Klukk

Var klukkuð af Ásthildi. Reyni að svara eftir bestu getu.

4 störf sem ég hef unnið um ævina

Í fiski

Læknaritari

Lögga

Prófarkalesari.

4 bíómyndir sem ég held upp á

Forrest Gump

Fried Green Tomatoes

Harry Potter-myndirnar

Tenth Kingdom

4 bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni

Harry Potter Allar

Heimsljós

Salka Valka

Kvennaklósettið

4 sjónvarpsþættir

House

Frost

Morse

Desperate Housewives

4 fæðutegundir sem ég elska

Lambakjöt

Humar

Rússneskar súpur

Kínverskur matur

4 staðir sem ég hef farið á í sumarfrí

Mexíkó

Kína

Bandaríkin

Frakkland

4 staðir sem ég hef búið á

Nokkrir staðir í Reykjavík og búið heilagur

Þá held ég að þetta sé komið.

Ég klukka: Kallý, Gurri, Jón Svavars og Birtubeib


Ertu spænsk eða fædd hér á landi?

Seinasta kvöldið okkar í Barcelona áður en við héldum í siglinguna gerðist nokkuð merkilegt, að mér fannst að minnsta kosti. Við höfðum borðað síðbúinn kvöldverð á útiveitingahúsi á Römblunni og eftir matinn fóru feðgarnir á flakk en ég sat eftir og gæddi mér á hvítvíni og ólífum.

Þar sem ég sat þarna í rólegheitum kom til mín útigangskona sem ég hafði séð nokkrum sinnum áður og bað mig um sígarettu sem var vitanlega ekkert mál. Ég var í ermalausum kjól svo moskítóbitin mín, sem voru bæði mörg og stór, voru mjög áberandi. Hún jesúsaði sig í bak og fyrir og benti mér á að fara til læknis og sagði mér að hætta þessu hvítvínssulli og drekka frekar bjór. Maður pissaði nefnilega svo mikið af bjór og losnaði fyrr við moskítóeitrið úr líkamanum. Þá vitið þið það. Við fórum svo að spjalla saman og hún sagði mér að hún hefði búið á götum Barcelona í mörg ár og það gæti oft verið erfitt. Svo spurði hún mig að nafni og þegar ég sagðist heita Helga hófst hasarinn.

Hún tókst öll á loft og benti á sjálfa sig og sagði: "Me too, me too. Me Helga too." Ég góndi á hana, fannst alveg ótrúlegt að rekast á spænska útigangskonu sem bæri nafnið Helga. Hún hefur séð á mér vantrúarsvipinn því hún fór ofan í tuðruna sína og dró upp skilríki. Og þar stóð ekki bara Helga, heldur Helga Margrét. Getur það orðið íslenskara?

Feðgarnir komu rétt í þessu og sagði ég þeim frá þessari merkilegu uppgötvun. Við buðum Helgu Margréti sæti og ætluðum að gefa henni bjór og rekja úr henni garnirnar. En nei, takk. Þjónninn, sem áður hafði ekki verið neitt nema flírubrosið og hneigingarnar, kom aðvífandi, henti reikningnum í manninn minn og rak okkur öll burt. Helga Margrét var greinilega vön svona löguðu því hún skaust burt eins og hrætt dýr. Ég hljóp á eftir henni, náði í skottið á henni og gaf henni peninga og sígarettur. Hún hljóp upp um hálsinn á mér og faðmaði mig. Ég faðmaði hana á móti og þetta var eins og að halda á fuglsunga, svo mögur og lítil var hún.

Svo hvarf þessi nafna mín, og að öllum líkindum landa að einhverju leyti, út í myrkrið og mannfjöldann og ég sá hana ekki meir. En mikið óskaplega langar mig til að vita meira um þessa konu og hennar sögu.


Ég er komin heim í heiðardalinn

Hæ, þá er ég kominn heim aftur eftir besta sumarfrí sem við fjölskyldan höfum farið í. Við byrjuðum á að vera viku í Barcelona sem var frábært. Svo tók við 12 daga sigling um Miðjarðarhafið, til Frakklands, Ítalíu, Króatíu og Túnis. Þetta var algjör ævintýraferð og ég hef aldrei upplifað annan eins lúxus. Skipið var eins og fljótandi 5 stjörnu hótel upp á 13 hæðir. Þetta var bara engu líkt. Ég er strax farin að safna fyrir annarri ferð. Samt var ósköp gott að koma heim aftur og hitta rúmið sitt og köttinn. Svo er eftir að fara mánaðarblogghring, nóg að lesa þar. Gaman að hitta ykkur aftur en ég hef ekki kíkt á bloggið í heilan mánuð og finnst alveg kominn tími til.

Bless í bili

Nú er ég að fara að halda út í heim með eiginmanni og syni. Þannig að ég mun ekkert blogga fyrr en í byrjun september. Ég mun örugglega sakna ykkar ógurlega en verð sem betur fer í fríi í eina viku eftir að ég kem heim svo ég mun hafa nógan tíma til að lesa þriggja vikna skammt af bloggi.

Bófar og bandíttar sem lesa þessa færslu mega vita að húsið mitt er vaktað í bak og fyrir af Securitas og svo er sem ekki eftir miklu að slægjast heima hjá mér. Á engan helling af demöntum eða reiðufé í bunkum sem liggur á glámbekk.

Ég sendi ykkur öllum sumarkveðjur og megið þið öll hafa það eins gott og ég ætla að hafa það sem er sko ekkert smáræði.


Það sem börn mega þola

Börn hafa verið mér hugleikin að undanförnu. Líklega vegna máls háskólakennarans og fóstuföðurins í Kópavogi. En börn mega þola svo mikið annað en kynferðisofbeldi. Alveg ótrúlegt hvað þessi þjóðfélagshópur má þola og þá af hendi þeirra sem ættu að vernda þá, foreldranna. Þegar ég var í lögreglunni fór ég oft í útköll vegna heimilisófriðar. Það var aldrei skemmtilegt en tvö atvik hafa setið í mér öll þessi ár. Þar sem meira en tuttugu ár eru liðin frá þessum atburðum og engin nöfn nefnd held ég að ég sé ekki að rjúfa neinn trúnað þó að ég segi frá þessu hér til að sýna hvað börn mega þola.

Eitt sinn vorum við kölluð í glæsilegt einbýlishús. Foreldrarnir voru báðir dauðadrukknir og æstir, létu hendur skipta og grýttu hlutum í hvort annað. Við gátum ekki annað en reynt að róa fólkið, þetta var ekki þannig mál að það dygði að taka bara annað foreldrið út af heimilinu. Þegar við vorum búin að vera þarna dágóða stund og fólkið farið að róast, fann ég að það var kippt í buxnaskálmina mína. Ég leit niður og þá stóð þarna lítil gullfalleg stúlka, svona 3-4 ára. Ég beygði mig niður að henni og hún tók um hálsinn á mér og hvíslaði: Ekki fara. Ég fékk kökk í hálsinn en hafði engin úrræði. Það var enginn staður til að fara með börn á við svona aðstæður. Þarna stóðum við þrjú, stór og svartklædd, og ég hefði talið ógnvekjandi í augum barns. En nei, við vorum það sem hún setti traust sitt á en við gátum ekki orðið við þessu neyðarkalli hennar. Höfðum engin úrræði. Mér leið eins og svikara og fanti þegar ég gekk út úr húsinu og hún horfði stórum augum á eftir okkur.

Hitt skiptið var í blokkaríbúð. Þegar við komum þar inn sáum við dauðadrukkna konu og ennþá fyllri karl, strák svona 17-18 ára og um það bil 12 ára stelpu. Við héldum að við ættum að henda karlinum út en svo var aldeilis ekki. Systkinin höfðu hreyft mótmælum þegar móðir þeirra kom heim með þennan dauðadrukkna og ókunnuga karl og nú vildi konan að við fjarlægðum börnin hennar af heimilinu svo hún gæti setið eins að þessum ömurlega karli sem hún hafði kynnst í Glæsibæ þetta sama kvöld. Við ætluðum ekki að trúa okkar eigin eyrum. Út með hann, gargaði kerlingin og átti við son sinn. Dóttirin tilkynnti að hún færi líka ef bróðir hennar færi. Já, farðu bara, var svarið sem hún fékk. Aftur vorum við úrræðalaus. Kerlingin var húsráðandi og réð hverjir væru á hennar heimili. Við vorum þungstíg þegar við gengum niður með börnunum. Við spurðum þau hvort þau gætu ekki farið eitthvert og fengið að gista. Ekki gátum við sett þau í fangageymslur. Við björgum okkur, erum vön því, sagði strákurinn samanbitinn. Það var erfitt að keyra frá blokkinni þar sem systkinin stóðu svo umkomulaus. Þarna tók móðir fullan ókunnugan karl fram yfir börnin sín. Karl sem var meira að segja svo fullur að hann hefur varla verið til nokkurs gagns. En börnin sögðu okkur að þetta væri ekki sá fyrsti og ekki sá annar sem hún drægi heim. Þessi börn hafa eflaust flutt að heiman um leið og þau gátu.

Ég veit ekki hvort lögreglan hafi einhver úrræði í svona málum í dag. En ég vona það svo sannarlega.


Líf að loknu þessu, eða hvað?

Ég get alls ekki skilið allt þetta vesen með dautt fólk. Þegar maður er dauður er maður dauður og ekkert meira með það. Ég hef til dæmis aldrei farið að leiði nokkurs ættingja míns, ekki einu sinni foreldra minna þar sem ég get hugsað til þeirra heima hjá mér og þarf ekki að standa við gröf í einhverjum kirkjugarði til þess. Ég borgaði minn hlut í legsteininum en hef aldrei séð hann.

Það verður ekkert vesen þegar ég dey. Ég fór fyrir nokkrum árum inn á heimasíðu Kirkjugarða Reykjavíkur og gekk frá því hvað á að gera við hræið af mér þegar þar að kemur. Það á að brenna það og setja svo öskukerið niður í gröfina hjá pabba og mömmu. Mér finnst algjör óþarfi að eyða heilu grafarstæði undir öskuna af mér.

Ég mun verða jarðsungin borgaralega og í kyrrþey. Enginn prestur, enginn kór. Mér finnst súrt í broti að það þurfi að splæsa í kistu til að láta brenna mig í. Spurning hvort strákarnir mínir geti ekki klambrað saman einhverjum kassa utan um mig úr krossviði. Sniðugast væri vitanlega ef hægt væri að setja restarnar af mér í svartan plastpoka. Það er samt mikil mengun af því að brenna plasti svo það atriði þarf að endurskoða. Erfidrykkja er algjörlega bönnuð. Fólk þarf ekkert að hópast saman og kýla vömbina til að halda upp á það að ég sé dauð.

Þegar Úlfar var lítill svaf hann alltaf hjá mér þegar pabbi hans var úti á sjó og sofnaði yfirleitt í fanginu á mér. Eitt kvöldið tilkynnti hann mér að hann ætlaði að deyja um leið og ég svo hægt væri að jarða okkur saman svo hann gæti alltaf legið í fanginu á mér. Ég benti honum á að við værum nú bæði í stærra lagi svo það gæti orðið erfitt að finna nógu stóra kistu. Úlfar hugsaði sig um smástund og sagði svo: Getum við ekki bara fengið ruslagám? Málið leyst.


Krummalappir og hrekkjabrögð

Ég og sonur minn eigum alveg eins skó, svarta crocks-skó. Í seinustu viku vaknaði ég með seinni skipunum og flaug út úr húsinu. Það var ekki fyrr en ég var að ganga inn á ritstjórnina að ég fattaði að ég væri eitthvað undarleg til fótanna. Við nánari skoðun kom í ljós að ég var í mínum eigin vinstri skó á vinstri fæti. Á hægri fæti var ég aftur á móti í öðrum vinstri skó, nema hvað sá var af syni mínum og númer 46. Ég gekk berfætt um í vinnunni þann daginn.

Nú nálgast verslunarmannahelgin og þá rifjast upp fyrir mér hrekkur sem ég og vinur hans Styrmis beittum hann þegar hann var 18 ára. Þeir vinirnir ætluðu á útihátíð um verslunarhelgina og hafði ég lánað þeim bílinn minn til fararinnar. Daddi, vinur hans Styrmis, kom snemma til að vera örugglega mættur þegar Styrmir kæmi úr vinnunni svo þeir gætu lagt strax af stað. Þar sem við Daddi biðum eftir Styrmi datt okkur í hug að plata hann ærlega. Ég tróð handklæðum í stóra íþróttatösku og skellti mér sjálf í forljótan jogginggalla og strigaskó.

Þegar Styrmir kom heim og átti sér einskis ills von tók Daddi á móti honum í dyrunum. Veistu hvað? sagði Daddi. Mamma þín ætlar að koma með okkur. Finnst þér það ekki algjört æði? Styrmir fölnaði og leit á móður sína ferðbúna og glaðbeitta. Hann vissi ekkert hvað hann átti að segja. Vitanlega vildi  hann alls ekki hafa mig með, en það seinasta sem honum Styrmi hefði komið til hugar var að særa aldraða móður sína. Hann stóð því þarna og roðnaði og fölnaði á víxl og reyndi að stynja upp að þessi óvænti ferðafélagi væri vitanlega afar velkominn. Þá gátum við Daddi ekki  meir, við sprungum úr hlátri og ég held að ég hafi sjaldan eða aldrei séð neinn eins glaðan og Styrmi þegar hann komst að því að þetta væri bara gabb.


Háklassahórur

Sá um helgina þátt í sjónvarpinu um háklassahórur, eða svokallaðar fylgdardömur. Sumar komu fram með gímu eða stór sólgleraugu til að þekkjast ekki. Tvær komu fram ódulbúnar og undir fullu nafni. Önnur þeirra var gift og móðir fjögurra táninga. Hún segir mann sinn og börn hafa verið smátíma að samþykkja þessa starfsemi hennar - og skyldi engan undra - en allir væru nú sáttir og glaðir með sitt. Ég held þó varla að eiginmaðurinn og börnin kunni henni miklar þakkir fyrir að koma svona fram í sjónvarpinu. Börn hafa lent í einelti af minni sökum.

Önnur var stórglæsileg og sagði að þetta starf hentaði henni svo vel því hún þénaði vel, umgengist ríka og áhrifamikla menn sem kæmu vel fram við hana. Sú fer reglulega í myndatökur til rándýrs ljósmyndara til að uppfæra heimasíðuna sína. Heimasíður virðast í miklum mæli hafa tekið við af dólgunum.

Svo var háskólanemi sem kostaði námið sitt með vændi. Hún sagðist selja sig ódýrt til að fá fleiri viðskiptavini. Ég hefði nú talið að skynsamlegra væri að hækka verðið og þurfa að afgreiða færri karla. Hún lét þó ekki illa af starfinu og sagðist mundu stunda það þar til hún hefði lokið námi og fengið sér betri vinnu.

Ég trúði varla eigin augum og eyrum. Ótrúlegt að konur skuli segjast gera það sjálfviljugar að liggja  undir hinum og þessum körlum gegn greiðslu.  Nú á tímum aukins jafnréttis og aukinnar menntunar og fjárráða kvenna að nokkur skuli reyna að telja manni trú um að þetta sé bara ágætt. Þær sögðust fátt eiga sameiginlegt með þeim starfssystrum sínum sem harka á götuhornum. Ég held að það sé nú bara stigsmunur en ekki eðlis.

Svo voru nefndar svimandi háar tölur sem kynlífsiðnaðurinn veltir í Bretlandi einu. Það voru sko engir smáaurar.

Mér finnst það allavega mjög ótrúlegt að nokkur kona geri það sjálfviljug að selja líkama sinn og sjálfsvirðingu. Ég er kannski bara svona forpokuð, en þessi þáttur vakti ekki neitt með mér nema viðbjóð og samúð með þessum konum.


Blessuð börnin

Jóna var að lýsa eftir sögum af vandræðum sem börn koma foreldrum sínum í. Hún var þar einkum að leita eftir sögum af einhverfum börnum en þótt mínir strákar séu báðir fullkomlega heilbrigðir hafa þeir samt oft látið mig langa til að skríða ofan í næstu holu.

Þegar Styrmir var þriggja ára var ég með hann á læknabiðstofu. Inn kom þá stærsta, umfangsmesta og stórgerðasta kona sem ég hef séð fyrr og síðar. Hún var, þó ljótt sé að segja það, eins og tröll. Fullorðna fólkið á biðstofunni vandaði sig ógurlega að horfa ekki á hana en ekki Styrmir. Hann bara sat og góndi. Eftir smástund sagði hann hátt og skýrt í andaktugum tón: Ætli hún geti talað? Það heyrðist niðurbælt fliss frá öðrum á biðstofunni en sem betur fer kom læknirinn fram rétt í þessu. Ég var ekkert næst en hrifsaði krakkaorminn og rauk með hann inn. Það hreyfði enginn mótmælum.

Úlli minn var líka þriggja ára þegar ég fór með hann í Bónus í Holtagörðum. Hann vildi fá spólu sem var látið eftir honum en þá vildi hann aðra. Ég sagði honum að hann gæti bara fengið eina þar sem ég ætti ekki peninga fyrir tveimur. Hann sætti sig við það. Svo fórum við í Ríkið og þar sem ég var að fara að halda heljarinnar matarboð keypti ég helling af áfengi. Þegar ég stóð í biðröðinni hóf Úlfar upp raust sína: Mamma mín á enga peninga, hún er svo fátæk! Viljið þið gefa mömmu minni peninga! Þarna stóð ég eldrauð í framan með fulla körfu af áfengi á meðan drengstaulinn emjaði yfir fátæktinni á heimilinu og betlaði peninga. Ég hefði getað kyrkt hann.

Rétt fyrir jólin þegar Úlfar var um þriggja og hálfs árs fór ég ásamt sonum mínum báðum í Blómaval. Í anddyrinu var fatlaður maður í stórum rafmagnshjólastól og var að selja jólageisladisk til stuðnings lömuðum og fötluðum. Úlfar horfði mjög áhugasamur á manninn. Þegar við vorum á leið út aftur rauk krakkakvikindið að stólnum og ýtti á einhvern takka. Stólfjandinn rauk af stað. Það voru greinilega einhverjir skynjarar á stólnum því hann endasentist fram og til baka á ótrúlegri ferð en rakst samt aldrei á. Styrmir hló svo mikið að hann gat ekkert gert, Úlfar horfði stórhrifinn á handaverk sín, maðurinn, sem var líklega sá eini sem vissi hvað átti að gera, var svo spastískur að hann gat ekkert. Ég stóð þarna í örvæntingu minni alveg ráðalaus. Að lokum rauk ég á stólinn og ýtti á alla takka þangað til stólófétið stöðvaðist. Ég keypti þrjá geisladiska af manninum og forðaði mér svo út með hryðjuverkamanninn og hláturfíflið.


Þegar ég lenti í vændinu

Þar sem mikið hefur verið fjallað um vændi á blogginu í dag langar mig að segja frá símtali sem ég fékk á sunnudagseftirmiðdegi fyrir um það bil 12 árum. Þennan sunnudag skein sól í heiði og ég sat í rólegheitum með þriggja ára son minn og son vinkonu minnar sem ég var að passa. Þá hringdi síminn.

Er þetta Helga Magnúsdóttir? sagði rám karlmannsrödd. Já, sagði ég en kannaðist ekkert við manninn. Hún Inga Konráðs á Túngötunni benti mér á að hringja í þig, sagði hann þá. Ég hélt að maðurinn þyrfti að láta sauma fyrir sig gardínur eða eitthvað og sagði að þetta væri misskilningur, ég kannaðist ekkert við Ingu Konráðs á Túngötunni. Víst, sagði maðurinn. Hún sagði mér að hringja í þig.

Ég neitaði aftur að kannast við þessa konu. Þá þagði hann smástund og sagði svo: Gefur þú þig ekki svona fyrir karlmenn? Nú datt gjörsamlega af mér andlitið. HA? sagði ég. Þá endurtók hann: Gefur þú þig ekki svona fyrir karlmenn? Þá fór mig að gruna hvernig væri í pottinn búið og sagði í fáti: Nei, ekki nema fyrir manninn minn. (Hallærislegasta svar EVER.) Ha, ertu gift? spurði maðurinn í forundran. Já, sagði ég. Þá skellti hann á.

Þegar ég var búin að jafna mig mundi ég eftir sögunum um mellumömmuna á Túngötunni. Ég rauk til og náði í símaskrána og hringdi í frúna. Þetta var almennilegasta kona og ég sagði henni frá símtalinu og bað hana í guðanna bænum að koma í veg fyrir að svona misskilningur endurtæki sig. Hún varð þá mjög hikandi og sagði að eitthvað hefði misfarist skilningurinn hjá manninum. Helga Magnúsdóttir er vitanlega ekki sérlega sjaldgæft nafn og mig grunar að hún hafi haft nöfnu mína á sínum snærum, bara gefið manninum upp nafnið og hann svo flett mér upp í símaskránni. Hvorki þessi maður né aðrir hafa hringt í mig í þessum erindagjörðum síðan. En þarna þótti mér sannað að vændiskonur væru gerðar út frá Túngötunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 58898

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband