Dúkkan sem ÉG átti að fá

Þegar ég var krakki sigldi pabbi með aflann til Bretlands svona tvisvar þrisvar á ári. Það var alveg rosalega gaman þegar hann kom heim því hann gat keypt svo margt í útlöndum sem fékkst ekki hér þá, til dæmis sælgæti og niðursoðna ávexti. Ég hef líklega verið 7 ára þegar pabbi fór í eina siglinguna og hafði ég tekið af honum loforð um að kaupa handa mér stóra og flotta dúkku.

Ég hlakkaði mikið til þess að pabbi kæmi heim og loks rann stóri dagurinn upp. Við Bolli bróðir fórum niður á bryggju til að sækja pabba og dúkkuna. Þegar ég kom um borð tók pabbi mig á handlegginn og fór með mig upp í skipstjóraklefa. Þegar þangað kom sagði hann mér að einn af skipverjum hans hefði farið á fyllirí og lent í slagsmálum og væri nú á spítala í Aberdeen. Mér fannst mér svo sem ekkert koma þetta við. En þá bætti pabbi við: "Hann á stelpu sem er jafngömul þér og hún er komin til að sækja pabba sinn og það er enginn pabbi. Við skulum þess vegna láta hana hafa dúkkuna þína og sælgæti og segjum að það sé frá pabba hennar. Ég lofa því að bæta þér þetta upp, Helga mín." Ekki var ég hrifin af þessu en samþykkti samt. Ég vorkenndi nefnilega stelpunni að hafa ekki fengið pabba sinn.

Þegar við komum út á dekk sá ég stelpuna með dúkkuna. Þetta var flottasta dúkka sem ég hafði á ævi minni séð. Ég varð gjörsamlega miður mín. Villi kokkur sá að ég var eitthvað óhress og tók mig í fangið. Þá fór ég að hágrenja. Þegar ég var búin að orga úr mér mesta ofstopann fór ég að hjálpa til við að bera dót upp í bíl og við fórum heim. Dúkkulaus.

Daginn eftir fór pabbi í bæinn og ég út að leika mér. Þegar ég kom heim var pabbi líka kominn heim og sat inni í eldhúsi. "Helga mín, farðu inn til þín og búðu um rúmið þitt," sagði pabbi. Mig rak í rogastans. Ég hafði aldrei á ævinni búið um rúmið mitt og síðan hvenær fór hann pabbi að skipta sér af heimilisverkunum? Ég var svo hissa að ég fór bara þegjandi og hljóðalaust inn til mín að búa um. Þegar ég kom inn sá ég að stóra sængin hans pabba var í rúminu en ekki litla sængin mín. Ég kippti sænginni af rúminu og þá kom í ljós splunkunýtt rautt DBS-hjól. Ég sleppti mér næstum af hamingju, þetta var flottasta hjól sem ég hafði séð. Ég hljóp fram í eldhús og kyssti og faðmaði pabba. Svo fór Bolli bróðir með mig út og kenndi mér að hjóla. Pabbi hafði sko sagt satt, ég fékk dúkkuna bætta. Svo má að lokum geta þess að ég fékk frábæra dúkku nokkrum mánuðum síðar þegar pabbi fór í næstu siglingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Það hlýtur að hafa verið gaman að fá pabba heim af sjónum. Ég var svo heppin að hafa minn alltaf heima.  Falleg saga.

Ásdís Sigurðardóttir, 28.9.2008 kl. 18:18

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þú ert svo góður sögumaður. Alltaf gaman að kíkja í heimsókn á bloggið þitt!

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:26

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Dúkkan hefur aldeilis gert sitt gagn!

Hrönn Sigurðardóttir, 28.9.2008 kl. 18:35

4 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Auðvitað hefur verið sárt að missa af dúkkunni. En ég held það sé nú alltaf betra að fá pabba heim. Skemmtilega saga hjá þér.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 28.9.2008 kl. 18:40

5 Smámynd: Ragnheiður

En mikið hefur pabbi þinn verið hjartahlýr og góður að gera þetta fyrir hina telpuna. Kær kveðja, það er gaman að lesa hjá þér, þú segir svo skemmtilega frá

Ragnheiður , 28.9.2008 kl. 18:43

6 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Yndislegan pabba hefur þú átt Helga mín en segðu mér hvaða ár ertu að tala um þú hefur svo svipaðar minningar og ég frá þeim árum er ekkert fékkst í búðunum.

Takk fyrir að rifja upp þín minningarbrot.
Knús knús Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.9.2008 kl. 19:01

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Falleg saga um góðan mann greinilega.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.9.2008 kl. 19:05

8 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég var sjö ára árið 1961.

Helga Magnúsdóttir, 28.9.2008 kl. 19:11

9 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég er fædd 1942 þannig að ég man eftir miklu meiri vöntun en þú, ég fæði mitt fyrsta barn 1961. þú ert sem sagt fædd 1954 og ert þar af leiðandi 12 árum yngri en ég barnið mitt
Knús Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.9.2008 kl. 19:33

10 Smámynd: M

M, 28.9.2008 kl. 23:19

11 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Pabbi þinn hefur verið ljúfur maður með hjartað á réttum stað

Sigrún Jónsdóttir, 29.9.2008 kl. 00:32

12 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Æi, yndisleg saga, mikið hefur þú átt yndislega foreldra, fallega hugsað af pabba þínum

Kristín Gunnarsdóttir, 29.9.2008 kl. 09:33

13 Smámynd: Hulla Dan

Elska að lesa sögurnar þínar. Sagan á undan er líka mjög falleg og þú segir dásamlega frá.

Knús á þig inn í vonandi góðan dag.

Hulla Dan, 29.9.2008 kl. 09:58

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er yndisleg frásögn Helga mín, ég sit hér með tárin í augunum.  Mikið er pabbi þinn yndisleg persóna, að höndla málið á þennan hátt.  Og þarna sannast að þegar maður gerir góðverk, þá kemur það tífalt til baka.  Knús á þig elsku Helga mín og takk fyrir þessa fallegu minningu. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2008 kl. 11:20

15 Smámynd: Helga skjol

Æji bara yndislegt

Helga skjol, 29.9.2008 kl. 17:22

16 identicon

Góð saga like always, pabbi þinn hafði hjartað greinilega á réttum stað.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 17:32

17 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Falleg hugsun hjá pabba þínum og ég ímynda mér að þessi atburður hafi mótað þig á vissan hátt. Kennt þér sitthvað um fórnfýsi og gjafmildi. En hjólið hefur ekki verið ónýtt að fá.

Amma og afi áttu vin sem var á togara. Vegna hans voru oft til Mars súkkulaðistykki og annað álíka góðgæti þegar ég var krakki, sem ekki fékkst á Íslandi þá. Þá fékk maður sko ekki að gúffa í sig heilu marsstykki heldur var skorin ''sneið'' af því og manni gefin.

Jóna Á. Gísladóttir, 30.9.2008 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband