Færsluflokkur: Bloggar
27.5.2008 | 19:21
Unglingar og eldra fólk
Nú fara margir mikinn á blogginu vegna þess að lögga tók strák hálstaki og verið er að tala um að löggan eigi það til að fara offari. En það er sko ýmislegt andstyggilegt sem löggur fá framan í sig. Ég er ekki að mæla því bót að lögreglumenn missi stjórn á skapi sínu en það er ætlast til að löggan sé þolinmóð, sýni aðstandendum umhyggju og samúð eftir voveifleg mannslát og mannslát í heimahúsum og fleira. Löggur eru bara menn eins og hver annar og geta reiðst eða orðið hræddar þegar svo ber undir og þá getur ýmislegt farið úrskeiðis.
Fyrsta vaktin mín í lögreglunni var á Þorláksmessukvöld. Ég labbaði niður Laugaveginn með ljósakylfu til að stjórna umferð. Það var mikið veist að mér þetta kvöld og var þar aðallega um að ræða fullorðna karlmenn sem þurftu að koma að alls konar athugasemdum um mig sem persónu og kynlíf mitt með áðurnefndri kylfu. Þetta var algjört menningarsjokk og var ég orðin hálfmiður mín vegna þessarar framkomu fullorðinna manna.
Það snjóaði þetta kvöld og var maður því hálfblautur. Þá komu tveir unglingsstrákar upp að mér og sögðu Hæ lögga. Ég fór strax í hálfgerða vörn en þeir voru hinir ljúfustu og bentu mér á að maskarinn minn væri farinn að renna til og ég væri svört undir augunum. Þeir fylgdust með og leiðbeindu mér á meðan ég þurrkaði mér í framan. Sögðu svo: Nú ertu fín. Gleðileg jól. Þessir strákar björguðu gersamlega þessari fyrstu vakt minni. Þarna var það fullorðna fólkið sem varð sér til skammar en ég hugsa ennþá hlýlega til þessara stráka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.5.2008 | 21:27
Leigubílar og aðrar bílar
Kallarnir mínir fóru í bíó í gærkvöldi svo ég þurfti að taka leigubíl heim. Nú eru þeir á Bob Dylan svo ég þarf aftur að taka leigubíl heim. 1500 kall í hvort skipti og þótt ég sé ekkert sérlega nísk finnst mér það algjörir blóðpeningar að taka leigubíl. En ég rata ekki á stoppistöðina hérna, ætti samt að gera það eftir lýsingar Gurríar á súkkulaðibrekku og fleiru. Veit ekkert hvort einhver strætó stoppar nálægt mér eða hvort ég þarf að skipta eða hvað. Er algjörlega úti í móa hvað strætó varðar. Veit bara að einn sem vann með mér ferðaðist með strætó og það tók hann klukkutíma að komast í og úr vinnu. Því myndi ég aldrei nenna.
Samt er það dálítið asnalegt að sjá eftir peningum í leigubíl. Er á frekar nýjum dýrum bíl. Hann er ekki á bílalánum því við borguðum hann á borðið, laus við lánin allavega. En hann er í kaskó sem er rándýrt. Bensínið kostar orðið hvítuna úr augunum þó svo að maðurinn minn sé með lykil á einhverri lágverðsstöð er rándýrt að reka bílinn. Mér skilst að ef við myndum selja bílinn væri ódýrara að taka leigubíl úr og í vinnu og í innkaupaferðir og svona. Þetta hugsa ég venjulega ekkert út í, bölva því bara að þurfa að eyða þrjú þúsund kalli í leigubíl endrum og eins. Er maður ekki aðeins ruglaður í hvað borgar sig og hvað ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.5.2008 | 18:06
Ranghugmyndir og léleg raunveruleikatengsl
Þá er það orðið deginum ljósara að maðurinn minn hefur fengið þá flugu í höfuðið að við séum millar. Í vikunni keypti hann tvo leðursófa og hornborð í stofuna.
Ekki nóg með það heldur er hann búinn að skipuleggja, panta OG borga æðislegt sumarfrí. Við byrjum á því að fljúga til Barcelona og verðum þar í viku. Þá tekur við 12 daga sigling með skemmtiferðaskipi sem heitir hvorki meira né minna en Brilliance of the seas. Það verður siglt til Ítalíu, Frakklands, Króatíu og Túnis. Síðan aftur til Barcelona þar sem við verðum í tvo daga og svo heim. Þetta verður örugglega alveg æðislegt en mér líst að mörgu leyti ekkert á að vera á þessum slóðum í ágúst. Verður örugglega alveg rosalega heitt.
Við horfðum á Eurovision í gærkvöldi, en vinur hans Úlfars kom og horfði með okkur og þeir félagar töluðu svo mikið að ég heyrði bara brot úr sumum lögum og af öðrum ekki neitt. Kaus samt Albaníu, fannst það flottast af því sem ég heyrði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.5.2008 | 19:52
Missir
Samstarfskona mín var að missa föður sinn eftir erfið veikindi. Ég finn innilega til með henni en jafnframt vekur þetta minningar um þann missi sem ég hef orðið fyrir á ævinni, hvernig hann bar að og hvernig ég tók honum.
Móðir mín var alla tíð mjög heilsutæp og var mikið á sjúkrahúsum þegar ég var lítil. Þá var ég hjá móðursystur minni, elstu systur eða bara með pabba úti á sjó. Seinustu árin hennar voru mjög erfið og hún lést rétt sextug. Ég hélt að ég yrði aldrei aftur glöð þegar hún dó. Það eru 30 ár síðan og ég sakna hennar enn og enn er sumt sem ég segi engum af því hún er ekki til staðar. Faðir minn tók andlát hennar ákaflega nærri sér og lagðist í heimshornaflakk og kom ekki heim í eitt og hálft ár. Þegar hann fór var ég gift og læknaritari á Landspítalanum. Þegar hann kom aftur var ég skilin, gift aftur og gengin í lögregluna. Margt getur gerst á skömmum tíma.
Móðursystir mín, sem var mér nánast eins og önnur móðir, lést aðeins 66 ára eftir erfið veikindi. Það var mikill söknuður að henni.
Þegar mér verður hugsað til þessara tveggja kvenna sem voru svo mikilvægar í lífi mínu ber það oft við að mér reynist það erfitt vegna þess hversu ferskar mér eru í minni þjáningar þeirra og það að þær gátu ekki haldið reisn sinni til hinstu stundar. Heldur voru orðnar ólíkar sjálfum sér og veikindin tekið öll völd.
Pabbi minn aftur á móti var mjög hraustur og hress þar til hann lést í bílslysi 74 ára. Hann hafði farið "heim" til Súðavíkur og jeppanum hvolfdi á heimleiðinni. Pabbi var ekki í bílbelti, kastaðist út úr jeppanum sem valt yfir hann og hann lést samstundis. Þar sem hann lést í slysi var framkvæmd réttarkrufning og við hana kom í ljós að hann var fílhraustur og hefði eflaust orðð 100 ára ef ekki hefði verið fyrir þetta slys.
Lát pabba var mikið áfall, algjört kjaftshögg ef svo má að orði komast. Ég var samt fljótari að ná mér eftir það en lát mömmu og tel að það sé vegna þess að allar mínar minningar um hann eru góðar. Hann var aldrei veikur, aldrei upp á aðra kominn sem ég veit að hann hefði aldrei þolað. Þegar ég hugsa um hann sé ég hann því fyrir mér kátan og hressan, annaðhvort á leiðinni í eða að koma úr einhverri ævintýraferðinni því hann naut lífsins og ferðaðist um allan heim til hins síðasta. Bara góðar minningar.
Það hljómar kannski kaldranalega en ég verð að segja að ég mæli með bílslysum frekar en veikindum þegar einhver þarf að fara á annað borð. Góðu minningarnar fela sig ekki í erfiðum minningum um veikindi og þjáningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
18.5.2008 | 20:36
Ágætis helgi
Á föstudagskvöldið fórum við hjónin með yngri son okkar og elstu sonardóttur út að borða á Austur Indíafjelaginu og í leikhúsið að sjá Ástin er diskó - lífið er pönk. Maturinn á Indía var afbragð eins og alltaf og við borðuðum á okkur gat. Þegar við vorum búin að borða var orðið ansi stutt í að sýningin byrjaði svo við geystumst niður Hverfisgötuna til að ná á réttum tíma. Frú Helga var á háum hælum sem gerist ekki oft og þar af leiðandi afrekaði ég það að detta kylliflöt á miðri Hverfisgötunni fyrir framan Þjóðleikhúsið. Birgitta mín hjálpaði ömmu sinni á fætur og sagði ljúflega: Amma mín, þú hefðir kannski ekki átt að fá þér kokteil.
Sýningin fékk mjög misjafna dóma hjá okkur. Við Birgitta skemmtum okkur alveg bærilega, manninum mínum þótti þetta svona lala, en Úlfar krefst þess að fá þessar tvær klukkustundir úr lífi sínu aftur. Hann er mikill leikhúsmaður og man ég ekki eftir því að hann hafi verið svona fúll út af sýningu fyrr. Hann var eiginlega bara alveg öskureiður.
Hún Birgitta mín er alveg afbragðs stelpa. Hlý og góð og hikar ekkert við að láta skoðanir sínar og tilfinningar í ljós. Hún er virkilega skemmtileg viðræðu og við erum strax farin að plana að fara aftur öll út að borða og í leikhús eða bíó. Maður verður nú að fá að njóta þess að eiga svona frábæra stelpu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.5.2008 | 18:06
Köttur og mús
Pabbi minn, Magnús Grímsson útgerðarmaður og skipstjóri, og svili hans, Eyjólfur Jónsson sundkappi og lögreglumaður, voru stórir og miklir menn. Báðir voru þeir heljarmenni að burðum og víluðu fátt fyrir sér. Eitt áttu þeir enn sameiginlegt en það var sjúkleg hræðsla við rottur og mýs.
Pabbi átti verbúð vestur á Granda þar sem þeir svilar geymdu dekkin af bílum sínum. Eitt haustið þegar kominn var tími á að sækja vetrardekkin kom babb í bátinn. Mikill rottufaraldur var á Grandanum og fóru verbúðirnar ekki varhluta af því. Þeir voru í standandi vandræðum því hvorugur þorði inn í verbúðina að sækja dekkin. Þeir gripu til þess ráðs að fara með mig, sem var þá algjör písl þótt ég sé stór og mikil í dag, og sendu mig inn í verbúðina að sækja dekkin. Ég rúllaði hverju dekkinu af öðru út úr verbúðinni á meðan þeir tvístigu fyrir utan og gátu varla beðið eftir að komast burt ef rotta skyldi nú birtast. Mér fannst ég algjör hetja og fékk nammi og gos í Kaffivagninum að launum.
Einu sinni var boð heima hjá okkur. Eyjólfur stóð og talaði við afa minn og stóðu þeir upp við skenk sem Eyjólfur hafði lagt handlegginn upp á. Bræður mínir höfðu af skömmum sínum búið til gervimús úr skinnbút og laumuðu henni á handlegginn á Eyjólfi. Afi minn, Grímur Jónsson fyrrverandi hreppstjóri og útgerðarmaður, var afar virðulegur maður. En hann hoppaði samt hæð sína þegar Eyjólfur kom auga á "músina" á handleggnum á sér og rak upp öskur eitt ógurlegt beint framan í afa. Eyjólfur dauðskammaðist sín og bræður mínir fengu skömm í hattinn hjá mömmu en pabba fannst þetta ákaflega fyndið, líklega af því að hann varð ekki fyrir því sjálfur.
Einu sinni sem oftar vorum við í heimsókn hjá Eyjólfi og Kallý móðursystur minni. Þau áttu kött sem var svo snjall að þegar hann vildi komast inn þá stökk hann upp í gluggann á útihurðinni. Það heyrðist í kettinum og Eyjólfur dró pabba með sér fram á gang til að sjá köttinn. Kötturinn stökk upp í gluggann - með mús í kjaftinum. Það var eins og fílahjörð hefði farið af stað. Þessir boldangskarlar komu æðandi inn í stofu með símaborðið á undan sér, síminn slitinn úr sambandi og allt í pati. Kallý frænka varð að að fara út og taka músina af kettinum og henda henni í ruslið til að pabbi þyrði út til að komast heim. Miklar hetjur.
Önnur saga er til af þessum ketti, þótt músarlaus sé. Aftur vorum við í heimsókn í Rauðagerðinu og Eyjólfur vildi sýna okkur hvað kettinum væri illa við að blásið væri framan í hann. Hann sótti köttinn og stillti honum upp á stofugólfinu. Lagðist síðan á fjóra fætur og blés framan í köttinn. Kötturinn kippti sér ekkert upp við þetta og góndi á Eyjólf eins og naut á nývirki. Eyjólfur var ekki þeirrar gerðar að hann gæfist upp og færðist allur í aukana. Hann dró andann djúpt og blés af alefli framan í köttinn. Kannski aðeins of fast því út úr honum fuku fölsku tennurnar beint framan í köttinn. Kötturinn margfaldaðist að umfangi því hvert einasta hár á honum stóð beint út í loftið, hann hentist undir sófa og neitaði að koma þaðan aftur fyrr en daginn eftir. Það er liðin hálf öld frá þessu atviki en ef þörf er á að hressa Atla bróður minn við er þetta bara rifjað upp og hann hlær í viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.5.2008 | 17:28
Það er að kvikna í, það er að brenna
Ég hef tvisvar lent í lífshættu og bæði skiptin vegna elds.
Þegar ég var þriggja ára fóru foreldrar mínir af bæ og létu 12 ára systur mínar um að passa mig. Pössunin hjá systrum mínum fólst í því að læsa mig inni í hjónaherberginu þar sem ég svaf ásamt foreldrum mínum og þær fóru út að hjóla. Foreldrar mínir reyktu báðir svo ég fann eldspýtustokk og fór að kveikja á eldspýtum. Ég man eftir að hafa setið í gluggakistunni og kveikja á eldspýtum og skyndilega stóðu gluggatjöldin í ljósum logum. Eldurinn breiddist út, saumavélin hennar mömmu tók að brenna og eldurinn breiddist út. Það vildi mér til lífs að elsta systir mín, Þuríður, kom við til að hringja. Hún heyrði í mér veinin og sá reyk leggja undan hurðinni. Hún rauk inn og slökkti eldinn og bjargaði mér út. Hún sagði mér seinna að ég hefði setið skjálfandi í fanginu á henni og sagt: Baddý, viltu fara út og gá hvort húsið hafi brunnið. Mér skilst að foreldrar mínir hafi aldrei treyst tvíburunum fyrir mér aftur.
Þegar Úlfar var árs gamall vorum við tvö heima. Ég hafði kveikt á kertum í stofuglugganum og fór svo inn með Úlfar til að svæfa hann. Ég var við það að sofna þegar síminn hringdi. Ég ráfaði fram og svaraði í símann og um leið varð mér litið inn í stofu. Kertið sem var nær opnum glugga hafði brunnið niður og mansjetta á kertinu var farin að brenna Plast úr mansjettunni var farið að leka logandi niður á gólfið og byrjað að kvikna í. Ég stökk til og slökkti eldinn með gallanum hans Úlfars. Síðan fór ég aftur í símann og þakkaði þeim sem hringdi fyrir að bjarga lífi okkar mæðgina. Það var söngkennarinn hans Styrmis sem bjargaði okkur á síðustu stundu.
Síðan hef ég farið mjög varlega með. Því allt er þegar þrennt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.5.2008 | 12:56
Skyndihjálp gegn einelti
Þegar hann Úlli minn var í fyrsta bekk varð hann fyrir dálitlu einelti. Það var út af því að hann var óskaplegur bókaormur, var á bókasafninu á meðan hin börnin lærðu stafina og síðast en ekki síst að hann hafði enga hæfileika til og ennþá minni áhuga á að spila fótbolta. Við ræddum þetta við kennarann hans og bar hann því við að ekki væri til nógur mannskapur til að fylgjast með í frímínútum.
Nú voru góð ráð dýr, ekki gat ég horft upp á barnið mitt svona óánægt. Hann átti að vísu tvo góða vini en þeir voru báðir eldri en hann og þar af leiðandi ekki í sama bekk. Svo fékk ég hugmynd, alveg afbragðshugmynd þótt ég segi það sjálf. Jón Valgeir Williams er systursonur minn, 2 metrar á hæð og um 150 kíló og það er ekki snefill af því fita. Hann er mikill aflrauna- og kraftlyftingamaður og Úlfar leit alveg taumlaust upp til hans.
Við Jón rottuðum okkur saman, siðan var farið og keyptur gemsi handa drengnum og hann stilltur þannig að ef Úlfar ýtti á 1 myndi Jón Valgeir koma. Tvær vikur liðu og ekki hringdi Úlfar í Jón en var miklu gjaðari og kátari en fyrr. Ég talaði við kennarann hans og sagði honum frá þessu ráðabruggi og hvort breyting hefði orðið. Kennarinn sagði að Úlfar væri allur annar maður sem rigsaði um eins og hani á haug og svaraði fyrir sig fullum hálsi og þá var málið dautt. Það var nefnilega ekkert gaman að hrekkja þennan nýja Úlfar. Hann var kominn með sjálfstraustið í úlpuvasann, það bakland sem hann þurfti.
Stórir frændur og gemsar duga því vel og deili ég þessari aðferð með ykkur sem eigið kannski börn sem eiga við svipuð vandamál að etja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.4.2008 | 21:41
Fanturinn í Austurríki
Ég er búin að vera bara hálflasin eftir að hafa lesið um þennan karldjöful í Austurríki og hvernig hann fór með dóttur sína. Það blogga margir um þetta og tala um að hann sé veikur, hafi verið misþyrmt í æsku og ég veit ekki hvað og hvað.
Af hverju vill fólk ekki trúa því að sumir eru bara hreinlega illa innrættir og vondar manneskjur? Ég held að atferli karla sem leggjast á minnimáttar eigi ekkert skylt við kynlíf. Þetta er bara spurning um völd, hvað þú getur komist upp með. Konan hans hlýtur að hafa vitað að eitthvað gruggugt hafi verið á seyði. annað getur bara varla verið. Hvernig kemst maður hjá því að vita að nánast heil fjölskylda sé í sama húsi? Þá er spurning hvort kerlingaródóið hafi verið samsek eða svo langkúguð að hún hafi ekki þorað að gera neitt dóttur sinni til hjálpar. En hversu langt er maður leiddur þegar maður lætur svona viðbjóð og ofbeldi viðgangast í eigin húsum?
Þessi kona sem var læst inni í öll þessi ár á sér örugglega ekki viðreisnar von. Börnin þeirra þurfa að lifa við að vera ávextir þessarar grimmdar og skepnuskapar sem móðir þeirra mátti þola. Afi þeirra er nauðgari og barnaníðingur en líka pabbi þeirra. Hvað er hægt að standa undir miklu án þess að brotna gjörsamlega og vera merktur fyrir lífstíð?
Ég er á því að þarna sé um að ræða óþverra af verstu sort og vildi óska að hægt væri að dæma hann út frá því. En það verður bara ekki gert, sálfræðingar og geðlæknar eiga eftir að hópast í kringum hann og segja að hann sé "veikur" og ekki sjálfráður gerða sinna. Afsakið meðan ég æli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
27.4.2008 | 18:39
Styrmir og dauðinn
Hann Styrmir minn fór aldrei á leikskóla. Hann var alltaf í pössun hjá ömmu sinni, mömmu minni, þar til hann varð sex ára en þá lést mamma rétt sextug. Ég hafði alltaf hálfgerðar áhyggjur af því að hún væri að ofgera sér við að hafa hann en hún harðneitaði því, sagði að hann héldi í sér lífinu því hann væri svo ljúfur og góður. Svo mér datt ekki í hug að taka hann af henni. Hann var rosalegur ömmustrákur og þegar hann var 12 ára að lesa fyrir litla frænda sinn var það eins og að hlusta á mömmu, sömu áherslurnar og allt. Ungur nemur hvað gamall temur.
Styrmir skildi ekki alveg hvað dauðinn var þegar amma hans dó. Ég sat ein inni í stofu og var að skæla vegna þessa þegar hann kom til mín og faðmaði mig og sagði: Svona svona, mamma mín, ég skal spila við þig ólsen. Að spila var það skemmtilegasta sem hann vissi og því fannst honum tilvalið að hressa mig við með því að spila við mig.
Þegar við vorum að taka okkur til fyrir jarðarförina spurði hann hvort við værum að fara að jarða ömmu. Þegar ég svaraði því játandi sagði hann: Á ég að koma með mína skóflu?
Þegar honum fór að skiljast að dauðinn væri eitthvað endanlegt velti hann honum mikið fyrir sér. Eitt kvöldið þegar við vorum að sofna reis hann upp í rúminu og spurði hvað ég myndi gera ef hann dæi. Fyrst sagðist ég ekki vita það en hann lét sig ekki fyrr en ég var búin að lýsa því á átakanlegan hátt hvað ég yrði sorgmædd og hvað ég myndi sakna hans. Eftir ræðuna lagðist hann út af ánægður með sig og sagði: Veistu hvað, mamma? Ef ég dey held ég að það væri bara best fyrir þig að skjóta þig. Hann var með það á hreinu að ég gæti ekki lifað án hans sem er í sjálfu sér alveg satt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Helga Magnúsdóttir
Bloggvinir
-
berglindnanna
-
mammzan
-
hross
-
ragnhildur
-
skessa
-
gattin
-
gurrihar
-
landsveit
-
larahanna
-
asthildurcesil
-
konukind
-
skjolid
-
jensgud
-
eddaagn
-
jenfo
-
heidathord
-
jonaa
-
amman
-
rebby
-
hallarut
-
ringarinn
-
gunnarkr
-
birtabeib
-
brylli
-
olapals
-
snar
-
stormur
-
krummasnill
-
lindalinnet
-
bifrastarblondinan
-
skordalsbrynja
-
danjensen
-
hneta
-
hildurhelgas
-
gudrunp
-
gleymmerei
-
brandarar
-
astabjork
-
holmfridurge
-
jaherna
-
drum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar