Það sem börn mega þola

Börn hafa verið mér hugleikin að undanförnu. Líklega vegna máls háskólakennarans og fóstuföðurins í Kópavogi. En börn mega þola svo mikið annað en kynferðisofbeldi. Alveg ótrúlegt hvað þessi þjóðfélagshópur má þola og þá af hendi þeirra sem ættu að vernda þá, foreldranna. Þegar ég var í lögreglunni fór ég oft í útköll vegna heimilisófriðar. Það var aldrei skemmtilegt en tvö atvik hafa setið í mér öll þessi ár. Þar sem meira en tuttugu ár eru liðin frá þessum atburðum og engin nöfn nefnd held ég að ég sé ekki að rjúfa neinn trúnað þó að ég segi frá þessu hér til að sýna hvað börn mega þola.

Eitt sinn vorum við kölluð í glæsilegt einbýlishús. Foreldrarnir voru báðir dauðadrukknir og æstir, létu hendur skipta og grýttu hlutum í hvort annað. Við gátum ekki annað en reynt að róa fólkið, þetta var ekki þannig mál að það dygði að taka bara annað foreldrið út af heimilinu. Þegar við vorum búin að vera þarna dágóða stund og fólkið farið að róast, fann ég að það var kippt í buxnaskálmina mína. Ég leit niður og þá stóð þarna lítil gullfalleg stúlka, svona 3-4 ára. Ég beygði mig niður að henni og hún tók um hálsinn á mér og hvíslaði: Ekki fara. Ég fékk kökk í hálsinn en hafði engin úrræði. Það var enginn staður til að fara með börn á við svona aðstæður. Þarna stóðum við þrjú, stór og svartklædd, og ég hefði talið ógnvekjandi í augum barns. En nei, við vorum það sem hún setti traust sitt á en við gátum ekki orðið við þessu neyðarkalli hennar. Höfðum engin úrræði. Mér leið eins og svikara og fanti þegar ég gekk út úr húsinu og hún horfði stórum augum á eftir okkur.

Hitt skiptið var í blokkaríbúð. Þegar við komum þar inn sáum við dauðadrukkna konu og ennþá fyllri karl, strák svona 17-18 ára og um það bil 12 ára stelpu. Við héldum að við ættum að henda karlinum út en svo var aldeilis ekki. Systkinin höfðu hreyft mótmælum þegar móðir þeirra kom heim með þennan dauðadrukkna og ókunnuga karl og nú vildi konan að við fjarlægðum börnin hennar af heimilinu svo hún gæti setið eins að þessum ömurlega karli sem hún hafði kynnst í Glæsibæ þetta sama kvöld. Við ætluðum ekki að trúa okkar eigin eyrum. Út með hann, gargaði kerlingin og átti við son sinn. Dóttirin tilkynnti að hún færi líka ef bróðir hennar færi. Já, farðu bara, var svarið sem hún fékk. Aftur vorum við úrræðalaus. Kerlingin var húsráðandi og réð hverjir væru á hennar heimili. Við vorum þungstíg þegar við gengum niður með börnunum. Við spurðum þau hvort þau gætu ekki farið eitthvert og fengið að gista. Ekki gátum við sett þau í fangageymslur. Við björgum okkur, erum vön því, sagði strákurinn samanbitinn. Það var erfitt að keyra frá blokkinni þar sem systkinin stóðu svo umkomulaus. Þarna tók móðir fullan ókunnugan karl fram yfir börnin sín. Karl sem var meira að segja svo fullur að hann hefur varla verið til nokkurs gagns. En börnin sögðu okkur að þetta væri ekki sá fyrsti og ekki sá annar sem hún drægi heim. Þessi börn hafa eflaust flutt að heiman um leið og þau gátu.

Ég veit ekki hvort lögreglan hafi einhver úrræði í svona málum í dag. En ég vona það svo sannarlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Barnavernd á Íslandi er lömuð, þó hlutirnir hafi eitthvað skánað.

Veit þetta í gegnum mína vinnu í mörg ár.

Ég má ekki hugsa um þessi mál þá... látum það liggja á milli hluta.

Takk fyrir að vekja athygli á málinu.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.7.2008 kl. 13:17

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Jesús Pétur!! Ég á ekki orð!!!!

Hrönn Sigurðardóttir, 28.7.2008 kl. 13:33

3 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Öll mál þar sem börn koma við sögu eru send til barnaverndarnefndar, en eins og kom fram á blogginu mínu um daginn hefur málum stórfjölgað en ekki starfsmönnum sem eiga að sinna þeim. Þess vegna er aðeins um helmingur slíkra mála rannsakaður. Engin aðstaða er til að fjarlægja börn af heimilum sínum um helgar eða var ekki allavega. Þannig að mál sem kemur upp á föstudagskvöldi kemur ekki til kasta barnaverndarnefndar fyrr en í næstu viku og lendir þá væntanlega í bunka af óafgreiddum málum.

Helga Magnúsdóttir, 28.7.2008 kl. 14:15

4 identicon

Ég þekki svipuð dæmi.Nýleg og barnavernd var full kunnugt um þau.Lögreglu ber skylda til að hafa samband við barnavendaryfirvöld STRAX og ÞEIM BER AÐ KOMA ,STRAX

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 10:39

5 Smámynd: Ragnheiður

ó mig auma..hörmulegar lýsingar.

Börn hafa mikil áhrif á lögreglumenn. Las minningabók eins lögreglumanns einu sinni og eftirminnilegasta atvikið sneri einmitt að börnum.

Veistu, ég gæti ekki verið í lögreglunni, bara alls ekki 

Ragnheiður , 29.7.2008 kl. 10:51

6 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Þetta er hræðilegt og því miður alltof algengt....það er hárrétt sem þú segir, málum hefur fjölgað en ekki starfsfólki sem á að sinna þeim....aumingja börnin....

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 29.7.2008 kl. 12:44

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Elsku stelpur mínar þetta hefur ekkert batnað, versnar ef eitthvað er, en lögreglan getur og á að kalla til barnaverndarnefd ef um börn undir lögaldri er að ræða og þau í hættu vegna ástandsins á heimilinu.
Ég var einu sinni í barnaverndarnefnd í 8 ár svo maður hefur aðeins komið við það að sinna þessum málum, og ég veit að það er oft á tíðum afar erfitt að dæma hvað maður eigi að gera, en börnin eiga ætíð að njóta vafans.
Takk fyrir að rita um þetta Helga mín.
Varstu þú einhverntíman í tollinum upp í flugstöð?
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.7.2008 kl. 13:01

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Nei, Milla mín, ég var aldrei í tollinum uppi í flugstöð. Var bara í almennu lögreglunni í Reykjavík.

Helga Magnúsdóttir, 29.7.2008 kl. 13:38

9 identicon

úff, ég var líka í löggunni, einu sinni fórum við í útkall vegna heimiliserja á jóladagsmorgun og íbúðimn var algerlega í rúst, jólatréð í henglum og mamman og pabbinn að slást svona rosalega.  Þarna voru tvö ung börn í sjokki auðvitað.  Sem betur fer fór ég ekki í mörg svona útöll. 

En ég man eftir sögu sem varðstjórinn minn sagði mér, hann kom í hús fyrir löngu síðan um jól, þar var mikil óregla, börnin voru að naga hráar rjúpur og hræðileg aðkoma víst að öllu leiti.  Þau voru fjarlægð af heimilinu.  

Ég held að svona vanræksla sé ekki mikið í dag en meira að ofbeldi á börnum, svona andlegu ofbeldi, hótunum og afskiptaleysi og þess háttar

alva (IP-tala skráð) 29.7.2008 kl. 13:41

10 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sá hjá Jónu að þú varst að tala um verðið á klippingu, litun ofl.  ekki ertu að meina í alvöru að þú hafir borgað 35.000?  talk to me woman

Ásdís Sigurðardóttir, 29.7.2008 kl. 13:48

11 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Það vantar bara meira fjármagn til að bæta þetta og forgangsraða betur.  Það væri vel hægt að fyrirbyggja svo margt svona.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 29.7.2008 kl. 14:18

12 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég sit hér með vota vanga eftir þennan lestur. Þetta er í stíl við margar sögur sem vinkona mín, fyrrverandi lögreglukona, sagði mér fyrir margt löngu. Úrræðaleysið er skelfilegt. Það þyrfti að vera til athvarf - helst mörg - fyrir börn í slíkum aðstæðum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.7.2008 kl. 15:52

13 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Stelpur mínar þetta er ótæmandi umræða, en þörf.
Það er rétt að lögreglan á að tilkynna barnaverndarnefnd, hún á að koma, hún á að bregðast við strax, en stundum er það ekki hægt vegna svo margþættra aðstæðna, verst er þegar elsku börnin segja ekki satt, þau vilja ekki missa mömmu eða pabba, verja þau út í eitt.
Ég hef lent í því, en samt horfðu þau á eftir okkur með angist í augum, en við gátum ekkert gert í það skiptið.
Ég hef svo oft bloggað um slík mál og beðið fólk um að vera meðvituð um hvað er að gerast í kringum það, og nota þetta tækifæri hjá henni Helgu líka til þess.
Það er skylda okkar.
Kveðja til ykkar allra.
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 29.7.2008 kl. 16:11

14 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Vá, þessi færsla kom út hjá mér tárunum. Mikið held ég að það sé erfitt að vera lögga í mörgum tilfellum, sérstaklega þegar kemur að svona málum.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 29.7.2008 kl. 17:37

15 Smámynd: Hulla Dan

Þetta er skelfilegt  
Maður verður bara orðlaus og vonar það innilega að þessi mál fari batnandi. Þetta á ekki að þekkjast  á ekki að vera til.

 til þín.

Hulla Dan, 29.7.2008 kl. 22:28

16 Smámynd: Heiða  Þórðar

Knús á þig darling

Heiða Þórðar, 29.7.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband