Færsluflokkur: Bloggar
10.3.2008 | 20:17
Komin heim
Þá erum við komin frá Svíþjóð úr árshátíðarferðinni. Allir djömmuðu villt og galið, nema við gömlu hjónin. Þegar við komum til Malmö fengum við okkur að borða og síðan að kaupa föt á sonardæturnar. Eftir það ákváðum við að fara upp á herbergi og hvíla okkur aðeins. Það eina sem ég man er að ég rumskaði við að maðurinn minn var að taka af mér bókina og gleraugun af nefinu á mér.
Síðan var árshátíðin daginn eftir. Við klæddum okkur upp á og fórum brött á árshátíðina, vorum í matnum og skemmtiatriðunum en þegar klukkan var farin að ganga tólf vorum við aftur orðin syfjuð! Við skruppum á barinn niðri og fengum okkur drykk, svo beint upp á herbergi, steinsofnuðum og sváfum til morguns. Ég hef lúmskan grun um að þetta séu allsvakaleg ellimerki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 17:36
Ég á afmæli í dag, tralalalalala
Ég er orðin 54 ára, hvorki meira né minna. Ég hélt að ég væri ódauðleg þangað til ég eignaðist yngri son minn þegar ég var 39 ára. Þá fattaði ég að ég myndi að öllum líkindum aldrei sjá hann á sama aldri og ég var þá, ég myndi vera 78 ára. Ég fór einu sinni til Amy Engilberts og hún sagði að ég myndi deyja snögglega árið 2030, þá verð ég 76 ára.
Þegar ég fæddist fór móðursystir mín með systur mínar sem voru níu ára að skoða nýja barnið. Þær stóðu spenntar við sýningargluggann þar sem komið var með hvert engilfagurt barnið af öðru. Svo kom ég, eldrauð, krumpuð og með mikinn svartan hárlubba. "Er þetta okkar?" sögðu þær systur sárar og svekktar yfir þessari ófrýnilegu viðbót við fjölskylduna. Síðan fóru þær að skæla af vonbrigðum.
Ég er langyngst af sex systkinum. Mamma kallaði mig hreiðurböggul, pabbi kallaði mig örverpi en systur mínar kölluðu mig Litlu Ljót í mörg ár eftir vonbrigðin á fæðingardeildinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.3.2008 | 20:47
Fátt er svo með öllu illt...
9. desember árið 2000 var togarinn Rán á veiðum í brjáluðu veðri. Þar um borð var maðurinn minn. Þeir voru að taka inn trollið þegar brot reið yfir skipið og trollbelgurinn kastaðist til og þeytti manninum mínum, sem er tæpir tveir metrar og vel yfir hundrað kíló, þvert yfir dekkið og hann lenti á rekkverki og slasaðist mjög illa á hálsi og baki.
Í einu vetfangi var maðurinn orðinn öryrki og 75% af tekjum heimilisins horfin. Það hefði þó getað farið verr því í sjóprófi kom fram að hefði hann ekki verið svona hávaxinn hefði hann fengið belginn í höfuðið og hefði þá ekki þurft að kemba hærurnar.
Nú tóku við erfiðir tímar. Hann alltaf mjög kvalinn og fór í hverja aðgerðina á fætur annarri. Reynt var að brenna fyrir taugaenda til að minnka sársaukann en svæðið var of stórt til að það tækist almennilega. Hann fór á Reykjalund og það kom svo sem ekkert út úr því. Rótsterkar verkjatöflur voru það eina sem virkaði. Ég spurði einu sinni heimilislækninn okkar hvort hann þyrfti ekki að fara í meðferð þegar hann hætti á lyfjunum. Læknirinn horfði á mig eins og ég væri hálfviti og sagði: "Hann hættir aldrei á þeim." Þannig var nú það.
Í öllu þessu tilstandi kom upp ástand sem ég hafði alls ekki hugsað út í. Sjálf er ég skipstjóradóttir og hafði verið sjómannskona öll mín fullorðinsár. Ég hafði sem sé aldrei upplifað það að það væri karlmaður einhver fastastærð á heimilinu. Fljótlega eftir að hann kom í land fór ég að finna fyrir pirringi yfir að hann væri að skipta sér af barninu MÍNU, róta í skúffunum og skápunum MÍNUM og vildi jafnvel breyta hlutum sem ég hafði alltaf gert eftir mínu höfði. Og það sem meira var, strákurinn minn sem var sjö ára þegar þetta gerðist var iðinn við að láta pabba sinn vita að "við mamma gerum alltaf svona en ekki svona".
Smám saman vöndumst við Úlfar þó þessari innrás á heimilið og nú er þetta bara orðið hið besta mál. Maðurinn sem gat ekki smurt sér brauðsneið án þess að slasa sig er orðinn úrvalskokkur, ég man ekki hvenær ég eldaði síðast. Hann á rússneskan vin sem er í því að kenna honum að gera æðisgengnar súpur. Þær eru rosalega góðar en það tekur um fjóra tíma að matreiða þær. Takk fyrir pent. Fyrir tveimur árum keypti hann nýja þvottavél og þurrkara sem voru sett beint niður í þvottahús. Ég hef ekki enn séð þessar græjur en mig minnir að hann hafi sagt að þetta sé AEG. Við fáum heimilishjálp í skúringarnar og aðrar hreingerningar og ég er svo til gjörsamlega hætt að þurfa að standa í bölvuðum húsverkunum sem ég hata af ofsafenginni ákefð.
Nú fyrst skil ég hvað kallarnir í gamla daga áttu gott að eiga heimavinnandi konur og þurfa "bara" að vinna. Ég vinn vaktavinnu og með þessu fyrirkomulagi er alltaf einhver heima fyrir litla barnið sem er 14 ára.
Sko bara. Aðstæður sem til að byrja með minna bara á hafís og hörmungar geta orðið hinar bestu með tímanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.3.2008 | 16:42
Nú er ég reið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.3.2008 | 15:30
Prinsinn hennar mömmu
Við 14 ára sonur minn vorum bara tvö heima í gærkvöldi. Við höfðum bara slökkt á sjónvarpinu og spjölluðum saman. Dágóður tími fór í að rifja ýmislegt skondið sem hann afrekaði þegar hann var lítill og læt ég tvær smásögur fylgja hér með að gamni.
Drengurinn heitir Úlfar Örn en er að öllu jöfnu kallaður Úlli. Ef hann var svolítið óþekkur þegar hann var lítill var hann kallaður Úlfar og ef hann gekk út yfir allan þjófabálk var hann kallaður Úlfar Örn. Einu sinni gerði ég eitthvað sem honum mislíkaði og þá hvessti hann á mig augun og sagði reiðilega mamma Örn.
Þegar hann var 4 ára var ég að svæfa hann og þegar ég hélt hann væri sofnaður læddist ég fram og slökkti ljósið í leiðinni. Þá kom lítil rödd undan sænginni og sagði: Ekki slökkva, ég fæ myrkraverk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.2.2008 | 12:17
Vika í Svíþjóð
Jæja, þá kemur færsla númer 2. Ég mátti ekkert vera að því að blogga í gær þar sem það var brjálað að gera hjá mér. Eftir nákvæmlega viku förum við hjónin til Svíþjóðar í árshátíð með vinnunni minni. Það er í sjálfu sér lítið mál, en sá böggull fylgir skammrifi að við verðum að skilja litla barnið sem er 14 ára eitt heima. Vinur hans verður hjá honum og við erum búin að brýna fyrir þeim að láta enga vita að þeir verði bara tveir heima. Ég treysti þeim tveimur alveg en maður hefur heyrt um að unglingar hafi hreinlega ráðist inn hjá krökkum sem eru einir heima og allt farið úr böndunum. Sonur minn er bæði fullorðinn eftir aldri og líka ósköp barnalegur. Hann fékk að fara í bæinn um daginn með vini sínum sem átti sextán ára afmæli og fleirum. Hann átti að koma heim klukkan 12. Klukkan 9 var minn maður mættur, alveg í rusli, því hinir strákarnir höfðu orðið sér úti um áfengi og urðu pöddufullir. Ég var mjög þakklát fyrir að minn maður flúði bara heim án þess að taka þátt í þessu. Eru einhverjir með ráð eða reynslusögur af svona unglinum einum heima? Endilega látið mig vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2008 | 14:50
Nú er ég byrjuð að blogga eins og hinir
Komið þið sæl. Ég hef lengi verið svona utangarðsmaður í bloggheimum, lesið blogg, kommentað og svoleiðis en ekkert skrifað sjálf. Svona til að kynna mig fyrir væntanlegum lesendum (ef þeir verða þá einhverjir) koma hér helstu upplýsingar. Ég er alveg að verða 54 ára, gift elskunni minni til 27 ára sem var sjómaður þar til hann slasaðist alvarlega fyrir sjö árum og er öryrki eftir það. Ég á tvo stráka, 14 og 34 ára, þrjár yndislegar sonardætur og frábæra tengdadóttur. Ég á ein 5 systkini sem eru hvert öðru frábærara og svo á ég stórfenglegan kött sem heitir Trítla.
Jæja, ég er að hugsa um að skella þessu inn í netheima og svo kemur vonandi meira seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
-
berglindnanna
-
mammzan
-
hross
-
ragnhildur
-
skessa
-
gattin
-
gurrihar
-
landsveit
-
larahanna
-
asthildurcesil
-
konukind
-
skjolid
-
jensgud
-
eddaagn
-
jenfo
-
heidathord
-
jonaa
-
amman
-
rebby
-
hallarut
-
ringarinn
-
gunnarkr
-
birtabeib
-
brylli
-
olapals
-
snar
-
stormur
-
krummasnill
-
lindalinnet
-
bifrastarblondinan
-
skordalsbrynja
-
danjensen
-
hneta
-
hildurhelgas
-
gudrunp
-
gleymmerei
-
brandarar
-
astabjork
-
holmfridurge
-
jaherna
-
drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar