Blessuð börnin

Jóna var að lýsa eftir sögum af vandræðum sem börn koma foreldrum sínum í. Hún var þar einkum að leita eftir sögum af einhverfum börnum en þótt mínir strákar séu báðir fullkomlega heilbrigðir hafa þeir samt oft látið mig langa til að skríða ofan í næstu holu.

Þegar Styrmir var þriggja ára var ég með hann á læknabiðstofu. Inn kom þá stærsta, umfangsmesta og stórgerðasta kona sem ég hef séð fyrr og síðar. Hún var, þó ljótt sé að segja það, eins og tröll. Fullorðna fólkið á biðstofunni vandaði sig ógurlega að horfa ekki á hana en ekki Styrmir. Hann bara sat og góndi. Eftir smástund sagði hann hátt og skýrt í andaktugum tón: Ætli hún geti talað? Það heyrðist niðurbælt fliss frá öðrum á biðstofunni en sem betur fer kom læknirinn fram rétt í þessu. Ég var ekkert næst en hrifsaði krakkaorminn og rauk með hann inn. Það hreyfði enginn mótmælum.

Úlli minn var líka þriggja ára þegar ég fór með hann í Bónus í Holtagörðum. Hann vildi fá spólu sem var látið eftir honum en þá vildi hann aðra. Ég sagði honum að hann gæti bara fengið eina þar sem ég ætti ekki peninga fyrir tveimur. Hann sætti sig við það. Svo fórum við í Ríkið og þar sem ég var að fara að halda heljarinnar matarboð keypti ég helling af áfengi. Þegar ég stóð í biðröðinni hóf Úlfar upp raust sína: Mamma mín á enga peninga, hún er svo fátæk! Viljið þið gefa mömmu minni peninga! Þarna stóð ég eldrauð í framan með fulla körfu af áfengi á meðan drengstaulinn emjaði yfir fátæktinni á heimilinu og betlaði peninga. Ég hefði getað kyrkt hann.

Rétt fyrir jólin þegar Úlfar var um þriggja og hálfs árs fór ég ásamt sonum mínum báðum í Blómaval. Í anddyrinu var fatlaður maður í stórum rafmagnshjólastól og var að selja jólageisladisk til stuðnings lömuðum og fötluðum. Úlfar horfði mjög áhugasamur á manninn. Þegar við vorum á leið út aftur rauk krakkakvikindið að stólnum og ýtti á einhvern takka. Stólfjandinn rauk af stað. Það voru greinilega einhverjir skynjarar á stólnum því hann endasentist fram og til baka á ótrúlegri ferð en rakst samt aldrei á. Styrmir hló svo mikið að hann gat ekkert gert, Úlfar horfði stórhrifinn á handaverk sín, maðurinn, sem var líklega sá eini sem vissi hvað átti að gera, var svo spastískur að hann gat ekkert. Ég stóð þarna í örvæntingu minni alveg ráðalaus. Að lokum rauk ég á stólinn og ýtti á alla takka þangað til stólófétið stöðvaðist. Ég keypti þrjá geisladiska af manninum og forðaði mér svo út með hryðjuverkamanninn og hláturfíflið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ó mæ god, ég missti mig úr hlátri þó svo að ljótt sé að hlæja að fólki í hjólastól, en þetta hefur verið geðveik sjón .  Ég var einu sinni með Helga minn hjá lækni, Helgi var 3ja ára og spurði um allt endalaust, doksi var að sauma puttann á peyjanum og sá stutti horfði á, sagði svo allt í einu við mig, "mamma, afhverju er læknirinn svona ljótur?" ég náttl. dó á staðnum, doksi rauðhærður, með bleika húð og geðvekt mikið af freknum og svitnaði eins og fótboltakappi því það var svo heitt á sjúkrahúsinu og kall greyið að reyna að vanda sig við drenginn og meiða hann ekki.  Börn eru besta fólk

Ásdís Sigurðardóttir, 18.7.2008 kl. 18:42

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég pissaði nærri því í mig yfir hjólastólnum.  ARG

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.7.2008 kl. 19:00

3 Smámynd: Tiger

  Hahaha ... skemmtilegar sögur hjá þér þarna Helga mín. Svo satt að það er endalaust fyndið hve mikið börnin geta komið okkur í mikla klípu og stundum efni í stóra ævintýrabók.

Knús á þig ljúfust og eigðu ljúfa og góða helgi framundan!

Tiger, 18.7.2008 kl. 19:03

4 identicon

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 19:09

5 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Takk fyrir skemmtilegar sögur. Börn geta oft komið manni í "bobba" með sínum uppátækjum. Svo hlær maður bara eftirá og gleymir ekki þeim stundum. Eigðu góða helgi ljúfan.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 18.7.2008 kl. 21:49

6 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Hrönn Sigurðardóttir, 18.7.2008 kl. 22:23

7 Smámynd: Elísabet  Sigurðardóttir

Það er ekki til neitt einlægara en þessir litlu "englar" .

Yndislegar sögur

Elísabet Sigurðardóttir, 19.7.2008 kl. 00:29

8 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Snilld..

Rifjar upp gamla tíma. Ég var nefnilega svona ormur sjálfur.  

Brynjar Jóhannsson, 19.7.2008 kl. 07:22

9 Smámynd: Kolgrima

Frábærir dregir sem þú átt

Kolgrima, 20.7.2008 kl. 05:52

10 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Skemmtileg frásögn eins og altaf hjá þér, það er svo gaman að eiga svona minníngar, þær gleimast aldrey.

Knus til þín

Kristín Gunnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 08:37

11 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

 Hvernig eru þeir í dag? Eða hann? Fá þeir ekki peninga fyrir þetta í dag eins og Auddi og Sveppi?

Edda Agnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 14:39

12 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Strákarnir mínir eru yndislegir í dag. Fá samt ekki borgað fyrir það þótt það væri full ástæða til.

Helga Magnúsdóttir, 20.7.2008 kl. 15:54

13 Smámynd: Betsý Árna Kristinsdóttir

Hahaha óborganlegt alveg, þau eru svo yndisleg þessi börn

Alltaf hægt að hlægja að svona sögum eftir á 

Betsý Árna Kristinsdóttir, 20.7.2008 kl. 17:57

14 Smámynd: Heiða  Þórðar

Frábær

Heiða Þórðar, 20.7.2008 kl. 23:55

15 identicon

ahahahaha, aumingjans maðurinn í hjólastólnum....

alva (IP-tala skráð) 21.7.2008 kl. 01:31

16 Smámynd: Ragnheiður

Hahahaha ómæ...

Ragnheiður , 21.7.2008 kl. 05:31

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ertu prestur? spurði einn kunnugur gutti í Jarðaför. Já, svaraði presturinn. Og ætlar þú að kirkja hann afa minn? sagði þá guttinn alvarlegur og rólegur.  Krakkar eru kostuleg kríli og meira skemmtileg svona eftirá, en beint þegar á því stendur.  Hjá kunningjafólki mínu var þýskættaður ríkisborgari í heimsókn um daginn og talaði með hreim. Guttinn þeirra hló í hvert skipti sem þjóðverjinn opnaði munninn og sagði svo ánægður. "Þú talar alveg fáránlega."

Jón Steinar Ragnarsson, 21.7.2008 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 58697

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband