Færsluflokkur: Bloggar

Mömmumóment

Þegar synir mínir hittast fara þeir svo til undantekningalaust að tala um það sem þeir kalla mömmumóment, þetta gera þeir líka hátt og snjallt í fjölskylduboðum og við aðrar aðstæður við mikla hvatningu og fögnuð viðstaddra.

Mömmumóment eru sögur af mér þar sem óheppnin, fljótfærnin og klaufaskapurinn hafa komið mér í bobba. Bæði atvik sem þeir hafa orðið vitni að eða ég verið nógu vitlaus til að segja þeim. Ég ákvað að taka fram fyrir hendurnar á þeim og gefa ykkur nokkur dæmi um mömmumóment.

Einu sinni fór ég í snyrtivöruverslun og ætlaði að kaupa mér hreinsikrem fyrir feita og óhreina húð. Þar sem ég vind mér inn í búðina hrasa ég um þröskuldinn og rann á maganum inn gólfið. Ég reyndi að halda reisn minni stóð upp og gekk að búðarborðinu og bað um hreinsikrem fyrir feitt og óhreint FÓLK. Þá sprungu afgreiðslustúlkurnar alveg sem fram að því höfðu reynt að stilla sig.

Við Styrmir vorum á leið í brúðkaup í okkar fínasta pússi þegar við föttuðum að við mundum ekki hvort giftingin færi fram á Gunnarsbraut eða Guðrúnargötu. Við stoppuðum því í Svarta svaninum til að fletta upp í símaskrá. Styrmir gekk að afgreiðsluborðinu en ég kom auga á síma á vegg og símaskrá á hillu þar fyrir neðan. Ég tók símaskrána en þar sem ég var gleraugnalaus æddi ég af stað með fjandans símaskrána til að láta Styrmi fletta upp í henni. Ég hafði hins vegar ekki varað mig á að skráin var í snúru sem var fest við vegginn þannig að á miðri leið hrifsaðist símaskráin út úr höndunum á mér og fór að sveiflast út um alla sjoppuna. Þarna stóð ég í síðum kjól með símaskrána dansandi í kringum mig. Styrmir grét af hlátri og átti bágt með sig allt brúðkaupið.

Ég fer oft og borða hádegisverð með nokkrum vinkonum mínum. Að lokinni máltíð í eitt skiptið var ég að borga og kortavélin stóð á sér. Ljós kviknaði á skjá og blikkaði heimild, heimild. Ég var búin að stara á skjáinn dágóða stund þegar ég fékk loks strimilinn og kvittaði. Þegar ég var á leiðinni út kallaði afgreiðslustúlkan á mig. Ég hafði skrifað Heimild Magnúsdóttir á nótuna.

Ég er ein af þeim sem eru alltaf á síðustu stundu. Ég var einu sinni að flýta mér sem oftar, henti mér inn í bíl og skellti hurðinni á eftir mér. Gallinn var bara sá að ég var ekki komin öll inn í bílinn svo hausinn á mér lenti á milli stafs og hurðar. Ég var blá og marin í lengri tíma og eyrun á mér voru eins og blómkál.

Þegar ég var á einu af mínum mörgu heilsukúrum fórum við Styrmir í Hagkaup í Kringlunni. Ég keypti bara baunir og grænmeti og svoleiðis, en Styrmir, sem ætlaði að passa Úlfar um kvöldið ætlaði að elda spaghetti carbonara handa þeim bræðrum og keypti því beikon án þess að ég tæki eftir því. Þegar við vorum komin á kassann og ég fór að tína upp úr körfunni kom ég auga á beikonið. Ég þreif eitt beikonbréfið, snersneri mér við, rak beikonið upp í andlitið á "Styrmi" og sagði hátt: Hvað er þetta beikon að gera í körfunni minni? Mér til skelfingar heyrðí ég þá í Styrmi Mamma, hvað ertu að gera? Ég lét beikonið síga og horfði framan í gjörsamlega bláókunnugan mann, ég hafði troðið beikoninu þvílíkt framan í aumingja manninn að það var nánast stimplað Goði á ennið á honum. Styrmir hafði farið fram fyrir kassann til að raða í pokana. Ég bað manninn milljón sinnum afsökunar en hann starði bara á mig eins og ég væri brjáluð og sagði ekki eitt einasta orð. Lái honum hver sem vill.

Þarna eru nokkur mömmumóment handa ykkur. Aldrei að vita nema ég opinberi mig með fleiri svona þegar vel liggur á mér.


Hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Úlfar...

Á þessum degi fyrir 15 árum klukkan 15.41 fæddist hann Úlfar Örn, augasteinninn minn og ljós lífs míns. Ég man það eins og það hefði gerst í gær að bróðir hans lagði hann í fangið á mér um leið og hann var búinn að klippa á naflastrenginn og ég fékk að halda á Úlfari í fyrsta sinn. Ógleymanlegt andartak, bæði fyrir mig og Styrmi stóra bróður.

Úlfar hefur alltaf verið algjör kelirófa og enn þann dag í dag kemur hann til að fá koss og knús. Bestu vinir hans, þeir Lárus og Eddi, fóru að gera þetta sama, komu töltandi á eftir Úlla til að láta faðma sig og kyssa. Lárus er að mestu hættur þessu, sníkir koss bara endrum og eins, en Eddi kyssir mig og faðmar alltaf þegar hann kemur og þegar hann fer. Yndisleg þrenning þessir drengir.

Úlfar hefur alla tíð verið sérstaklega ljúfur og seinþreyttur til vandræða. Þegar hann var í leikskóla var einn þeldökkur strákur með honum á deild. Þessum strák var eitthvað uppsigað við Úlfar og hrinti honum og barði hann alla daga. Ég spurði fóstrurnar hvort strákurinn væri ofvirkur eða eitthvað en þær svöruðu því neitandi og sögðu að Úlfar væri sá eini sem hann léti svona við. Úlfar var orðinn mjög þreyttur á þessu en gekk bara í burtu þegar strákurinn var að ergja hann og tók aldrei á móti. Þegar ég var að reyna að fá Úlfar til að svara í sömu mynt sagði hann bara að Viktor væri minni en hann og þess vegna vildi hann ekki hrinda honum og slá hann. Þetta var rétt hjá Úlfari, hann var miklu stærri en Viktor.

Eitt kvöldið þegar við mæðginin vorum að horfa á sjónvarpið var sena með Ku Klux Klan. Úlfar spurði hvað þetta væri eiginlega og ég sagði honum að þetta væru rosalega vondir menn sem dræpu svart fólk og kveiktu í húsunum þess. Ég reyndi að mála mynd KKK sem svartasta en samt leit Úlfar á mig með vonarglampa í augum og sagði: "Heldurðu að þeir geti losað mig við Viktor?" Ég vissi varla hvernig ég ætti að svara honum og held ég hafi endað með að stynja upp að Ku Klux Klan væri ekki á Íslandi og það væri nú kannski ansi langt gengið að láta myrða Viktor. Úlfar féllst á það með semingi og var greinilega svekktur yfir að þessi afbragðs hugmynd gæti ekki orðið að veruleika. Svo má brýna deigt járn að það bíti.

Til hamingju með daginn, elsku prinsinn hennar mömmu. Ég ætla sko að kyssa þig og knúsa í klessu þegar ég kem heim úr vinnunni.


Úlfar og Lárus

Þegar Úlfar sonur minn var að verða fimm ára kom hann hágrátandi heim og sagði frá því að strákur sem héti Lárus hefði hjólað á eftir honum og barið hann með priki. Ég varð vitanlega alveg brjáluð og linnti ekki látum fyrr en ég var búin að komast að hvar Lárus átti heima og hringdi í mömmu hans. Hún varð alveg miður sín og heimtaði að fá að koma með strákinn heim til okkar og láta hann biðjast afsökunar.

Þau mæðginin komu svo og Lárus bað Úlfar afsökunar og þeir fóru inn í herbergið hans Úlfars að leika sér. Á meðan útskýrði mamman fyrir mér hvað hefði valdið þessari árás en Lárus er með Tourette og ADHD. Hún var líka með lesefni fyrir mig svo ég gæti kynnt mér þetta betur. Þegar þau voru farin ræddum við Úlfar málin og það var ótrúlegt hvað hann skildi þetta vel svona ungur.

Eftir þetta urðu þeir bestu vinir. Lárus gat á stundum reynst Úlfari ansi erfiður en ég ákvað að grípa aldrei inn í heldur láta þá útkljá sín mál sjálfir. Það leystist úr þessum vandamálum undantekningarlaust og var stundum fyndið að heyra til Úlfars þegar hann var að reyna að róa Lárus. Hann var eins og amma hans, alveg rosalega þolinmóður og góður. Ég tel að þessi vinátta hafi gert Úlfari mjög gott því það hefur fengið hann til að skilja að ekki eru allir eins og taka á málum sem upp koma og bjóða sættir hvað sem hefur gengið á.

Þess vegna urðum við hjónin mjög reið þegar skólastjóri og sálfræðingur vöruðu okkur við þessari vináttu og að okkar strákur ætti ekki að vera í "svona félagsskap".

Í eitt  ár vorum við stuðningsfjölskylda Lárusar. Hann var hjá okkur aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags og fengum við borgað fyrir það frá félagsþjónustunni. Lárus var samt mikið hjá okkur aðra daga líka og þess vegna vildi mamma hans borga okkur meira úr eigin vasa. Ég reyndi að útskýra fyrir henni að Lárus væri hjá okkur sem vinur Úlfars og því þyrfti hún alls ekki að borga okkur nokkurn skapaðan hlut. Mér fannst það sorglegt að móður skuli finnast hún þurfa að borga foreldrum vina barna sinna. Hún sagði mér þá að Lárus væri víða óvelkominn og hélt að við leyfðum honum að vera af einhverri skyldurækni. Sem var alls ekki. Strákarnir voru góðir vinir og okkur þykir öllum mjög vænt um Lárus.

Ég held að börn skilji svona vandamál betur en margur fullorðinn. Þegar eldri sonur minn var lítill var frændi hans mjög ofvirkur og lýsti það sér meðal annars í því að hann beit son minn alveg rosalega, oft svo blæddi úr. Eitt kvöldið þegar ég var að baða hann ofbauð mér að sjá sárin og marblettina sem hann var með eftir frænda sinn. Ég sagði við Styrmi að næst þegar Jón biti hann yrði  hann bara að bíta til baka. "Jón vill ekki bíta mig" var svarið sem ég fékk frá barninu. Hann skynjaði það sem við fullorðna fólkið skildum ekki að frændi hans hafði ekki stjórn á sér. Þetta var áður en börn voru greind með ofvirkni og fleira og hegðun þessara barna talin argasta óþekkt. Bragð er að þá barnið finnur segir máltækið og mér finnst það hafa sannast mjög vel á þessari sögu um þá frændur.


Yfirvöld bregðast börnum

Kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum eykst gífurlega ár frá ári. Á síðasta ári bárust 8.410 tilkynningar eða 23 ár á dag. Á sama tíma hefur þeim sem sinna þessum málaflokki ekki fjölgað og er því ekki nema um það bil annað hvert tilfelli rannsakað.

Þetta er algjört hneyksli. Í flestum tilfellum eru það foreldrar sem beita börnin ofbeldi. Þau geta því ekki treyst á þá sér til hjálpar. Og svo bregst hið opinbera gjörsamlega, sinnir engan veginn hlutverki sínu að bjarga börnum frá slíkum aðstæðum. Hvernig líður manneskju sem mannar sig upp í að kæra illa meðferð á börnum og í kjölfarið gerist ekki neitt? Kærir hún aftur eða gefst hún upp og lætur kyrrt liggja vegna þess að það þýðir ekkert að tilkynna illa meðferð á börnum?

23 tilkynningar á dag eru ekkert smáræði. Maður stendur lamaður frammi fyrir því að á svo mörgum heimilum séu litlir einstaklingar barðir og jafnvel beittir kynferðislegu ofbeldi og það kemur enginn þeim til hjálpar. Í mörgum tilfellum eru það börnin sjálf sem reyna að leita sér hjálpar og koma að lokuðum dyrum. Hvernig verður viðhorf Þeirra þegar þau vaxa úr grasi? Þau munu telja að ofbeldi og barsmíðar séu viðtekin norm þar sem aldrei sé tekið á þeim. Munu þau berja sín eigin börn þar sem þau kynntust engu öðru í æsku?

Ekki er vitað hvort ofbeldi hafi aukist svona mikið eða hvort fólk sé orðið óhræddara við að kæra. Barnaníðingar hafa nú tölvurnar og MSN til að leita sér að fórnarlömbum. Hætt er við að þau börn sem leiðast í samband við níðingana með þessum hætti séu börnin sem engan stuðning eða hlýju fá heima hjá sér og eru auðveld fórnarlömb níðinga sem þykjast finnast vænt um þau og eru jafnvel betri við þau en foreldrarnir.

Svona á ekki að líðast í íslensku þjóðfélagi á okkar tímum. Rannsóknum barnaverndarnefnda á svona málum hefur tiltölulega fækkað þegar þeim ætti að stórfjölga. Það verður að skera upp herör í þessum málaflokki svo börn séu ekki varnarlaus og enginn komi þeim til hjálpar þegar þau búa við ömurlegar aðstæður hjá gjörsamlega vanhæfum foreldrum.


Giftingarbrandari

Þegar við hjónin giftum okkur fyrir 28 árum fórum við til borgarfógeta til að láta pússa okkur saman. Við sátum tvö inni í salnum og vorum að tala saman og hlæja þegar alveg einstaklega geðvondur ritari kom inn og horfði illskulega á okkur. "Þið eruð bara kát og glöð að vera að ganga inn í þetta samband sem allir aðrir eru að reyna að losna úr," hreytti hún út sér og bætti svo við: "Alveg er ég hissa á ykkur að vilja giftast hér." Ég fann að maðurinn minn tilvonandi stirðnaði upp en gat ekki spurt hann þar sem borgardómarinn kom inn rétt í þessu.

Eftir athöfnina fórum við á Lækjarbrekku að fá okkur að borða. Þá fékk ég skýringuna á viðbrögðum mannsins við orðum ritarans. Honum heyrðist hún segja: "Alveg er ég hissa á honum við vilja giftast þér" og móðgaðist vitanlega fyrir hönd sinnar heittelskuðu.

Að lokum má geta þess að borgarfógeti lýsti því yfir að þetta væri í fyrsta skipti sem hann gæfi saman lögregluþjón og sjómann. 


Fótboltaraunir

Maðurinn minn gengur ekki heill til skógar þegar fótbolti er annars vegar. Hann verður að horfa á hvern einasta leik og tekur það fram yfir allt annað. Ég hef oft stungið upp á því við hann að hann fari bara á einhvern pöbb og horfi á þetta með sínum líkum og fái sér bjór og svona. Hef boðist til að keyra hann og sækja hann og jafnvel borga ofan í hann bjórinn. Nei, hann vill horfa á boltann heima hjá sér og langar ekki í bjór. Þessum leikjum fylgir svo mikill hávaði, þulirnir tala rosalega hátt og svo eru áhofendur ekki beint hljóðlátir. Aumingja maðurinn minn fær engan stuðning frá fjölskyldunni, eldri sonurinn horfir að visu á fótbolta en heldur með Liverpool sem er alveg hræðilegt því maðurinn minn er United-maður.

Áður en ég kynntist honum hafði ég heyrt um fótbolta svona utan að mér og að jafnvel væri keppt í honum. Hafði aldrei á ævinni séð fótboltaleik og langaði ekki til þess. Yngri sonurinn er alveg á minni línu, horfir ekki á fótbolta, spilar ekki fótbolta með vinunum í skólanum og vill helst ekkert af fótbolta vita. Þetta er manninum mínum mikil vonbrigði því hann hafði hlakkað til að fara með soninn á völlinn og njóta þessarar áráttu með honum. Ekki að ræða það.

Þegar Úlfar var 5 ára var einhver svona stórkeppni í gangi. Maðurinn minn hringdi utan af sjó og sagðist ætla að taka sér frí næsta túr. Mig grunaði ekkert misjafnt og tók mér sumarfrí til að við gætum farið eitthvað. Þegar maðurinn kom svo í land og ég fór að bera undir hann sumarfrísplön horfði hann á mig eins og ég væri biluð. Fara eitthvað? Vissi ég ekki að það var fótboltakeppni í gangi? Ég varð alveg eiturfúl. Þegar þessi keppni hafði staðið yfir í viku eða tíu daga fengum við Úlfar nóg. Pökkuðum niður í töskur og fórum til London til systur minnar þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti fjarri öllum fótbolta í hálfan mánuð.

Tveimur dögum eftir að við komum heim var kominn tími á að maðurinn færi aftur út á sjó. Við Úlfar keyrðum hann niður á bryggju og fórum heim. Við vorum rétt komin upp í rúm, en sonurinn svaf vitanlega hjá mér þegar pabbi var á sjónum, þegar maðurinn minn kom aftur heim. Vélin hafði bilað og túrnum frestað. Þegar Úlfar kom auga á pabba sinn rak hann upp stór augu og sagði: Hva, er fótbolti í sjónvarpinu? Honum datt engin önnur ástæða í hug fyrir þessari ótímabæru heimkomu. Maðurinn minn má eiga það að hann var hálfskömmustulegur við þessar móttökur.

En nú er þetta skollið á eina ferðina. Bara spurning um hvert við Úlfar eigum að forða okkur.


Að vera smáfríður

Þegar ég var lítil var ég eins og frímerki á rassinum á pabba þegar hann kom í land. Þess vegna fór ég mikið vestur á Granda og má jafnvel segja að ég sé að hluta alin upp í Kaffivagninum.

Einu sinni sem oftar vorum við pabbi á Grandanum þegar hann hitti mann sem hann þekkti. Sá leit á mig og sagði: Átt þú þessa? Já, sagði pabbi, sérðu það ekki, hún er smáfríð eins og hann pabbi hennar. Smáfríð? Þetta orð hafði ég aldrei heyrt áður. Ég var samt ekki vitlausari en svo að ég gæti ekki lagt saman tvo og tvo. Sá sem var smáfríður var vitanlega lítið fríður eða bara hreinlega ljótur. Mér sárnaði alveg hræðilega að pabbi skyldi segja við menn að honum þætti ég ljót. Ég sagði ekki orð það sem eftir var Grandaferðarinnar og þegar ég kom heim fór ég stórmóðguð inn í mitt herbergi og dvaldi þar það sem eftir var dags. Pabbi fór á sjóinn um kvöldið og þegar hann ætlaði að kveðja mig sneri ég bara upp á mig. Maður kyssir sko ekki fólk bless sem veður um og segir að maður sé ljótur.

Þegar pabbi var farinn kom mamma og spurði hvað væri eiginlega að mér. Ég væri búin að vera í fýlu allan daginn og hefði ekki einu sinni kvatt hann pabba minn. Þá brustu allar stíflur. Ég fór að  háskæla og sagði mömmu hvað hefði gerst. Mamma fór að hlæja og útskýrði fyrir mér að það að vera smáfríður þýddi að vera með fínlega andlitsdrætti og bara fallegur. Mikið létti mér.

Þegar ég var komin upp í um kvöldið fór ég að velta þessu frekar fyrir mér. Og þá mundi ég eftir því sem pabbi hafði hnýtt aftan í móðguninga. Eins og hann pabbi hennar. Þá féll mér allur ketill í eld.

Hann pabbi minn var nefnilega álíka smáfríður og Látrabjarg.


Þórður og Geir

Þórður Jónsteinsson sem varð valdur að dauða tveggja, þar af fimm ára gamallar stúlku og vinar síns, og að 8 ára drengur lamaðist fyrir lífstíð fékk eins árs fangelsi og ökuleyfissviptingu í 4 ár. Áður en hann varð valdur að slysinu hafði hann misst prófið eftir ofsaakstur. Eftir slysið hefur hann verið tekinn níu sinnum af lögreglu fyrir ofsaakstur og fleiri umferðarlagabrot.

 Í viðtali við DV var hann spurður hvort hann iðraðist. Svarið var: "Iðrast? Ég? Ég var ekki að taka fram  úr!" Blaðamaðurinn sem talaði við hann varð hreinlega að leggja á. Þetta er þaulvanur og fær blaðamaður en honum rann svo til rifja samviskuleysið, tilfinningakuldinn og hrokinn að hann treysti sér ekki til að tala við hann áfram. Á þessi maður nokkurn tíma eftir að vera annað en skaðvaldur í umferðinni?

Geiri í Goldfinger fékk milljón króna miskabætur fyrir að hafa verið bendlaður við mansal í grein í tímaritinu Ísafold. Dómarinn nennti ekki að kynna sér hugtakið mansal öðruvísi en að fletta orðinu upp í orðabók þar sem mansal er mjög þröngt skilgreint eða einfaldlega þrælasala sem minnir á seglskip í gamla daga með fullar lestar af hlekkjuðum föngum. Mansal er skilgreint mun breiðar í mörgum alþjóðasamþykktum sem við erum aðilar að. En dómaranum fannst ekki taka því að kynna sér það.

Geiri fékk milljón. Stúlka sem varð fyrir hópnauðgum fékk 1100 þúsund. Hópnauðgun er vitanlega ekkert annað en margar nauðganir þannig að hver nauðgari þurfti að borga stúlkunni mun lægri upphæð en Birtíngur þarf að borga Geira.

Hvar erum við stödd eiginlega? Þegar um meiðyrði er að ræða ætti að vera nóg að dæma ummælin dauð og ómerk. Bubbi og Geiri hafa örugglega hlotið minni skaða á sálinni en þeir sem verða fórnarlömb ofbeldis hvort sem um er að ræða kynferðisofbeldi eða annað ofbeldi.


Ísbjörn og fleira

Ég var ein af þeim sem æstu sig upp úr skónum þegar ísbjörninn var skotinn. Eftir að hafa hlustað á Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra í Íslandi í dag í gær hef ég alveg skipt um skoðun. Við eigum ekkert það sem til þarf til að ná ísbirni lifandi. Ekki almennilega þyrlu, ekki búr, ekki deyfilyf eða viðeigandi byssu. Átti bara að svæfa björninn og bíða eftir því að hann rankaði við sér aftur án þess að hafa nokkur ráð til að hemja hann eða flytja?

Mér finnst þetta allt annað mál en þegar sjómennirnir frá Bolungarvík hengdu björninn sem þeir sáu á sundi. Þeir áttu bara að láta hann í friði. Ég var á fæðingardeildinni þegar það gerðist og man eftir að hafa setið í rúminu að gefa unganum mínum brjóst alveg foxill. Langafi minn Jón Valgeir Hermannsson mætti ísbirni fyrir rúmlega hundrað árum. Hann var svo heppinn að vera með framhlaðning meðferðis og gat því skotið skepnuna. Þessi langafi minn var víst mikið hraustmenni og ganga margar sögur um hann í fjölskyldunni enn þann dag í dag.

Nú ætla ég að snúa mér að öðru og jákvæðara. Eins og komið hefur fram á blogginu mínu slasaðist maðurinn minn alvarlega fyrir rúmum sjö árum. Hann hefur stöðugt verið kvalinn síðan og nú var svo komið að verkjalyfin voru hætt að virka. Fyrir viku var prófað að setja á hann morfínplástur og líður honum nú betur en honum hefur liðið frá því hann slasaðist. Er ekki verkjalaus en er farinn að tala um að mála forstofuna og stofuna. Það hefði ekki komið til greina fram að þessu. Ég er alveg alsæl með þetta því það er svo vont að horfa upp á þann sem maður elskar vera stöðugt kvalinn. Ég vona bara að það líði langur tími þangað til þessir plástrar hætta að virka.


Sjómannadagurinn og fleira

Sjómannadagurinn var í gær og fór framhjá mér eins og alltaf. Þótt pabbi væri skipstjóri hélt hann aldrei upp á sjómannadaginn, sagði hann bara vitleysu. Það var þrisvar reynt að heiðra hann fyrir björgunarstarf og fleira en hann harðneitaði að taka við einhverjum orðum fyrir það eitt að sinna sínu starfi.  Hann var oftast úti á sjó þangað til það var sett í lög að skip yrðu í landi á sjómannadaginn. Svo varð ég sjómannskona og það eina sem mér fannst gott við sjómannadaginn var að það var svo til eini tíminn á árinu sem ég vissi hvenær maðurinn minn kæmi í land og því mjög hentugt að panta utanlandsferðir og sumarfrí út frá því.

Svo eru það sjómannalögin. Það fer fátt eins í taugarnar á mér og sjómannalög. Annaðhvort fjalla þau um sjómenn sem drykkjumenn og rusta, t.d. Áhöfnin á Rosanum og hann var sjómaður dáðadrengur en drabbari eins og gengur. Jukk. Ekki finnst mér þau betri sem lýsa sjómönnum sem bláeygum hetjum sem standa í stafni og hugsa heim. Þetta eru bara venjulegir menn að vinna sína vinnu.

Margir hafa af þessum sökum ranghugmyndir af sjómönnum. Ég vann einu sinni með konu sem hafði aldrei á ævinni séð sjómann. Maðurinn minn er stór maður og mjög myndarlegur (finnst mér allavega). Hann kom einu sinni að sækja mig í vinnuna. Þá starði umrædd kona á hann og sagði svo: Er þetta maðurinn þinn? Hann er bara ekkert sjómannslegur! Ég fékk það aldrei almennilega upp úr henni hvernig sjómannslegir menn væru.

Helgin hjá okkur var afskaplega róleg, það eina sem við gerðum var að fara út að borða og sjá Indiana Jones á föstudagskvöldið með Úlfari, vini hans og Birgittu sonardóttur minni. Það var bæði gott og skemmtilegt. Styrmir eignaðist Birgittu áður en hann ákvað að binda sig og við höfum ekki séð nógu mikið af henni. Nú erum við og hún búin að ákveða að við gerum eitthvað skemmtilegt saman aðra hverja helgi. Ég á einmitt frí aðra hverja helgi og því upplagt að tengjast þessu elsta barnabarni betur og umgangast hana meira.

Við erum að skipta um húshjálp því maðurinn sem við vorum með var orðinn ansi kærulaus. Við borguðum fyrir fjóra tíma en hann var farinn að vera í einn til einn og hálfan, þreif enga lista eða neitt. Þegar ég fór í vinnuna í morgun var þessi nýi kominn með alveg rosalega ryksugu meðferðis og öll hreinsiefni sem við þurftum sjálf að útvega áður. Ég hlakka til að koma heim og sjá hvað það verður orðið fínt hjá okkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband