25.9.2008 | 22:45
Elsku mamma mín
Hún Kristjana Skagfjörð mamma mín hefði orðið níræð í dag hefði hún lifað Það eru 30 ár síðan hún dó og ég sakna hennar enn. Stundum horfi ég á Stjána og Úlfar og skil ekkert í því hvernig ég get átt eiginmann og son sem hún sá aldrei og þeir misstu alveg af því að kynnast henni.
Þegar ég var lítil öfundaði ég eldri systkini mín, en ég er langyngst af sex. Þau fengu að vaka lengur en ég og mér fannst að allt sem hefði merkilegt gerst í fjölskyldunni hefði gerst áður en ég fæddist. En svo sneri ég á þau. Þegar ég var átta ára voru þau öll flutt að heiman og farin til útlanda í nám og ég hafði mömmu alveg út af fyrir mig því pabbi var alltaf á sjónum. Mamma var heilsulaus og oft rúmliggjandi. Við kipptum okkur nú ekki mikið upp við það. Ég gerðist bara rúmliggjandi líka og við lágum í rúminu og spiluðum eða lásum, annaðhvort hvor í sínu lagi eða fyrir hvor aðra, eða bara spjölluðum saman. Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi. Þá hafði ég tekið bók á bókasafninu sem hét Nýi drengurinn. Þegar ég byrjaði að lesa hana var hún svo fyndin að ég varð að láta mömmu njóta hennar líka. Ég las fyrir hana alla bókina með tilheyrandi hlátursrokum. Ekki man ég kvað klukkan var þegar við fórum loks að sofa máttlausar af hlátri en það hefði ekki talist kristlegur tími á mörgum heimilum.
Svo svaf ég vitanlega í pabba rúmi þegar hann var á sjónum. Ég man eftir að hafa rumskað við djúpu röddina hans þegar hann kom heim á nóttinni: Er nú köttur í bóli bjarnar? Svo var ég hafin á loft og borin inn í mitt rúm. Þetta eru alveg ótrúlega góðar minningar. Þó svo að ég hafi verið allt annað en heilsulaus tók ég þennan sið upp með mínum strákum. Við fórum snemma upp í þegar pabbi þeirra var á sjónum og spiluðum og lásum. Eitt annað sem við mamma áttum til að gera, en það var að læða okkur fram í eldhús um miðjar nætur og hita okkur kakó og fá okkur brauð með rabarbarasultu með. Nammi, það er ekki nema von að maður sé bústinn í dag.
Þegar eldri systkini mín voru að alast upp var pabbi að ströggla við að koma útgerðinni á laggirnar og voru því til minni peningar þá. Þegar ég var að komast á löppina var aftur á móti allt komið á lygnan sjó og fjárráðin orðin mun meiri. Systkini mín halda því fram að ég hafi verið ofdekraðasta kvikindi norðan Alpafjalla. Svo var annað, þar sem þau eru svo miklu eldri en ég var hugtakið unglingur ekki til, það var hreinlega ekki búið að finna það upp.
En ég varð sko unglingur. Ég dauðskammast mín þegar ég hugsa til baka og hugsa um hvað ég var ógeðslega frek og tillitslaus við hana mömmu á þessum árum. Aumingja mamma var að reyna að setja mér einhverjar reglur, en ég vitlaus úr frekju og ofdekruð, sérstaklega af pabba og Bolla bróður, hlustaði ekki á hana frekar en kötturinn. Og ekki bætti úr skák að þegar pabbi kom í land lét hann allt eftir mér og jós í mig öllum peningum sem mér datt í hug að biðja um. Ég held að honum hafi bara þótt svo gaman að geta loksins dekrað við eitthvað af börnunum og svo held ég að hann hafi einvhern veginn skilið þennan tíðaranda og skilið að maður þurfti að fylgja straumnum til að vera gjaldgengur.
Þetta unglingastand tók sem betur enda og aftur urðum við mamma bestu vinkonur í heimi. Þegar ég fór út á djammið vakti hún alltaf eftir mér og ég sagði henni hvernig hefði verið og svona. Ef hún var sofnuð þegar ég kom heim móðgaðist ég hreinlega, var manneskjunni bara alveg sama um hvað á daga mína hefði drifið? Svo fékk hún bara skýrsluna daginn eftir.
Við tölum stundum um þetta systurnar. Þau voru svo mörg í einni hrúgu en þar sem ég var minnst var ég sú eina sem fékk að hafa hana alveg út af fyrir mig. Það voru yndisleg ár og ég er afar þakklát fyrir þau.
Til hamingju með daginn, mamma mín, hvar sem þú ert.
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 58898
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ofsalega eru þetta fallegar minningar sem þú hefur. Ég varð að klemma augun, það komu næstum tár !
Til hamingju með afmælið Helgumamma, hvar sem þú ert og þakka þér fyrir hana Helgu.
Ragnheiður , 25.9.2008 kl. 22:50
Yndisleg færsla og yndislegar minningar......ógeðslega fyndið þetta " er manneskjunni bara sama um mig " hahaha þú segir svo skemmtilega frá, takk fyrir mig.
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 25.9.2008 kl. 23:05
hehehehe,,, góð addna frekjan þín , ég er örverpi líka á átti mínar stundir líkt og þú í frekjunni.
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 23:45
Ég var víst líka þessi "ofdekraða" að mati eldri systkina minna .
Ljúfar minningar sem þú átt og skemmtileg frásögn
Sigrún Jónsdóttir, 26.9.2008 kl. 00:06
Fallegar minningar
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 00:20
Yndisleg saga. Ég held einmitt að allt þetta "litla" sem við gerum saman, eins og svona kúrulestrarstundir, ylji okkur með góðum minningum seinna.
Sigrún Þorbjörnsdóttir, 26.9.2008 kl. 07:46
Yndislegar minningar sem þú átt og svo er þetta svo fallegur vitnisburður um foreldra þína.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.9.2008 kl. 08:00
Þú hefur verið heppin með mömmu! Til hamingju með hana og daginn
Hrönn Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 08:41
Vá, æðisleg færsla hjá þér Helga. Ég var komin uppí rúm með ykkur og sötrandi kakóið ykkar Þú gætir skrifað bók, ert með skemmtilega og fallega frásögn
M, 26.9.2008 kl. 11:06
En hvað þú hefur átt yndislega æsku, við erum 10 og það var ekkert svona í minni barnæsku
Kristín Gunnarsdóttir, 26.9.2008 kl. 13:50
Falleg færsla og takk fyri að deila með okkur. Held þú þolir alveg smá djók með nafnið hennar mömmu þinnar. Fyrir mörgum árum síðan var keypt grafa til Rafveitu Húsavíkur, maðurinn minn heitinn var að vinna á henni, sú grafa hét Kristjana Skagfjörð, Kristjana var eftir eiginkonu yfirmanns rafveitunnar og Skagfjörð því hún var keypt í Skagafirði. Hafðu það gott elskuleg og góða helgi
Ásdís Sigurðardóttir, 26.9.2008 kl. 17:18
Helga mín þetta eru bara yndislegar minningar og bara eins og það á að vera,
til hamingju með að hafa átt svona góða mömmu, ég man líka eftir heimabakaða brauðinu hennar mömmu með Rabbarasultunni, það þótti nú ekki dónalegt að koma heim úr skólanum og fá brauð og heitt kakó.
Knús knús
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 26.9.2008 kl. 19:34
Yndislegar og fallegar minningar sem þú átt um foreldra þína. Innilega til hamingju með mömmu þína mín kæra
Helga skjol, 27.9.2008 kl. 07:57
Ég er viss um að amma er á góðum stað..(snuff) Síðasta árið sem hún lifði kom ég oft á sunnudögum, og við töluðum saman og borðuðum kúmenbrauð í leiðinni. Ég er þakklát fyirr að hafa náð að kynnast henni betur á þeim tíma. Björnehug til ykkar beggja.
ásta (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 23:47
Dásemd!
Edda Agnarsdóttir, 28.9.2008 kl. 10:04
Ásdís: Mér finnst þetta frábært með gröfuna. Hún mamma hefði sko hlegið að þessu.
Ásta frænka: Já, við eigum öll góðar minningar um hana mömmu. Hún var best.
Helga Magnúsdóttir, 28.9.2008 kl. 14:54
Síðbúnar afmæliskveðjur til mömmu .þinnar, og ætli hún hafi nú farið langt ? Mér finnst að hún sé nú þarna hjá þér einhversstaðar, og ég er viss um að þú hefur orðið vör við kærleika hennar stundum, þegar þú gefur þér tíma.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2008 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.