Færsluflokkur: Bloggar

Hitt og þetta

Mér er greinilega ekki óhætt að bregða mér af bæ, ekki einu sinni í vinnuna. Þegar ég kom heim á miðvikudaginn hafði maðurinn minn tekið nett kast. Hann var búinn að kaupa nýjan skáp á ganginn, nýtt tölvuborð og geðveikt flottan flatskjá í herbergið hjá Úlfari. Nú er prinsinn kominn með mun flottara sjónvarp hjá sér en við gamla settið höfum í stofunni. Hann hefur það nú jafngott og fangarnir á Litla-Hrauni en mér hefur fundist sumir sjá ofsjónum yfir því að þeir hafi flatskjái.

Ég fór til heimilislæknisins míns í morgun og sýndi honum á mér vinstri höndina þar sem ég get ekki beygt þumalinn og vísifingur. Hann kallaði á kollega sinn og báðir klóruðu sér í kollinum yfir þessu, höfðu aldrei séð svona fyrr. Læknirinn minn ákvað að skrifa bréf til taugasérfræðings og hinn bað hann endilega um að leyfa sér að fylgjast með. Þetta væri svo óvenjulegt og spennandi. Þannig að ég byrjaði daginn á því að gleðja tvo lækna. Það verður spennandi hvað taugasérfræðingurinn hefur um þetta "spennandi" tilfelli að segja.

Ég er að fara með elstu sonardóttur mína á eftir að kaupa handa henni síma. Hún missti símann sinn úti í garði hjá sér en þegar hún ætlaði að ná í hann hafði nágranni slegið blettinn og símann með. Það er vitanlega vonlaust að vera símalaus þegar maður er tólf ára. Svo við drífum okkur eftir vinnu og kaupum síma og fáum okkur svo gott að borða á Ruby Tuesday. Bara gaman.


Kóngulær

Ég er ekki eins hrædd við nokkurn skapaðan hlut eins og kóngulær. Ég hef tvisvar sinnum nánast fengið taugaáfall út af þessum kvikindum. Margir vilja meina að þessi ótti minn sé lærður frá móður minni sem var líka ákaflega hrædd við kóngulær. Ég man að einu skiptin sem pabbi tók þátt í húsverkum var þegar hann þreif neðri skápana í eldhúsinu fyrir jólin, mamma þverneitaði nefnilega að setja hendurnar þar sem hún sá þær ekki, því aldrei að vita nema í skápunum leyndist eins og eitt stykki kónguló.

Þegar ég var tólf ára fór ég til Danmerkur með foreldrum mínum og tengdaforeldrum bróður míns til að vera viðstödd þegar hann útskrifaðist úr Odense Teknikum. Svo fórum við til Kaupmannahafnar þar sem tengdamóðir bróður míns fór með mig í dýragarðinn. Þar sá ég hús sem stóð á stórum stöfum: Slanger og krokodiller. Entré 1 krone. Ég vildi óð og uppvæg fara þangað inn en Ásta vildi ekki koma með mér, leist ekkert á svona kvikindi. Ég fór þá ein og ég meina ein því það var enginn þarna inni nema ég. Á gólfinu voru opin steinker með krókódílum og veggirnir þaktir glerbúrum með ýmiss konar skepnum. Sem ég gekk um og skoðaði kom ég að búri þar sem virtist bara vera gróður. Ég bankaði í glerið og þá birtist stærsta kónguló sem ég hafð á ævi minni séð. Ég stirðnaði upp og gat varla hreyft mig. Var virkilega að velta því fyrir mér að hoppa ofan í til kródódílanna. Svo tók ég mig taki og hentist að útganginum. Ýtti og ýtti á hurðina áður en ég uppgötvaði að dyrnar opnuðust inn. Var farin að háorga af skelfingu þegar ég komst loksins út.

Næsta skipti var rúmlega þrjátíu árum síðar þegar ég var stödd hjá systur minni í London með yngri strákinn 5 ára. Einn morguninn þegar ég var frammi í eldhúsi að hita kaffi ætlaði systir mín að klæða strákinn. Skyndilega heyrði ég óp. Ég stökk inn í stofu og þar á miðju gólfinu stóð kónguló sem var næstum því jafnstór og sú fyrri. Ég þaut út úr stofunni og ég, sem er sko engin smásmíði, tróð mér ofan í eldhúsvaskinn. Systir mín, sem er ekki hrædd við kóngulær heldur brá henni bara við þegar skepnan datt á gólfið úr buxunum hans Úlfars, náði sér í blað og skál og veiddi kóngulóna og henti henni út. Ég var stjörf í eldhúsvaskinum á meðan á þessu stóð og systir mín sagði seinna að hún hefði aldrei vitað mig þegja svo lengi fyrr. Það var eins gott að það var ekki ég sem hélt á buxunum sem kóngulóin datt úr því það hefði að öllum líkindum orðið mér að aldurtila. Eftir þetta gat ég alls ekki sofið því ég bjóst við skepnunni inn aftur eða ættingum hennar.

Ég held að ég ætti kannski að fara til sálfræðings til að komast yfir þessi áföll.


Grobb og kvart

Á fimmtudagskvöldið fórum við hjónin í Ártúnsskóla þar sem bekkur elstu sonardóttur okkar var með menningarkvöld til styrktar vatnsverkefninu sem er í gangi núna. Okkar stelpa, hún Birgitta Inga, söng bæði ein og með öðrum, dansaði, sýndi á tískusýningu þar sem sýnd voru föt sem krakkarnir höfðu sjálfir hannað og ég veit ekki hvað og hvað. Hún var náttúrlega langflottust, glætan að maður hefði þorað að syngja fyrir fullan sal af foreldrum þegar maður var 12 ára. Það voru stolt hjón sem gengu út úr skólanum þegar þetta var búið. Það er svo gaman að vera amma og afi.

Svo er það kvartið. Þegar ég var úti í London um páskana fékk ég mikinn verk í vinstri öxlina. Svo smám saman færðist hann neðar og nú er hann horfinn nema hvað vinstri höndin á mér er eiginlega gagnslaus. Ég missi allt sem ég held á í vinstri hendinni, get ekki kreppt hnefann, ekki að ég gangi yfirleitt um með kreppta hnefa, en það væri samt fínt að geta kreppt hann ef maður þyrfti skyndilega að berja einhvern. Ég á tíma hjá heimilislækninum á föstudaginn. Verður gaman að heyra hvað hann hefur um þetta ástand að segja.

Ég horfði bara þó nokkuð á sjónvarpið um helgina, sá meðal annars Svalbarða þar sem hún Ágústa Eva, aka Sylvía Nótt, fer á kostum. Er eitthvað sem þessi stelpa getur ekki?

Svo sá ég 60 minutes þar sem fjallað var um meðferðina á föngunum í Abu Ghraib. Djöfulsins viðbjóður er þetta. Menn pyntaðir og niðurlægðir á allan mögulegan hátt og svo voru fangaverðirnir að mynda hver annan með föngunum sem lágu naktir og illa haldnir og þeir settir í samfarastellingar til að niðurlægja þá sem mest, þetta er mjög mikil vanvirðing þar sem íslam tekur mun harðara á samkynhneigð en biblían og er það nú nóg hvernig hún er túlkuð. Fangaverðirnir brostu hringinn á þessum myndum og þar á meðal var ung kona á nokkrum myndanna. Ég hélt í einfeldni minni að konur gætu ekki verið svona viðbjóðslegar. Greinilegt að manni getur skjátlast um allt milli himins og jarðar. Það var meira að segja tekin af henni mynd þar sem hún var skælbrosandi yfir líki. Svo var rætt við hana og hún sagðist ekki hafa vitað að hinn látni hefði verið pyntaður til bana. Hún hefði haldið að hann hefði "bara" fengið slag. Þetta er ekkert venjulega sick lið.

Það hefur gengið hægt að slá þessa færslu inn þar sem vinstri höndin vill engan þátt taka í þessum aðgerðum. Frown


Ambögur og misskilningur

Þegar maður hefur verið prófarkalesari í yfir 20 ár hefur margt skondið orðið á vegi manns. Svo held ég að flestir prófarkalesarar séu því marki brenndir að vera stöðugt að leiðrétta fólk. Ég man þegar vinur sonar míns var hjá honum og sagði spenntur frá því að hann fljúgði til ömmu sinnar á Akureyri. Ég galaði vitanlega innan úr eldhúsi og sagði: Það heitir ekki fljúgði það heitir flaug. Smáþögn en síðan heyrðist í syni mínum í huggunartóni: Þetta er allt í lagi, hún lætur alltaf svona! En hér koma nokkur dæmi um það sem prófarkalesara lenda í.

Fyrst er það uppáhaldsorðið mitt: Verið var að skrifa um mann sem var hlédrægur og hélt sig frekar til baka. Hann var ósérframítrönulegur! Finnst ykkur þetta ekki frábært orð?

Þá voru það hjónin sem voru svo samhent að þau voru eins og framlengdur handleggur hvort af öðru.

Sá ykkar sem síðast hlær kasti fyrsta steininum.

Það er of seint að naga sig í handarkrikana eftir dauðann.

Lýsing á jólamessu: Að lokum söng kórinn Heims um ból með barnakórnum sem hélt á kertum og öðrum kirkjugestum.

Hún dó þennan dag þótt hún hefði ætlað að verja honum í annað.

Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem prófarkalesarar lenda í. Einu sinni var ég að lesa viðtal við prest og hann var að tala um freistingar Krists og taldi upp það sem honum var lofað af skrattanum: Hann myndi fá auðlegð og völd... Þarna komu þrír punktar. Ég merkti við á undan punktunum og skrifaði bil, sem sagt það átti að vera bil á milli völd og punktanna. Þegar ég fékk próförkina aftur úr  prentsmiðjunni var búið að breyta þessu í auðlegð, völd og bíl. Það fannst mér alveg drepfyndið, bara spurning um hvernig bílarnir voru fyrir 2000 árum.


Læknavísindin og fleira

Eins og fram hefur komið er hann Úlfar sonur minn glasabarn. Bróðir hans heitir fullu nafni Styrmir Bolli svo stundum eru þeir kallaðir Bolli og Glasi. Það eru 20 ár á milli þeirra þannig að ég segi stundum að Styrmir hafi verið bernskubrek og Úlfar elliglöp.

En þetta var nú bara útúrdúr. Það sem ég ætlaði að skrifa um er að þegar ég stóð í baráttunni að verða ófrísk átti Svanhildur systir mín í ennþá illvígari baráttu þar sem hún fékk mergkrabba í mjöðm. Mér þótti mjög leiðinlegt að geta ekki heimsótt hana á spítalann þegar ég var ófrísk en um leið og ég fann spítalalyktina ætlaði ég að æla lifur og lungum. Hún fékk nú sem betur fer að fara heim öðru hverju þannig að þá gátum við heimsótt hvor aðra. Sem betur fer sigraði hún í þessari baráttu og er hin hraustasta í dag um 15 árum síðar.

Svanhildur og Matthildur systur mínar eru eineggja tvíburar. Þegar Úlfar var um það bil tveggja ára fórum við allar með hann í sund. Svanhildur var úti í miðri laug að leika við Úlla en við Matta lágum við bakkann og létum fara vel um okkur. Þá fórum við að velta því fyrir okkur hver staðan væri ef ekki væri fyrir læknavísindin og komumst að þeirri niðurstöðu að ef ekki væri fyrir þau værum við bara tvær í sundi. Þá hefði glasabarnið Úlfar ekki fæðst og krabbinn hefði að öllum líkindum drepið Svanhildi systur okkar.

Þegar nýbúið var að greina krabbann hjá Svanhildi var tekið mergsýni úr Matthildi ef ske kynni að framkvæma þyrfti mergskipti. Þá sagði læknirinn að lífsýnin úr þeim væru svo nákvæmlega eins að börnin þeirra væru líffræðilega séð hálfsystkini. Það þótti mér ákaflega merkilegt.


Letidagur

Átti frí í gær og lá í algjörri leti á meðan Úlfar og vinur hans og pabbi hans settu saman nýju húsgögnin hans Úlfars og gengu endanlega frá herberginu hans sem er nú orðið virkilega fínt.

Við hjónin ákváðum eftir að hafa séð kynningu í Íslandi í dag á ABC-börnum að taka að okkur eitt barn og styrkja það. Við völdum 10 ára stelpu frá Keníu. Ákváðum að taka svolítið stálpaðan krakka þar sem við höfðum heyrt að fólk vildi frekar litlu krúttin en erfiðara væri að fá stuðningsaðila fyrir eldri börn. Ég skammast mín niður í tær yfir að hafa ekki gert þetta fyrir löngu. Skitinn 3000 kall á mánuði til að hjálpa einu barni.

Ég varð alveg kjaftbit þegar ég sá að eftirlýstur morðingi væri hér á landi en ekki hægt að gera neitt í málinu vegna þess að ekki hefði verið gefin út rétt útgáfa af handtökubeiðni. Detti mér allar lýs steindauðar úr höfði. Maðurinn sem líklega ók á drenginn í Keflavík farinn úr landi og eftirlýstur morðingi leikur lausum hala. Hvernig á maður að skilja þetta?


Hommarnir á hæðinni

Ég hef fylgst með þáttunum Hæðin þar sem þrjú pör fá það verkefni að innrétta raðhús. Eitt parið eru þeir Beggi og Paco. Þeir eru alveg ótrúlega frábærir. Þeir eru svo ástfangnir og hamingjusamir að maður hefur varla áður séð svona lukkulegt par. Þeir hafa góðan húmor og eru alveg dásamlega hreinskilnir og skemmtilegir.

Mér hefur oft dottið í hug að það væri kannski betra að konur byggju saman og karlar saman. Sérstaklega þegar einhver rosa knattspyrnukeppni er í gangi. Hjá þjóðflokkum, sem við í hroka okkar köllum frumstæða, eru konur taldar óhreinar þegar þær hafa blæðingar. Þá er þeim plantað í sérstakt hús því Þær mega ekki koma nálægt neinu, mega ekki elda og svo framvegis. Ég er alveg viss um að þær hafi fundið upp á þessu sjálfar til þess að fá frí frá körlum og húsverkum þó ekki væri nema einu sinni í mánuði. Er ekki bara tilvalið að taka upp þennan sið?


Hnýsni

Sumt fólk er alveg ótrúlega hnýsið og forvitið. Ég held samt að kona sem ég hitti fyrir um það bil 15 árum slái öll met. Þannig var að þegar Úlfar, yngri sonur minn, var splunkunýr var hringt dyrabjöllunni heima hjá mér. Styrmir, sá eldri, stökk til dyra og æpti svo hástöfum: Mamma, það er verið að rukka fyrir Dagblaðið. Úlfar var háorgandi en ég stökk niður til að borga. Konan sem var að rukka horfði stíft á mig og spurði: Átt þú bæði þann stóra og litla barnið? Ég jánkaði því, tróð peningunum upp á konuna og dreif mig upp aftur til að sinna barninu sem stóð á öskrinu.

Nema hvað. Það líður mánuður og aftur er dyrabjöllunni hringt. Ég hljóp niður og fyrir utan stendur konan. Hún bauð ekki góðan daginn eða neitt heldur horfði á mig spennt og sagði: Eru þeir samfeðra? Ég verð að játa að ég varð gjörsamlega kjaftstopp.


...og hann Úlli minn

Hann Úlfar minn er glasabarn. Eftir að hafa reynt í mörg ár og eftir tvö utanlegsfóstur ákváðum við hjónin að fara í glasafrjóvgun. Það gekk mjög brösuglega til að byrja með. Ég svaraði hormónameðferðinni illa og fyrst þurfti að hætta vegna sumarleyfa á glasadeild. Ég byrjaði aftur í meðferð en þá þurfti að hætta meðferðinni vegna jólafría. Við vorum alveg að gefast upp en ákváðum að reyna aftur og það tókst. Við erum hörð á því núna að þetta hafi verið vegna þess að það var Úlfar sem átti að fæðasta og hann var bara ekki tilbúinn fyrr.

Eftir að við fengum að vita að þetta hefði tekist var hann í hættu í smátíma þar sem þungunarhormónin hækkuðu mjög hægt. Síðan tóku þau við sér og við alveg alsæl. Svo byrjaði að blæða hjá mér og ég hélt að ég væri búin að missa hann. Það voru þá bara hin tvö eggin sem voru að fara. Loks tókst mér að detta niður stiga og varð enn og aftur skíthrædd. En hann hélt sér sem fastast þangað til hann fæddist 22. júní 1993. Hann hafði verið settur á 2. júlí, sem er afmælisdagur eldri sonar míns, það hefði nú verið fyndið að eignast tvö börn með 20 ára millibili á sama deginum.

Þegar hann var rúmlega sólarhrings gamall kom ljósmóðir með hann til mín og sagði: Þessi vill láta halda á sér. Það reyndust orð að sönnu, Úlli hefur alltaf verið algjör kelirófa og heimtar kossa og faðmlög enn þann dag í dag. Hann var mjög vær, vaknaði brosandi og sofnaði brosandi. Eitt var þó merkilegt með hann. Hann vildi hvorki brjóst né pela og drakk úr glasi frá byrjun. Ég var  vitanlega spæld út af þessu með brjóstagjöfina, en kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða.

Úlfar átti Baby Björn stól sem hann sat alltaf í. Þegar hann var nokkurra mánaða uppgötvaði hann að hann gat ferðast um íbúðina með því að rugga sér fast í stólnum. Fyrr en varði var hann kominn á fleygiferð um allt hús í stólnum, yfir þröskulda, tók beygjur og allt.

Úlfar ákvað algjörlega sjálfur hvenær honum þóknaðist að hætta með bleiu. Um leið og sú ákvörðun hafði verið tekin fór hann alltaf á koppinn og vætti aldrei rúmið. Ég hélt að hann héldi bara svona vel í sér á nóttinni. En eina nóttina vakti hann mig til að biðja mig að hjálpa sér að hneppa náttgallanum. Hann hafði sem sagt farið sjálfur á klósettið án þess að vekja mig.

Hann elskaði að láta teikna fyrir sig. Þar sem ég get ekki teiknað frekar en ég veit ekki hvað skrifaði ég fyrir hann bókstafi og honum fannst það alveg jafngaman. Hann kunni þess vegna alla stafina áður en hann varð tveggja ára. Við keyptum fyrir hann forritið Stafakarlana og lærði hann að lesa á methraða. Var farinn að lesa textann í sjónvarpinu rétt fjögurra ára. Hann var meira að segja látinn lesa fyrir yngri börnin á leikskólanum. Leikskólinn hans Úlfars var Steinahlíð, þar hafði ég verið og eldri systur mínar. Steinahlíð er frábær leikskóli hefur yfir miklu landi að ráða og þar er heilmikill skógur sem börnin geta leikið sér í.

Úlfar var og er einstaklega skemmtilegur og orðheppinn krakki sem velti hlutunum mikið fyrir sér. Ég man þegar hann spurði mig hvað hjartað gerði. Það dælir blóði fyrir líkamann, sagði ég. Á þá líkamaðurinn blóðið? var svarið sem ég fékk. Svo hætti hann á Steinahlíð og fór í skóla. Þar var tekið tillit til þess að hann var fluglæs og kunni talsvert að reikna svo fyrsta árið var hann meira og minna á bókasafninu í skólanum. Einu sinni þegar ég var að sækja hann í 6 ára bekk kom maður hlaupandi á eftir mér og spurði hvort ég væri mamma hans. Ég játti því. Þá sagðist hann aldrei hafa kynnst öðru eins barni. Þetta var kennarinn hans í tölvutímum og sagði hann að hann hefði beðið börnin um að segja frá bókum sem þau hefðu lesið og var hann alveg bit á hvað Úlfar hefði lesið mikið og hann vissi eftir hverja bækurnar voru. Ég varð vitanlega mjög stolt. Úlfar elskaði að láta lesa fyrir sig þótt hann væri orðinn læs. Þegar ég var að lesa fyrir hann Bróður minn Ljónshjarta og Elsku Míó minn reif hann sig úr fötunum um leið og hann kom heim úr leikskólanum og heimtaði að fá að fara upp í að lesa. Sem var vitanlega látið eftir honum.

Frá byrjun hefur Úlfar verið mikið fyrir að fara á veitingahús og var ekki nema 4-5 ára þegar hann stórmóðgaðist ef honum var boðinn barnamatseðill. Hann hefur alltaf verið til í að prófa eitthvað nýtt og naut sín í botn í Kína þar sem hann smakkaði m.a. steikta ánamaðka, hænulappir, marglyttur og ég veit ekki hvað og hvað. Hann var bara svekktur yfir því að fá hvergi hundakjöt.

Nú er hann Úlli minn að verða 15 ára, var fermdur borgaralega í fyrra. Hann er enn sami ljúfi drengurinn og verður vonandi áfram. Ég sé engin merki um annað.

Fyrir þó nokkrum árum lét ég gera stjörnukort fyrir báða strákana. Sú sem gerði kortin þeirra endurtók þau þrisvar þar sem hún trúði ekki niðurstöðunum. Kortin þeirra voru nefnilega eiginlega alveg eins. Engin furða þar sem þeir eru báðir jafnfrábærir.


Hann Styrmir minn...

Styrmir eldri sonur minn var hjá okkur um helgina að taka herbergið hans Úlfars í gegn. Honum fannst herbergið hans alveg glatað, mætti á staðinn, henti öllum húsgögnunum í Sorpu, henti öllu sem Úlfar var hættur að nota og málaði svo herlegheitin. Nú er ferðinni heitið í Ikea að kaupa ný húsgögn fyrir drenginn sem er mjög svo ánægður með stóra bróður sinn þessa dagana.

Styrmir er einhver ljúfasta og besta manneskja sem ég þekki. Það get ég hiklaust fullyrt þótt mér sé málið vitanlega afar skylt. Þegar hann var yngri vorum við mjög mikið ein saman þar sem pabbinn var á sjónum. Okkur kom alltaf alveg einstaklega vel saman, spiluðum mikið, ræddum málin og lásum. Hann hefur frá því hann fæddist haft alveg sérlega góða nærveru. Hann opnaði augun um leið og hann fæddist. Horfði stíft á mig þegar ég fékk hann í fangið og ég fann strax að þarna var mikill persónuleiki á ferðinni. Hann var alveg dásamlega fallegur með þessi dökkbláu augu sem horfðu beint í mín.

Svo kom að því, þegar Styrmir var um tvítugt, að hann fengi loksins systkini. Pabbinn var á sjónum og Styrmir stjanaði við mig á alla kanta á meðgöngunni. Eitt kvöldið þegar við höfðum horft á úrslitaleik í NBA missti ég vatnið tíu dögum of snemma og pabbinn úti á sjó. Styrmir hringdi á fæðingardeildina og kom svo með mér í sjúkrabílnum og við héngum lengi vel saman á fæðingarstofunni á meðan ekkert gerðist nema vatnið lak og lak. Bumban minnkaði og við vorum farin að spá í að laumast út bakdyramegin, það væri líklegast ekkert barn. Svo var ég sett af stað og Úlfar kom með látum. Allan tímann hélt Styrmir í höndina á mér, hvatti mig áfram og huggaði mig þegar ég hélt að ég væri að deyja. Svo kom Úllinn og Styrmir klippti á naflastrenginn og rétti mér hann síðan. Svo tók hann bróður sinn og baðaði hann og klæddi í fyrsta skipti. Ljósmæðrunum þótti þetta alveg stórmerkilegt, sérstaklega þar sem Styrmir var á þessum árum mikill þungarokkari, leðurklæddur með hár niður í mitti. Þrátt fyrir útlitið var hann algjörlega reglusamur og reykti hvorki né drakk. Hann kom og heimsótti mig í pabbatímunum þar sem pabbinn var ekki viðlátinn. Hann er bara bestur.

Þegar ég fór aftur að vinna þegar Úlfar var 20 mánaða vorum við Styrmir bæði í vaktavinnu. Við skiptumst á að passa drenginn á kvöldin aðra hverja viku og þannig gerði hann mér kleift að vinna þetta starf. Aldrei kvartaði hann þótt hann væri bundinn yfir bróður sínum aðra hverja viku. Ég tók mig þess vegna til og pantaði fyrir hann farmiða til London, gistingu á góðu hóteli og miða á rokktónleika á Donnington. Styrmi fannst sem hann hefði himin höndum tekið, hugsaði greinilega ekkert um að hann var búinn að vinna sér fyrir þessu svona hundrað sinnum.

Síðan gerðist vitanlega það óhjákvæmilega. Hann Stymir kynntist Maríu sinni og þau fóru að búa. Ég samgladdist honum vitanlega að hafa náð í svona góða og fallega konu en saknaði hans samt. En hann hélt áfram að vera samur við sig. Þegar Úlfar var 3-4 ára veiktumst við bæði hastarlega og lágum hvort um annað þvert með yfir 40 stiga hita í rúma viku. Hver kom á hverjum degi eftir skóla og mataði okkur, skipti á rúminu, fór í búðir og apótek nema hann Styrmir. Ég held að við Úlfar hefðum hreinlega gefið upp öndina ef ekki hefði verið fyrir hann. Og hann er ekkert nema hjálpsemin og dugnaðurinn við okkur litla bróður enn þann dag í dag.

Á hverjum einasta degi þakka ég fyrir það að hafa eignast hann Styrmi. Bróðir hans er ekkert síðri en það kemur bara seinna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband