1.12.2008 | 16:42
1. desember
Í dag er fyrsti desember. Það minnir mig á að þegar Úlfar var þriggja fjögurra ára kom hann með það verkefni heim úr leikskólanum að við ættum að segja honum eitthvað merkilegt og hann ætti síðan að segja hinum börnunum frá því hvað hann hefði lært.
Ég lagði heilann í bleyti og datt ekkert í fyrr en það rann upp fyrir mér að 1. desember væri á næsta leiti. Ég settist því niður með drengnum og fræddi hann um 1. desember í þaula og hann var mjög eftirtektar- og áhugasamur.
Þegar ég kom svo að sækja hann eftir helgina dró ein fóstran mig til hliðar og sagði mér hvernig honum hefði tekist til. Útskýringarnar hjá honum voru svona.
Sko, áður en 1. desember kom var kóngurinn í Danmörku með fjarstýringu. Svo þegar 1. desember var búinn höfðu Íslendingar sjálfstýringu.
Segið svo að hann komist ekki til skila sá fróðleikur sem við veitum börnunjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.11.2008 | 19:35
Eyjólfur Jónsson f. 18. maí 1925 d. 29. nóvember 2007
Nú er rétt ár frá því hann Eyjólfur Jónsson, sundkappi og lögregluvarðstjóri, féll frá og það er mikill missir að honum.
Frændgarður okkar systkina var ekki stór. Pabbi var einbirni og mamma átti eina hálfsystur. En svo gerði Kallý móðursystir okkar okkur þann stóra greiða að giftast honum Eyjólfi. Eyjólfur var með eindæmum barngóður og við elskuðum hann og hann elskaði okkur og sama má segja um börnin okkar. Til dæmis elskaði yngri sonur minn engan meira en Eyjólf og á öllum myndum úr fjölskylduboðum situr hann alsæll í fanginu á Eyjólfi og oft var erfitt að koma honum heim þegar við höfðum verið í heimsókn hjá þeim, því hann vildi vera hjá "afa". Enda var Eyjólfur eini afinn sem hann átti.
Þau hjónin misstu dreng í fæðingu nokkrum mánuðum áður en ég fæddist. Ég var því ágætis uppbót og "ættleiddu" þau mig frá fyrstu tíð. Ég var mikið hjá þeim og fór með þeim allt sem þau fóru. Megnið af myndum sem til eru af mér sem barni er með þeim. Mér þótti heldur ekki amalegt að fá þarna aukaforeldra sem létu allt eftir mér og voru svo undurgóð við mig.
Svo gerðist það þegar ég var þriggja ára að Berglind dóttir þeirra fæddist. Mér hefur verið sagt að ég hafi ekki tekið því með miklum fögnuði, var hreinlega veik af afbrýðisemi. Hef eflaust óttast að missa prinsessusessinn hjá Kallý og Eyjólfi. En það voru óþarfa áhyggjur, ég hélt áfram að vera sama dekurrófan hjá þeim og Berglind var fín viðbót. Hún varð eiginlega meira systir min en systur mínar enda aldursmunurinn miklu minni. Við Berglind höfum alltaf verið miklar vinkonur og erum enn þann dag í dag, ef við heyrum ekki hvor frá annarri í nokkra daga förum við hvor að hafa áhyggjur af hinni.
Þegar við vorum litlar saumaði Kallý frænka alltaf á okkur eins kjóla og 17. júní fór Eyjólfur með okkur niður í bæ þar sem við sátum hvor á sinni öxlinni á honum og höfðum besta útsýnið af öllum. Eins bakaði Kallý frænka alltaf spesköku fyrir mig á afmælinu mínu sem var alveg ofboðslega góð en vitanlega láðist mér að biðja um uppskriftina.
Þegar Eyjólfur var rétt orðinn sjötugur og sestur í helgan stein, tími sem þau ætluðu að njóta saman fékk Kallý lifrarkrabba sem dró hana til dauða á mjög skömmum tíma. Eyjólfur tók andlát hennar afskaplega nærri sér, svo nærri sér að við sem stóðum honum næst óttuðumst um heilsu hans. En þá gripu örlögin inn í. Á stríðsárunum hafði Eyjólfur kynnst áströlskum manni að nafni Joe. Sá bauð honum að koma og heimsækja sig og varð það úr. Í Ástralíu kynntist Eyjólfur dásamlegri konu, Mary Pilgrim að nafni. Þau fóru að búa saman og áttu saman mörg frábær ár, ferðuðust víða og nutu lífsins.
Til marks um það hvað hann Eyjólfur var stórbrotinn persónuleiki var hvernig útförin hans fór fram. Hann lést í Ástralíu og var brenndur þar. Helmingurinn af öskunni var sendur til Íslands þar sem hann var grafinn hjá Kallý sinni og hinn helmingurinn er í Ástralíu þar sem hann bíður þess að vera grafinn hjá Mary sinni.
Eyjólfur var svo stór í sniðum að það dugðu ekki undir hann minna en tvær heimsálfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.11.2008 | 20:14
Þegar kristna átti Styrmi
Þegar Styrmir minn var sjö ára heyrði ég það eitt kvöldið að barnið er að tauta eitthvað fyrir munni sér. Ég spurði hann hvað hann væri að tauta og fékk þá að vita að þetta væru bænirnar sem hann ætti að fara með á kvöldin. Og hver sagði þér að fara með þessar bænir, spurði ég. Kennarinn sagði blessaður unginn. Segðu þetta upphátt og lofaðu mér að heyra. Styrmir byrjaði að þylja og það var greinilegt að þetta hafði bara verið tuggið ofan í hann því hann fór ekki rétt með né heldur hafði hann hugmynd um hvað það var sem hann væri að tauta.
Ég hringdi í skólastjórann og sagði að mér vitanlega væri engin trúarbragðafræðsla í sjö ára bekk. Skólastjórinn varð hálfvandræðalegur og sagði að þessi tiltekni kennari væri bara svo trúaður og að engir foreldrar aðrir en ég hefðu kvartað. Ég bað hann þá bara vel að lifa, sagðist ætla að kynna trúarbrögð fyrir mínu barni þegar það hefði aldur og vit til að skilja hvað væri í gangi og frábæði mér svona lagað fyrir hönd sonar míns.
Annaðhvort talaði skólastjórinn ekki við kennarinn eða kennarinn lét það sem vind um eyru þjóta. Nokkrum dögum efti bænamuldrið kom Styrmir heim skíthræddur og skjálfandi á beinunum. Mamma, veist þú til hvers spámennirnir og prestarnir eru? Ég varð að játa að ég vissi það ekki. Jú, þeir eru sko spegill guðs þar sem þú getur séð hann. Guð er nefnilega svo bjartur að ef maður horfir beint á hann verður maður blindur og brennur til ösku! Það var vitanlega sami kennarinn sem hafði boðið upp á þessa visku.
Ég hringdi aftur í skólastjórann alveg bálill og spurði hvað honum fyndist um að verið væri að bera svona bábiljur í ung og áhrifagjörn börn. Annaðhvort yrði þessum kennara stranglega bannað að ræða um trúmál í tímum eða Styrmir færður um bekk. Styrmir var færður um bekk en allir hinir litlu krakkarni máttu áfram sitja undir eldi og eimyrju og dómsdagsspám. Svo hneykslast fólk á að foreldar vilji ekki kristinfræði í skólum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
25.11.2008 | 19:58
Uppáhaldsfrændinn á afmæli
Hann Jón Valgeir Williams uppáhaldsfrændi minn á afmæli í dag hann er 35 ára.
Þegar Jón fæddist var hann óttalega horaður og ræfilslegur. Hann var þó með svo stórt typpi miðað við stærð að pabbi vildi skíra hann Jón Heljarskinn. Það var ekki látið eftir honum. En Jón óx og dafnaði og er með alglæsilegustu mönnum í dag.
Við Jón höfum alla tíð verið heimsins bestu vinir. Þegar mamma hans flutti til London skapaðist sú hefð að hann kæmi alltaf til mín í mat á sunnudögum. Smám saman fór þetta að vinda upp á sig og hann fór að koma með vini sína með sér, svo það var alltaf stuð á sunnudögum hjá okkur. Eftir að ég fór að vinna á sunnudögum eru þessi matarboð alltaf þegar tími gefst til, ekkert endilega á sunnudögum.
Mér hafði aldrei dottið í hug að Jón gæti kynnst konu sem mér þætti honum samboðin. En honum tókst það nú heldur betur. Hún Helena Nemetskova er einhver fallegasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. Þegar pabbi hennar kom til Íslands kom hann vitanlega með í matarboð. Helena kynnti mig fyrir honum og sagði að ég væri mamma hennar á Íslandi. Það sem mér hlýnaði um hjartaræturnar. Svo eiga þau alveg guðdómlegt barn, hann Erik litla Norman sem varð tveggja ára núna 3. nóvember.
Þau koma öll í mat til okkar á laugardaginn og ég hlakka til að fá þau eins og alltaf. Þangað til sendi ég þér bara kossa og faðmlög, elsku Jón Valgeir, og ætla að hafa extra góðan mat af því að þú átt afmæli og ert bestur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.11.2008 | 22:17
Fleyg orð
Munið þegar Guðni Ágústsson sagði að þar sem mörg tré kæmu saman þar væri skógur? Í dag heyrði ég afleiðu af honum: Þar sem tveir framsóknarmenn koma saman þar er spegill.
Úlli minn var ekkert mjög gamall þegar hann sá og heyrði Guðna segja þetta í sjónvarpinu. Við foreldrar hans hlógum eins og froskar svo Úlli sá að þetta væri sniðugt. Hann horfði íbygginn á köttinn og sagði svo: Þar sem mörg hár koma saman, þar er köttur. Þetta gladdi okkur foreldrana ómælt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
17.11.2008 | 18:27
Aggú
Það furða sig margir eflaust á fyrirsögn þessarar færslu en hún er vegna þess að færslan á að fjalla um hann Bolla, stóra bróður minn. Aggú þýðir nefnilega stóri bróðir á kínversku og meimei er litla systir. Þetta lærði ég þegar ég heimsótti hann til Kína.
Ég hef haft áhyggjur af honum bróður mínum undanfarið þar sem hann í síðustu viku fór í aðgerð vegna krabbameins í blöðruhálskirtli. Læknarnir segja að aðgerðin hafi tekist mjög vel og 90% líkur á að hann muni ná sér algjörlega. Það er mikill léttir.
Bolli er 13 árum eldri en ég og var alltaf óskaplega góður við mig þegar ég var lítil. Hann bónaði alla íbúðina á laugardögum og þá fékk ég að sitja á bónkústinum. Bolli hafði Little Richard eða Elvis í botni á fóninum og svo tjúttuðum við systkinin um íbúðina í dúndrandi sveiflu.
Þegar ég var svona 6-7 ára byrjaði ógurlegt útstáelsi á honum bróður mínum. Hann var bara aldrei heima. Þetta kom sér reyndar alveg ágætlega fyrir mig því þá gat ég verið í herberginu hans, spilað plötur og lesið bækur. Bara passa sig að ganga rosalega vel um. Hann var og er þvílíkur snyrtipinni. Svo bættist það við að hann vildi alltaf vera ógurlega fínn svo ég hafði ágætis tekjur af að bursta skóna hans.
Eitt kvöldið þegar Bolli var ekki heima kom pabbi í land. Hann fór í bað og ég skrúbbaði á honum bakið eins og venjulega. Þetta var ekkert smáræðis bak svo ég var rennandi blaut að verki loknu. Mamma setti mig því í náttföt en pabbi fór í síðar hvítar nærbuxur og hvítan bol með ermum. Svo fórum við pabbi í bófahasar. Við hentumst um íbúðina æpandi og gólandi, ég á skrúbbnum og pabbi á kústinum. Við fórum hringinn á milli stofu og borðstofu og skemmtum okkur frábærlega. Þegar ég var í miðju skrensi á milli stofu og borðstofu steinþagnaði og snarstoppaði pabbi eins og hann hefði verið skotinn í alvörunni.
Ég fór að athuga hvað væri um að vera. Stóð þá ekki Bolli bróðir í forstofunni með unga dökkhærða stúlku upp á arminn. Við pabbi vorum hálfvandræðaleg. Mamma kom þá aðvífandi og reddaði málunum. Kynnti sig og okkur fyrir kærustunni og bauð henni að koma inn og fá kaffi. Svo rak hún pabba í föt en ég fékk að vera áfram á náttfötunum.
Þessi stúlka var hún Anna María Einarsdóttir sem átti eftir að vera mágkona mín í yfir 30 ár. Hún lét þessi fyrstu kynni ekkert á sig fá. Hún lést rúmlega fimmtug eftir erfiða baráttu við MND. Blessuð sé minning hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.11.2008 | 16:00
Blokkin og aulaskapur
Við, það er að segja við hjónin, Úlli og Birgitta barnabarn, fórum í leikhúsið í gærkvöldi að sjá Fólkið í blokkinni. Það var alveg rosalega gaman. Við skemmtum okkur öll frábærlega, meira að segja Úlli sem er með afbrigðum gagnrýninn og lætur sko ekki bjóða sér hvað sem er. Það er bara langt síðan ég hef skemmt sér svona vel í leikhúsi þótt mér finnist nú oftast nær gaman. Það var ungur leikari í þessu verki sem ég man ekki hvað heitir. Hann lék þroskaheftan ungling af þvílíkri snilld að maður bara gapti. Hann gerði unglingnum svo góð skil að maður skammaðist sín ekkert fyrir að hlæja að eða með honum. Hjartagæskan og einfeldnin komu svo vel í ljós að manni þótti bara virkilega vænt um hann. Aðrir leikarar stóðu sig líka mjög vel og lögin og textarnir voru meiri háttar eins og við var að búast hjá Ólafi Hauki. Ef þið eruð á leiðinni í leikhús mæli ég hiklaust með þessari sýningu.
Svo er það aulaskapurinn. Þegar ég var á leið heim úr vinnunni síðastliðið fimmtudagskvöld kom ég við í Nesti til að kaupa sígarettur, nammi og kók með sjónvarpinu. Það kemur strax afgreiðslumaður í lúguna og ég fer að telja upp fyrir honum hvað ég ætli að fá. Maðurinn stóð bara og starði á mig og brosti alltaf breiðar og breiðar en sagði ekki neitt. Ég skildi ekkert í þessari hegðun mannsins og byrjaði að ítreka það sem ég hafði sagt. Þá fattaði ég skyndilega að það var ekkert athugavert við manninn heldur mig. Mér hafði nefnilega alveg láðst að skrúfa niður rúðuna og það kjaftaði á mér hver tuska bak við lokaðan glugga. Ekta ég, fljótfærnin ríður ekki við einteyming.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.11.2008 | 17:52
Ættgengt trúleysi
Ég var ekki alin upp við trú. Messan var höfð á á aðfangadagskvöld, en það bara tilheyrði og enginn svo sem að hlusta. Systur mínar tóku að vísu eitthvert trúartímabil þegar þær voru 12-13 ára og vitanlega bitnaði það mest á mér. Í hvert skipti sem ég gerði eitthvað af mér, sem var oft, fékk ég að heyra að þá yrði Jesú lasinn. Ég var orðin svo leið á þessu að einn daginn þegar ég vissi upp á mig sökina hvessti ég á þær augun og sagði: Þessi Jesús getur bara lagt sig. Eftir það hættu þær að láta mig bera ábyrgð á heilsufari frelsarans.
Ég fermdist af því að allir aðrir gerðu það. Við vorum látin gera vinnubók og tók ég því eins og hverju öðru skólaverkefni og vandaði mig eftir bestu getu. Einnig var okkur gert að mæta í kirkju á hverjum sunnudegi og gerði ég það af mikilli samviskusemi. Rétt fyrir ferminguna vorum við látin skila bókunum til prestsins og fengum svo einkunn. Allir fengu 10 nema ég, ég fékk 8. Mér fannst þetta virkilega óréttlátt þar sem ég hafði lagt mig alla fram. Þegar ég spurði prestinn hverju þetta sætti fékk ég að vita að þetta væri vegna þess að foreldra mínir hefðu aldrei komið með mér til kirkju. Það skipti ekki máli að móðir mín var sjúklingur og faðir minn skipstjóri sem var sjaldnast heima. Ekki hresstist álit mitt á prestum eftir þetta.
Frænka mín ein er mjög trúuð, hvaðan svo sem hún hefur það, og fór alltaf í barnamessu í Bústaðakirkju með sinn strák sem er fjórum árum eldri en Úlli minn. Þegar Úlli var 3 ára fór þessi frænka mín, sem ég met mjög mikils, að benda mér á að mæta í messurnar með drenginn. Börn hefðu svo gaman af þessu og hefðu gott af því. Ég var vitanlega reiðubúin að gera nánast hvað sem er fyrir drenginn og mætti með hann þrisvar. Þegar ég ætlaði með hann í fjórða skiptið þverneitaði pilturinn. Það eru asnaleg lög og presturinn er leiðinlegur, tilkynnti þessi 3 ára gutti með þjósti. Það þarf varla að taka það fram að hann fermdist borgaralega í fyrra. Las grein eftir Hope Knútsson um borgaralegar fermingar þegar hann var 6 ára og eftir það varð honum ekki haggað, ekki að það hafi nokkuð verið reynt.
Ég er tvígift og bæði skiptin hjá borgardómara. Hefur aldrei langað til að vera eins og rjómaterta í kirkju. Mér og mínum hefur bara gengið vel í lífinu þrátt fyrir trúleysið. Ég hef lesið talsvert um trúarbrögð en aldrei fundið neitt sem höfðar til mín. Þannig að ég ætla bara að halda mínu striki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.11.2008 | 22:51
Kafteinn Helga
Þegar ég var svona 10 til 11 ára fórum við pabbi bara tvö á Sæborginni með frosinn fisk upp á Akranes. Boggan var hlaðin kössum með frosnum fiski og var blátt plast breitt yfir allt saman. Ég sé þetta fyrir mér enn þann dag í dag.
Þegar við vorum búin að sigla í smátíma bað pabbi mig að taka við stýrinu því hann þyrfti að bregða sér frá. Hann benti mér á tvö kennileiti sem ég skyldi taka mið af til að halda réttri stefnu. Ég var alveg óskaplega stolt yfir þessu trausti sem mér var sýnt og tók við stjórninni galvösk. Fyrst fannst mér þetta alveg rosalega gaman en svo fór mig að lengja eftir honum föður mínum.
Skortur á ímyndunarafli hefur aldrei háð mér svo eftir smástund var ég orðin sannfærð um að pabbi hefði dottið fyrir borð og drukknað. Ég fór að velta fyrir mér möguleikunum í stöðunni. Ég vissi að ef ég fylgdi leiðbeiningum pabba kæmist ég fyrr eða síðar upp á Akranes. Það var bara einn galli; ég kunni ekki að leggjast að bryggju. Eftir smástund komst ég að frábærri niðurstöðu. Þegar ég væri eiginlega alveg komin upp á Akranes myndi ég bara sigla í hringi þangað til ég yrði olíulaus. Þá myndi skipið stoppa af sjálfu sér og það kæmu örugglega einhverjir að bjarga mér og koma skipinu að bryggju. Ég var bara nokkuð sátt við þetta. Ótímabært andlát föður míns var seinni tíma vandamál.
Þegar ég var búin að reikna þetta allt saman út í huganum kom pabbi. Hann hafði farið niður í vélarrúm að sinna einhverjum erindum. Þegar ég spurði hann hvað hann hefði verið lengi í burtu sagði hann svona tíu mínútur. Ekki var nú endingin hjá kafteininum stutta lengri en þetta. En mikið ósköp varð ég glöð að sjá hann pabba þótt ég hefði nú alveg verið búin að greiða úr málunum ef allt hefði farið á versta veg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.11.2008 | 17:00
Mamma norn
Þegar ég var krakki var það árviss viðburður að fara í tjaldferðalag vestur á firði og þá í Súðavík við Álftafjörð en þá var pabbi að fara "heim". Þetta voru alveg rosalega skemmtileg ferðalög, það tók alveg tvo daga á þessum tíma að komast vestur svo við tjölduðum á leiðinni. Pabbi gat aldrei verið án þess að veiða fisk, en ekkert hefði getað fengið hann til að veiða á stöng. Innst í Álftafirðinum, þar sem við tjölduðum, rann á út í fjörðinn og í mynni hans var oft mikill silungur. Pabbi hafði alltaf með sér net og fékk svo lánaðan bát á bæ sem mig minnir að heiti Dvergasteinn. Þetta voru mjög frumlegar veiðiferðir. Ég var látin vaða út í sjó alveg upp að höku og halda í endann á netinu, svo reri pabbi í kringum mig með hinn endann og eftir því sem aflinn jókst þyngdist netið og ég átti erfiðara með að halda nefinu upp úr sjónum. Alveg merkilegt að honum skyldi ekki takast að drekkja mig, mér fannst oft muna ansi litlu. Við veiddum oft vel og þá var aflinn keyrður inn í Súðavík og allir fengu silung. Við vorum mjög vinsæl á þessum slóðum.
Eitt árið, ætli ég hafi ekki verið um fermingu, gerðist dálítið merkilegt. Í fyrsta lagi varð ég vitni að því í fyrsta og eina skiptið á ævinni að foreldrum mínum yrði sundurorða. Þarna voru rústir af gamalli rétt og við höfðum alltaf tjaldað við hana þeim megin sem fjallið var. Nú bar svo við að mamma tók ekki í mál að tjalda þar. Hún vildi tjalda hinum megin við réttina. Pabbi var vanafastur og vildi tjalda á sama stað og venjulega. Þau kýttu um þetta dágóða stund en vitanlega vann mamma og við tjölduðum þar sem hún vildi.
Um nóttina vöknuðum við við gríðarlegan hávaða. Við vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið, rukum upp úr svefnpokunum og út. Þá kom í ljós að stór grjótskriða hafði fallið úr fjallinu og þar sem við vorum vön að tjalda var allt fullt af risastórum steinhnullunum, hálfgerðum björgum. Við stóðum þarna öll þrjú og störðum, það fór ekkert á milli mála að ef við hefðum tjaldað á sama stað og áður hefðum við í besta falli stórslasast og að öllum líkindum látið lífið. Við vorum langt frá bæjum og mannabústöðum þannig að enginn hefði komið að okkur fyrr en daginn eftir. Pabbi stóð þögull og horfði á grjótið og mömmu til skiptis og sagði svo: Ertu norn, Kristjana? Ég held að þetta hafi verið í fyrsta og síðasta skiptið sem hann pabbi mótmælti henni mömmu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar