28.9.2008 | 18:17
Dúkkan sem ÉG átti að fá
Þegar ég var krakki sigldi pabbi með aflann til Bretlands svona tvisvar þrisvar á ári. Það var alveg rosalega gaman þegar hann kom heim því hann gat keypt svo margt í útlöndum sem fékkst ekki hér þá, til dæmis sælgæti og niðursoðna ávexti. Ég hef líklega verið 7 ára þegar pabbi fór í eina siglinguna og hafði ég tekið af honum loforð um að kaupa handa mér stóra og flotta dúkku.
Ég hlakkaði mikið til þess að pabbi kæmi heim og loks rann stóri dagurinn upp. Við Bolli bróðir fórum niður á bryggju til að sækja pabba og dúkkuna. Þegar ég kom um borð tók pabbi mig á handlegginn og fór með mig upp í skipstjóraklefa. Þegar þangað kom sagði hann mér að einn af skipverjum hans hefði farið á fyllirí og lent í slagsmálum og væri nú á spítala í Aberdeen. Mér fannst mér svo sem ekkert koma þetta við. En þá bætti pabbi við: "Hann á stelpu sem er jafngömul þér og hún er komin til að sækja pabba sinn og það er enginn pabbi. Við skulum þess vegna láta hana hafa dúkkuna þína og sælgæti og segjum að það sé frá pabba hennar. Ég lofa því að bæta þér þetta upp, Helga mín." Ekki var ég hrifin af þessu en samþykkti samt. Ég vorkenndi nefnilega stelpunni að hafa ekki fengið pabba sinn.
Þegar við komum út á dekk sá ég stelpuna með dúkkuna. Þetta var flottasta dúkka sem ég hafði á ævi minni séð. Ég varð gjörsamlega miður mín. Villi kokkur sá að ég var eitthvað óhress og tók mig í fangið. Þá fór ég að hágrenja. Þegar ég var búin að orga úr mér mesta ofstopann fór ég að hjálpa til við að bera dót upp í bíl og við fórum heim. Dúkkulaus.
Daginn eftir fór pabbi í bæinn og ég út að leika mér. Þegar ég kom heim var pabbi líka kominn heim og sat inni í eldhúsi. "Helga mín, farðu inn til þín og búðu um rúmið þitt," sagði pabbi. Mig rak í rogastans. Ég hafði aldrei á ævinni búið um rúmið mitt og síðan hvenær fór hann pabbi að skipta sér af heimilisverkunum? Ég var svo hissa að ég fór bara þegjandi og hljóðalaust inn til mín að búa um. Þegar ég kom inn sá ég að stóra sængin hans pabba var í rúminu en ekki litla sængin mín. Ég kippti sænginni af rúminu og þá kom í ljós splunkunýtt rautt DBS-hjól. Ég sleppti mér næstum af hamingju, þetta var flottasta hjól sem ég hafði séð. Ég hljóp fram í eldhús og kyssti og faðmaði pabba. Svo fór Bolli bróðir með mig út og kenndi mér að hjóla. Pabbi hafði sko sagt satt, ég fékk dúkkuna bætta. Svo má að lokum geta þess að ég fékk frábæra dúkku nokkrum mánuðum síðar þegar pabbi fór í næstu siglingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.9.2008 | 22:45
Elsku mamma mín
Hún Kristjana Skagfjörð mamma mín hefði orðið níræð í dag hefði hún lifað Það eru 30 ár síðan hún dó og ég sakna hennar enn. Stundum horfi ég á Stjána og Úlfar og skil ekkert í því hvernig ég get átt eiginmann og son sem hún sá aldrei og þeir misstu alveg af því að kynnast henni.
