Hvunndagshetja

Í kreppunni undanfarið hefur mér oft orðið hugsað til kvöldstundar sem ég átti í Rauðsokkuheimilinu á Skólavörðustíg 12 fyrir rúmum 30 árum. Ég var mikið þarna á þessum árum og var með þeim yngstu. Þarna kynntist ég mörgum frábærum, klárum og skemmtilegum konum sem enn eru mér fyrirmyndir að mörgu leyti.

En eitt kvöldið fengum við gest til að ávarpa samkomuna. Sá gestur var hún Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sem ég vissi mest lítið um á þessum árum. Aðalheiður kom, hún var stórskorin kona, ekkert sérstaklega vel til höfð og bar þess augljós merki að hafa þurft að taka til hendinni um ævina. Þegar hún fór að tala og eftir því sem á mál hennar leið fannst mér þetta fallegasta kona sem ég hafði nokkru sinni séð.

Hún talaði um kreppuna miklu. Foreldrar hennar voru fátækir, með mikla ómegð og bjuggu í pínulitlu og eflaust óhollu húsnæði. Hún sagði frá því þegar pabbi hennar fór fyrir allar aldir á morgnana til að reyna að fá vinnu við uppskipun eða bara hvað sem er. Stundum fékk hann eitthvað að gera og þá var kátt í kotinu. Stundum kom hann heim bugaður maður með ekkert til að framfleyta sinni stóru fjölskyldu. Hún sagðist hafa verið farin að þekkja það á fótataki hans heim að húsinu hvort hann hefði fengið einhverja vinnu eða ekki og þar með hvort þau fengju eitthvað að borða eða ekki. Ekki voru til peningar til að kynda húsið og kom það þá sér vel hversu mörg þau systkinin voru. Þau gátu kúrt saman og þannig fengið hlýju hvert frá öðru. Hún sagði frá fleiri atburðum sem ekki verða raktir hér. Hún talaði í rúma klukkustund og á meðan sátu einar 20-30 konur svo hljóðar að heyra hefði mátt saumnál detta.

Við erum vissulega í kreppu. En nú er til atvinnuleysissjóður sem getur séð fólki fyrir brýnustu nauðsynjum þótt ekki sé það mikið meira. Sumir krafla sig áfram á greiðslukortum og yfirdrætti og svo eru það Fjölskylduhjálpin og Mæðrastyrksnefnd. Ekkert af þessu var fyrir hendi þegar hún Aðalheiður var að alast upp og neyðin því alger. Barnmargar fjölskyldur í lélegu og of litlu húsnæði heyra vonandi sögunni til. Margir hafa ennþá vinnu þó svo að skera hafi þurft niður, lækka laun og minnka starfshlutfall. Við björgum okkur flest einhvern veginn en þá voru engin bjargráð til. Þegar ég hugsa um þessa kvöldstund með henni Aðalheiði finnst mér ég bara hafa það andskoti gott þó svo að maður verði orðið að neita sér um eitt og annað sem manni þótti ómissandi en sér nú að var bara bölvaður óþarfi.

Þessari kvöldstund gleymi ég aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Aðalheiður er frábær og geislandi kona.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.2.2009 kl. 22:02

2 Smámynd: Auður Proppé

Mjög gott umhugsunarefni, kröfurnar í dag eru allt of miklar.

Auður Proppé, 18.2.2009 kl. 22:03

3 Smámynd: Rebbý

já - ég er alveg að komast af með að skera niður og á held ég bara rólegra líferni og er í betra jafnvægi sjálf ... ótrúlegt að það hafi þurft kreppu til til að ég kveikti á perunni.

Rebbý, 18.2.2009 kl. 22:39

4 identicon

Hæ Helga mín.

Langaði bara að segja þér að ég er búin að lesa og ég er ekki hættur að koma hérna inn á síðuna þína. Ég hef samt lítið vit á þessum málum.

En takk fyrir hjálpina Helga mín. Knúsi knús.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 22:53

5 Smámynd: Sigrún Þorbjörnsdóttir

Maður er náttla ekki kominn í alvöru kreppu þegar maður á enn mat og hlý hús að sofa í. Og sem betur fer er einhver samtrygging og fjölskylduhjálp í okkar þjóðfélagi núna. Ég held maður geti varla ímyndað sér hvernig er að geta ekki gefið börnunum sínum að borða  

Flestir geta bjargað sér eitthvað, en það kemur að því að fólk verður orðið stopp.. því miður.

Sigrún Þorbjörnsdóttir, 19.2.2009 kl. 01:39

6 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Holl lesning hjá þér Helga -og þörf áminning.   Dettur í hug setning sem ég heyrði gamlann Breta segja fyrir margt löngu :

"I´ve been broke, but never poor"

Án þess að gerast allt of heimspekilega þenkjandi þá hef ég tröllatrú á því að stóra málið sé ekki hvað kemur fyrir okkur í lífinu, heldur hvernig við vinnum úr því.

Tímabundin blankheit eru mun auðveldari viðfangs en fátæktargildran.   Upp úr því fyrra má koma sér með tíð og tíma.  Í hið seinna má bara alls ekki sökkva.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.2.2009 kl. 00:41

7 identicon

Þörf áminning.Ég hef það gott .Ég hef allt sem ég ÞARFNAST en það er margt sem mig langar í.Það er langt bil þarna á milli stundum.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 10:11

8 Smámynd: Ólöf Jóhanna Pálsdóttir

Takk fyrir pistilinn Helga mín. Ég er nú orðin það gömul og heyrt um þessa hörðu lífsbaráttu. Dugnað og þrautseygju þessa fólks og þrautagöngu. Ekki þarf ég að kvarta, ólst upp við að fara vel með hlutina og safna fyrrst og eyða svo. En ég hef áhyggjur af unga fólkinu, vegna þessara háu vaxta af húslánum. Að eiga í sig og á og þak yfir höfuðið er það sem fólk þarnast.

Ólöf Jóhanna Pálsdóttir, 21.2.2009 kl. 15:45

9 Smámynd: Guðrún Pálína Karlsdóttir

Sælar vinkona.Já var alin upp við sama og Ólöf og er á sama máli,að öllu leiti.Birna alveg sammála!!!

Hafðu það sem best

Sólgeisla bros til þín mín kær

Guðrún Pálína Karlsdóttir, 23.2.2009 kl. 13:08

10 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Þetta hafa oft verið þung spor hjá fyrirvinnunni í "Gamla" dag, margar sögurnar hefur maður heirt af því frá foreldrum og ömmum. Knus Helga min

Kristín Gunnarsdóttir, 25.2.2009 kl. 16:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 58686

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband