lilja Kjerúlf, 14.7.2008 kl. 11:21
Piff..gef ekki mikið fyrir þessar nunnur, vann með nokkrum í stykkishólmi á barnaheimili, vó hvað þær voru hataðar af mörgum. Það eru örugglega margir með ör á sálinni eftir sjúkradvöl í denn, þvílík meðferð á börnum. Ég man að bróðir minn þurfti að leggjast inn vegna heilahimnubólgu þegar hann var 2ja ára, við máttum heimsækja hann einu sinni í viku, það situr enn í mér hvað hann grét sárt að horfa á eftir okkur út eftir heimsóknir.....
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 14.7.2008 kl. 12:21
Þú hefur sko átt alvöru ömmu. Þetta voru ferlegir tímar, mágkona mín ein veiktist mjög illa í fæti sem barn, og til stóð að taka fótinn af, sem betur fer varð ekki af því en það mátti bara heimsækja hana einu sinni í viku, hún mun alltaf bera með sér slæma minningu og hræðslu frá þessum tíma. Ég var svo heppin að liggja á sjúkrahúsinu á Húsavík þau skipti sem ég veiktist sem barn, það var reyndar oft, en þá mátti mamma sofa hjá mér. Svo ég var alltaf örugg og glöð á sjúkrahúsum og það hefur fylgt mér inn í lífið og ég síðan aldrei kviðið sjúkrahúsdvöl. Aldrei hitt nunnur.
Ásdís Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 12:52
Vá ég man eftir þessu því við vorum á sama tíma í botlangauppskurði ég 3ja ára á einhverjum spítala við Tjarnargötu og þú á Landakoti. Þetta eru mínar fyrstu minningar, ég ein á spítala og mamma mátti ekki heimsækja mig nema þessa einu klukkustund. Eg var eina barnið í stofunni en með mér voru 3 eldri konur ein þeirra vorkenndi mér svo mikið að hún tók mig upp í rúm til sín og leyfi mér að sofa hjá sér. Ég var sem betur fer bara í 10 daga en árið 1961 fór maður ekki heim fyrr en búið var að taka saumana.
Linda frænka (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 14:55
Vá hvað amma þín hefur verið æðisleg, sýnir hvað það skiptir miklu máli að eiga góða að.
Ég lenti í því fyrir fimm árum, með rúmlega eins árs gamlan son minn sem var með vírus í meltingarfærum og hélt engu niðri að vera send heim með hann fjórum eða fimm sinnum. Hann var svo loksins lagður inn sem betur fer, því þetta var orðið hættulegt stig hjá honum í þurrki.
Maður verður algerlega bjargarlaus þegar enginn hlustar á mann.
Knús til þín
Elísabet Sigurðardóttir, 14.7.2008 kl. 17:32
Slæmt fólk treður sér víða því miður.Sem betur fe eru ekki allar nunnur slæmar.Ein slæm er einni og mikið
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 21:15
Frábær hún amma þín. Yngsti sonur minn var skorinn upp við botlangabólgu, sem uppgötvaðist ekki að greina fyrr en botlanginn var sprunginn, hann búin að fá lífhimnabólgu og garnalömun. Hann var fárveikur og lág lengi á sjúkrahúsinu. Hann var ekki settur á barnadeildina heldur handlækningu gjörgæslu. Þar voru sko engar nunnur og allir snérust í kring um hann. Þarna var ein hjúkka svo góð við hann að hún þýddi og las fyrir hann í Anders andar blöðum. Ég mátti bara koma á heimsóknartíma.
Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 14.7.2008 kl. 21:35
Hörmulegt að heyra með þetta vesalings barn. Mikið finn ég til með foreldrunum, það hefði verið eitthvað meira sagt um þetta, hefði þetta verið íslenskt barn, mér finnst vera skítalykt af þessu máli, vonandi verður þetta rannsakað.
Ömurlegt að heyra með þessar bölvuðu nunnur. Ég á styttu sem þær gáfu mömmu minni þegar hún var með lömunarveiki og var mamma lengi hjá þeim á spítala vegna lömunnarveikinnar, þær sögðu að mamma hafi verið óþæg og þess vegna gáfu þær henni þessa jesú styttu, ætli hún hafi ekki bara viljað komast heim til sín greyið mamma og nunnurnar örugglega verið ömurlegar við hana alla spítalavistina.
alva (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:16
Hér eru nunnur grýlur - vonandi eru einhverjar ágætar - ég á ágæta minningu um eina barnsfæðingu í Stykkishólmi og það var systir Gaby frá Hollandi sem tók á móti barninu.
En ég trúi þessu sem þú segir, breytingarnar í þessu samhengi hafa verið miklar og örar en samt eru leifar gamla tímans ansi fastar á spítalastofnunum.
Edda Agnarsdóttir, 15.7.2008 kl. 11:16
Þetta er hræðilega sorglegt, ég vona að læknarnir sem þarna komu við sögu fái sína refsingu, svo þeir hugsi sig tvisvar um, áður en þeir endurtaka mistökin.
Þetta síðasta er náttúrulega bráðfyndið, ertu að koma af Landakoti
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.7.2008 kl. 12:58
Það virðist vera mjög algengt að misgreina botnlangabólgu og sprungin botlanga.
Pabbi minn var búin að vera sárkvalinn og ganga með sprungin botnlanga í 10.daga áður en það uppgvötaðist. Samt var hann búin að fara margsinnis upp á sjúkrahús vegna verkja.
Þegar þetta svo loksins uppgvötaðist var hann svo mikið veikur að honum var vart hugað líf og komin með lífhimnubólgu. Þeir neyddust til að skera hann upp með hana og eftir aðgerðina var honum haldið sofandi í öndunarvél í mánuð.
Ég hef heyrt svo mörg svona dæmi, alveg hræðilegt bara
Betsý Árna Kristinsdóttir, 16.7.2008 kl. 17:39
Þú nr. 11. Ætli þetta verði nokkuð rannsakað frekar en öll önnur læknamistök:(
Ég þekki dæmi og heyrt af dæmum að því miður er það ansi langsótt eða bara engan veginn hægt að koma ábyrgð á viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns sem er hámenntaður vegna læknamistaka. Þeir eru heilagir og þess vegna eiga þeir að standa í stað í launum þangað til að þeir axla ábyrgð!
Arndís (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 01:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.