Þegar ég var lítil öfundaði ég eldri systkini mín, en ég er langyngst af sex. Þau fengu að vaka lengur en ég og mér fannst að allt sem hefði merkilegt gerst í fjölskyldunni hefði gerst áður en ég fæddist. En svo sneri ég á þau. Þegar ég var átta ára voru þau öll flutt að heiman og farin til útlanda í nám og ég hafði mömmu alveg út af fyrir mig því pabbi var alltaf á sjónum. Mamma var heilsulaus og oft rúmliggjandi. Við kipptum okkur nú ekki mikið upp við það. Ég gerðist bara rúmliggjandi líka og við lágum í rúminu og spiluðum eða lásum, annaðhvort hvor í sínu lagi eða fyrir hvor aðra, eða bara spjölluðum saman. Ég man sérstaklega eftir einu kvöldi. Þá hafði ég tekið bók á bókasafninu sem hét Nýi drengurinn. Þegar ég byrjaði að lesa hana var hún svo fyndin að ég varð að láta mömmu njóta hennar líka. Ég las fyrir hana alla bókina með tilheyrandi hlátursrokum. Ekki man ég kvað klukkan var þegar við fórum loks að sofa máttlausar af hlátri en það hefði ekki talist kristlegur tími á mörgum heimilum.
Svo svaf ég vitanlega í pabba rúmi þegar hann var á sjónum. Ég man eftir að hafa rumskað við djúpu röddina hans þegar hann kom heim á nóttinni: Er nú köttur í bóli bjarnar? Svo var ég hafin á loft og borin inn í mitt rúm. Þetta eru alveg ótrúlega góðar minningar. Þó svo að ég hafi verið allt annað en heilsulaus tók ég þennan sið upp með mínum strákum. Við fórum snemma upp í þegar pabbi þeirra var á sjónum og spiluðum og lásum. Eitt annað sem við mamma áttum til að gera, en það var að læða okkur fram í eldhús um miðjar nætur og hita okkur kakó og fá okkur brauð með rabarbarasultu með. Nammi, það er ekki nema von að maður sé bústinn í dag.
Þegar eldri systkini mín voru að alast upp var pabbi að ströggla við að koma útgerðinni á laggirnar og voru því til minni peningar þá. Þegar ég var að komast á löppina var aftur á móti allt komið á lygnan sjó og fjárráðin orðin mun meiri. Systkini mín halda því fram að ég hafi verið ofdekraðasta kvikindi norðan Alpafjalla. Svo var annað, þar sem þau eru svo miklu eldri en ég var hugtakið unglingur ekki til, það var hreinlega ekki búið að finna það upp.
En ég varð sko unglingur. Ég dauðskammast mín þegar ég hugsa til baka og hugsa um hvað ég var ógeðslega frek og tillitslaus við hana mömmu á þessum árum. Aumingja mamma var að reyna að setja mér einhverjar reglur, en ég vitlaus úr frekju og ofdekruð, sérstaklega af pabba og Bolla bróður, hlustaði ekki á hana frekar en kötturinn. Og ekki bætti úr skák að þegar pabbi kom í land lét hann allt eftir mér og jós í mig öllum peningum sem mér datt í hug að biðja um. Ég held að honum hafi bara þótt svo gaman að geta loksins dekrað við eitthvað af börnunum og svo held ég að hann hafi einvhern veginn skilið þennan tíðaranda og skilið að maður þurfti að fylgja straumnum til að vera gjaldgengur.
Þetta unglingastand tók sem betur enda og aftur urðum við mamma bestu vinkonur í heimi. Þegar ég fór út á djammið vakti hún alltaf eftir mér og ég sagði henni hvernig hefði verið og svona. Ef hún var sofnuð þegar ég kom heim móðgaðist ég hreinlega, var manneskjunni bara alveg sama um hvað á daga mína hefði drifið? Svo fékk hún bara skýrsluna daginn eftir.
Við tölum stundum um þetta systurnar. Þau voru svo mörg í einni hrúgu en þar sem ég var minnst var ég sú eina sem fékk að hafa hana alveg út af fyrir mig. Það voru yndisleg ár og ég er afar þakklát fyrir þau.
Til hamingju með daginn, mamma mín, hvar sem þú ert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
23.9.2008 | 17:15
Ég bý með He-Man!
Við hjónin horfðum á Kompásþáttinn í gærkvöldi eins og hálf þjóðin. Þegar kom að því að handrukkarinn réðst á fórnarlambið og lét höggin og spörkin dynja á því, kveinkaði mannauminginn sér vitanlega. Þá heyrðist með megnustu fyrirlitningu frá tveggja metra togarajaxlinum fyrrverandi: "Hvað er hann að væla eins og kelling?" Mér svelgdist á kókinu mínu og hugsaði með mér að það hafi verið eins gott að hann var úti á sjó þegar Úlfar fæddist. Ég held nefnilega að við þær viðstæður hafi ég leyft mér að væla aðeins, eiginlega svona eins og kelling sko. Ekki má maður láta standa sig að slíku.
Það má þó telja honum til tekna að eftir að hafa verið viðstöðulaust kvalinn efir alvarleg slys í átta ár hefur hann ekki kvartað einu sinni. Aldrei. Svona kallar hafa kannski afsökun fyrir því að vera svolítið macho.
Svo er hann einstaklega liðtækur í því að hrósa mér og slá mér gullhamra. Þegar við kynntumst var ég með slétt hár niður á mitt bak. Þegar við vorum nýgift tók ég mig til og fékk mér permanent í þetta síða hár og fannst ég algjört æði. Þegar He-Man kom í land var það vitanlega fyrsta sem ég gerði að spyrja hann hvað honum fyndist um nýju hárgreiðsluna. Hann horfði á mig smástund og sagði: "Þú gætir fengið hlutverk í kvikmynd." Ég uppveðraðist öll vegna þessara orða sem ég taldi hrós. En þá bætti ástmögurinn við: "Þú gætir leikið tannburstann í Karíus og Baktus."
Svo mörg voru þau orð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.9.2008 | 13:33
Fatlaða stúlkan í siglingunni
Þegar við fjölskyldan vorum í siglingunni var alltaf borðað á sama tíma, maður sat alltaf við sama borðið með sama fólkinu og hafði sömu þjónana. Þetta var æðislegt. Maturinn um borð var sá besti sem við höfðum nokkru sinni bragðað og brá aldrei út af því. Alltaf öðru hverju voru svokallaðir formlegir skipstjórakvöldverðir. Þá mættu konurnar í síðkjólum og karlarnir í jakkafötum eða smóking. Úlfar passar vitanlega engin veginn í fermingarfötin sín lengur svo við leigðum á hann smóking og lakkskó og hann var eins og greifi þessi elska, svo flottur. Þetta er bara svona til að útskýra það sem færslan á raunverulega að fjalla um.
Á næsta borði við okkur voru hjón um fimmtugt með mjög fatlaða dóttur sína. Hún var algjörlega lömuð, hélt ekki höfði og þau mötuðu hana á mauki þannig að greinilegt var að hún gat ekki tuggið eða kyngt venjulegum mat. Hún hefur verið svona á milli tvítugs og þrítugs. Það var engan veginn hægt að sjá hvort hún skynjaði það sem í kringum hana var eða ekki. En það var svo ótrúlega fallegt að sjá hvað foreldrar hennar hugsuðu vel um hana. Þegar formlegu kvöldverðirnir voru var hún alltaf fínust af öllum, í ótrúlega flottum kjólum, með blóm í hárinu og vel máluð. Þau töluðu líka viðstöðulaust við hana og komu fram við hana eins og væri alheilbrigð, það er að segja fyrir utan það að mata hana.
Í skoðunarferðum voru þau iðin við að benda henni á það sem fyrir augu bar þó svo að þau þyrftu að snúa á henni höfðinu til að hún kæmi auga á það. Þau gengu með okkur hinum á söfnum og alls staðar þar sem fært var fyrir hjólastól og voru ákveðin í því að hún missti ekki af neinu sem við vorum að skoða. Þau voru með hana á tónleikum og sýningum á kvöldin. Ég hugsa að fáir ef nokkrir af farþegunum hafi tekið jafnríkulegan þátt í öllu sem var að gerast og þau.
Ég gat ekki annað en hugsað um hvað þessi stúlka væri ótrúlega heppin að hafa eignast þessi hjón fyrir foreldra. Ég held að ég hafi aldrei áður orðið vitni að þvílíkri ást og umhyggju. Þau kenndu manni svo sannarlega að meta það að eiga heilbrigð börn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.9.2008 | 21:46
Til hamingju, systur
Systur mínar, Svanhildur og Matthildur eiga afmæli í dag, þær eru 63 ára. Þegar þær fæddust áttu mamma og pabbi 3 börn á aldrinum eins árs til sjö ára. Eldri systkinin og foreldrar mínir rifjuðu það oft upp með hryllingi þegar þær voru litlar. Þær voru báðar alveg súrrandi ofvirkar en alveg ótrúlega samtaka í öllum prakkarastrikum og óþekkt. Þær sögðu aldrei ég, alltaf við, hvort sem þær voru báðar viðstaddar eða ekki.
Þegar þær voru þriggja ára kom lögreglan með þær heim. Þær höfðu þá sest aftan á stuðara á strætó og voru komnar langleiðina niður í bæ þegar það uppgötvaðist að það voru laumufarþegar með strætó. Leigubílstjóri sem átti heima í næsta húsi bar kennsl á þær og þannig var hægt að koma þeim heim.
Einu sinni kom kona umrædds leigubílstjóra með þær. Hún hafði komið heim og þá sátu systur í eldhúsinu og hámuðu í sig súkkulaðiköku. Þær höfðu komið auga á kökuna í gegnum eldhúsgluggann og voru ekki lengi að snara sér inn um gluggann og næla sér í kökuna.
Amma okkar átti heima í Borgargerði sem þá var hálfgerð sveit og var með hænur. Tvíburunum fannst alveg fáránlegt að þær gætu ekki flogið, þetta voru jú fuglar. Þær drösluðu því nokkrum hænum upp á þak á hænsnahúsinu og hentu þeim fram af. Nokkrar drápust og aðrar verptu ekki í lengri tíma.
Þegar átti að sækja þær út hlupu þær alltaf hvor í sína áttina þannig að það var tveggja manna verk að koma þeim heim á kvöldin.
Þær voru orðnar 9 ára þegar ég fæddist. Það var þeirra líf og yndi að hrekkja mig og hræða úr mér líftóruna. Alveg merkilegt hvað hefur ræst úr mér eftir þessa meðferð.
Þær eru samt alveg frábærar báðar tvær. Aðalgallinn er að önnur býr Sjanghæ og hin í Kaupmannahöfn svo maður sér þær allt of sjaldan.
Til hamingju, kæru systur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
14.9.2008 | 22:50
Vinnuhelgi
Þetta var vinnuhelgi hjá mér. Aðra hverja viku á ég bara frí á laugardeginum en hina föstudag, laugardag og sunnudag. Mér finnst þetta fínt.
Á föstudaginn var haldið hér heljarmikið partí eftir vinnu. Ég fékk mér nokkur rauðvínsglös en lét svo Stjána sækja mig um áttaleytið. Aldurinn er greinilega farinn að segja til sín því rauðvínið hafði þau áhrif á mig að ég var alltaf að dotta yfir sjónvarpinu og Stjáni rak mig inn í rúm þegar ég var farin að hrjóta hástöfum. Aldrei má maður ekki neitt.
Ég var að lesa hér í vinnunni um afann sem var verið að dæma fyrir að beita barnabörn sín kynferðislegu ofbeldi. Djöfuls viðbjóður. Svo er fjölskyldan alveg tvístruð því sumir neita að trúa þessu upp á karlinn og telja stelpurnar vera að ljúga. Ég get í aðra röndina skilið þetta, ekki hefði ég trúað neinu svona upp á hann pabba minn. Það hefði allavega verið alveg ótrúlega erfitt. Það hlýtur að vera hræðilega erfitt að komast að því að einhver sem manni hefur þótt óendanlega vænt um og borið ótakmarkaða virðingu fyrir reynist vera ófreskja í mannsmynd og barnaníðingur. En vanlíðan fórnarlambanna sem ekki er trúað hlýtur að vera ennþá meiri. Þetta eru alveg ótrúlega flókin og erfið mál. Hann fékk þó fjögurra ára fangelsi sem mér finnst framför í svona dómum. Samt er verið að gera því skóna að hann sleppi við fangelsisvist sökum aldurs. Eru gamlir fantar eitthvað skárri en ungir fantar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.9.2008 | 15:55
Léttir
Ég er alsæl þessa dagana. Fyrirtækið sem ég vinn hjá er vitanlega í hagræðingu og samdrætti eins og svo mörg önnur. Því var mér sagt upp í endaðan júní og hefði að öllu jöfnu átt að hætta 1. okóber. Ég var virkilega kvíðin og áhyggjufull, enda ekkert grín að verða atvinnulaus á sextugsaldri í miðri kreppu þegar ekki eru mörg störf í boði.
Í vikunni kom þó í ljós að fyrirtækið getur ekki án mín verið og var uppsögnin dregin til baka. Þvílíkur léttir. Ég kann mjög vel við mig í vinnunni, skemmtilegt fólk, skemmtileg vinna og síðan ég byrjaði að starfa á dagblöðum fyrir rúmum 20 árum hef ég fundið að það er starfsvettvangur sem hentar mér sérlega vel. Prófarkalesarar eru ekki fjölmenn stétt og því litlar líkur á að ég hefði getað fengið starf við það sem ég kann best og líkar vel. Ég hef þess vegna bara verið í sjöunda himni síðustu daga.
En það er verra með hann Styrmi, son minn. Hann er lærður prenthönnuður og mjög klár á tölvur. Hann vann hjá Íslandsprenti en það fór á hausinn, en skipti bara um kennitölu og húsnæði. Svo hættu launin að berast, ekkert borgað í lífeyrissjóð eða félagsgjöld. Þegar Styrmir mótmælti því að vinna án þess að fá greidd laun var hann bara rekinn, takk fyrir. Þannig að ef þið vitið um einhvern sem vantar alveg frábæran, reglusaman og áreiðanlega starfsmann með þá menntun sem hann hefur, endilega látið mig vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
10.9.2008 | 15:20
Verslunarmartröð
Að lokinni siglingu áttum við þrjá daga í Barcelona. Þá kom vitanlega að því sem allar ömmur verða að gera í útlöndum en það er að kaupa eitthvað á barnabörnin. Feðgarnir höfðu komist á snoðir um risamoll og vildu endilega fara þangað. Ég reyndi að malda í móinn en ekkert gekk. Mér er nefnilega einstaklega illa við svona moll, fer ekki ótilneydd í Kringluna og hef aldrei komið í Smáralind.
Þegar við komum á staðinn vildu þeir feðgar ekkert með barnafatakaup hafa en fylgdu mér samt upp í barnafatadeildina og skildu mig þar eftir. Aleina, þótt þeir viti vel hvað ég er áttavillt og kann ekki einu sinni almennilega skil á hægri og vinstri. Verð alltaf að gá; úrið á vinstri og giftingarhringurinn á hægri. Þetta var alveg heil hæð og svakalega falleg föt. Ég rölti um og keypti vitanlega miklu meira en ég hafði ætlað að gera, borgaði og ætlaði út. Það reyndist þrautin þyngri.
Ég ráfaði og rambaði fram og til baka en sá aldrei neitt nema hillur og fatastanda og langa ganga. Enginn sem ég reyndi að spyrja skildi mig og ég var farin að örvænta aðeins. Leitaði að lyftu, rúllustiga, venjulegum stiga, kaðalstiga, bara eitthvað. Smám saman fór ég að sætta mig við að verða bara þarna fram að lokun og þá kæmi örugglega öryggisvörður til að henda mér út - vonandi út um réttar dyr.
Loks fann ég konu, enska konu, sem bæði skildi mig og rataði um fjandans mollið. Hún sá að ég var kona á barmi taugaáfalls því hún tók í höndina á mér og leiddi mig út eins og ég væri fimm ára. Þegar við loks komumst út og ég sá veitingahúsið þar sem ég hafði mælt mér mót við feðgana varð ég svo glöð að mig langaði helst að kasta mér um hálsinn á konunni og bresta í grát. En þar sem ég var helmingi stærri og þyngri en hún vildi ég síður launa henni greiðann með því að beinbrjóta hana. Svo ég bara hristi á henni höndina og þakkaði milljón sinnum fyrir mig, grátklökk samt.
Svo valhoppaði ég út í frelsið, alsæl og ákveðin í að inn í svona ferlíki færi ég ekki aftur nema með GPS-tæki og björgunarsveit í viðbragðsstöðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.9.2008 | 13:38
Ljósmóðir í takt við tímann, eða þannig
Þar sem ljósmæður eru svo mikið í umræðunni langar mig að rifja upp skondið atvik sem átti sér stað á fæðingardeildinni fyrir 15 árum.
Hann Úlfar minn fæddist á þriðjudegi. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom upp á fæðingardeild var að tilkynna að ég ætlaði heim á föstudeginum því þá var von á manninum mínum frá Þýskalandi. Allt gekk vel og við hraust þannig að ekkert var því til fyrirstöðu til að verða ekki við þessari skipun minni. Svo rann föstudagurinn upp og ég lá í rúminu því ég mátti ekki klæða mig eða neitt fyrr en að loknum stofugangi.
Þarna beið ég þegar til mín kom vel roskin ljósmóðir, settist á rúmstokkinn og sagði lágum rómi: "Heyrðu, vinan." Strax þarna varð ég alvarlega pirruð því ef það er eitthvað sem ég þoli ekki er að vera kölluð vinan, væna mín eða önnur slík ávörp. Þá bætti hún við í ennþá lægri rómi: "Ertu nokkuð farin að hugsa fyrir getnaðarvörnum?" Ég hélt að mér hlyti að hafa misheyrst.
Þarna lá ég 39 ára gömul, harðgift, eftir að hafa eignast glasabarn eftir margra ára baráttu og manneskjan ætlaði að fara að fræða mig um getnaðarvarnir! Eins og ég væri 16 ára með óskilgetna þríbura.
Ég lét hana kurteislega vita af því að með tvo ónýta eggjaleiðara eftir utanlegsfóstur væri ég ein og sjálf gangandi getnaðarvörn.
Ég stóð á öndinni af hneykslun þegar þetta gerðist en í dag finnst mér þetta bara vera alveg drepfyndið. Tala um að vera föst í rútínunni! Nú er klukkan tíu og nú skulu allir fræddir um getnaðarvarnir! Og hana nú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
8.9.2008 | 15:22
Brotlending í Túnis
Seinasti áfanginn í siglingunni okkar var Túnis. Við fórum í heilsdags skoðunarferð sem var alveg meiriháttar nema að hitinn var vel yfir 40°. Þetta minnti mig á þegar ég fékk bronkittis sem krakki og var látin anda að mér gufu. Þarna var alveg ótrúlega margt að sjá og vildi ég sko alveg fara þarna aftur bara á öðrum árstíma þegar væri kannski aðeins svalara.
Skoðunarferðinni átti að ljúka með því að ganga á fjall, bara lítið en samt fjall, og átti sú ganga að taka 30-40 mínútur. Við gömlu hjónin vorum sko ekki á því að láta draga okkur í fjallgöngu í 40° stiga hita. Við settumst því inn á kaffihús, ef kaffihús skyldi kalla, nokkur borð með hálmsólhlífum og svona hvítum plaststólum eins og fást í Rúmfatalagernum. Við pöntuðum okkur að drekka og ég ætlaði að skreppa á klósettið. Klósettið reyndist argasti viðbjóður og ég hrökklaðist út tautandi og tuðandi. Þegar ég kom aftur að borðinu, öskufúl og alveg að pissa í mig, hlassaði ég mér í stólinn. Stóllinn tók þessum brussugangi illa og mölbrotnaði.
Þarna lá ég, virðuleg kona á sextugsaldri, marflöt í moldarflagi, taskan mín hentist upp í loftið og allt sem í henni var dreifðist jafnt og samviskusamlega úti um allt. Þjónarnir og aðrir gestir komu brunandi til að gá hvort ég væri slösuð, hjálpa mér að skrönglast á lappir og tína saman eigur mínar og koma þeim til mín.
Allir nema einn. Maðurinn sem hafði svarið og sárt við lagt að hann skyldi elska mig og virða í blíðu og stríðu hló svo mikið að ég hélt hann myndi kafna. Ég held ég hafi bara aldrei séð hann jafnglaðan.
Kannski að ég yrði á hann næst svona um jólaleytið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 58898
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar