3.9.2008 | 17:51
Ertu spænsk eða fædd hér á landi?
Seinasta kvöldið okkar í Barcelona áður en við héldum í siglinguna gerðist nokkuð merkilegt, að mér fannst að minnsta kosti. Við höfðum borðað síðbúinn kvöldverð á útiveitingahúsi á Römblunni og eftir matinn fóru feðgarnir á flakk en ég sat eftir og gæddi mér á hvítvíni og ólífum.
Þar sem ég sat þarna í rólegheitum kom til mín útigangskona sem ég hafði séð nokkrum sinnum áður og bað mig um sígarettu sem var vitanlega ekkert mál. Ég var í ermalausum kjól svo moskítóbitin mín, sem voru bæði mörg og stór, voru mjög áberandi. Hún jesúsaði sig í bak og fyrir og benti mér á að fara til læknis og sagði mér að hætta þessu hvítvínssulli og drekka frekar bjór. Maður pissaði nefnilega svo mikið af bjór og losnaði fyrr við moskítóeitrið úr líkamanum. Þá vitið þið það. Við fórum svo að spjalla saman og hún sagði mér að hún hefði búið á götum Barcelona í mörg ár og það gæti oft verið erfitt. Svo spurði hún mig að nafni og þegar ég sagðist heita Helga hófst hasarinn.
Hún tókst öll á loft og benti á sjálfa sig og sagði: "Me too, me too. Me Helga too." Ég góndi á hana, fannst alveg ótrúlegt að rekast á spænska útigangskonu sem bæri nafnið Helga. Hún hefur séð á mér vantrúarsvipinn því hún fór ofan í tuðruna sína og dró upp skilríki. Og þar stóð ekki bara Helga, heldur Helga Margrét. Getur það orðið íslenskara?
Feðgarnir komu rétt í þessu og sagði ég þeim frá þessari merkilegu uppgötvun. Við buðum Helgu Margréti sæti og ætluðum að gefa henni bjór og rekja úr henni garnirnar. En nei, takk. Þjónninn, sem áður hafði ekki verið neitt nema flírubrosið og hneigingarnar, kom aðvífandi, henti reikningnum í manninn minn og rak okkur öll burt. Helga Margrét var greinilega vön svona löguðu því hún skaust burt eins og hrætt dýr. Ég hljóp á eftir henni, náði í skottið á henni og gaf henni peninga og sígarettur. Hún hljóp upp um hálsinn á mér og faðmaði mig. Ég faðmaði hana á móti og þetta var eins og að halda á fuglsunga, svo mögur og lítil var hún.
Svo hvarf þessi nafna mín, og að öllum líkindum landa að einhverju leyti, út í myrkrið og mannfjöldann og ég sá hana ekki meir. En mikið óskaplega langar mig til að vita meira um þessa konu og hennar sögu.
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alveg magnað að hitta Helgu í Barcelona Ég yrði ekki hissa ef ég hitti nöfnur mínar um allan heim
M, 3.9.2008 kl. 23:40
þú ert perla!!
Einu sinni var ég rekin út af veitingahúsi í þýskalandi. fyrir að gafa betlurum peninga, það var kúrdískt barn og mamman beið þarna álengdar eftir því að sjá hvað barnið fengi nú frá mér......hann kom nokkrum sinnum til mín blessað barnið...þangað til að þjóninum var nóg boðið og vísaði mér burt...
alva (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 23:46
já þú ert með hjarta úr gulli en frábært að hitta nöfnu sína í Barcelona,
Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 4.9.2008 kl. 08:34
Frábær lesning og gerir mig líka forvitna um sögu þessara konu. Það er sorglegt að horfa upp á fólk sem býr við svona slæmar aðstæður. En því miður og að fólki sé vísað burt þegar það vill ljá þessu fólki eyru. Á ekki orð.....
Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 4.9.2008 kl. 14:41
Vá ég er líka forvitin. Elsku kellan. Það eiga svo margir bágt. Þarna náðir þú þér í gott karma vúman.
Jenný Anna Baldursdóttir, 4.9.2008 kl. 15:37
Frábært - afkomandi einhverra íslendinga sem fóru með Tyrkja Guddu forðum til Alsír! Þetta er yndisleg frásögn.
Edda Agnarsdóttir, 4.9.2008 kl. 17:43
Helga mín, mikið ertu með stórt hjarta og það úr skíragulli, hun Helga hlítur að vera af íslenskum ættum, verst að þú gast ekki talað meira við hana
Kristín Gunnarsdóttir, 5.9.2008 kl. 09:15
Ég er hrærð eftir þennan lestur, mikið rosalega ertu góð kona.
Elísabet Sigurðardóttir, 5.9.2008 kl. 10:42
En forvitnilegt. Thú verdur ad fara aftur til Barcelona og finna út úr thessu. Vid bídum spennt eftir framhaldinu....
Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 5.9.2008 kl. 14:34
Frábær lesning og falleg
Heiða Þórðar, 5.9.2008 kl. 22:19
velkomin heim
Guðrún Jóhannesdóttir, 7.9.2008 kl. 13:37
Huld S. Ringsted, 7.9.2008 kl. 19:52
Ótrúlega flott saga. Og hún hlýtur bara að vera íslenskrar ættar. En ég var að klukka þig Helga mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.9.2008 kl. 13:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.