Helga hetja

Það er svo mikið rætt um kreppu, verðhækkanir, atvinnuleysi og allt sem því fylgir að mér datt í hug að skella hér eins og einni gamalli löggusögu þótt margir séu eflaust orðnir dauðleiðir á þeim.

Það var laugardagskvöld og tilkynnt um hópslagsmál fyrir utan Hollywood. Bíllinn sem ég var í var næstur svo við komum fyrst á staðinn og sáum strax að það var allt vitlaust. Það var þó ekki um annað að ræða en að skella sér í slaginn. Ég var búin að snúa niður mann og var að fara að járna hann þegar skyndilega var rifið í handjárnin hjá mér og mér svipt til. Ég leit upp og sá þá þann alstærsta mann sem ég hafði á ævi minni séð. Ég meina það, hann var eins og Esjan, eða það fannst mér allavega við þessar aðstæður.

Ég sá strax að í þennan risa hafði ég ekkert að gera og varð vægast sagt skíthrædd. Svo heyrði ég alveg svakalega litla og mjóróma rödd: "Viltu gjöra svo vel að sleppa handjárnunum mínum." Jú, þetta var ég að tala, bara ekki með minni venjulegu rödd. Tröllið horfði á mig smástund, sleppti svo handjárnunum og labbaði burt. Ég kláraði að járna hinn manninn og koma honum inn í bíl og prísaði mig sæla.


Stundum borgar það sig bara að vera kurteis. Police


Ég er svo aldeilis hissa

Við hjónin höfum styrkt barn hjá SOS-barnaþorpum í þó nokkurn tíma en fengum alveg stórundarlegan póst um daginn. Í póstinum kom fram að upp hefði komist að fjölskylda okkar stelpu hefði þegið aðstoð frá öðrum hjálparsamtökum líka og því var henni hent út úr skólanum og var ekki lengur á lista hjá þeim. HALLÓ! Má þetta vesalings fólk ekki sækja sér aðstoð hvar sem er? Er neyðin ekki nógu mikil þótt það kosti ekki refsingu að reyna að bjarga sér?

Okkur var boðið að velja okkur annað barn en að öðrum kosti færi okkar framlag í sameiginlegan sjóð fyrir þau börn sem engan styrktaraðila hafa. Við vorum algjörlega mállaus af undrun og veltum því fyrir okkur að hætta hjá SOS og styrkja eitthvað annað í staðinn. En fyrst það eru þarna börn sem  hafa engan stuðningsaðila og gætu fengið eitthvað frá okkur ákváðum við að velja okkur ekki annað barn, þetta hljómar eins og útsala, heldur láta okkar fé ganga í þennan sjóð. Hefur einhver annar lent í því að "þeirra" barni sé bara hent út á guð og gaddinn ef fjölskylda þess hefur reynt að nálgast einhverjar sporslur annars staðar? Ég er svo hneyksluð og reið út af þessu að ég hef ekki ennþá lagt í að senda bréf og spyrjast fyrir um þetta. Vil síður senda einhvern reiðilestur svo ég ætla að láta sjatna í mér áður en ég skrifa þeim.

Hugsið ykkur bara ef fólki væri vísað frá Mæðrastyrksnefnd af því það hefði einhvern tíma fengið hjá Fjölskylduhjálpinni líka. Ég er ansi hrædd um að þá myndu margir reka upp stór augu og þó er neyðin hér bara brotabrot af því sem hún er víða í Afríku. Læt ykkur vita þegar ég verð búin að skrifa þeim og hvaða svör ég fæ, ef þá nokkur.


Gleðilegt ár

Loksins má ég vera að því að blogga út af veisluhöldum og hátíðum. Vaktirnar hjá mér lágu svo vel að ég er nánast búin að vera í fríi síðan fyrir jól. Ekki mjög slæmt.

Ég og fjölskyldan öll fengum svo mikið af bókum í jólagjöf að í raun má ég ekkert vera að því að vinna fram að páskum. Við Linda frænka vorum ákaflega samstiga og gáfum hvor annarri Mamma Mia í jólagjöf á DVD. Þegar maður horfir aftur á hana fattar maður hvað þetta er skratti góð mynd burtséð frá allri tónlistinni. Aðalhlutverkin aldrei þessu vant í höndum miðaldra kvenna sem fara alveg á kostum. Sjálfstæðar, klárar og fullfærar um að sækjast eftir sínu. Donna hafði sofið hjá þremur körlum yfir skamman tíma svo hún vissi ekkert hver væri faðir dóttur hennar. Ekkert sjálfsagðara og engar siðapredikanir um þannig hátterni. Ein þeirra vílar það ekki fyrir sér að taka kornunga og myndarlega barþjóninn á ströndinni á löpp og gefa honum svo langt nef daginn eftir. Hún var búin að fá það sem hún vildi og ekki meira takk. Eintóm skemmtun þessi mynd sem sýnir að til er líf eftir fertugt í þessari æskudýrkun sem tröllríður öllu.

Vinkonur hans Úlfars vilja sko ekki að hann forkelist. Ein gaf honum handprjónaðan trefil og önnur sokka og vettlinga. Mér finnst unglingar gefa hver öðrum miklu fleiri jólagjafir er tíðkaðist þegar ég var ung. Þá voru það bara þeir nánustu sem maður gaf en nú er það öll klíkan sem skiptist á gjöfum.

Á gamlárskvöld vorum við Stjáni með lokað inni í stofu og horfðum á sjónvarpið eftir eitt því þá kom allt liðið hans Úlla og skaut upp því sem eftir var og skemmti sér vel. Við vitum ekkert hvenær þau fóru að sofa en Úlli og Lárus voru allavega steinsofandi þegar við gamla liðið skreiddist á fætur á nýársdag. Ekki misskilja mig það var ekkert áfengi eða vesen á þessum elskum,  þau bara skemmtu sér vel.


Það á að gefa börnum brauð

Börn eru aldrei yndislegri en á jólum og í aðdraganda þeirra. Þegar hann Styrmir minn var 6-7 ára ákvað ég að halda smá jólaboð fyrir hann og þau systkinabörn mín sem voru á svipuðum aldri og hann. Ég tók til smákökur og hitaði kakó og leigði jólateiknimynd. Þessi jólamynd var um lítinn strák sem átti lítinn asna. Asninn var svo lítill að pabba stráksins fannst ekki nokkurt gagn að honum. Því skipaði pabbi stráksins honum að fara til borgarinnar og selja asnann og það slátraranum ef ekki vildi betur.

Stráksi var vitanlega óskaplega sorgmæddur yfir þessu og lagði af stað með asnann. Þegar til borgarinnar var komið vildi enginn sjá þennan litla asna svo allt leit út fyrir að hann myndi lenda hjá slátraranum. En í þann mund sem slátrarinn er að kaupa asnann koma ung hjón og konan barnshafandi. Þau voru fátæk en vildu gjarnan kaupa asnann því hann var svo ódýr. Myndin endaði svo á því að þessi hjón, sem marga er aflaust farið að gruna hver eru, leggja af stað í langferð undir skini stærrar stjörnu.

Ég held að ég hafi sjaldan gert meiri mistök en þegar ég leigði þessa spólu. Krökkunum fannst þetta allt saman svo sorglegt að ég sat uppi með fulla stofu af háskælandi börnum og þurfti að snýta og hugga í lengri tíma.

Mörgum árum seinna keypti ég jólateiknimynd, maður lærir ekki af reynslunni, handa Úlla en það var Jólasaga Dickens með Andrési, Jóakim, Mikka og öllu genginu. Jóakim var að sjálfsögðu Scroooge og var hinn versti ef eitthvað var minnst á jól. Úlli horfði opinmynntur á myndina og sneri sér svo að mér og sagði stórhneykslaður: "Rosalega er hann Jóakim mikil jólahatönd." Við höfum horft á þessa mynd fyrir hver jól síðan og alltaf fær Úlli að heyra brandarann um jólahatöndina.


Jólahjól

Ég, prívat og persónulega, hef ekki gert neitt fyrir komandi jól nema upphugsa nokkrar jólagjafir, en ekki enn gengið svo langt að kaupa þær. Ég hef ekkert skreytt, ekkert bakað og alls ekki gert hreint eða annast nokkra tiltekt.

Samt er búið að skreyta heima hjá mér, baka helling, Úlli og Stjáni baka bara og baka. Ég er farin að hafa áhyggjur af því að á Þorláksmessu verði þeir fluttir bakandi á Klepp. Ég sit þá ein heima með allar kökurnar. Ég held að hún mamma hafi ekki einu sinni bakað svona mikið með 8 manna fjölskyldu.

Svo kemur heimilishjálpin bara rétt fyrir jól og tekur allt í gegn. Það finnst mér best. Vil frekar leggja á mig að vinna meira að því sem ég kann og finnst ekkert leiðinlegt og fá svo einhvern annan til að gera effing húsverkin. Nú er ég búin að vera í vinnunni í 11 klukkutíma. Hvað ætli verði búið að baka margar sortir þegar ég kem heim?


Gæta skal þess hvers maður óskar

Ég bloggaði um það um daginn að í desember vildi ég helst bara vera barn sem ekki þyrfti að skipta sér af neinu. Nú er ég eiginlega komin í þessa stöðu.

Sú sem vinnur á móti mér hefur verið í Ástralíu í mánuð og hef ég tekið hennar vaktir líka svo ég er eiginlega aldrei heima. En feðgarnir eru búnir að skreyta og gera fínt, baka sjö, já 7, sortir af smákökum og ég svona rétt fæ reykinn af réttunum. Samt gekk fram af mér fyrsta sunnudag í aðventu. Þegar ég kom heim seint og um síðir voru feðgarnir sofnaðir. En það var greinilegt að þeir höfðu kveikt á aðventukransinum og fengið sér smákökur. Það lá við að ég færi að skæla ég var svo svekkt yfir að hafa misst af þessu öllu.

Strax daginn eftir lét ég þá vita að svona hegðun yrði ekki liðin á heimilinu. Á sunnudögum á aðventu skyldi hvorki kveikja á aðventukransi né borða smákökur fyrr en sjálf ég væri skriðin í hús. Nú skíl ég hvernig karlmönnum hefur liðið hér í denn. Vinnudýr sem þurftu svo sem ekkert að taka þátt i því sem gerðist á heimilinu, bara þegja og borga.

Þegar ég kom heim í gærkvöldi voru herrarnir vakandi diskur með smákökum á sófaborðinu og ekki búið að kveikja á aðventukransinum svo ég fékk að vera memm. Gaman gaman.


Hann pabbi minn ætti að vera 89 ára í dag.

Pabbi minn var bestur, skemmtilegastur, fyndnastur, kátastur, stærstur og sterkastur

Þeim sem vilja fá fullvissu um tvennt þetta síðasta sé satt eru til sögur sem sanna það. Þegar við systurnar fórum að koma með stráka í heimsókm voru þeir kynntir fyrir pabba ef hann var í landi. Þegar þeir komust  öruggt skjól í herbergi okkar systra sögðu þeir náfölir og skjálfraddaðir: Ég hef aldrei á ævinni séð aðra eins handleggi! Svo þegar ég var í lögreglunni prófaði ég að handjárna hann. Það var ekki hægt. Sem betur fer var pabbi hið mesta ljúfmenni sem bragðaði ekki vín. Ekki hefði ég viljað lenda í þessu heljarmenni fullu og vitlausu sem ekki einu sinni var hægt að járna.

Þegar pabbi kom heim var hátíð í bæ. Það var svo sem ekker haft í mat eða öðru síku, það var bara svo gaman. Við sátum í eldhúsinu á kvöldin og spjölluðum saman og pabbi sagði sögur. Hann sagði svo skemmtilegar sögur hann pabbi. Hann hefði getað orðið uppistandari eða leikari.

En það sem var best við að alast upp í Ferjuvoginum var hvað mamma og pabbi voru alltaf ástfangin, þegar pabbi kom heim af sjónum vissum við að hann hlakkaði alltaf mest til að hitta mömmu þó svo að hann knúsaði okkur og kyssti. Þegar hann fór á sjóinn, faðmaði hann mömmu og sagði alltaf: Góðar vættir gæti þín þar til ég kem heim, en þá tek ég við.

Mamma og pabbi kynntust þegar þau voru unglingar, þegar pabbi var hér í Reykjavík í Verslunarskólanum. Þau gengu saman í gegnum þykkt og þunnt og eignuðust 6 börn og 10 barnabörn. Þau höfðu bara alltaf verið saman.

Pabbi tók því mjög þunglega þegar mamma dó þó svo að augljóst hefði verið hvert stefndi. Hann byrjaði á því að fara í 18 mánaða heimsreisu til að skipta um umhverfi. Þegar hann kom aftur seldi hann útgerðina og fór að ferðast. Hann var mikið í Afríku. Eitt sinn leigði hann hús við vatn i Afríku í heilt ár. Hann réð sér ráðskonu og borgaði henni laun eins og háseta á góðum bát. Þetta þótti ekki lítið fé á þessum slóðum og allir vildu fá vinnu hjá honum. En hann hafði aðrir hugmyndir. Vatnið var fullt af fiski og þorpsbúar voru að reyna að fiska en fórst það óhönduglega og aflinn rýr. Þetta hugnaðist ekki gamla skipstjóranum sem gerði sér lítið fyrir og hafði samband við Hampiðjuna og lét senda sér mikið af efni til netagerðar. Síðan settu hann um lítið netaverkstæði á ströndinni og kenndi þeim að ríða net. Námið gekk vel hjá þeim og þegar netin voru komin kenndi hann þeim að nota þau. Aflinn rauk upp úr öllu valdi og brátt voru þorpsbúar farnir að selja fisk í næstu þorpum og hagur þeirra vænkaðist. Þetta var svona eins manns þróunarhjálp. Pabbi var rúmlega sjötugur þegar þetta var.

Þegar pabbi kom svo aftur heim fór hann að vinna við að kenna krökkum í grunnskólum sjóvinnu. Við systkinin höfðum nú hálfgerðar áhyggjur af því hvernig gömlum skipstjóra sem er vanur að vera hlýtt, tækist að hafa stjórn á heilum bekk af unglinum. Það tókst greinilega vel því við jarðarförina hans voru tugir unglinga.

22. ágúst var hann pabbi minn á leið heim frá Vestfjörðum. Jeppinn valt og pabbi sem var ekki í belti hentist út, jeppinn valt yfir hann og hann lést samstundis. Þetta var mikið áfall fyrir okkur en svona hefði hann viljað fara, í fullu fjöri og með hvelli.

Til hamingju með afmælið pabbi minn, hvar sem þú ert. Ég vona að hún mamma sé þér einhvers staðar innan handar.


Hversu lágt er hægt að leggjast?

Ég var að lesa frétt í vinnunni sem gekk gjörsamlega fram af mér og ég er fjúkandi reið. Samtökin Neisti sem ætluð eru til styrktar hjartveikum börnum höfðu með frjálsum framlögum og söfnunum tekist að öngla saman 90 milljónum á 12 árum. Þessi samtök eru mjög þörf þar sem mikið af hjartaaðgerðum á börnum þurfa að fara fram erlendis og einnig, eins og allir vita, verður fólk með langveik börn fyrir miklu tekjutapi því oft þarf annað foreldrið að vera heima til að sinna barninu. Um sjötíu börn fæðast hér á landi með hjartagalla á ári en aðeins þriðjungur aðgerða getur farið fram hér á landi.

Neisti treysti Landsbankanum fyrir peningunum sínum. Fóru sérstaklega fram á að fjárfestingin yrði að vera alveg örugg þar sem þetta séu peningar líknarfélags. Þeim var vitanlega ráðlagt að setja hluta peninganna í þessa frægu peningasjóði. Nú er Neisti búinn að tapa þriðjungi peninganna sem áttu að fara til að styrkja langveik börn og fjölskyldur þeirra. Ég er svo hneyksluð og reið að mér er skapi næst að stofna til mótmælafundar við Landsbankann og krefjast þess að þessum fjármunum verði skilað.

Er hægt að leggjast lægra en að stela peningum frá langveikum börnum? Ég held ekki.


Glaðningurinn sem mistókst

Þegar ég var fimm ára ákváðu systur mínar heldur betur að gleðja mig og sýna mér jólasveininn. Ég fór vitanlega snemma í rúmið því það gerir maður í desember til að fá í skóinn. Ég man það eins og það hefði gerst í gær að ég var að lesa Selinn Snorra.

Svanhildur systir mín setti á sig jólasveinaskegg og húfu en til þess að ég myndi alls ekki þekkja hana greip hún til þess ráðs að setja upp sólgleraugu. Síðan var stigi reistur upp að herbergisglugganum mínum og það fór um mig þegar ég heyrði þetta skark fyrir utan gluggann því vitanlega var ég alveg viss um að þarna væri jólasveinninn á ferð og beið spennt.

Svanhildur dró gardínuna til hliðar til að ég sæi hana vel og örugglega og hún var vægast sagt skuggaleg með þessi svörtu sólgleraugu.

Þegar Svanhildur var komin aftur inn komu allir inn til mín til að sjá hvað ég væri hamingjusöm að hafa fengið að sjá jólasveininn. En það var nú eitthvað annað. Ég var flóandi í tárum og stjörf af skelfingu og rétt náði að stynja upp: "Þetta var sko enginn jólasveinn, þetta var draugur. Hann hafði engin augu!" Það tók langan tíma að hugga mig og Svanhildur varð að játa á sig glæpinn en ég trúði henni ekki fyrr en hún hafði aftur sett upp múnderinguna til að sanna fyrir mér að þetta hefði verið hún. Ég held að ég hafi sjaldan orðið eins skelfingu lostin á ævi minni og pabbi varð að sitja hjá mér þangað til ég sofnaði því ég þorði ekki að vera ein.

Svona getur það misfarist þegar gleðja á lítil börn.


Tímaskekkja

Í desember lendi ég alltaf í nokkurs konar tímaskekkju. Mér finnst ég alls ekki eiga að bera ábyrgð á því að allt sé hreint og fínt, skrautið komist á sinn stað, kökur bakaðar og svo framvegis.

Í desember verð ég aftur barn. Ég vil ekki bera ábyrgð, ég vil bara  njóta. Fá að fara með í búðir á Þorláksmessu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort maður hafi nú efni á þessu öllu saman. Ég vil fá í skóinn. Ég reyni ennþá að vera þæg og góð í desember svo ég fái nú örugglega í skóinn, sem ég fæ vitanlega ekki. Ég vil líka fá dagatal sem ég opna um leið og ég vakna á morgnana. Ég kaupi mér að vísu alltaf jóladagakerti sem ég kveiki á á hverju kvöldi og horfi í logann og læt mig dreyma.

Þessi tímaskekkja kemst svo í hámark íá aðfangadag. Þá á ég ekki að standa sveitt í eldhúsinu við að koma jólamatnum á borðið, steikja hamborgarhrygginn, laga meðlætið, gera forréttinn tilbúinn og gera eftirréttinn. Og passa upp á að allt verði örugglega tilbúið og komið á borðið klukkan 6. Hún mamma á að sjá um þetta allt saman.

Ég aftur á móti á að vera sett í jólabað, klædd í blúndukjól, sportsokka og lakkskó. Ég á að vera inni í stofu að bíða spennt eftir að verði kveikt á jólatrénu og pota í pakkana. Ég á ekki að vaska upp. Það eiga eldri systur mínar að gera á meðan ég hleyp um eins og hauslaus hæna og rek á eftir þeim svo hægt verði að fara að opna pakkana.

Hvernig gat allt mitt jólalíf farið svona úrskeiðis? Þetta er vitanlega hluti þess að eldast. Mig langar ekki að vera fullorðin í desember.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 58686

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband