15.7.2008 | 16:02
Útigangsmenn öll greinin
Fyrirgefið, færslan rauk einum of fljótt af stað.
Í Reykjavík eru til þrír staðir fyrir útigangsfólk og rúma þeir samtals um 24 einstaklinga. Samt er gert ráð fyrir að 50-60 útigangsmenn séu í borginni. Þegar til tals kemur að koma upp athvarfi fyrir þetta ógæfufólk reka nágrannar upp ramakvein og berja sér á brjóst og harðneita að þetta fólk fái að vera nokkurs staðar nálægt þeim.
Systir mín býr við hliðina á gistiheimilinu við Þingholtsstræti. Hún segist örsjaldan verða fyrir ónæði af þeim. Það sé helst á kvöldin þegar húsið er orðið fullt eða þeir fái ekki að fara inn vegna þess að þeir eru undir áhrifum. Þá eiga þeir til að kasta grjóti í húsið og bíða svo rólegir eftir því að löggan komi og sæki þá svo þeir fái þó húsaskjól í Hverfisteininum. Í sumar hefur lítill hópur setið fyrir utan í góða veðrinu og sitja þeir þar og spjalla og hlæja og hafa það bara huggulegt. Ekkert háværari eða verri en aðrir nágrannar.
Borgin var arfleidd að þessu húsi, Farsóttarhúsinu. Þetta er elsta og stærsta athvarf fyrir heimilislausa í Reykjavík og vitanlega er það vegna þess að einstaklingur gaf húsið með því skilyrði að það yrði notað fyrir heimilislausa hvort sem þeir eru í þeirri stöðu vegna óreglu eða geðsjúkdóma, nema hvort tveggja sé.
Ekki er þetta fólk sterkur þrýstihópur, en á það ekki ættingja eða gamla vini sem gætu tekið upp hanskann fyrir það? Eiginlega eina umfjöllunin sem maður heyrir um þetta fólk er hvað það sé hræðilegt að það skuli voga sér að snara sér inn í Austurstræti á sléttum strigaskónum. Það sé svo gasalega neikvætt að láta útlendingana sjá svona lagað. Ætli þeir hafi ekki séð annað eins. Og ef þetta fólk má ekki sjást hvers vegna eru þá ekki búin til einhver úrræði fyrir það?
Ég gleymdi einu. Steinsnar frá mér í Vogahverfinu er áfangaheimili fyrir konur. Ég held að ég hafi aldrei séð eina einustu þeirra hvað þá meira. Kannski hef ég oft séð þær án þess að vita að þær séu á áfangaheimilinu? Þær líta örugglega alveg eins út og aðrar konur í hverfinu mínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.7.2008 | 15:34
Útigangsmenn
Í Reykjavík eru til þrír staðir fyrir útigangsfólk og rúma þeir samtals um 24 einstaklinga. Samt er gert ráð fyrir að 50-60 útigangsmenn séu í borginni. Þegar til tals kemur að koma upp athvarfi fyrir þetta ógæfufólk reka nágrannar upp ramakvein og berja sér á brjóst og harðneita að þetta ógæfufólk fái að vera nokkurs staðar nálægt þeim.
Systir mín býr við hliðina á gistiheimilinu við Þingholtsstræti. Hún segist örsjaldan verða fyrir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2008 | 10:54
Spítalasaga
Mikið var sorglegt að lesa um þriggja ára barnið sem dó úr blóðeitrun eftir að botnlanginn í því sprakk þrátt fyrir að foreldrar þess hefðu tvisvar leitað læknis með það en verið sendir heim. Það munaði ekki miklu að eins færi fyrir mér fyrir hartnær 50 árum.
Þegar ég var 6-7 ára fór ég að fá mikla kviðverki með reglulegu millibili. Það var flækst með mig á milli lækna og næturlæknar voru að minnsta kosti vikulegir gestir. Loks lagði einn næturlæknirinn mig inn á Landakot til að skera mig upp við botnlanganum upp á von og óvon. Í ljós kom að botnlanginn var mjög illa farinn en ennþá ósprunginn en hafði gróið við bakið og því fannst ekkert við þreifingu. Þetta var heljar mikil aðgerð og þurfti ég að vera þrjár vikur á Landakoti.
Þetta var á þeim tíma þegar einungis mátti heimsækja börn á sjúkrahúsum í eina klukkustund á sunnudögum. Mér leið mjög illa eftir aðgerðina og var með mikla heimþrá. Nunnurnar voru algjörar truntur og sem dæmi um það má nefna að þegar ég var að skæla af heimþrá og verkjum kom ein þeirra og gaf mér duglega utan undir og skipaði mér að hætta þessu væli. Eftir það þorði ég ekki að gráta og leið mjög illa.
Eitt kvöldið heyrðist mikill hávaði frammi á gangi og greinilegt að hörkurifrildi var í gangi. Skyndilega opnuðust dyrnar á stofunni sem ég var á og inn stormaði Þuríður amma mín og þrjár nunnur á eftir henni. Amma kom til mín og faðmaði mig og kyssti. Svo fór hún ofan í tösku sem hún var með og sótti stóran poka fullan af íspinnum. Hún lét eina nunnuna fá pokann og skipaði henni að setja hann í frystinn og með fylgdi að við ættum að fá ís þegar við vildum. Nunnan hlýddi. Amma mín var frægur skörungur á Vestfjörðum í eina tíð og lét ekki einhverjar nunnur segja sér hvenær hún heimsækti sitt barnabarn.
Svo fékk amma sér sæti og fór að tína upp úr töskunum. Þar kenndi margra grasa. Sælgæti, ávextir, spil og bækur komu upp úr töskunni okkur börnunum á stofunni til mikillar ánægju. Amma sat hjá okkur lengi kvölds, spjallaði við okkur og sagði okkur sögur. Ég sagði henni ekki frá nunnunni sem sló mig því ég vissi að þá hefði amma farið fram og barið hana. Ég vildi bara hafa ömmu hjá mér og mér hefur sjaldan þótt eins vænt um nokkra manneskju og hana ömmu mína þetta kvöld. Eftir þessa heimsókn voru nunnurnar eins og smjör og rjómi við mig, hafa örugglega óttast að ég myndi klaga í ömmu ef þær væru ekki almennilegar.
Eitt var dálítið skondið við þessa spítaladvöl mína. Ég var ekki sett í bað allan tímann og enn er það viðkvæði í minni fjölskyldu ef einhver er óhreinn: Ertu nýkominn af Landakoti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.7.2008 | 14:20
Mig langar ekki heim!
Sú sem vinnur á móti mér er veik svo ég var kölluð út. Sem betur fer. Það á að fara að mála húsið mitt og búið að háþrýstihreinsa það að utan. Þetta er gamalt timburhús með bárujárnsklæðningu og núna lítur það út eins og argasta argintæta. Ég laumast inn og út og kötturinn er farinn að fara út bakdyramegin.
Ekki tekur betra við þegar inn er komið. Maðurinn með morfínplásturinn er nefnilega farinn að mála stofuna. Öll húsgögnin úr stofunni eru komin inn í borðstofu og inn í svefnherbergið okkar og hjá Úlla. Maður getur hvergi verið nema vera eins og hæna á príki á stól á einhverjum undarlegum stöðum í íbúðinni. Maður er eiginlega best settur á klósettinu en eftir að hafa lesið um konuna sem var svo lengi á klósettinu að það þurfti að losa hana með skurðaðgerð frá setunni er ég ekki áfjáð í mjög langa salernisdvöl.
Mikið er gott að vera bara í vinnunni. Ég vona að blaðið verði búið seint í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
6.7.2008 | 16:28
Hetjan og níðingurinn
Það hefur ekki farið framhjá neinum að Paul Ramses hefur verið sendur úr landi frá eiginkonu og kornungu barni þrátt fyrir að eiga von á því að verða drepinn í heimalandi sínu. Almenningur hér hefur sem betur fer látið til sín taka og mótmælt þótt það komi að öllum líkindum að litlu gagni. Íslensk yfirvöld eru ekki vön því að láta sig álit almennings varða. Paul er hetja sem barðist fyrir mannréttindum og í stjórnarandstöðu í heimalandi sínu þó svo að það gæti kostað hann lífið.
Paul sótti um hæli hér á landi. Hann starfaði að mannúðarmálum og stofnaði hér fjölskyldu og ekki var annað að sjá en að hér hefði hann getað fyrirmyndar borgari. Hann lýsti því á átakanlegan hátt þegar hann og vinur hans voru neyddir til að bera lík af flutningabíl og inn í frystigeymslu. Allan tímann var miðað á hann byssu og hann átti allt eins von á því að verða drepinn.
Eiginkona Pauls fékk ekki einu sinni að kveðja hann. Hún hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og því er eins víst að henni verði vísað til Svíþjóðar með barn sitt. Paul var aftur á móti sendur til Ítalíu því ekki er einu sinni reynt að koma fjölskyldunni til sama lands. Þetta er til háborinnar skammar fyrir Íslendinga og ekki í fyrsta skipti sem komið er fram við flóttafólk með þessum hætti.
Háskólakennarinn sem ákærður hefur verið fyrir kynferðislegt ofbeldi gegn níu börnum, þar af fimm sínum eigin, mun að öllum líkindum losna úr gæsluvarðhaldi á morgun nema Hæstiréttur snúi við úrskurði héraðsdóms. Hann hefur játað sum brotin en þrætir fyrir önnur. Kona hans sem sagði í fjölmiðlum í vor að hún tryði á sakleysi hans og var reið vegna umfjöllunar fjölmiðla um hann, hefur nú ákveðið að trúa börnum sínum frekar en níðingnum og segir hann ekki velkominn aftur á heimili þeirra.
Ekki hefur verið hægt að dæma manninn í nálgunarbann þar sem hann hefur verið í gæsluvarðhaldi en það mun eflaust verða gert þegar hann sleppur út svo fórnarlömb hans þurfi ekki að vera nálægt honum.
Hvað er að hér á landi? Hetja eins og Paul Ramses er send úr landi í lögreglufylgd en margföldum barnaníðingi og nauðgara er sleppt úr landi. Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér? Mér algjörlega fyrirmunað að skilja þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
4.7.2008 | 18:03
Dónalega konan í London
Þegar við fjölskyldan vorum í London um páskana í fyrra settumst við inn á bar til að bíða eftir borðinu sem við höfðum pantað á veitingastað. Við settumst á bás þar sem sat mjög hugguleg kona á sextugsaldri á að giska. Við pöntuðum okkur drykki og áður en langt um leið spurði konan á íslensku hvort við værum íslensk. Ekki þrættum við fyrir það en þá sagði hún: Jahérna, ég hélt að þið væruð akfeitir Ameríkanar. Einmitt það já.
Konan reyndist ákaflega ræðin og sagði okkur að hún hefði búið í Englandi í yfir tuttugu ár, væri fráskilin og hefði ætlað að hitta mann sem hún var nýkomin að kynnast á þessum bar. Hún tók það sérstaklega fram að þetta væri afskaplega fínn bar enda færi hún bara á fína bari. Maðurinn sem hún ætlaði að hitta lét hins vegar ekki sjá sig.
Einhverra hluta vegna barst talið að jarðskjálftum og eldgosum og ég í sakleysi mínu sagði frá því að þegar Surtseyjargosið var hefði pabbi leigt flugvél og farið með mig að sjá gosið. Hún spurði mig hálfreiðilega hvað pabbi minn hefði gert og þegar ég sagði að hann hefði verið útgerðarmaður og skipstjóri sagði hún að þá væri ekki nema von að hann hefði haft efni á svona lúxus. Svo bætti hún við: Faðir minn var kennari, það verður enginn ríkur af því en það er MJÖG göfugt starf og það fór ekki á milli mála að skipstjórar og útgerðarmenn væru ekki sérlega göfugir.
Þegar leið að því að við færum á veitingahúsið spurði hún mig hvort ég drykki mikinn bjór. Ég svaraði að ég gerði bara þó nokkuð af því í fríum en yfirleitt drykki ég bara Díet Coke. DIET coke, já, sagði hún þá. Það sést nú ekki á þér. Takk fyrir pent.
Við sprungum úr hlátri þegar við vorum komin út af þessum fína bar og furðuðum okkur ekki á því að hún væri fráskilin eða að maðurinn hefði sleppt því að láta sjá sig. Því þó svo að þetta væri afskaplega hugguleg kona var hún fjarri því að vera viðkunnanleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
2.7.2008 | 12:01
Til lukku með daginn, Styrmir afastrákur
Hann Styrmir Bolli sonur minn á afmæli í dag. Orðinn 35 ára drengurinn. Rosalega finnst mér ég orðin gömul að eiga hálffertugt barn.
Styrmir hefur alltaf verið yndislegur. Samt var það nú svo að fjölskyldan var sannfærð um að pabbi minn hefði tapað sér að einhverju leyti þegar hann fæddist. Þessi sex barna faðir og margra barna afi tók þvílíku ástfóstri við drenginn frá fyrstu stundu að annað eins hefur varla sést. Styrmir var ekki einu sinni kominn heim af fæðingardeildinni þegar pabbi var búinn að kaupa rúm svo það væri nú öruggt að drengurinn gæti gist sem oftast hjá afa og ömmu. Þegar hann kom í land kom hann beint heim til mín og sótti drenginn og skilaði honum aftur á leiðinni um borð. Svo fór pabbi að taka hann með sér á sjóinn þegar hann var fimm sex ára.
Styrmir fetaði í fótspor mömmu sinnar og var mjög oft með afa á Grandanum, það þekktu hann orðið allir kallarnir í Kaffivagninum. Einu sinni um mitt sumar þegar verið hafði einmuna blíða og brakandi þurrkur svo dögum skipti komu þeir heim af Grandanum. Styrmir hefur verið svona fjögurra ára og það þurfti engan Einstein til að sjá að hann hafði pissað í buxurnar. Þegar við mamma fórum að býsnast yfir því að hann hefði pissað í buxurnar svona stór strákur héldu þeir því blákalt fram og lugu upp í opið geðið á okkur að hann hefði dottið í poll. Skömmu síðar hurfu þeir og mamma fór inn á bað. Stóð þá ekki hann faðir minn þar og var að þvo buxurnar af drengnum í handlauginni. Þessi maður sem aldrei hafði þvegið svo mikið sem sokk lagði þetta á sig til að eyða sönnunargögnunum.
Einu sinni gisti Styrmir hjá mömmu þegar pabbi var úti á sjó. Hann kom heim eldsnemma morguns og þá var mamma steinsofandi en Styrmir var í afa holu að skoða Andrésblöð og borða kex. Pabbi bað hann um að færa sig og stráksi fór til fóta. Þegar pabbi var kominn upp í og ætlaði að sofna starði Styrmir svo stíft á hann að hann gat ekki sofnað. "Af hverju horfirðu svona á mig, Styrmir minn?" spurði pabbi. "Bráðum brotnar hún," svaraði Styrmir spekingslega. "Brotnar hver?" sagði pabbi forviða. "Kexkakan sem þú liggur á," var svarið og þarf ekki að orðlengja það neitt frekar að pabbi stökk upp úr rúminu til að losna við kexmylsnuna.
Pabbi keypti sér alltaf mjög flotta og dýra bíla og skipti oft. Þegar Styrmir var kominn með bílpróf hringdi afi hans ósjaldan á föstudögum til að bjóða honum bílinn um helgina. Það gekk vitanlega ekki að prinsinn hans væri á einhverjum druslum á rúntinum. Sambandið á milli þeirra var alltaf ákaflega fallegt og saknaði Styrmir afa síns sárt þegar hann lést.
Til hamingju með daginn, kæri frumburður. What would I do without you?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
1.7.2008 | 12:10
Þegar ég fékk kraftadelluna
Þegar Jón Valgeir uppáhaldsfrændi minn tilkynnti mér að hann væri að fara að keppa í aflraunum svelgdist mér á af skelfingu. Þetta væri örugglega stórhættulegt og hann myndi slasa sig að minnsta kosti einu sinni í viku. Ég reyndi að telja hann af þessu og útskýrði fyrir honum að við í þessari fjölskyldu stunduðum ekki íþróttir. Sá sem hefði komist næst því væri bróðir minn sem var í lúðrasveit og ráfaði um í skrúðgöngum.
Jón lét sig ekkert og byrjaði að keppa. Ég hringdi í hann á korters fresti til að gá hvort það væri ekki allt í lagi með hann, hvort honum væri nokkuð kalt og hvort það væru ekki allir góðir við hann og svona. Hann tók þessu vel til að byrja með en að lokum fékk ég að vita að ef ég yrði ekki til friðs yrði ég barin með Húsafellshellunni. Nú átti ég ekki annarra kosta völ en bara mæta og fylgjast með. Fyrst tók ég með mér húfu og vettlinga, nesti og verkjapillur - fyrir Jón - og gommu af róandi - fyrir mig.
Þegar ég var farin að mæta reglulega á keppnir fór taugaveiklunin að rjátlast af mér og ég stökk og gargaði til að hvetja Jón Valgeir. Ég var steinhætt að hafa áhyggjur af honum, hvaða mál væri það svo sem ef hann slasaðist smá, var þetta ekki spurning um að vinna? Í eitt skiptið þegar Jón var að keppa í því hver væri fljótastur að höggva sundur trébol hjó hann í tána á sér og tók í sundur taug. Hann fór á slysadeild og var settur í gifs en fór beint af slysó á keppnisstað þar sem hann keppti í krossfestulyftu á öðrum fæti með blautt gifs á hinum. Og vann. Töffari af guðs náð.
Svo eltum við Úlfar Jón vestur á firði til að fylgjast með Vestfjarðavíkingnum. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt og höfum við farið nokkrum sinnum síðan. Annan daginn átti að keppa á Flateyri og á leiðinni þangað sofnaði Úlfar í bílnum. Þegar hann vaknaði og sá að ég hafði lagt hjá kirkjugarðinum sagði hann hissa: Er legsteinalyfta!?
Og svona fékk ég kraftadellu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
30.6.2008 | 15:42
Ömmuhelgi
Ég tók algjört ömmukast á föstudaginn. Fór með sonardætur mínar, Birgittu 12 ára og Sædísi 8 ára, í Kringluna. Við óðum búð úr búð og keyptum helling af skóm, kjólum, flottum nærfötum og snyrtivörum og fleira. Meira að segja litla skottið fékk gloss, naglalakk og ilmvatn. Sú litla hafði lengi átt þann draum að eignast skó með hjólum undir og vitanlega fékk hún eina slíka sem og systir hennar. Hún kom brunandi og notaði mig til að stoppa sig á og sagði: Ég trúi ekki að ég sé búin að eignast svona skó! Algjört krútt þessi stelpa.
Þegar við vorum búnar að versla okkur upp að hnjám var farið og náð í manninn minn og Úlfar. Svo var brunað á Ruby Tuesday þar sem var borðaður góður matur og svo á Narniu í bíó. Flottur og góður dagur.
Mér fannst Narnia mjög skemmtileg. Er reyndar mikið fyrir ævintýri hvort heldur er á bókum eða í bíó. Bróðir minn sem er 13 árum eldri en ég er svona líka. Það er oft gert grín að okkur, við sögð barnaleg og svona en við kippum okkur ekkert upp við það. Ég vil til dæmis alls ekki lesa bækur um einhverjar hörmungar til dæmis um fólk sem hefur verið í fangabúðum þar sem því var nauðgað og misþyrmt. Ég treysti mér til dæmis alls ekki til að lesa bókina hennar Thelmu Ásdísardóttur, ekki að ræða það. Mér finnst alveg nóg að vita að þessi viðbjóður sé en harðneita að velta mér upp úr honum með því að lesa um hann eða sjá um hann myndir Og hana nú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.6.2008 | 13:38
Tengdafeðgin
Stundum er sagt að þegar strákar velji sér konu velji þeir einhverja sem líkist móður þeirra. Ekki sonur minn, hann er ekki með vott af Ödipusarduld. Styrmir valdi sér aftur á móti konu sem á alveg ótrúlega margt sameiginlegt með manninum mínum.
Maðurinn minn og tengdadóttir
- eiga afmæli sama dag
- eru bæði fædd á ári rottunnar
- eru bæði Vestfirðingar
- eru bæði ljóshærð
- og hvorugt þeirra sér glóru gleraugnalaust
Aðalmunurinn á þeim, fyrir utan það að vera af sitt hvoru kyninu, er að hún er pínulítil, stendur varla út úr hnefa, og algjör orkubolti, einhver duglegasta manneskja sem ég hef kynnst. Maðurinn minn er aftur á móti stór og mikill og líður um í stóískri ró.
Hvað ætli sálfræðingar lesi út úr þessu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar