Færsluflokkur: Bloggar
30.3.2008 | 22:04
Stór, stærri stærstur
Mér hefur aldrei á ævinni þótt ég jafnstór, feit og útlensk eins og í Kína. Kínverjar voru sammála mér. Við fórum að næststærsta vatni Kína en þar á eru afar fallegar eyjar með miklum gróðri, hofum og byggingum síðan guð má vita hvenær. Mjög gaman að sjá.
Ég settist á stein til að hvíla mig og njóta þess að horfa í kringum mig þegar aðvífandi komu pínulitlar kínverskar mæðgur. Dóttirin eitthvað um fertugt og mamman eldgömul. Dóttirin rauk á mig og sagði Fótó, fótó. Ég hélt að hún vildi láta mig taka mynd af þeim mæðgum fyrir sig og stóð upp ekkert nema almennilegheitin. Þá ýtti dóttirin mér aftur niður og sagði Sit, sit. Ég settist alveg ringluð og sú gamla settist þá við hliðina á mér og dóttirin myndaði okkur saman. Höfðu greinilega aldrei á ævinni séð svona stóra og feita kerlingu. Þegar myndatökunni var lokið þökkuðu þær fyrir sig og hurfu á braut.
Bróðir minn hló eins og fífl og sagðist viss um að þær hefðu haldið að ég væri kvenkyns Búdda. Það þótti manninum mínum og syni afskaplega fyndið. Ekki mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2008 | 18:07
Uppskeruhátíð
Sonur minn kom í gær með stelpurnar sínar til að þær fengju nú loksins það sem amma og afi keyptu í Svíþjóð og London. Þeim fannst sko alveg kominn tími til. Það sem ég keypti í Svíþjóð smellpassaði en það sem ég keypti á miðstelpuna, þessa 8 ára, í London var allt of stórt. Samt var pabbi hennar með og gaf ráðleggingar í búðum. Karlmenn.
Ég flippaði aðeins við að kaupa á elstu dömuna, 12 ára. Fór í æðisgengna búð í Soho sem er rekin af þremur hönnuðum, þar af einni íslenskri, allar útskrifaðar frá St Martins. Búðin heitir Beyond the Valley og er ótrúlega flott. Ég bara gat ekki hætt að kaupa. Maðurinn minn tók þó í taumana þegar ég var komin með kjól sem kostaði 250 pund á handlegginn. Ég varð að lúffa því þetta var náttúrlega engin hemja. Þær selja sína eigin hönnun bæði föt og listmuni, og eru með yfir 100 listamenn og hönnuði á sínum snærum. Endilega kíkið við næst þegar þið farið til London þó ekki sé nema til að skoða.
Sædísi, þessari 8 ára, fannst sælgætiskaupin þó ansi takmörkuð. Vildi ekki vera að kaup fullt af nammi svona í kringum páskana. Nóg er nú samt.
Við sem fórum til London, mamma, pabbi, stór strákur, lítill strákur, keyptum ekkert á okkur enda frá kallarnir mínir helst ekkert á sig nema í High and Mighty og ég kaupi öll mín föt í Stórum stelpum. Hef oft farið í feitabollubúðir í útlöndum og þær ná bara aldrei að verða jafngóðar og SS.
Hins vegar létum við greipar sópa í bókabúðum. Ég verð alltaf hálfvandræðaleg þegar ég kaupi bækur með yngri syninum, þessum 14 ára. Ég veð um allt og leita uppi reifara en hann kaupir ekkert nema klassískar bókmenntir og sögu. Merkilegt barn. Ég gerði samt breytingu á í bókabúðinni í Leifsstöð. Keypti mér söguna um Bíbí eftir Vigdísi Gríms. Þrusugóð bók sem ég mæli hiklaust með. Las hana í einni bunu til að geta gefið frænku minni hana áður en ég færi heim og það tókst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.3.2008 | 14:31
Móðursjúkur köttur
Hún Trítla verður sko aldrei aftur skilin eftir ein heima. Það fer gersamlega með geðheilsuna hjá henni. Við komum heim á mánudaginn og enn eltir hún okkur um allt æpandi og skrækjandi, er helst ekki í rónni nema hún sjái okkur öll í einu og við þurfum stöðugt að halda á henni og klappa henni sem er svo sem allt í lagi ef hún gæti ákveðið sig hjá hverjum hún vilji vera. Hún situr meira að segja um mig sem hef hingað til verið minnst í uppáhaldi hjá henni. Ég ætla bara að vona að kattarskarnið fari að jafna sig.
Flugþjónn í vélinni sem við komum heim með var bara fyndinn. Þegar allir farþegar voru sestir, þreyttir og slæptir eftir helgina var farið að dreifa íslenskum blöðum. Eitthvað fannst flugþjóninum undirtektirnar dræmar, því hann sagði stundarhátt: Nýr borgarstjóri í Reykjavík. Annar hver farþegi hrökk upp og þá bætti hann við: Nei, bara grín. Alltaf gaman þegar fólk hefur húmor.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.3.2008 | 17:25
Kátur köttur
Jæja, þá erum við komin heim eftir frábæra dvöl í London sem er bara besta borg í heimi. Það var skítaveður, kalt og rigning svo við héldum okkur bara í verslunum, leikhúsum, á pöbbum og veitingahúsum. Synir mínir létu eins og þeir hefðu himin höndum tekið út af reykingabanninu og vorkenndu okkur gömlu hjónunum ekkert þótt við yrðum að húka úti og reykja. Kosturinn í Londin er þó sá að maður má taka bjórinn með sér út.
Við fórum tvisvar í leikhús, ætluðum oftar en ég á systurdóttur sem býr í London og mamma hennar og hennar maður komu frá Kaupmannahöfn svo þetta var svona ekta family reunion.
Í leikhúsi sáum við Spamalot í annað skipti og We will rock you í þriðja skiptið. Svolítil ófrumlegt en eldri strákurinn hafði hvorugt séð og okkur fannst svo sem engin nauðung að sjá þetta aftur. Þetta eru hvort tveggja frábærar sýningar, en hörkuvinna. Maður staulast út af Spamalot með magaverk af hlátri og svo er vitanlega þvílíkt fjör á Queen-sýningunni að maður kemur sveittur og þreyttur út eftir að hafa veifað, klappað, dillað sér og sungið með í þrjá klukkutíma. Við hjóni, 47 og 54 ára, vorum alveg á meðalaldrinum í leikhúsinu. Þarna var mikið af fólki sem var að kynna börnin sín og jafnvel barnabörnin fyrir Queen sem hefur alltaf verið uppáhaldið mitt. Ég þekki fólk sem grét þegar Kennedy dó og þegar John Lennon dó. Ég táraðist þegar Freddy Mercury dó.
Samt var það besta eftir og það var að koma heim. Kisa sleppti sér af hamingju, hljóp um allt, mjálmaði hástöfum og reyndi svo eins og hún gat að nudda sér utan í okkur en fórst það frekar illa úr hendi (loppu) þar sem hún var enn með bannsettan kragann. Kraginn fór svo í dag og hér á heimilinu má nú finna kátasta köttinn í bænum og þótt víðar væri leitað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.3.2008 | 19:58
Löggur geta líka lent í vandræðum
Það er búið að tala svo mikið um löggur sem fara offari og skemma orðspor lögreglunnar að mig langar að segja eina sögu sem greinir frá því hvernig löggur geta algjörlega orðið sér til skammar.
Fyrir mörgum árum vorum við Jón Otti Gíslason heitinn saman á bíl. Við vorum ekki mikið fyrir að skipta okkur af umferðarlagabrotum en þegar bíll svínaði þvert fyrir okkur gátum við ekki annað en elt hann. Sem við hefðum betur sleppt.
Þetta var á þeim árum sem verið var að byggja Broadway í Álfabakkanum og við vísuðum ökumanninum út á auða svæðið sem var þar í kring. Ég snaraði mér valdsmannlega út úr bílnum - og hvarf. Ég hafði stigið ofan í ótrúlega djúpan drullupoll og stóð föst upp á mið læri.
Ökumaðurinn seki kom ósköp kurteis, rétti mér höndina og bauðst til að draga mig upp úr sem hann og gerði. Ég þakkaði manninum kærlega fyrir og leyfði honum að fara - án áminningar. Síðan lá leiðin heim til mín þar sem ég skipti um föt.
Þetta er með því hallærislegasta sem ég hef lent í um dagana og er saga mín í þeim efnum þó ansi skrautleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.3.2008 | 20:28
Ofvirk lögga
Eftir að hafa lesið um lætin sem urðu í Keflavík út af manninum sem sat á klósettinu með haglabyssu rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.
Fyrir um það bil 15 árum var maðurinn minn að fara að sækja mig í vinnuna. Þegar hann kom fram á gang stóð þar vígklæddur víkingasveitarmaður með vélbyssu. Aðspurður sagðist hann verða að vera þarna þar sem byssumaður væri í húsinu fyrir aftan okkar.
Maðurinn minn fékk samt að fara að sækja mig. Þegar við vorum að koma heim og ætluðum að beygja inn í götuna okkar stóð þar kornung lögga sem reyndi að banna okkur að fara inn í götuna og heim til okkar. Ég brást hin versta við og sagði að við yrðum að komst heim þar sem sonur okkar væri einn heima. Var samt ekkert að taka það fram að sonurinn væri fúlskeggjaður með bassarödd. Aumingja unglöggan vissi ekkert í hvorn fótinn hann átti að stíga, var talstöðvarlaus svo ekki gat hann beðið um fyrirmæli en lét að lokum undan og hleypti okkur heim.
Þegar við komum heim var ekki bara víkingasveitarmaður á ganginum heldur líka inni í eldhúsi. Ég rak þann út með harðri hendi og spurði hvort hann ætlaði að skjóta út í gegnum rúðuna hjá okkur. Mannræfillinn forðaði sér og tók sér stöðu með hinum á ganginum. Þarna héngu þeir langt fram eftir kvöldi og allt hverfið var undirlagt löggum. Svaka hasar.
Í fréttum kom svo í ljós að byssumaðurinn hafði verið Stebbi Malagafangi - með kertastjaka. Þá hló ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2008 | 18:38
Aumingja kisa
Kisan okkar er slösuð. Við tókum eftir því í gær að hún fór mjög varlega með skottið sitt og ekki mátti snerta hana án þess að hún hvæsti sem er mjög ólíkt henni. Maðurinn minn fór með hana til dýralæknis í dag og þá kom í ljós að hún hefði lent í slagsmálum. Hún var með ljótt sár á skottinu og komin ígerð í það.
Blessuð kisa. En svo bættust önnur vandræði við. Við erum á leið til London um páskana og Kattholt tekur ekki við slösuðum ketti með kraga um hálsinn. Shit. Hvað áttum við að gera? Málið leystist sem betur fer því vinur hans Úlfars fær lykla og ætlar að heimsækja kisu reglulega um páskana, gefa henni að borða, reyna að klappa henni og gefa henni sýklalyf. Mér finnst samt hræðilegt til þess að hugsa að hún verði svona mikið ein og slösuð og með þennan kraga sem henni er engan veginn vel við.
Það er samt svolítið fyndið að sjá hvað hún reynir mikið að vernda á sér skottið. Leggst bara á framlappirnar og setur rassinn upp í loftið svo skottið komi hvergi við. Hún sefur meira í þessari stellingu. Ljótt a hlæja að óförum kisu, ég veit það. Svo þegar hún er að reyna að labba og kraginn færist til, stendur hún grafkyrr og mjálmar þangað til einhver kemur að bjarga henni. Ég vona að hún verði ekki mikið svona strand á meðan við verðum í burtu.
Ég veit að okkur verður mikið hugsað til kisu á meðan við verðum í útlandinu, vona að þetta eyðileggi ekki fyrir okkur ferðina samt. Aumingja Trítla, ég vona að hún nái sér fljótlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2008 | 13:05
Stórskáldið Gurrí
Áður en ég og vinnufélagar mínir fórum á árshátíð í Malmö var svona leynivinaleikur í gangi eins og þið hafið lesið um á blogginu hennar Gurríar. Leynivinurinn minn reyndist síðan vera sjálf Gurrí og stóð hún sig alveg fádæma vel. Fyrir utan geisladisk, bók, góða lykt í bílinn og fullt af nammi orti hún vísu með hverri gjöf. Vísurnar voru fjórar en ein hefur horfið af borðinu mínu. Birti hana seinna ef hún kemur í leitirnar, en hér koma hinar þrjár:
1.
Helga heitir huppleg mær
lagar heljarvillur.
Skín hún oft sem sólin skær
er sargar gluggasyllur.
2.
Urð og grjót, upp í mót.
Ekkert nema Helga Magg.
Velta niður, vera að detta,
er hún Helg' ekki mikil skvetta.
3.
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld.
Frammi situr Helga og plottar lúmskt um völd.
Lúmskar sérhvern dag, lúmskar sérhvert kvöld.
Ertu kannski hugsand' yfir öllum rauðu leiðréttingunum?
Þú tekur kannsk' of mikið út úr tippex-bankanum.
Ef einhver hefur efast um að Gurrí sé snillingur sannast það hér og nú að stúlkunni er ekkert ómögulegt, hún getur allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.3.2008 | 11:02
Sáuð þið Kompás í gær?
Í Kompási í gær var fjallað um litla drenginn sem keyrt var á í Keflavík með þeim afleiðingum að hann lést. Foreldrar hans komu fram í þættinum og maður sat með kökk í hálsinum og hnút í maganum. Þau voru alveg ótrúlega sterk að koma svona fram án þess að brotna hreinlega saman. Fram kom að þau hefðu viljað gefa líffæri hans til annarra barna þegar ljóst varð að hann ætti ekki lífsvon. Það fengu þau ekki þar sem það varð að kryfja hann þar sem farið var með þetta sem sakamál. Þau voru að vonum reið og svekkt þar sem sá sem helst er grunaður gat bara labbað úr landi eins og fínn maður án þess að þurfa að svara til saka. Þetta var hreint ótrúlegur þáttur og maður hreinlega skilur ekki hvernig fólk kemst í gegnum svona lagað og verið eins sterkt og þessir ungu foreldrar eru.
Ég sendi þeim alla mína samúð og vona að gerandinn náist svo þau geti lokið þeirri málsins og einbeitt sér að því að syrgja drenginn sinn. Það hlýtur að vera svo erfitt að berjast við reiði líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2008 | 10:59
Ástæðulausar líkamsárásir?
Oft velti ég því fyrir mér þegar ég les um ástæðulausar líkamsárásir hvort þær séu í rauninni ástæðulausar. Rætur þessara vangaveltna minna má rekja 20 ár aftur í tímann þegar eldri sonur minn var 14 ára.
Hann varð þá ógurlega ástfanginn af stelpu og hún af honum og þau byrjuðu "á föstu" og þetta var helber hamingjan til að byrja með. Svo kom að því að syni mínum líkaði ekki allt í fari kærustunnar og þoldi t.d. mjög illa að hún reykti svo hann sagði henni upp.
Stelpurófan tók þá upp samband við tæplega þrítugan misyndismann og notaði hann til að hefna sín á syni mínum. Ef þeir hittust á götu gekk hann að syni mínum með alls kyns hótanir, hann yrði laminn, drepinn, limlestur og ég veit ekki hvað og hvað og einnig hringdi hann í hann til að hóta honum. Sonur minn var að vonum skíthræddur við þennan mann sem var næstum því helmingi eldri en hann.
Þegar sonur minn sagði mér frá þessu og hver maðurinn væri fékk ég hland fyrir hjartað, hreint út sagt. Ég kannaðist nefnilega við kauða frá því ég var í löggunni og vissi að hann væri snarbilaður og stórhættulegur, hafði margoft verið tekinn fyrir grófar líkamsárásir og hnífstungur. Hvað í ósköpunum gat ég gert? Ég vissi að það þýddi ekkert að tala við lögregluna þar sem þetta voru "bara" hótanir. Ég var skíthrædd og vissi ekki hvað ég ætti að taka til bragðs.
Þá fékk ég hugljómun. Frænka mín sem er á sama aldri og sonur minn hafði sagt mér frá strákagengi í skólanum hennar sem kallaði ekki allt ömmu sína. Ég hringdi í þessa frænku mína og bað hana um að koma með strákana heim til mín og það strax. Það leið ekki á löngu þangað til hún var mætt með fimm stóra og stæðilega 16 ára stráka. Þeir voru hálftortryggnir til að byrja með en hresstust svo smám saman.
Ég spurði þá hvort þeir könnuðust við manninn sem væri að hrella son minn. Jú, vitanlega vissu þeir hver hann var. Þá gerði ég þeim tilboð. Ég skyldi borga þeim einn lítra af vodka hverjum ef þeir tækju þennan mann duglega í gegn og segðu honum að hann ætti von á meiru og verra ef hann kæmi nokkurn tímann nálægt syni mínum framar. Þeir samþykktu þetta eins og skot og við handsöluðum samninginn og þeir héldu á brott með sitt áfengi.
Eftir helgina birtist í blöðunum klausa um að unglingahópur hefði ráðist á mann á þrítugsaldi og var sagt að árásin hefði verið "tilefnislaus". Ég glotti út í syðra og vissi betur. Mannfjandinn kom aldrei nálægt syni mínum eftir þetta og vék úr vegi ef þeir hittust. Ástæðulaus árás?
Ári síðar eignaðist þessi stelpa barn með þessum félega kærasta sínum sem þá var á Hrauninu og var viðstaddur fæðinguna í lögreglufylgd. Ekki veit ég hvar þau eru í dag og langar svo sem ekkert sérstaklega til að vita það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
-
berglindnanna
-
mammzan
-
hross
-
ragnhildur
-
skessa
-
gattin
-
gurrihar
-
landsveit
-
larahanna
-
asthildurcesil
-
konukind
-
skjolid
-
jensgud
-
eddaagn
-
jenfo
-
heidathord
-
jonaa
-
amman
-
rebby
-
hallarut
-
ringarinn
-
gunnarkr
-
birtabeib
-
brylli
-
olapals
-
snar
-
stormur
-
krummasnill
-
lindalinnet
-
bifrastarblondinan
-
skordalsbrynja
-
danjensen
-
hneta
-
hildurhelgas
-
gudrunp
-
gleymmerei
-
brandarar
-
astabjork
-
holmfridurge
-
jaherna
-
drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar