Einelti af verstu sort

Fyrstu þrjú árin mín í barnaskóla voru frábær. Ég var í besta bekk, sem þótti þá heilmikið mál, og við höfðum frábæran kennara, hana Huldu Friðriksdóttur. Mér gekk vel í skólanum, samdi vel við skólafélagana og var bara yfirhöfuð glatt og hamingjusamt barn. Þegar ég byrjaði í 10 ára bekk var draumurinn búinn. Skólinn varð að hreinustu martröð.

Hulda hætti og við bekknum tók miðaldra karlmaður, Kristján Jónsson, feitur kall með yfirgreiddan skalla. Fljótlega kom í ljós að bekknum var skipt í þrjá hluta. Fyrst voru það uppáhöldin, þrír krakkar sem var endalaust hrósað og hampað og komust upp með allt. Svo var það hinn þöguli meirihluti sem var bara komið afskaplega eðlilega fram við. Og síðan voru það við Baldur.  Það var ekki liðið langt af vetrinum þegar það varð lýðum ljóst að Kristján hataði okkur Baldur. Hann talaði aldrei við okkur. Hann öskraði á okkur. Þegar hann gekk framhjá okkur annaðhvort sló hann til okkar eða hristi okkur. Öll heimaverkefni sem við skiluðum voru ómöguleg og við þurftum endalaust að gera allt upp á nýtt. Til dæmis lét hann mig skrifa heila þykka stílabók af stóru N. Allir hinir krakkarnir voru löngu búnir með stafrófið í skrift á meðan ég var enn að skrifa N. Enn þann dag í dag fer um mig ef ég þarf að skrifa stórt N. Svo lét hann okkur sitja reglulega eftir þótt við hefðum ekkert af okkur. Við gerðum aldrei neitt af okkur því við vorum dauðhrædd við hann og eins og mýs undir fjalaketti og létum ekki á okkur kræla.

Einu sinni lét hann Baldur sitja uppi við töflu og gekk reglulega að honum, reif í hárið á honum og sló höfðinu á honum við vegginn. Allur bekkurinn sat stjarfur og enginn þorði að segja múkk. Við vorum öll miður okkar út af þessari meðferð. Svo eitt sinn þegar við vorum í röð fyrir framan stofuna okkar kom hann og reif í mig, dró mig að dyrunum og henti mér inn í kennslustofuna. Hann reif í mig og hristi mig þannig að það glömruðu í mér tennurnar. Hann var eldrauður í framan, trylltur af bræði og öskraði og frussaði á mig. Ég var lömuð af hræðslu og ætlaði aldrei að skilja hvað hann væri að fara. Loks tókst mér að skilja að ég hafði gengið of hægt niður tröppurnar á leiðinni út í frímínútur. Þetta er bara smásýnishorn af framkomu þessa "kennara".

Ég sagði ekkert heima. Mamma tók samt eftir því að ég var mikið breytt og reyndi að fá það upp úr mér hvað væri að. Loks sagði ég henni alla söguna, hágrátandi í fanginu á henni. Þegar ég var búin að segja frá leit ég á mömmu. Ég hafði aldrei séð hana svona fyrr. Hún var snjóhvít í framan og munnurinn á henni var eins og strik. "Það verður eitthvað gert í þessu, Helga mín, það máttu bóka." Svo fór hún í símann og pantaði viðtal við skólastjórann sem hún fékk morguninn eftir.

Daginn eftir kom skólastjórinn og bað Kristján um að tala við sig. Ég vissi að mamma væri inni hjá skólastjóranum og fékk dúndrandi hjartslátt. Kristján var lengi í burtu og kom brjálaður til baka. Hann reyndi að stilla sig en skalf og nötraði og það bogaði af honum svitinn. Þegar ég kom heim sagði mamma mér að þegar skólastjórinn krafði Kristján skýringa á þessu framferði hefði hann sagt að ég setti upp svo mikinn þrjóskusvip þegar ég væri skömmuð og færi aldrei að gráta. Hann þoldi það sem sagt ekki að honum tókst ekki að græta mig.

Í dágóðan tíma eftir þetta var ég ekki til. Hann lét eins og hann sæi mig ekki og tók ekki við heimaverkefnunum mínum. Mér var slétt sama, bara að hann léti mig í friði. En aumingja Baldur fékk vitanlega tvöfalda útreið þegar ég var sloppin. En Kristján gat vitanlega ekki stillt sig lengi. Einn daginn sleppti hann sér og lét okkur Baldur sitja eftir að ástæðulausu eins og venjulega. Fór fram og læsti okkur inni. Þá var ég búin að fá nóg, ég fór út um gluggann og heim. Það var aldrei minnst á þetta strok mitt og áfram var ég ekki til.

Hvað var svo gert í þessu máli? Þegar við byrjuðum í 11 ára bekk var búið að taka mig úr besta bekk og færa mig niður og Kristján hélt áfram að kenna MÍNUM bekk! Mér var sem sé refsað fyrir þessa hegðun Kristjáns. Ég hef í rauninni aldrei fyrirgefið honum Helga Þorlákssyni skólastjóra þetta.

Einum tíu árum síðar var ég stödd inni á kvennaklósetti í Klúbbnum sáluga. Þá kom til mín stelpa sem spurði hvort ég héti ekki Helga. Þegar ég sagði svo vera sagði hún mér að hún væri systir hans Baldurs og sagði að hann væri enn að tala um það hvað hann hefði dáðst að mér þegar ég fór út um gluggann og sæi alltaf eftir að hafa ekki farið með mér. Ég bað kærlega að heilsa Baldri en ég hef ekki séð hann síðan í Vogaskóla í gamla daga. Ég vona að hann hafi jafnað sig á þessari meðferð eins og ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þetta hefur verið hrikalegur tími! Vona svo sannarlega að Baldur hafi líka jafnað sig.

Hrönn Sigurðardóttir, 29.9.2008 kl. 20:47

2 identicon

 ég verð svo vond þegar ég les um svona.En þú ert dugleg.Vona að Baldur hafi náð sér eins vel og þú.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 21:13

3 Smámynd: Ragnheiður

Hm..systir var í þessum skóla, ég vil ekki segja meira um það hérna en ég ætla að senda henni slóðina á þetta hjá þér.

Knús Helga mín

Þetta hefur verið hræðilegt.

Ragnheiður , 29.9.2008 kl. 21:20

4 identicon

Ég var með einn svona kennara sem var gerður svo að skólastjóra nýs barnaskóla í Garðabænum á sínum tíma. Ég man hvað við allir gömlu nemendur hans vorum hissa og hneyksluð á þessari stöðuveitingu til hans, en pólitíkin er stundum verulega ógeðfelld.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 29.9.2008 kl. 21:21

5 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Þessum mannaumingja hefur liðið eitthvað illa og látið það bitna á ykkur. Alveg finnst mér það dæmigert að þú hafir verið látin víkja  En þú hefur verið dugleg og jafnað þig á þessu. Vona líka að Baldur hafi jafnað sig.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 29.9.2008 kl. 23:09

6 Smámynd: Dísaskvísa

Úfff!! Hræðilegt

Gott að þú komst yfir þetta og ég vona að Baldri hafi tekist það líka

Dísaskvísa, 29.9.2008 kl. 23:19

7 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Ég get orðið brjáluð af reiði þegar ég heyri svona frásagnir, þvílík andskotans mannvonska, svona menn á að fangelsa ef  það næst í þá, þetta er ekkert annað en gróft andlegt ofbeldi og því miður þá er þín frásögn ekki einsdæmi. Þú virðist hafa borið gæfu til að vinna úr þessu sem betur fer þó einhver ör hljóti að vera á sálinni....þú ert mögnuð kona

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 30.9.2008 kl. 00:35

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Þetta hefur verið hræðilegt.  Hvað varð um Baldur? veistu það?

Sigrún Jónsdóttir, 30.9.2008 kl. 00:51

9 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

takk fyrir að segja okkur frá þessu og þetta er skelfilegt einelti sem enginn ætti að þurfa að upplifa.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 30.9.2008 kl. 08:34

10 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Djöfulsins mannvonska og viðbjóður.  Að þetta skuli hafa viðgengist.

Ég fór að grenja.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.9.2008 kl. 11:45

11 identicon

oj, hvað þetta hefur verið mikill viðbjóður þessi mannfjandi, þeir eru til nokkrir svona og fá því miður að komast upp með ýmislegt!!

Gott að þú hefur náð þér af þessu eins og hægt er mín kæra!! Vonandi hefur Baldur gert það líka. 

Sjá hvað blogg er gott og að svona viðbjóður fái að komast upp á yfirborðið hjá okkur hvunndagshetjunum, það eru ótrúlega margir atburðir sem liggja grafnir í þögninni og fá því að grassera áfram. Það er aldrei gott mál.

alva (IP-tala skráð) 30.9.2008 kl. 12:41

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

SKelfilegt að lesa. Einelti er með ljótari gjörningum mannanna.  Kærleikskveðja á þig.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.9.2008 kl. 14:16

13 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Þessi maður hefur verið eitthvað mikið bilaður, fyrir það fyrsta hefði átt að reka hann

Kristín Gunnarsdóttir, 30.9.2008 kl. 17:54

14 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Kræst! Dj.... óþverraskapur! Illa innrættur mannfj.....!

Heiða B. Heiðars, 30.9.2008 kl. 19:18

15 Smámynd: Gunnar Kr.

Sæl Helga frænka.
Þú hefur lent hjá svipuðum kennara og ég, fyrstu árin í barnaskóla. Best að nefna engin nöfn, þótt hann sé kominn undir græna torfu. En síðar fékk ég frábæran kennara sem laðaði fram það jákvæða hjá öllum, Svavari Helgasyni. Einnig var gamli góði skriftarkennarinn einstakur, hann Marinó L. Stefánsson.

Gunnar Kr., 30.9.2008 kl. 20:18

16 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Góðir kennarar eru alveg ótrúlega mikilvægir. Ég er fegin því að konur eru eiginlega alfarið teknar við kennarastéttinni. Ég hef heyrt um nokkur svona illmenni sem hafa stundað kennslu en það eru allt karlmenn. Skyldi það segja okkur eitthvað?

Helga Magnúsdóttir, 30.9.2008 kl. 20:48

17 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Ég á tvö frændsystkini sem voru í Vogaskóla. Sjálf var ég þar í sex ára bekk. Ég man vel eftir Helga skólastjóra. Aðallega þó í gegnum tal frændsystkina minna. Ekkert slæmt svo sem þar.

En Helga mín, takk fyrir þessa frásögn. Þetta stóð mér allt ljóslifandi fyrir hugskotssjónum og ég finn til samúðar með þessari litlu stúlku í frásögninni.

Ég býst við að akkúrat þessi hegðun kennara hér áður fyrr, hafi orðið til þess að það varð að setja strangar reglur um snertingu við nemendur. Reglur sem ég hef nú oft gagnrýnt sjálf og finnst að það mætti alveg grípa aðeins í axlir sumra barna nú til dags þegar yfirgangurinn og frekjan er orðin óþolandi. En andlega ofbeldið er engu betra og það viðgengst ennþá í mun meira mæli en fólk gerir sér grein fyrir. Og er ég hér að tala um einelti og andlegt ofbeldi kennara í garð nemenda sinna. Og það er skelfilegt.

Það er svo greinilegt að þessi litla stúlka hefur haft bein í nefinu

Jóna Á. Gísladóttir, 30.9.2008 kl. 21:56

18 Smámynd: Helga skjol

Oj barasta sem hann var þessi karlgarmur og bölvaður dr sokkur.

Knús á þig mín kæra

Helga skjol, 1.10.2008 kl. 06:29

19 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Ég brjálast þegar ég heyri um svona ofbeldi!!!!!!

En að öðru - Úlli og Jóel komu sem snöggvast á tröppurnar til mín í gær. Alltaf er hann Úlli þinn sætur og fallegur og góður drengur. Hann hringdi á undan sér því Anna mín var lasin og hann vantaði gögn frá henni vegna hóp verkefnis. "Góðan dag - þetta er Úlfar - samnemandi Önnu Kristínar" kurteis líka

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 1.10.2008 kl. 11:31

20 Smámynd: Elín Sigríður Grétarsdóttir

ekki ertu í alvöru svo þröngsýn að halda að ekki séu til konur sem eru vondar við börn?? mér finnst einmitt vanta fleiri karlmenn í kennarastéttina því að börnin okkar eru í auknum mæli að alast upp með einstæðum mæðrum og vantar karlkyns fyrirmyndir.

Elín Sigríður Grétarsdóttir, 1.10.2008 kl. 22:36

21 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég held því alls ekki fram að allar konur séu vammlausar í þessum efnum. Var bara að tala um að ég hef aldrei heyrt minnst á kvenkyns kennara sem hagar sér svona, heldur einungis karlmenn. Konurnar fara kannski fínna í hlutina og dulbúi andlega eineltið og ofbeldið.

Helga Magnúsdóttir, 1.10.2008 kl. 22:50

22 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þetta er ljót saga Helga mín og bara gott að þú skildir jafna þig á þessu.

Ég var í Laugarnesskólanum þar var einn kennari sem hafði alla strákana undir smásjá og allir voru þeir með sárvið eyrað því hann tók alltað í eyrað á þeim er inn í stofuna gengu og það rifnaði hreinlega út úr, en hann dýrkaði okkur stelpurnar,
Þetta var sadisti að mínu mati.

Og konurnar eru langt frá því að vera eitthvað betri, þekki til þess.
Knús knús Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 2.10.2008 kl. 09:29

23 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Ég er alveg orðlaus líka, guð minn hvað þetta er hræðilegt.  Þú ert svo sterk og heil Helga. 

Elísabet Sigurðardóttir, 3.10.2008 kl. 12:04

24 Smámynd: Heiður Þórunn Sverrisdóttir

Hrikaleg með ferð á börnum...

Heiður Þórunn Sverrisdóttir, 3.10.2008 kl. 23:51

25 Smámynd: Hulla Dan

Anskotans viðbjóður.
Það ætla ég að vona að þessi "kennari" hafi fengið framkomu sína í hausinn og átt ömurlegt líf. Þetta er hrein og klár illmennska.
Vona að bæði þú og Baldur hafi jafnað ykkur.

Góðan dag til þín

Hulla Dan, 7.10.2008 kl. 08:03

26 Smámynd: Sigrún Óskars

flæktist hér inn og fór að lesa - fékk alveg í magann við lesturinn. þú hefur verið dugleg og kjörkuð stúlka og ert örugglega enn. gott að koma með svona uppá yfirborðið - svona á aldrei að þegja yfir.

Sigrún Óskars, 9.10.2008 kl. 13:37

27 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Ég var í langholtsskóla med kennara sem hét thad sama og hann reíf líka í eyrun á strákunum og var med ofbeldi. Var rekinn í nokkra daga en rádinn aftur vegna thess ad thad vantadi kennara.

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 10.10.2008 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband