Mamma norn

Þegar ég var krakki var það árviss viðburður að fara í tjaldferðalag vestur á firði og þá í Súðavík við Álftafjörð en þá var pabbi að fara "heim". Þetta voru alveg rosalega skemmtileg ferðalög, það tók alveg tvo daga á þessum tíma að komast vestur svo við tjölduðum á leiðinni. Pabbi gat aldrei verið án þess að veiða fisk, en ekkert hefði getað fengið hann til að veiða á stöng. Innst í Álftafirðinum, þar sem við tjölduðum, rann á út í fjörðinn og í mynni hans var oft mikill silungur. Pabbi hafði alltaf með sér net og fékk svo lánaðan bát á bæ sem mig minnir að heiti Dvergasteinn. Þetta voru mjög frumlegar veiðiferðir. Ég var látin vaða út í sjó alveg upp að höku og halda í endann á netinu, svo reri pabbi í kringum mig með hinn endann og eftir því sem aflinn jókst þyngdist netið og ég átti erfiðara með að halda nefinu upp úr sjónum. Alveg merkilegt að honum skyldi ekki takast að drekkja mig, mér fannst oft muna ansi litlu. Við veiddum oft vel og þá var aflinn keyrður inn í Súðavík og allir fengu silung. Við vorum mjög vinsæl á þessum slóðum.

Eitt árið, ætli ég hafi ekki verið um fermingu, gerðist dálítið merkilegt. Í fyrsta lagi varð ég vitni að því í fyrsta og eina skiptið á ævinni að foreldrum mínum yrði sundurorða. Þarna voru rústir af gamalli rétt og við höfðum alltaf tjaldað við hana þeim megin sem fjallið var. Nú bar svo við að mamma tók ekki í mál að tjalda þar. Hún vildi tjalda hinum megin við réttina. Pabbi var vanafastur og vildi tjalda á sama stað og venjulega. Þau kýttu um þetta dágóða stund en vitanlega vann mamma og við tjölduðum þar sem hún vildi.

Um nóttina vöknuðum við við gríðarlegan hávaða. Við vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið, rukum upp úr svefnpokunum og út. Þá kom í ljós að stór grjótskriða hafði fallið úr fjallinu og þar sem við vorum vön að tjalda var allt fullt af risastórum steinhnullunum, hálfgerðum björgum. Við stóðum þarna öll þrjú og störðum, það fór ekkert á milli mála að ef við hefðum tjaldað á sama stað og áður hefðum við í besta falli stórslasast og að öllum líkindum látið lífið. Við vorum langt frá bæjum og mannabústöðum þannig að enginn hefði komið að okkur fyrr en daginn eftir. Pabbi stóð þögull og horfði á grjótið og mömmu til skiptis og sagði svo: Ertu norn, Kristjana? Ég held að þetta hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann pabbi mótmælti henni mömmu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Hún hefur ekki bara verið með kvenlegt innsæi, heldur eitthvað mikið meira og ofan flestra skilningi

Sigrún Jónsdóttir, 9.11.2008 kl. 17:09

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Já! Ég segi eins og Sigrún - þarna hefur eitthvað miklu meira verið á ferðinni.....

Hún hefur aldrei talað um þetta síðar? 

Hrönn Sigurðardóttir, 9.11.2008 kl. 21:36

3 identicon

Já, það hefur einhver verið að passa upp á ykkur, einhverjar góðar vættir.

alva (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 21:50

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Við töluðum oft um þetta og mamma  hafði enga skýringu á því hvers vegna hún vildi skipta um tjaldstað, hún var bara með það á hreinu að það kæmi ekkert annað til greina.

Helga Magnúsdóttir, 9.11.2008 kl. 22:16

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Vá, ég fékk hroll.  Maaaaaaaaaaagnað.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.11.2008 kl. 22:53

6 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Stundum vitum við betur án þess að skilja ástæðuna fyrir því. Þetta er alveg magnað og eins gott að hún mamma þín gaf sig ekki með þetta  Það hefur eitthvað verið að vernda ykkur þarna.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 10.11.2008 kl. 10:16

7 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Helga mín. Það eru eflaust góðir vættir sem fylgja ykkur og vermda. Það er nú svo margt sem við skiljum ekki, finnum ekki skýringu á. Stundum er talað um kraftaverk og er þessi atburður ekki eitt af þeim. Megi þessir góðu vættir vera ávalt með ykkur.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 10.11.2008 kl. 12:12

8 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Hun mamma þín hefur haft 6 skilníngar vitið í lagi.

Kærleikur til þín

Kristín Gunnarsdóttir, 10.11.2008 kl. 16:13

9 Smámynd: Brynja Dögg Ívarsdóttir

Stundum þá fáum við vitrun og erum þess fullviss að eitthvað sé rétt og krefjumst þess og viti menn oft reynist það  rétt eins og hjá móður þinni.

Góðar vættir fyrir vestan.

Hafðu það gott Kv Gleymmerei og Emma.

Brynja Dögg Ívarsdóttir, 10.11.2008 kl. 16:50

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Er ekki merkilegt hvað hlutirnir geta verið... merkilegir?!

Mögnuð frásögn. Takk fyrir þetta.

Takk líka Helga mín fyrir fallegt komment mín megin um daginn.

Jóna Á. Gísladóttir, 10.11.2008 kl. 20:56

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er frábært, en svona gerist svo oft.  Þetta undirstrikar það sem sagt er að ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið.  Svo sannarlega.  Knús mín kæra.  Gott að þú ert hér ennþá

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2008 kl. 21:15

12 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Ótrúlegt alveg.  Ég er með gæsahúð. 

Elísabet Sigurðardóttir, 11.11.2008 kl. 13:12

13 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Þarna hafa góðir vættir verið á ferð, engin spurning.

Ég er nú ekki hissa á að hann pabbi þinn skildi aldrei mótmæla mömmu þinni eftir þetta, en hissa er ég að hann skildi láta sig eins og þeir eru nú fjandi þverir vestfirðingar, ég veit því ég á einn.

Knús til þín
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.11.2008 kl. 19:38

14 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Ég á líka Vestfirðing. En hann hefur lært að hlýða með tímanum - eins og pabbi.

Helga Magnúsdóttir, 11.11.2008 kl. 20:45

15 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Gott, enda eins gott fyrir þá að fara eftir því sem við nornirnar segja

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.11.2008 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband