Et tu, Brute

Alltaf kemur meiri og meiri skítur upp á yfirborðið í þessum bankamálum öllum. 25. september ákvað stjórn Kaupþings að starfsmenn bankans þyrftu ekki að standa skil á skuldum sínum við hann vegna hlutabréfakaupa. Strax eftir það byrjaði gengi hlutabréfanna að lækka án þess að veðkall væri framkvæmt. Formaður VR er í stjórn Kaupþings. Þar hafði hann notað peninga Lífeyrissjóðs verslunarmanna til að kaupa hluti í bankanum. Hann er líka yfirmaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Hann segir að ekki hafi borgað sig að gera veðkall og láta starfsmenn selja bréfin sín til að hafa upp í kröfuna. Það gæti skapað ótta meðal almennings þar sem tilkynna þurfi Kauphöll ef starfsmenn banka selja bréf sín. Það varð nefnilega að passa að almenningur fengi ekkert fyrir sinn hlut ef illa færi. Eitthvað vissu þeir sem við hin vissum ekki. Þessi verkalýðsforkólfur er með yfir 1.800 þúsund á mánuði fyrir það að semja um skítleg lágmarkslaun félögum sínum til handa og sitja í stjórn Kaupþings. Er allt landið orðið ein ormagryfja hvaðan pestina leggur um allt? Ég gæti gubbað.

Ein góð frétt til að bæta upp þetta kreppumal. Úlli minn er tilnefndur til íslenskuverðlauna Menntaráðs fyrir hönd Vogaskóla. Þetta barn er vitanlega ekkert nema helber hamingjan.


Vér mótmælum allir

Endilega mæta á mótmælafundinn á laugardaginn klukkan 15. Sameinuð stöndum vér og allt það. Allir að drífa sig og KOMA SVO!

Ég trúi Björgólfi

Alls staðar þar sem Davíð Oddsson kemur við sögu líður hann ekkert annað en eigið einveldi og algjöra hlýðni þeirra sem með honum starfa. Hann hefur troðið vinum og ættingjum í dómarastöður þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið metnir hæfastir. Hann rauk til og tók stóflustunguna að Ráðhúsinu án þess að spyrja kóng eða prest og hann gerði okkur meðsek í innrás Bandaríkjanna í Írak án þess að ráðfæra sig við einn eða neinn. Og svo mætti lengi telja.

Hatur Davíðs á Baugs- og Björgólfsfeðgum hefur ekki farið framhjá neinum. Ég trúi því að hægt hefði verið að komast hjá miklu af þeim hörmungum sem yfir okkur hafa dunið ef Davíð hefði ekki verið svo blindaður af hatri á þessum óvinum kolkrabbans að hann sást ekki fyrir. Eða kannski að honum hafi verið fullljósar afleiðingar gjörða sinna. Þetta snertir hann vitanlega ekki neitt. Rassgatið á honum er varið í bak og fyrir af eftirlaunalögunum alræmdu. Nú reyna hann og hans undirsátar allt sem  hægt er til að fá þjóðina til að fá sömu óbeit á Björgólfs- og Baugsfeðgum og þeir hafa sjálfir. Skítt með afleiðingarnar fyrir íslenskan almenning bara svo lengi sem hægt er að koma höggi á þessa tvenna feðga.

Björgólfs- og Bónusfeðgar eru mjög færir bisnessmenn sem hefði eflaust tekist að bjarga málum ef rétt hefði verið á þeim tekið. Björgólfur Thor getur varla logið upp á bresk yfirvöld og formann efnahagseftirlitsins þar án þess að Bretar láti í sér heyra. Seðlabankinn vissi af flýtimeðferðinni sem Bretar höfðu lofað Landsbankanum til að koma honum til bjargar. Það hentaði bara ekki Davíð að koma þessum óvinum sínum til hjálpar. Skítt með afleiðingarnar og íslenskt þjóðarbú.

Í dag tilkynnti Davíð um 50% hækkun stýrivaxta. Hækkun sem á eftir að skella á fyrirtækjum og heimilum þessa lands af miklum þunga. Þegar hann tilkynnti þessi alvarlegu tíðindi var hann með aulafyndni og stæla eins og menntaskólastrákur. Vitnaði í Gleðibankann og gerði grín að mótmælendum. Aðspurður hvort þessi hækkun gæti ekki orðið til að eyðileggja orðspor Íslands enn frekar sagði hann skælbrosandi: "Það sér ekki á svörtu."

Viljum við að þessi maður haldi áfram að bera ábyrgð á fjöreggi okkar og afkomenda? Ég segi nei. Burt með mannfýluna.


Fótaskortur á tungunni

Allir í minni fjölskyldu eru alveg ótrúlega mælskir og fljótfærir. Svo rammt kveður að þessu að við förum stundum fram úr okkur í öllum æsingnum við að komast nú örugglega að.

Amma mín fór einu sinni sem oftar í leikhús. Þegar hún kom heim sagði hún upprifin: "Mikið óskaplega er hann Lénharður leikrit gott fóget."

Pabbi minn blessaður var nú ekki sá alhandlagnasti þegar kom að því að flikka upp á eitthvað á heimilinu. Samt ákvað hann einu sinni að dúkleggja baðið. Fór í búð og keypti dúk og annað tilheyrandi og ætlaði svo að hefjast handa um kvöldið. Þá kom í ljós að honum hafði alveg láðst að kaupa dúkahníf. Hann lét það nú ekki aftra sér og ákvað að nota bara rakvélablað. Svo hófst hasarinn, pabbi kallaði á mömmu á fimm mínútna fresti til að biðja hana um að halda við þetta og aðstoða hann við hitt. Mamma varð að lokum þreytt á þessu og spurði pirruð hvort þau ættu ekki bara að fá dúkara daginn eftir. Þá móðgaðist pabbi og hreytti út úr sér: "Hvenær hefur þú séð dúkiblað með rakilagt?"

Kallý móðursystur minni þótti ákaflega góður bjór. Þetta var á þeim árum sem bara sjómenn í siglingum fengu bjór. Mágur hennar, hann Tobbi, fór í siglingu og Kallý tókst að plata út úr honum bjór. Þegar maðurinn hennar kom heim um kvöldið sagði hún hróðug: "Heldurðu að ég hafi ekki bjórað hann dobl um tobb!"

Ég og Matta systir fórum saman í sund og á eftir fórum við heim til hennar að fá okkur eitthvað að borða. Hún leitaði í ísskápnum og sagði svo: "Við getum auðvitað kjúklað í kaldan kroppling."

Þegar ég var svona 14-15 var Rán systurdóttir mín 6-7 ára. Einhvern tíma var ég að rella í pabba um eitthvað sem ég vildi fá. Þá kom Rán brunandi og sagði: "Ég líka, ég líka, afi má ég líka." Svo sneri hún sér að mér: "Helga, hvað varstu að biðja um?"

Svo einn að lokum, hann tengist ekki ættingjum mínum en er samt í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir meira en 20 árum sinnaðist mér allverulega við kollega minn. Við lentum í hávaðarifrildi sem endaði með því að hann leit á mig alveg virkilega sár og sagði: "Mér sem hefur alltaf líkað svo vel við þig og svo ertu bara úlfur með lambhúshettu." Rifrildið endaði vitanlega í algjöru hláturkasti og enn man ég ekki út af hverju rifrildið var.

Þeir sem vilja fá skýringar á þessum ambögum hér að ofan geta beðið um þær í kommentakerfinu.


Ég elska leikhús

Það er sagt að fólk fari sjaldan eins mikið í leikhús og í kreppu. Ég held að þetta hljóti að vera alveg satt því ég var að panta leikhúsmiða fyrir fjölskylduna og við fáum ekki miða fyrr en eftir sex vikur. Við ætlum að fara að sjá Fólkið í blokkinni og Hart í bak.

Mikið óskaplega hlakka ég til að sjá Hart í bak. Frá því ég var krakki hef ég verið sannfærð um að það hljóti að vera merkilegasta leikrit í heimi. Mamma og pabbi voru mikið leikhúsfólk og fóru oft þegar pabbi var í landi. En þegar ég var svona 6-7 ára var verið að sýna Hart í bak í Iðnó með Brynjólf Jóhannesson í aðalhlutverki. Það var mikið rætt um þetta leikrit og ágæti þess heima hjá mér. En það gekk ekkert að fá miða með skömmum fyrirvara þegar pabbi var heima. Svo mamma pantaði bara miða og svo kom pabbi heim morguninn fyrir sýningu þótt túrinn væri ekki búinn og þau fóru í leikhúsið um kvöldið og pabbi aftur út á sjó um nóttina. Að pabbi skyldi koma heim til að sjá tiltekið leikrit var þvílík tíðindi að mig hefur dreymt um þetta leikrit í bráðum 50 ár. Og loksins er komið að því. Svo fannst mér alltaf svo hátíðlegt þegar þau fóru í leikhús. Þá fór mamma í sparikjól og pels og pabbi í jakkaföt sem hann fór annars ekki í nema á jólunum. Alvöru viðburður á heimilinu og svo var farið að taka mann með og það var ennþá skemmtilegra að fá að sjá alvöru sýningar ekki bara barnaleikritin.

Ég ræð mér varla fyrir tilhlökkun að sjá Hart í bak. Loksins, loksins.


Hvern fjandann er fólkið að meina?

Starfs míns vegna neyðist ég til að lesa kreppufréttir daginn út og daginn inn. Auðvitað finnst mér þetta alveg hræðilegt og allt það en það er eitt sem ég skil ekki. Flestir tala um að nú sé kominn tími til að sinna börnunum sínum, fjölskyldu og vinum. Hvað í andskotanum heldur þetta fólk að íslenskur almenningur hafi haft fyrir stafni? Skyldi það ætla að við höfum verið viti okkar fjær og stigið trylltan dans í kringum gullkálfinn á meðan börnin okkar, vinir og ættingjar lágu óbættir hjá garði? Umkomulausir og einmana þar sem enginn hafði nokkurn tíma fyrir þá?

Ég sjálf og allir sem ég þekki hafa nú verið uppteknir af því að vinna fyrir sér, að vísu ekki að vinna fyrir bankastjóralaunum heldur bara svona til að eiga fyrir salti í grautinn. Þessi sauðsvarti almúgi sem ég þekki hefur bara hugsað vel um börnin sín, takk fyrir. Hringt í vini og ættingja og heimsótt þá jafnvel ef sérlega vel hefur legið á fólki.

Mér finnst þessi umræða gjörsamlega fáránleg. Það er verið að slá ryki í augun á okkur með því að við getum nú gert svo margt gott og nytsamlegt þótt búið sé að ræna okkur aleigunni og marga starfinu. Nú þakkar maður fyrir það helst að hafa þó vinnu. Það er verið að koma inn hjá okkur samviskubiti, að við höfum nú ekki hugsað sem best um þá sem næst okkur standa. Nú þegar við erum orðin atvinnulaus og blönk getum við allavega gefið okkur tíma að sinna börnunum í stað þess að æsa okkur yfir því að það sé búið að svipta okkur aleigunni og atvinnunni. Við eigum nefnilega ekkert að vera að velta okkur upp úr því hver sé ástæðan fyrir þessum hremmingum, við erum hvort eð er svo vitlaus að við munum aldrei geta skilið að þetta var eiginlega alveg óvart og mönnum í útlöndum að kenna. Hvað er svo sem að marka einhverja aumingja sem eiga ekki einu sinni part í þyrlu?

Ég fyrir mína parta ætla að halda áfram að sinna börnunum mínum, ættingjum og vinum. En ég ætla líka að vera reið, alveg fjúkandi vond, og ekki hætta fyrr en ég hef fengið svör við því hvernig í andskotanum allt gat farið hér til helvítis á einni nóttu.

Afsakið orðbragðið.


Hvar er Úllinn minn?

Um helgina var vinnuhelgi hjá mér. Nú er ég á kvöldvakt. Ég hef varla séð Úllann minn síðan í síðustu viku. Ég er sofandi þegar hann fer í skólann. Hann kemur heim um það leyti sem ég er að fara í vinnuna eða er farin. Ég sakna hans.

Hann er alveg á útopnu þessa dagana. Á kafi í stuttmyndagerð í skólanum og öðru félagsstarfi. Um daginn á Degi erlendra tungumála tók hann þátt í keppni um bestu örsöguna á ensku. Hann fékk önnur verðlaun, snillingur þessi drengur. Svo kynntist hann einhverjum krökkum í Háteigsskóla. Krökkunum fannst hann svo skemmtilegur að nú er búið að ráða hann sem kynni á stuttmyndahátíð í Háteigsskóla. Krakkarnir fóru til skólastjórans og fengu leyfi til að ráða kynni utan skólans. Einn galli samt, Úlli hefur ekki hugmynd um hvar Háteigsskóli er. Við verðum að fara að vinna í því.

Svo er síminn til hans í 90% tilfella sem síminn hringir. Hann fer þó alveg eftir því að koma ekki seinna heim en klukkan 12. Hringir alltaf og lætur vita hvar hann er. Ennþá.

Ég sé samt svo mörg merki um að hreiðurböggullinn minn er að verða stór. Verð að nota tímann á meðan hann er enn "barn". Áður en ég veit af verður hann orðinn fullorðinn og fluttur að heiman. Fæ léttan sting í hjartað þegar ég hugsa um það. Nota tímann. Nota tímann.

Í sambandi við að hann flytji að heiman verð ég að segja einn brandara af prinsinum mínum. Hann var 4 ára þegar Styrmir flutti að heiman. Úlli spurði af hverju hann væri fluttur. Ég sagði honum að þegar strákar væru orðnir stórir trúlofuðu þeir sig og flyttu i Hafnarfjörð. Hann hugsaði sig um smástund og sagði svo: "Heldurðu nokkuð að pabbi fari að trúlofa sig og flytja í Hafnarfjörð?" Leit greinilega á pabba sinn sem þriðja strákinn á heimilinu.

Augasteinninn minn er þvílík "gull og gersemi, gimsteinn elsku ríkur, hann er djásn og dýrmæti, Drottni sjálfum líkur" (Sölvi Helgason). Ætla að kyssa hann þegar ég kem heim hvort sem hann verður vakandi eða sofandi.


Ég er alveg öskureið

Eins og fram hefur komið slasaðist maðurinn minn mjög illa til sjós fyrir 8 árum og hefur verið öryrki síðan. Við það skertust tekjur okkar fjölskyldunnar um 75% einn, tveir og þrír. Hann fékk síðan skaðabætur eftir dúk og disk. Við ákváðum að nota peningana til að gera það við gamla húsið okkar sem þurfti að gera og ferðast svo og njóta lífsins.

Margir í kringum okkur voru hneykslaðir á að við skyldum ekki kaupa okkur stærra og flottara húsnæði en okkur líður bara vel þar sem við erum, þó gamalt sé. Sem betur fer eyddum við ekki í meira og stærra húsnæði því við hefðum þá líklega orðið að taka lán. Við fjárfestum peningana eftir ráðleggingum bankans okkar og hefur það til þessa bara verið allt í lagi. Þangað til núna. Núna er allt horfið sem við áttum eftir. Hlutabréfin bara fuðruðu upp og það sem við áttum á reikningi hefur vitanlega gufað upp með gengisfallinu. Ég er í rauninni alveg rosalega fegin hvað við höfum eytt miklu í "vitleysu" eins og sumir vildu meina, það er ferðast víða og skemmt okkur vel fjölskyldan. Ef við hefðum verið "hagsýn" og lúrt á peningunum hefðum við bara tapað ennþá meiru. Við búum sem sagt ekki flott, erum ekki á flottum eða rándýrum bíl, eigum bara einn bíl, tókum ekki þátt í neyslubrjálæðinu nema að endurnýja það sem þurft hefur og ferðast, samt er allt horfið.

Það er samt einn ljós blettur í þessu öllu saman. Fyrir tíu árum keypti frænka mín sér íbúð í London. Ég tók fyrir hana lífeyrissjóðslán sem við höfum borgað af hérna heima en hún borgað inn á sparnaðarreikning fyrir okkur í Englandi á móti. Nú er þetta svo til það eina sem við eigum eftir, fyrir utan íbúðina og bílinn. Ef þetta verður ekki fryst eins og eigur Íslendinga á Bretlandi.

Lífeyrissjóðirnir tóku á sig þungt högg í þessum hremmingum öllum, þannig að líklega munu bæturnar sem maðurinn minn fær minnka fljótlega. Á meðan eru allir pótintátarnir á margföldum eftirlaunum sem skerðast ekki um krónu. Ætlaði Samfylkingin ekki að ganga í að fá þeim lögum breytt ef hún kæmist til valda? Ég kaus Samfylkinguna en ætla að kjósa vinstri græna næst. Það kemur ekkert annað til greina.

Nú skiljið þið væntanlega vælutóninn í afmælisblogginu. Ég er ekki alveg búin að jafna mig á þessu öllu saman. En ég er reið, alveg öskureið, og finnst ég hafa fulla ástæðu til að vera það.


Til hamingju tengdafeðgin

Maðurinn minn og tengdadóttir eiga afmæli í dag. Hún er 36 ára og hann er 48 ára. Þau eru bæði alveg rosalega ágæt og sýna hvað við Styrmir erum snjöll við að næla okkur í maka. Allavega svona í seinni umferð.

Undanfarin ár höfum við Stjáni alltaf boðið Styrmi og Maju út að borða í tilefni af afmælinu þeirra, flott að geta skellt því bara svona saman. Nú er svo komið að við höfum ekki efni á því. Það er barasta fáránlegt hvað allt er orðið dýrt. Í staðinn fyrir að fara út að borða á einhvern huggulegan stað get ég í besta falli splæst á þau einni bloggfærslu.

Stjáni keyrði mig í vinnuna fyrir bráðum 12 tímum. Ég fattaði ekki hvaða dagur er fyrr en ég las frétt um Yoko og John og friðarsjóðinn, John á nefnilega líka afmæli í dag. Ég ætla ekkert að hringja í Stjána til að óska honum til hamingju. Finnst hálfhallærislegt að óska manninum mínum til hamingju með daginn í gegnum síma. Hann les ekki blogg, ekki einu sinni mitt, svo að ég þarf engar áhyggjur að hafa að hann laumist hér inn og sjái ótímabærar hamingjuóskir. En ég ætla að hringja í hana Maju mína sem er yndisleg tengdadóttir og hefur gefið mér tvær frábærlega fallegar og vel gerðar sonardætur. Hún á heiður skilinn fyrir það.

Kannski að maður splæsi í að fara út að borða annað kvöld? Er maður ekki alveg jafndauður þótt maður skelli sér út að borða svona endrum og eins? Eða hvað? Vorum að fá kreditkortareikningana fyrir utanlandsferðina í ágúst. Merkilegt hvað þessi kort spænast upp í útlöndum. Æ, ég sé bara til. Mér finnst samt þau alveg eiga skilið að fá smádekur í tilefni dagsins. Þessar elskur. Ætla að sofa á því.

Allavega óska ég þeim báðum til hamingju með daginn og vonandi eiga þau eftir að eiga marga góða afmælisdaga. Heart Wizard Heart


Einelti af verstu sort

Fyrstu þrjú árin mín í barnaskóla voru frábær. Ég var í besta bekk, sem þótti þá heilmikið mál, og við höfðum frábæran kennara, hana Huldu Friðriksdóttur. Mér gekk vel í skólanum, samdi vel við skólafélagana og var bara yfirhöfuð glatt og hamingjusamt barn. Þegar ég byrjaði í 10 ára bekk var draumurinn búinn. Skólinn varð að hreinustu martröð.

Hulda hætti og við bekknum tók miðaldra karlmaður, Kristján Jónsson, feitur kall með yfirgreiddan skalla. Fljótlega kom í ljós að bekknum var skipt í þrjá hluta. Fyrst voru það uppáhöldin, þrír krakkar sem var endalaust hrósað og hampað og komust upp með allt. Svo var það hinn þöguli meirihluti sem var bara komið afskaplega eðlilega fram við. Og síðan voru það við Baldur.  Það var ekki liðið langt af vetrinum þegar það varð lýðum ljóst að Kristján hataði okkur Baldur. Hann talaði aldrei við okkur. Hann öskraði á okkur. Þegar hann gekk framhjá okkur annaðhvort sló hann til okkar eða hristi okkur. Öll heimaverkefni sem við skiluðum voru ómöguleg og við þurftum endalaust að gera allt upp á nýtt. Til dæmis lét hann mig skrifa heila þykka stílabók af stóru N. Allir hinir krakkarnir voru löngu búnir með stafrófið í skrift á meðan ég var enn að skrifa N. Enn þann dag í dag fer um mig ef ég þarf að skrifa stórt N. Svo lét hann okkur sitja reglulega eftir þótt við hefðum ekkert af okkur. Við gerðum aldrei neitt af okkur því við vorum dauðhrædd við hann og eins og mýs undir fjalaketti og létum ekki á okkur kræla.

Einu sinni lét hann Baldur sitja uppi við töflu og gekk reglulega að honum, reif í hárið á honum og sló höfðinu á honum við vegginn. Allur bekkurinn sat stjarfur og enginn þorði að segja múkk. Við vorum öll miður okkar út af þessari meðferð. Svo eitt sinn þegar við vorum í röð fyrir framan stofuna okkar kom hann og reif í mig, dró mig að dyrunum og henti mér inn í kennslustofuna. Hann reif í mig og hristi mig þannig að það glömruðu í mér tennurnar. Hann var eldrauður í framan, trylltur af bræði og öskraði og frussaði á mig. Ég var lömuð af hræðslu og ætlaði aldrei að skilja hvað hann væri að fara. Loks tókst mér að skilja að ég hafði gengið of hægt niður tröppurnar á leiðinni út í frímínútur. Þetta er bara smásýnishorn af framkomu þessa "kennara".

Ég sagði ekkert heima. Mamma tók samt eftir því að ég var mikið breytt og reyndi að fá það upp úr mér hvað væri að. Loks sagði ég henni alla söguna, hágrátandi í fanginu á henni. Þegar ég var búin að segja frá leit ég á mömmu. Ég hafði aldrei séð hana svona fyrr. Hún var snjóhvít í framan og munnurinn á henni var eins og strik. "Það verður eitthvað gert í þessu, Helga mín, það máttu bóka." Svo fór hún í símann og pantaði viðtal við skólastjórann sem hún fékk morguninn eftir.

Daginn eftir kom skólastjórinn og bað Kristján um að tala við sig. Ég vissi að mamma væri inni hjá skólastjóranum og fékk dúndrandi hjartslátt. Kristján var lengi í burtu og kom brjálaður til baka. Hann reyndi að stilla sig en skalf og nötraði og það bogaði af honum svitinn. Þegar ég kom heim sagði mamma mér að þegar skólastjórinn krafði Kristján skýringa á þessu framferði hefði hann sagt að ég setti upp svo mikinn þrjóskusvip þegar ég væri skömmuð og færi aldrei að gráta. Hann þoldi það sem sagt ekki að honum tókst ekki að græta mig.

Í dágóðan tíma eftir þetta var ég ekki til. Hann lét eins og hann sæi mig ekki og tók ekki við heimaverkefnunum mínum. Mér var slétt sama, bara að hann léti mig í friði. En aumingja Baldur fékk vitanlega tvöfalda útreið þegar ég var sloppin. En Kristján gat vitanlega ekki stillt sig lengi. Einn daginn sleppti hann sér og lét okkur Baldur sitja eftir að ástæðulausu eins og venjulega. Fór fram og læsti okkur inni. Þá var ég búin að fá nóg, ég fór út um gluggann og heim. Það var aldrei minnst á þetta strok mitt og áfram var ég ekki til.

Hvað var svo gert í þessu máli? Þegar við byrjuðum í 11 ára bekk var búið að taka mig úr besta bekk og færa mig niður og Kristján hélt áfram að kenna MÍNUM bekk! Mér var sem sé refsað fyrir þessa hegðun Kristjáns. Ég hef í rauninni aldrei fyrirgefið honum Helga Þorlákssyni skólastjóra þetta.

Einum tíu árum síðar var ég stödd inni á kvennaklósetti í Klúbbnum sáluga. Þá kom til mín stelpa sem spurði hvort ég héti ekki Helga. Þegar ég sagði svo vera sagði hún mér að hún væri systir hans Baldurs og sagði að hann væri enn að tala um það hvað hann hefði dáðst að mér þegar ég fór út um gluggann og sæi alltaf eftir að hafa ekki farið með mér. Ég bað kærlega að heilsa Baldri en ég hef ekki séð hann síðan í Vogaskóla í gamla daga. Ég vona að hann hafi jafnað sig á þessari meðferð eins og ég.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband