Ættgengt trúleysi

Ég var ekki alin upp við trú. Messan var höfð á á aðfangadagskvöld, en það bara tilheyrði og enginn svo sem að hlusta. Systur mínar tóku að vísu eitthvert trúartímabil þegar þær voru 12-13 ára og vitanlega bitnaði það mest á mér. Í hvert skipti sem ég gerði eitthvað af mér, sem var oft, fékk ég að heyra að þá yrði Jesú lasinn. Ég var orðin svo leið á þessu að einn daginn þegar ég vissi upp á mig sökina hvessti ég á þær augun og sagði: Þessi Jesús getur bara lagt sig. Eftir það hættu þær að láta mig bera ábyrgð á heilsufari frelsarans.

Ég fermdist af því að allir aðrir gerðu það. Við vorum látin gera vinnubók og tók ég því eins og hverju öðru skólaverkefni og vandaði mig eftir bestu getu. Einnig var okkur gert að mæta í kirkju á hverjum sunnudegi og gerði ég það af mikilli samviskusemi. Rétt fyrir ferminguna vorum við látin skila bókunum til prestsins og fengum svo einkunn. Allir fengu 10 nema ég, ég fékk 8. Mér fannst þetta virkilega óréttlátt þar sem ég hafði lagt mig alla fram. Þegar ég spurði prestinn hverju þetta sætti fékk ég að vita að þetta væri vegna þess að foreldra mínir hefðu aldrei komið með mér til kirkju. Það skipti ekki máli að móðir mín var sjúklingur og faðir minn skipstjóri sem var sjaldnast heima. Ekki hresstist álit mitt á prestum eftir þetta.

Frænka mín ein er mjög trúuð, hvaðan svo sem hún hefur það, og fór alltaf í barnamessu í Bústaðakirkju með sinn strák sem er fjórum árum eldri en Úlli minn. Þegar Úlli var 3 ára fór þessi frænka mín, sem ég met mjög mikils, að benda mér á að mæta í messurnar með drenginn. Börn hefðu svo gaman af þessu og hefðu gott af því. Ég var vitanlega reiðubúin að gera nánast hvað sem er fyrir drenginn og mætti með hann þrisvar. Þegar ég ætlaði með hann í fjórða skiptið þverneitaði pilturinn. Það eru asnaleg lög og presturinn er leiðinlegur, tilkynnti þessi 3 ára gutti með þjósti. Það þarf varla að taka það fram að hann fermdist borgaralega í fyrra. Las grein eftir Hope Knútsson um borgaralegar fermingar þegar hann var 6 ára og eftir það varð honum ekki haggað, ekki að það hafi nokkuð verið reynt.

Ég er tvígift og bæði skiptin hjá borgardómara. Hefur aldrei langað til að vera eins og rjómaterta í kirkju. Mér og mínum hefur bara gengið vel í lífinu þrátt fyrir trúleysið. Ég hef lesið talsvert um trúarbrögð en aldrei fundið neitt sem höfðar til mín. Þannig að ég ætla bara að halda mínu striki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kallý

þessi frænka þín virkar ótrúlega skemmtileg 

Kallý, 13.11.2008 kl. 19:48

2 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Já, þessi frænka mín er alveg hreint frábær og ekki eru börnin hennar síðri.

Helga Magnúsdóttir, 13.11.2008 kl. 20:03

3 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

Á laugardaginn høldum vid "nafnaveislu" fyrir dóttur okkar, í stadinn fyrir ad skýra. Ég skrádi mig úr kirkjunni eftir ad hún fæddist, sendi pappírana med fædingarpappírunum hennar, sem kirkjan á ad fá. Kirkjan skráir nýfædd børn.

Um daginn hringdi ég í "kommúnuna" til ad heyra hvort thad væri hægt ad fá eitthvad sem gæti kallast borgaraleg skýrn, sbr. borgaraleg gifting. Nei, thad er ekki hægt. Og svo minnti daman mig á, ad ég skrái hana ekki einu sinni thar. Ég á ad fara í kirkjuna, og skrá nafnid hennar. Mér finnst thad nú eiginlega bara módgun vid mig. Og hvad med alla múslímana, hindúana og trúleysingja eins og mig.

Var einhver athøfn, thegar Úlli thinn var fermdur borgaralega? Ég sakna athafnar í sambandi vid nafngjøfina. Verd ad finna upp á einhverju fyrir laugardaginn, en er óskøp andlaus.

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 13.11.2008 kl. 20:26

4 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Það var fermingarathöfn í Háskólabíói og svo flott veisla í Iðnó á eftir.

Helga Magnúsdóttir, 13.11.2008 kl. 20:53

5 Smámynd: Sólveig Kristín Gunnarsdóttir

En hver skipulagdi thá athøfn ?

Sólveig Kristín Gunnarsdóttir, 13.11.2008 kl. 22:48

6 identicon

Þú ert frábær!

alva (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 22:52

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Go girl.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.11.2008 kl. 23:14

8 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir, 13.11.2008 kl. 23:51

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já ég hef smám saman áttað mig á því að það er ekkert samband á milli kristni og kærleika, ekki beint.  Það er til kærleiksríkt kristið fólk og kærleiksríka manneskjur sem afneita þeirri trú.  Það eru til kærleiksríkir múslimar, katólikkar, mormónar og allstaðar.  Það hefur bara ekkert með trú þeirra að gera.  Það er verið að reyna að troða því inn á okkur að það sé til eitthvað sem heitir kristilegur kærleikur.  Og að bestu eiginleikar mannsins séu bara hjá kristnum.  Ég segi, það stendur hver manneskja eins og hún er byggð, og það hafa verið unninn mörg illvirki með kristna trú að vopni.  Þess vegna er best að læra að þekkja sjálfan sig og sitt hjartalag án þess að blanda öðrum þar inn.  Knús á þig Helga mín.  Vor Siður hentar mér best, og ásatrúin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2008 kl. 09:32

10 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Hver verður að fá að hafa sína trú í friði. Kirkjusókn hefur ekkert að gera með það hvað fólk sé trúað. Aðalmálið er að við leitum sjálf í huga okkar eftir því góða og förum eftir okkar samfæringu. Kærleikskveðjur.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 14.11.2008 kl. 14:23

11 Smámynd: Ragnheiður

Ja þú hafðir það heima sem mig skorti og ég fór að fara í sunnudagaskólann upp á mitt eigið einsdæmi. Að því bý ég nú. Ég fer talsvert í kirkju og myndi teljast til trúaðra í dag. Það huggar mig að geta ímyndað mér Himma minn á björtum og góðum stað, hjá Guði.

Ég fæ senda rss strauma af erlendum fréttamiðlum og um daginn (gær eða fyrradag) fékk ég einn slíkan fréttastraum um prest í USA sem neitar sóknarbörnum sínum um heilagt sakramenti hafi þau kosið Obama. Það setti að mér hroll.

Ég túlka Guð á minn hátt og hann er ekki svona óbilgjarn og leiðinlegur. Alls ekki. Minn Guð er tákn um allt hið góða, hlýja og hjálpsama. Hann er ekki refsiglaður né hefnigjarn.

En fólk verður að sjálfsögðu að hafa þetta eins og það vill sjálft.

Knús Helgan mín

Ragnheiður , 15.11.2008 kl. 22:31

12 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Sólveig, það var Siðmennt sem skipulagði athöfnina.

Helga Magnúsdóttir, 16.11.2008 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband