Færsluflokkur: Bloggar
18.2.2009 | 21:12
Hvunndagshetja
Í kreppunni undanfarið hefur mér oft orðið hugsað til kvöldstundar sem ég átti í Rauðsokkuheimilinu á Skólavörðustíg 12 fyrir rúmum 30 árum. Ég var mikið þarna á þessum árum og var með þeim yngstu. Þarna kynntist ég mörgum frábærum, klárum og skemmtilegum konum sem enn eru mér fyrirmyndir að mörgu leyti.
En eitt kvöldið fengum við gest til að ávarpa samkomuna. Sá gestur var hún Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem ég vissi mest lítið um á þessum árum. Aðalheiður kom, hún var stórskorin kona, ekkert sérstaklega vel til höfð og bar þess augljós merki að hafa þurft að taka til hendinni um ævina. Þegar hún fór að tala og eftir því sem á mál hennar leið fannst mér þetta fallegasta kona sem ég hafði nokkru sinni séð.
Hún talaði um kreppuna miklu. Foreldrar hennar voru fátækir, með mikla ómegð og bjuggu í pínulitlu og eflaust óhollu húsnæði. Hún sagði frá því þegar pabbi hennar fór fyrir allar aldir á morgnana til að reyna að fá vinnu við uppskipun eða bara hvað sem er. Stundum fékk hann eitthvað að gera og þá var kátt í kotinu. Stundum kom hann heim bugaður maður með ekkert til að framfleyta sinni stóru fjölskyldu. Hún sagðist hafa verið farin að þekkja það á fótataki hans heim að húsinu hvort hann hefði fengið einhverja vinnu eða ekki og þar með hvort þau fengju eitthvað að borða eða ekki. Ekki voru til peningar til að kynda húsið og kom það þá sér vel hversu mörg þau systkinin voru. Þau gátu kúrt saman og þannig fengið hlýju hvert frá öðru. Hún sagði frá fleiri atburðum sem ekki verða raktir hér. Hún talaði í rúma klukkustund og á meðan sátu einar 20-30 konur svo hljóðar að heyra hefði mátt saumnál detta.
Við erum vissulega í kreppu. En nú er til atvinnuleysissjóður sem getur séð fólki fyrir brýnustu nauðsynjum þótt ekki sé það mikið meira. Sumir krafla sig áfram á greiðslukortum og yfirdrætti og svo eru það Fjölskylduhjálpin og Mæðrastyrksnefnd. Ekkert af þessu var fyrir hendi þegar hún Aðalheiður var að alast upp og neyðin því alger. Barnmargar fjölskyldur í lélegu og of litlu húsnæði heyra vonandi sögunni til. Margir hafa ennþá vinnu þó svo að skera hafi þurft niður, lækka laun og minnka starfshlutfall. Við björgum okkur flest einhvern veginn en þá voru engin bjargráð til. Þegar ég hugsa um þessa kvöldstund með henni Aðalheiði finnst mér ég bara hafa það andskoti gott þó svo að maður verði orðið að neita sér um eitt og annað sem manni þótti ómissandi en sér nú að var bara bölvaður óþarfi.
Þessari kvöldstund gleymi ég aldrei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.2.2009 | 21:46
Æðibunugen
Við í minni fjölskyldu erum allajafna mesta rólegheitafólk. Samt er það svo að ef hlutirnir ganga ekki eftir okkar höfði verðum við óskaplega óþolinmóð og vöðum út í ótrúlegustu hluti. Sjálf er ég eins og bústin dröfnótt hæna og yfirleitt húki ég í rólegheitunum á mínu priki. En ef eitthvað verður til þess að raska ró minni verð ég alveg brjáluð. Þeytist um hænsnahúsið með gaggi og fjaðrafoki. Svo þegar það er yfirstaðið kem ég mér bara aftur fyrir á prikinu mínu og gleymi því sem gerði mér gramt í geði.
Hann pabbi til dæmis. Einu sinni endur fyrir löngu var komið með 150 lítra olíutunnu sem átti að fara um borð í Sæborgina. Mönnunum sem komu með tunnuna gekk ekki vel að ná á henni taki og áttu þeir í mesta basli við að koma tunnunni um borð. Þá fuðraði pabbi í loft upp, tók tunnuna, skellti henni á öxlina á sér og fór með hana um borð. Hann var allur blár og marinn á handleggnum og öxlinni. En tunnan komst um borð og þá var allt í góðu. Allavega betra en ef hann hefði fengið hjartaslag af æsingi.
Ég held samt að hann Grímur, föðurafi minn, eigi metið. Afi varð 86 ára og alltaf eldhress, enda þekktur athafnamaður vestan af fjörðum. Amma var yngri en hann, en hafði líka verið mikill skörungur á yngri árum. Hún eltist mun verr en hann og átti orðið mjög erfitt með gang og notaði tvo stafi. Seinustu árin voru þau á Hrafnistu. Eitt sinn þegar þau komu úr mat var biðröð við lyftuna. Slíkt var þeim gamla ekki að skapi. Hann ákvað því að fara stigana þrátt fyrir mótmæli ömmu. Hann dró hana miskunnarlaust upp alla stigana upp á fjórðu hæð. Þegar
þangað var komið var amma slæm í öxlinni, svo slæm að það var kallaður til læknis. Þá kom í ljós að í öllum hamaganginum hafði afi rifið hana ömmu úr axlarliðnum. Afi var samt besti kall, bara dálítið óþolinmóður.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.2.2009 | 18:22
Þaulsetinn með afbrigðum
Alltaf er Davíð jafnlítillátur og ljúfur. Nú segist hann aldrei hafa hlaupið frá hálfkláruðu verki og ætli sér ekki að gera það nú. Er þjóðin sem sé bara hálffarin á hausinn? Þessi maður hlýtur að eiga margfalt heimsmet í hroka og frekju. Haggast ekki þó lagt sé að honum úr öllum áttum að pilla sig hið snarasta. Hangir á einhverju gati í lagasetningum og bifast ekki frekar en klettur. Ég veit að það er talað um að fólk sé traust eins og klettur. Þannig klettur er Davíð ekki. Hann er svona óþurftarklettur.
Væri bara ekki ráð að gera það sama og hann gerði við Þjóðhagsstofnun hérna um árið? Leggja bara niður Seðlabankann og losna við karlkvölina í leiðinni. Ég held svei mér þá að það sé eina ráðið til að koma þessari karlálft frá. Betra er autt sæti en illa skipað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.2.2009 | 18:59
Rasistalakkrís
Ég keypti mér lakkrís um daginn sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Þegar mér varð litið utan á pokann kom í ljós að framleiðandinn gengur undir nafninu Sambó. Hvað dettur manni í hug þegar maður heyrir orðið Sambó? Litli svarti Sambó vitanlega. Og hvað eiga lakkrís og litli svarti Sambó sameiginlegt? Þeir eru auðvitað báðir svartir.
Þjóðfélagið fór á annan endann þegar Tíu litlir negrastrákar var gefin út aftur. Það þótt meiri háttar rasismi. Á meðan borðar fólk lakkrís sem heitir Sambó án þess að hafa nokkuð við það að athuga.
Er þetta ekki tvískinningur?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.2.2009 | 22:55
Vökustaurar
Við fjölskyldan sátum bara og horfðum á sjónvarpið í gærkvöldi og ekkert svo sem fréttnæmt við það. Heimilisfaðirinn fór í rúmið um miðnætti en við Úlli sátum áfram og spjölluðum saman. Svo fórum við að geispa og ég hélt að klukkan væri örugglega orðin 2 eða eitthvað. Þá kom í ljós að klukkan var orðin hálf sex, takk fyrir pent. Sem betur fer átti Úlli ekki að mæta í skólann í morgun þar sem það var starfsdagur hjá kennurum. Mér finnst það nú eiginlega lýsa einbeittum brotavilja að halda ekki bara vöku fyrir drengnum alla nóttina heldur að bera það á borð fyrir alþjóð á blogginu. Þetta er svo sem ekkert í fyrsta skipti sem svona gerist. Þegar við Úlli byrjum að spjalla á annað borð er eins og við getum ekki hætt. Frábært að eiga svona skemmtilegt barn sem getur haldið manni uppi snakki klukkutímum saman.
Ég fékk í jólagjöf einhverja albestu gjöf sem ég hef fengið á minni ævi. En það er Ipod og ársáskrift að audible.com. Audible.com er alveg frábær síða þar sem hægt er að hlaða endalaust niður góðum bókum ef maður er áskrifandi. Stjáni er alveg alsæll að hafa gefið mér þetta því nú þarf hann ekki að hlusta á hljóðbækurnar sem ég hef spilað af segulbandi á náttborðinu hingað til. Ég var orðin svo háð þessu að um leið og spólan var búin settist ég upp og sneri henni við. Stjáni heldur því fram að ég hafi ekki einu sinni hætt að hrjóta á meðan. Fann það bara í gegnum svefninn að það var enginn að lesa fyrir mig. Ég hugsa að ég sé búin að hlusta svona fimm hundruð sinnum á allan Harry Potter og hefur aldrei leiðst eitt augnablik. Ég elska Harry Potter. En það er ekki ónýtt að geta náð sér í alla nýjustu reyfarana og skriðið með þá upp í rúm og ekki einu sinni verið að trufla Stjána. Merkilegt hvað hann er búinn að vera þolinmóður þessi elska. Ég held að hann sé jafnhrifinn af Ipodinum og ég þótt af öðrum orsökum sé.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.1.2009 | 19:35
Vondar og góðar fréttir
Ég er alveg hæstánægð með að fá hana Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Nú er hennar tími svo sannarlega kominn. Hún hætti í Alþýðuflokknum eftir mikil átök við Jón Baldvin sem að eigin sögn hafði menntað sig til að verða forsætisráðherra. Nú verður Jóhann forsætisráðherra sem honum tókst aldrei að verða. Það veit sko enginn ævina sína fyrr en öll er. Ég vona að Jóhanna geti komið í veg fyrir meiri samdrátt í heilbrigðiskerfinu en nauðsynlega þarf. Það er að verða ansi kostnaðarsamt að fara til læknis. Ég þarf að fara til bæklunarlæknis í næstu viku og fyrsta skoðun kostar 8-15.000 krónur, takk fyrir. Bæklunarlæknar hafa víst ekki samning við TR og ég þori ekki einu sinni að hugsa um það hvað það kemur til með að kosta ef ég þarf að fara í aðgerð.
Kreppan herðir betur á klónni með hverjum deginum. Okkur hérna voru að berast þær fréttir að fækka eigi útgáfudögum blaðsins um einn, þannig að það kemur ekki út á mánudögum. Þá falla sunnudagsvaktirnar niður og með þeim lækka vitanlega launin. Þetta er sagt munu verða tímabundið en hvað verður það langur tími? Maður var nú ekkert of sæll af laununum sínum fyrir. Bjáninn ég að hafa aldrei farið í framboð. Kannski að ég hefði komist á þing og fengið fín laun og ennþá fínni eftirlaun. Svona er maður alltaf vitur eftir á.
Ég er strax farin að hlakka til kosninganna í vor. Kosningar eru með því skemmtilegra sem ég veit og þær verða vitanlega extra skemmtilegar núna. Verður fróðlegt að sjá hvað fylgið helst hjá Sjálfstæðisflokknum þegar hann verður farinn að kenna nýju stjórninni um allt sem aflaga fer og gleymir alveg sinni eigin valdasetu í 17 ár.
Sem betur fer hefur maður þó alltaf eitthvað til að hlakka til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.1.2009 | 19:29
Boðflennur
Mótmælin í dag voru svo sannarlega tímabær eins og mótmælin frá byrjun. Ríkisstjórnin og allt apparatið í kringum hana, svo ekki sé minnst á Seðlabanka, Fjármálaeftirlitið og ríkisbankana, eru bara boðflennur í stólum sínum. Þeim var að vísu boðið upphaflega, en hafa nú setið lengur en þeim er sætt og eru ekki lengur velkomin. Hvernig er hægt að sitja eins og staðfastur staur þegar fólk veit að það er óvelkomið þar? Hvers vegna hlustar þetta lið ekki á fólkið í landinu sem er víst ekki þjóðin samkvæmt sumum ráðamönnum?
Ef ekki verður farið að gera einhverjar breytingar og reyna að taka til eftir boðflennurnar mun eitthvað gerast. Eitthvað alvarlegt. Fólk er orðið fjúkandi reitt og maður þekkir varla orðið nokkurn mann sem ekki hefur fengið að finna fyrir afleiðingum gerða þessa fólks. Fólk hefur misst vinnuna, mátt sæta launalækkun, tapað sparífé sínu og jafnvel aleigunni. Allir ráðamenn skjálfa af hræðslu ef minnst er á að hrófla við Davíð Oddssyni. Hvaða hreðjatak hefur þessi maður á þeim? Þora þeir ekki í kosningar af ótta við að ný stjórn myndi hugsanlega víkja Davíð úr Seðlabankanum og þá yrði fjandinn laus?
Það eina sem gert er að skera niður í heilbrigðiskerfinu og auka gjöld og skatta á þá sem þurfa á því að halda. Það eru oft einmitt þeir sem minnst mega sín og þurfa jafnvel að fara að velja á milli að leita sér lækninga og kaupa mat og reka heimili fyrir börnin sín. Á meðan eru allir þingmenn með aðstoðarmenn, flakka um heiminn og gista á lúxushótelum "af því ráðstefnurnar eru haldnar á fínum hótelum". Ætli þetta fólk sé skyldað til að gista á sama hóteli og ráðstefnan er haldin á?
Ég er búin að fá gjörsamlega upp í kok. Ég skil ekki þennan dónaskap sem þjóðinni er sýndur, hún er hunsuð og þeir sem voga sér að mótmæla eru skríll og eitthvað þaðan af verra.
Hvenær fattar ríkisstjórnin að við erum alveg að verða að því komin að henda henni út með valdi ef hún fæst ekki til að fara með góðu við kurteislegar ábendingar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.1.2009 | 22:15
Landi er viðbjóður
Í kjölfar kreppunnar hefur landaframleiðsla farið að stinga upp kollinum á nýjan leik. Eins og allir vita miða landasalar aðallega á unglingana og eru því stórvarasamir.
Fyrir um það bil 15 árum síðan ætlaði Daddi, vinur hans Styrmis, að vera ægilega lúmskur og lauma landaflösku innan á sér inn í herbergið hans Styrmis. Ekki fór betur en svo að hann missti flöskuna sem brotnaði á parketinu í stofunni. Aumingja Daddi fór alveg í kerfi, stamaði og afsakaði sig og fór svo fram og náði í tusku og þurrkaði allt upp.
Nú héldum við að málinu væri lokið. Aldeilis ekki. Bletturinn sem landinn fór á var alveg glerháll í langan tíma á eftir. Það fékk okkur virkilega til að velta því fyrir okkur hvað hefði verið í þessu eiginlega. Hvað getur það verið í landa sem gerir parket glerhált í lengri tíma? Daddi viðurkenndi á endanum að hann væri dauðfeginn að hafa ekki látið þetta ofan í sig eftir að þetta kom í ljós. Enda átti hann bara nokkrar vikur í tvítugt til að geta keypt sér áfengi löglega.
Við vörum Úlfar og vini hans kröftuglega við því að koma nokkurn tíma nálægt landa. Ekki það að þeir séu farnir að sýna einhvern áhuga á áfengisdrykkju en betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.1.2009 | 18:14
Eineltisforvarnir
Ég hef verið að lesa bloggið hennar Hólmfríðar sem lenti í einelti í Varmárskóla. Einelti er viðurstyggð og það þarf að taka á því strax í leikskóla.
Úlfar minn var í Steinahlíð sem var einstaklega góður leikskóli. Þar fékk hann kennslustund sem hann gleymir aldrei og ég er viss um að hann mun aldrei nokkurn tíma taka þátt í einelti, þökk sé fóstrunum í Steinahlíð.
Einu sinni þegar ég sótti hann var káti og glaði strákurinn minn daufur í dálkinn. Ég reyndi að hressa hann við en ekkert gekk og skýringin kom þegar við vorum komin upp í rúm. Þegar hann loks ákvað að útskýra depurð sína dró hann sængina upp fyrir haus og talaði undan henni: Hann Siggi girti niður um Óla í dag. Nú, sagði ég, og var hann ekki skammaður? Jú, sagði Úlli minn. Af hverju ert þú þá svona dapur? Þá byrjaði hann að háskæla og sagði: Ég hló. Fóstrurnar sögðu að það væri alveg jafnslæmt. Við ræddum þetta lengi vel og loks var hann orðinn sáttur, leið betur eftir játninguna, og hann sofnaði.
Við vorum einmitt að ræða þetta í gærkvöldi og hann man eftir þessu ennþá. Forvarnirnar skila sér greinilega stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.1.2009 | 22:20
Einu sinni átti ég kött...
...sem hét Branda. Við áttum hana í rúm 11 ár og var hún nær alla sína ævi til háborinnar fyrirmyndar. Einu sinni þegar við Styrmir vorum á leið í veislu var ég komin út í bíl og hann var eitthvað leiðinlegur í gang. Styrmir kom út á tröppurnar, rak upp heljarinnar vein og stökk að bílnum. Hann hafði séð köttinn hendast undan vélarhlífinni og burt. Við kíktum ofan í húddið og þá kom í ljós að báðar viftureimarnar voru slitnar og vélin öll í kattarhárum.
Ekki kom kisa um kvöldið og ekki daginn eftir. Við vorum að hugsa um að auglýsa eftir henni en vorum ekki viss um hvað ætti að standa í auglýsingunni. Helst datt okkur í hug að hún gæti hljómað einhvern veginn svona: Sköllóttur köttur með viftureim um hálsinn hvarf frá Nökkvavogi 44.
Næsta kvöld var ég á leið niður í þvottahús og heyrði þá eymdarlegt mjálm úti á tröppum. Þar var Branda blessunin komin með mölbrotið læri. Hún var fimm vikur á dýraspítalanum og á endanum var pöntuð stálplata frá Noregi og sett í hana og þá lagaðist hún loksins. Þetta var alveg fokdýrt en samt þess virði. Þetta var þvílíkur draumaköttur.
En svo urðum við að láta lóga henni, þessari elsku. Þegar Úlfar fæddist tapaði hún sér af afbrýðisemi. Sat um að stökkva upp í vögguna hans og það sem verra var, hún fór að skíta úti um allt. Þetta stýri var svo útsmogið að hún skeit alls staðar þar sem ekki var vinnandi vegur að þrífa eftir hana nema með stórátaki. Innst í skápum, á bak við miðja hillusamstæðuna og fleiri staði fann hún sér. Við reyndum eins og við gátum að umbera þetta í þeirri von að hún jafnaði sig en svo var nú aldeilis ekki. Hún varð að fara og það var mikil eftirsjá að henni. Núna eigum við hana Trítlu sem verður vonandi sem lengst þar sem ekki er von á fleiri barneignum hjá okkur hjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
- berglindnanna
- mammzan
- hross
- ragnhildur
- skessa
- gattin
- gurrihar
- landsveit
- larahanna
- asthildurcesil
- konukind
- skjolid
- jensgud
- eddaagn
- jenfo
- heidathord
- jonaa
- amman
- rebby
- hallarut
- ringarinn
- gunnarkr
- birtabeib
- brylli
- olapals
- snar
- stormur
- krummasnill
- lindalinnet
- bifrastarblondinan
- skordalsbrynja
- danjensen
- hneta
- hildurhelgas
- gudrunp
- gleymmerei
- brandarar
- astabjork
- holmfridurge
- jaherna
- drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 58902
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar