Færsluflokkur: Bloggar

Nostalgía dauðans

Við erum saman í frænkuklúbbi nokkrar, reyndar erum við bara fjórar eftir því ein er látin og tvær fluttar úr landi.

Í einu svona frænkuboði dró móðursystir mín fram heilu haugana af gömlum "slæds" myndum. Við skelltum upp græjunum og fórum að horfa. Það var jesúsað sig í bak og fyrir hvað við hefðum nú verið mjóar og undurfagrar, hvað þessi kjóll fór mér alltaf betur en eigandanum og svona upphrópanir og skellihlátur fylgdi sýningunni.

En það var fleira en íðilfagrar frænkur á þessum myndum. Þarna var nefnilega að finna myndir af óteljandi fyrrverandi eiginmönnum, kærustum og hjásvæfum. Það var líka alveg merkilegt hvað þeir höfðu verið fagrir í denn, nú orðnir sköllóttir með ístru. Þegar við vorum búnar að skemmta okkur yfir þessu lengi kvölds fannst svo nafn á myndasafnið. Vitanlega X-files.


Horfa fram á við

Við Stjáni héldum upp á ferminguna hennar Birgittu barnabarns á laugardaginn eins og kemur fram í síðasta bloggi. Við héldum veisluna í Iðnó og var allt til fyrirmyndar bæði salur og veitingar.

Þarna hitti ég föðurfólkið hans Styrmis sem mér líkar ágætlega við en hitti afar sjaldan. Seinast sá ég þetta fólk fyrir tveimur árum þegar yngsta stelpan var skírð. Mér finnst það eiginlega fyndið að hitta pabba hans Styrmis og hugsa til þess að við höfum verið gift. Þetta er vænsti maður en átti ekki upp á pallborðið hjá mér til lengdar. Þegar ég sé hann finnst mér eins og ég hafi lesið um þennan tíma í bók sem er á tungumáli sem ég skil ekkert sérstaklega vel. Er mér sem sagt hulin ráðgáta. Nú finnst mér hann miklu frekar vera maðurinn hennar Systu en eitthvað fyrrverandi minn. Svo fjarlægt er mér þetta hjónaband. Taka verður þó tillit til þess að ég er búin að vera gift honum Stjána mínum í 28 ár og því langur tími liðinn. En ég fékk þessa tilfinningu bara fljótlega eftir að við skildum. Skellti fortíðinni í lás og tók framtíðinni opnum örmum.


Fjárans ferming

Hún Birgitta sonardóttir mín fermdist núna 5. apríl. Það sem foreldrar þeirra hafa aldrei búið saman og endalokin endaslepp ákváðum við Stjáni að halda aukafermingarveislu fyrir föðurfjölskylduna í Iðnó á laugardaginn. Það verður bara gaman.

Þetta leiðir hugann að minni eigin fermingu sem er mér ekkert sérlega kær í endurminningunni. Svanhildur systir mín, sem þá bjó í London, var heima einhverra hluta vegna og vitanlega var tískudrósinni úr útlandinu falið að velja föt á mig og greiða mér. Við byrjuðum á að fara í Rímu, sem þá var besta skóbúð bæjarins. Þar sá ég rosalega flotta skó, græna og svarta með háum hæl og þykkum botni. Þessa skó vildi ég en Svanhildur tók það ekki í mál. Þeir væru ekki nógu "fermingarlegir". Þar sem Svanhildur hafði alla tíð ráðskast með mig og ég orðin vön því voru keyptir svartir og hvítir lakkskór með lágum hæl. Alls ekki það sem ég vildi en ég lét mig hafa það. Síðan var farið í kjólakaup og þá upphófst sami söngurinn. Allt sem ég vildi var ekki nógu "fermingarlegt". Það var keyptur á mig svartur kjóll með hvítum líningum í hálsi og á ermum. Mér fannst ég alveg eins og stofustúlkan hjá afa og ömmu.

Þegar pabbi kom í land til að vera heima í fermingunni þekkti hann sína dóttur og fann að ég væri ekki allskostar ánægð. Hann sagði því að við tvö skyldum fara og kaupa kápu. Við fórum víða og loks fann ég æðislega kápu. Hún var beinhvít kasmírkápa, hrikalega flott. Við þetta hresstist ég heldur.

Svo var það hárgreiðslan. Ég vildi fá uppsetta lokkagreiðslu. En nei, það kom ekki til greina, slíkt var löngu farið úr tísku í London. Það varð úr að Svanhildur greiddi mér fyrir ferminguna. Ég var látin sofa með hræðilegar rúllur í hausnum og um morguninn hófst svo greiðslan. Svanhildur var ákveðin í að slöngulokka skyldi ég hafa og ekkert annað. Hárið á mér var bæði sítt og þykkt og þar af leiðandi þungt. Þess vegna þurfti ósköpin öll af hárlakki. Slöngulokkarnir voru svo stífir að það glamraði í mér þegar ég gekk og ég þorði ekki að snúa höfðinu snöggt svo fjandans lokkarnir sveifluðust ekki framan í mig. Ég hefði örugglega fengið glóðarauga af högginu. Fermingin og veislan gengu svo sem allt í lagi fyrir sig en mér leið eins og vinnukonu með ljósakrónu á hausnum.

Svanhildur beit svo höfuðið af skömminni daginn eftir ferminguna. Kvikindið atarna fór í Rímu og keypti skóna MÍNA handa sjálfri sér. Ég varð vitanlega alveg brjáluð en lét ekki á því bera og beið færis. Í næstu rigningartíð þegar allt var ekkert nema drulla og svað stal ég skónum og fór í þeim út í pollana og drulluna og eyðilagði þá. Það var sæt hefnd.


Ekki keyra á gamlar konur

Fyrir þó nokkuð mörgum árum var ég að keyra eftir Langholtsveginum í snjómuggu og lélegu skyggni. Skyndilega birtist vera fyrir framan bílinn og skellur sem gaf til kynna að ég hefði keyrt á einhvern. Ég hentist út úr bílnum og sá að ég hafði keyrt á gamla konu. Hún var illa haldin, blóðug á höfði og fótbrotin. Ég beið eftir lögreglu og sjúkrabíl og hef aldrei á ævinni skolfið jafnmikið.

Næstu daga keyrði ég aftur og aftur yfir konuna. Þegar ég var að sofna hrökk ég upp og fannst ég hafa keyrt á hana aftur. Þegar mér tókst að sofna fékk ég endalausar martraðir af sama toga. Ég var almennt svo gjörsamlega miður mín að ég endaði með að fá róandi og svefnlyf hjá lækninum mínum til að geta náð að jafna mig eftir þessar hrakfarir.

Tveimur til þremur dögum seinna fór ég upp á spítala með blóm til að biðjast afsökunar og Stjáni kom með mér til halds og trausts.

Ég stamaði og hikstaði og leið alveg ferlega illa. Ég komst að því að blessuð konan bjó í nágrenni við mig og þá fæddist þessi endemis setning: Láttu mig bara vita  ef ég get gert eitthvað fyrir þig, ég er nefnilega á bíl eins og þú veist. Hver vissi betur en Þessi kona að ég væri á bíl. Ég fattaði strax hvað ég hafði látið út úr mér og kvaddi í flýti og forðaði mér út. Stjáni skammaði mig ekki einu sinni fyrir vitleysuna þar sem hann sá hvað ég skammaðist mín og að á það væri ekki bætandi. Sem sagt: Ekki keyra á gamlar konur. Það kann ekki góðri lukku að stýra

Fótbolti og fleira

Það er um fátt meira talað en landsleik Íslendinga og Skota. Það minnir mig á að fyrir mörgum árum komu Skotar til Íslands að leika landsleik. Vitað var að heilu flugvélarnar hefðu komið til landsins fullar af æstum skoskum fótboltabullum. Aðeins viku fyrr höfðu Skotar tapað á útivelli og gerðu stuðningsmenn þeirra allt vitlaust eftir þann leik, ruddust um borgina með skemmdarverkum og látum. Vegna þessa var allt tiltækt lögreglulið kallað út til að vera viðbúið ef Skotar skyldu nú tapa. Ég held að allir lögreglumennirnir á vellinum og ég þar með talin hafi óskað þess heitt og innilega að Skotar ynnu svo ekki yrði allt vitlaust í borginni.

Rétt áður en leikurinn hófst heyrði ég sagt fyrir aftan mig: Officer, officer. Ég tók það ekki til mín, enda fannst mér ég enginn andskotans offiséri. Þetta endaði með því að var pikkað í öxlina á mér og sagt geðvonskulega officer og þá fattaði ég að umræddur offiséri væri ég. Ja hérna. Ég var sem sagt orðin offiséri en skömmu áður hafði Þorgeir Þorgeirsson rithöfundur kallað lögreglumenn "einkennisklædd villidýr í frumskógi næturlífs Reykjavíkurborgar". Þannig gat ég valið á milli þess að vera offiséri eða villidýr. Sá á kvölina sem á völina.

 


Fóstureyðingar frá ýmsum sjónarhornum

Reglulega koma upp umræður um fóstureyðingar. Virðist fólk skiptast algjörlega í tvo flokka hvað þetta málefni varðar: Annars vegar réttur konunnar til að ráða yfir eigin líkama og svo þar sem fólk talar um fóstureyðingar sem morð. Það eru fleiri hliðar á þessu máli sem ég þekki af eigin raun.

Þegar ég var tæpra 17 ára varð ég ófrísk. Það var algjört áfall, ég hafði bara sofið hjá þessum eina strák og við höfðum farið svo varlega að því er við töldum. Stærsta skrefið og mesta áhyggjuefnið var að færa foreldrum mínum tíðindin. Þau tóku þessu af stóískri ró og spurðu mig hvað ég vildi gera. Ég sagðist alls ekki vilja eignast barn og því var farið að leita leiða til að koma í veg fyrir það. Vitað var á þessum tíma um nokkra lækna sem tækju slíkt að sér í skjóli myrkurs en það fór tvennum sögum af þeim og foreldrar mínir vildu ekki leggja mig í þá hættu sem ólöglegri fóstureyðingu kynni að fylgja.

Því var haft samband við systur mína sem bjó í London og hún beðin um að undirbúa komu mína. Svo flaug ég til London nokkrum dögum seinna. Við systur fórum á læknastofu í Harley Street. Það var svo ekið með mig og aðra stelpu í limmósínu með skyggðum gluggum á sveitasetur fyrir utan London. Þar var fullkomið sjúkrahús sem aðeins sinnti fóstureyðingum. Eintóm sérherbergi með litasjónvarpi og lúxus. Þarna var ég í tvo sólarhringa en hélt svo aftur til London. Pabbi hafði látið mig hafa ríflegan farareyri og var ég hjá systur minni í hálfan mánuð og verslaði á daginn og skemmti mér á kvöldin.

Það sem mér finnst þessi saga sýna að það eru fleiri hliðar á fóstureyðingum en þær sem ég taldi upp hérna fyrst. Hún sýnir að þær snúast ekki bara um rétt kvenna og barnadráp. Frjálsar fóstureyðingar koma í veg fyrir félagslegt og fjárhagslegt misrétti. Ég var eina barnið sem var eftir

í hreiðrinu hjá vel stæðum foreldrum. Ef dæmið snerist við og ég hefði verið elst af mínum sex systkinum og pabbi verið háseti hjá sjálfum sér hefði ég eflaust orðið að eignast barn 17 ára gömul. Ég hef talað við margar konur sem hafa farið í fóstureyðingu og iðrast þær einskis fremur en ég. En konur sem hafa neyðst til að gefa barnið sitt frá sér eru alltaf með stórt sár í hjartanu. Við verðum að geta valið.

 


Laumuspilið mikla

Þegar ég var búin með lögregluskólann var ég í tæpt ár í SRD eða slysarannsóknadeild. Sú deild sér um öll umferðartengd atvik, hvort heldur það er ómerkileg aftanákeyrsla eða banaslys. Þar vann ég með tveimur af mínum uppáhaldslöggum. Jóni Otta Gíslasyni heitnum sem bæði var stórvinur minn og giftur uppáhaldsfrænku minni. Svo var það hann Birgir Straumfjörð sem er dásamleg mannvera að öllu leyti.

Einn daginn þegar við Jón Otti vorum að rúnta og bíða eftir árekstri eða slysi var tilkynnt um bankarán í Iðnaðarbankanum í Eddufelli. Við urðum ferlega forvitin því hvorugt okkar hafði haft afskipti af bankaráni fyrr. Ekki einu sinni Jón Otti sem var búin að vera miklu lengur í löggunni en ég. Við ákváðum því að stelast á staðinn og svipast um. Það tæki örugglega enginn eftir því. Við lúmskuðumst út úr bílnum sem við máttum vitanlega alls ekki og fórum að skoða vettvang bankaránsins. Vorum bara smástund og laumuðumst svo burt aftur - héldum við að minnsta kosti.

Um kvöldið birtust myndir af okkur í fréttum beggja sjónvarpsstöðva. Það voru myndir af okkur í öllum blöðum daginn eftir. Eftir öllu þessu að dæma hefði mátt ætla að við hefðum séð um rannsóknina á þessu máli alfarið ein og upp á eigin spýtur. Eins og þetta væri ekki nóg birtust myndir af okkur í tveimur annálsbókum frá þessum tíma. Og til að bæta um betur sást myndin af okkur í sjónvarpsauglýsingum um aðra bókina. Við reyndum ekkert að laumast eftir þessar hrakfarir.


Sjóarasögur

Ég hef verið löt að blogga undanfarið og nú þegar ég ætla að láta til skarar skríða dettur mér ekki neitt í hug nema nokkrar sjóarasögur ef einhver nennir að lesa þær.

Stýrimaður hjá pabba í mörg ár var hann Dóri. Dóri var hörkuduglegur og góður sjómaður en þó var sá ljóður á ráði hans að hann átti það til að taka drykkjutúra. Hann vissi sem var að pabbi myndi aldrei hleypa honum drukknum um borð þannig að hann bara hringdi, sagðist ætla að vera fullur á næstunni og bað pabba um að finna afleysingamann, ekkert mál. Einu sinni tilkynnti hann konunni sinni að hann væri farinn í "bíó". Hann kom heim aftur eftir tvo daga, illa til reika og búinn að týna húslyklunum. Hann hringdi því dyrabjöllunni og kom konan hans til dyra. Hún horfði hæðnislega á sjúskaðan eiginmanninn og sagði svo: Hva, er bara komið hlé í bíó?

Önnur saga af þessum sama Dóra er þegar Sæborgin strandaði í vondu veðri. Við erum strand, allir upp á dekk var öskrað niður í lúkar. Viðbrögð mannanna urðu þau að þeir ruku allir upp til handa og fóta og fóru að leita að tóbakinu sínu. Í miðri leit kom þá frá Dóra: Hvað er þetta eiginlega, ætlum við allir að koma reykjandi til helvítis?

Og ein sem er ekki nema svona 15 ára. Þegar Stjáni minn var á Engeynni var eldri maður þar líka. Þetta var lítill snaggaralegur karl og vægast sagt fremur frumlegur í háttum. Í hvert einasta skipti sem ég kom til að sækja Stjána kom karlinn til mín og horfði á mig undrunar- og aðdáunaraugum, svo kom: Þú ert SVO stór, ég hef ALDREI séð svona stóra konu. Svo skoðaði hann mig í krók og kring og gekk svo dæsandi burt. Einu sinni gerðist það loks að hann kom til mín hróðugur og ánægður með sig: Nú veit ég af hverju þú ert svona stór. Þú ert dóttir hans Magnúsar Grímssonar. Eftir þetta leit hann á mig þegar ég kom að sækja Stjána íbygginn og drýldinn en sagði ekki neitt. Hann var búinn að leysa lífsgátuna.


Afmæli, tralalala

Eins og alþjóð veit á ég afmæli í dag. Þegar maður á afmæli í byrjun mars er allra veðra von. Systur mínar sáu sér því leik á borði og töldu mér trú um að það væri vont veður á afmælinu mínu vegna þess að ég hefði verið svo óþekk allt árið. Ég fékk því alltaf samviskubit á afmælinu mínu þangað til að það rann upp fyrir mér ljós að það væri líka oft vont veður á afmælinu hans pabba í desember og hann hafði sko ekki verið óþekkur allt árið.

Tvö afmæli eru mér skýr í minni frá barnæsku og tengjast þau bæði pabba. Þegar ég varð fjögurra ára kom pabbi heim seint um kvöld eða nótt. Ég var vakin og farið með mig fram í eldhús og ég man eftir að hafa setið í fanginu á honum alsæl og grútsyfjuð að opna pakka. Í pakkanum var leikfangaúr og afskaplega fallegur mokkabolli með skelplötuáferð og ekta gyllingu. Ég á þennan bolla enn og er hann því 51 árs í dag. Það var ekki fyrr en nýlega sem það hvarflaði að mér hvernig pabbi hefði komist yfir þetta þar sem hann kom beint af sjónum og kemst líklega aldrei að því.

Hitt var nokkrum árum seinna þegar ekkert þótti afmæli með afmælum nema það væri leikið leikrit og vitanlega var afmælisbarnið i aðalhlutverki. Ég var í miðri ákaflega dramatískri senu, örugglega prinsessa eða eitthvað slíkt, þegar pabbi kom inn úr dyrunum. Ég datt gjörsamlega úr karakter og stökk upp í fangið á honum. Af afmælisskeytum sem ég á frá honum af sjónum sýnist mér að þetta hafi verið einu skiptin sem hann var í landi á afmælinu mínu þegar ég var krakki og unglingur.

Til hamingju, ég.


Hvað skyldi hann hafa dreymt?

Þegar faðir minn var ungur maður vestur á fjörðum var stúlka að nafni Margrét afskaplega hrifin af honum og fór ekki með það í grafgötur að hún ætlaði sér hann fyrir mann þegar þar að kæmi. Pabbi fór snemma að heiman í skóla, fyrst á Laugarvatn og þaðan til Reykjavíkur í Verslunarskólann og þaðan í Stýrimannaskólann og átti Margrét því óhægt um að leggja fyrir hann snörur sínar. Þegar allri þessari skólagöngu var lokið kom pabbi vestur aftur með mömmu og elstu systur mína Margréti til lítillar gleði. Margrét giftist aldrei og var ákaflega drykkfelld.

Þegar pabbi hóf svo störf sem skipstjóri á eigin skipi fór hann að dreyma Margréti reglulega. Í draumunum var hún drukkinn og var að reyna við pabba og koma honum í rúmið með sér. Eftir að hafa dreymt þennan draum nokkrum sinnum fór hann að taka eftir því að þeim fylgdi undantekningalaust aftakaveður. Pappi fór því að taka mark á draumunum og lét hífa trollið og sigla í var eða í næstu höfn. Oft rauk hann svona upp í blíðskaparveðri og jafnvel rétt búinn að kasta trollinu. Áhöfnin hélt stundum að "kallinn" væri orðinn vitlaus en sá fljótlega að hann hafði alltaf rétt fyrir sér. Eftir því sem Margrét komst nær því að taka pabba á löpp, þeim mun verra varð veðrið. Þótt pabbi hefði tekið þessa drauma marktæka grínaðist hann oft um það að þegar henni tækist að koma honum í rúmið með sér væri hann feigur. Þess vegna langar mig svo að vita hvað hann dreymdi síðustu nóttina á Vestfjörðum en hann lést í bílslysi á leiðinni heim.

Foreldrar mínir bjuggu ekki lengi á Vestjörðum og fluttu til Reykjavíkjur um miðjan fimmta áratuginn. Þegar þau og Margrét voru komin vel á sextugsaldur flutti Margrét til Reykjavíkur, drykkfelld sem fyrr. Hún hóf þá að ofsækja aumingja mömmu, ýmist hringdi eða kom til að segja henni að pabbi hefði gert mikil mistök með því að giftast mömmu en ekki Margréti. Lét hún einnig í veðri vaka að ekki væri of seint að leiðrétta þau mistök. Aumingja Margrét hafði sem sagt haft pabba á heilanum allt sitt líf og aldrei fékk hún hann. Nema ef vera skyldi í seinsta draumnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband