Færsluflokkur: Bloggar

Ég er lifandi

Hæ. Er bara að láta vita að ég er sprelllifandi og eldhress, er bara orðin eitthvað svo löt að skrifa hérna. Ég er þessa dagana að fatta hvað hann Úlli mömmusinnardúlludúskur er orðinn stór. Hann er farinn að læra á bíl þessa elska, er búinn að taka ökutímana og er kominn með æfingaleyfi. Svo er besti vinur hans, sem er að vísu ári eldri en hann, að verða pabbi. Hann Eddi minn, þessi elska, sem ég hef þekkt og elskað frá því hann var fjögurra ára. Svona líða árin með eldingarhraða og maður bara vinnur og sefur eins og maður hafi ekkert betra að gera. Ég á til dæmis bara 11 ár í það að komast á eftirlaun. Ómægod. Nú verður maður að fara að nota tímann áður en barnið flytur að heiman og maður fer sjálfur á elliheimili.

Oft þarf að gera meira en gott þykir

Þegar faðir minn var ungur skipstjóri var hann á síldveiðum fyrir norðan land. Það gerði aftakaveður og komst hann í var á Raufarhöfn. Þegar hann var lagstur við bryggju kom á fund hand örvæntingarfullur faðir sem bað hann um að reyna að komast með fárveikan son hans til læknis en enginn læknir var þá á staðnum. Pabbi tók vel í þessa beiðni, reyndi að komast en óveðrið var slíkt að hann varð frá að hverfa.

Pabbi var á nýjum báti og því með eins fullkomið apótek og hægt var að fá á þeim tíma. Hann ákvað því að gera sjálfur hvað hann gæti fyrir drenginn. Veikindi drengsins voru þau að hann hafði fengið stóra flís í lærið og greri mikið og var hann kominn með blóðeitrun. Pabbi fór með þeim feðgum heim til þeirra og lét leggja drenginn á eldhúsborðið. Síðan "frysti" hann svæðið þar sem flísin var og skar á. Hann varð að fara mjög varlega því ekki mátti sprengja graftarpokann heldur varð að ná honum heilum. Þetta tókst vonum framar svo pabbi saumaði fyrir og fór um borð. Daginn eftir kom faðirinn um borð til hans og átti ekki orð yfir þakklæti sitt. Drengurinn var orðinn nánast hitalaus og allur að koma til.

Þessa sögu fréttum við fjölskyldan ekki fyrr en rúmum 20 árum seinna þegar Atli bróðir náði sér í konu frá Raufarhöfn og amma hennar fattaði strax hver pabbi var. Svo þótti okkur líka svo merkilegt hvernig hann pabbi, með stærstu hendur í heimi, fór að því að gera svona vandasama aðgerð. Það er greinilega allt hægt.


Matarsiðir Úlfars

Þegar hann Úlfar minn fæddist vildi hann hvorki pela né brjóst hann vildi drekka úr glasi. Fljótlega varð líka ljóst að eintómur vökvi dugði honum engan veginn og var hann því kominn með margra metra matseðil um það leyti sem hann mátti byrja að fá grautarspón samkvæmt bókinni. Þegar hann var fjögurra mánaða fór ég með hann til Kallýar móðursystur minnar og við frænkur tókum saman slátur. Að sláturgerð lokinni var vitanlega eldað slátur og Kallý stappaði saman lifrarpylsu, Hann sofnaði og steinsvaf í rúma 9 klukkutíma alsæll svona stríðalinn. Ég var farin að hafa áhyggjur af að hann myndi ekki vakna aftur, síðan yrði hann krufinn og í ljós kæmi að barnið hefði verið myrt með lifrarpylsu.

Úlfar fékk ekki sælgæti fyrr en hann var þriggja ára og vildi það ekki einu sinni. Þegar hann var rúmlega árs gamall fórum við í barnaafmæli. Amma afmælisbarnsins vildi gera vel við Úlfar og stakk upp í hann vænum bita af súkkulaðiköku. Hann gekk í bylgjum af hryllingi og rak á sér hendurnar upp að olnbogum upp í sig til að moka óþverranum út úr sér. Það var ekki fyrr en það var búið að finna handa honum papriku að stýfa úr hnefa sem hann lét huggast. Merkilegt fyrirbæri hann Úlfar.


Ill meðferð á Styrmi

Þegar hann Styrmir minn var um ársgamall sat hann uppi á eldhúsborði heima hjá pabba og mömmu. Karl faðir minn og Þuríður systir mín voru að gæða sér á hákarli sem þeim þótti báðum hið mesta lostæti. Í góðri meiningu, ég efast ekki um það, stakk systir mín hákarlsbita upp í varnarlaust barnið. Styrmir stirðnaði upp, hann gretti sig svo mikið að andlitið á honum vafðist utan um nefið og svo stóð upp úr honum spýjan. Síðan grét hann svo mikið að það ætlaði aldrei að takast að hugga hann.

Í mörg ár eftir þetta var hann svo hræddur við Þuríði að hann hljóp burt eða skreið undir stól þegar hún  birtist. Þegar hann var þriggja eða fjögurra ára tókst henni að lokka hann til lags við sig með því að gefa honum appelsínu eitt rif í einu. Þegar Styrmir var búinn með appelsínuna og langaði greinilega í meira lét hún hann fá heila appelsínu en lét þau orð fylgja hvort hann vildi ekki kyssa frænku sína fyrir. Styrmir leit á appelsínuna og síðan á Þuríði og henti svo í hana appelsínunni og forðaði sér. Hann ætlaði sko ekki að fara að kyssa manneskju sem hafði troðið óþverra upp í hann þegar hann var barnungur og ósjálfbjarga.


Það er ljóta helvítið að verða gamall

Þessi orð í fyrirsögninni lét hann faðir minn oft falla þegar árin tóku að færast yfir. Hann þurfti þó ekki mikið að kvarta undan Elli kerlingu þar sem hann lést snögglega af slysförum 74 ára og var sprækur sem lækur þangað til.

Ég held samt að þetta hafi verið rétt hjá honum. Ég held að það sé ekki gott að verða gamall á Íslandi. Ef maður missir heilsuna með aldrinum er enginn staður til fyrir mann. Annaðhvort verður maður að vera heima og upp á börnin sín kominn eða manni er holað einhvers staðar niður hvort sem það hentar ástandi manns eða ekki.

Ég held að það sé heldur ekkert gaman að verða gamall þó svo að maður haldi heilsu. Á mínum fyrri vinnustað þurfti ég oft að lesa svokallaða dagbók en þar var meðal annars talið upp hvað gömlu fólki var boðið upp á sér til afþreyingar. Fyrst og fremst virtist allt fyrir gamalt fólk fara fram fyrir hádegi. Ég er engin morgunmanneskja. Svo virtist sem gamalt fólk væri ofsótt af harmonikkuleik. Sama hvað var að gerast þurfti harmonikkuleikur að koma við sögu. Mér leiðist harmonikkuspil. Ein tilkynningin endaði á þessum orðum: Þeir sem ekki komast sjálfir verða sóttir. Er það bara ég eða dylst í þessu hótun? Ekkert um að maður gæti látið sækja sig, neinei, bara verða sóttir. Ein tilkynningin var um ferðalag og var sú auglýst sem Dalaferð með berjatínsluívafi! Hvað í ósköpunum er berjatínsluívaf?

Mér líst ekkert á það að verða gömul á Íslandi og er að hugsa um að deyja bara á skikkanlegum tíma.


Forboðin fegurð

Þegar við fjölskyldan vorum í New York fyrir tveimur árum vorum við á gangi á Times Square þegar við komum auga á nokkra svarta stráka sem voru að dansa á götunni. Strákarnir voru ekkert smáflottir, stórir og vöðvastæltir, og dönsuðu eins og englar.

Þegar hlé var gert á dansinum dró ég upp 20 dollara seðil og veifaði honum til þeirra. Sá stærsti og flottasti kom til mín, eða seðilsins, og ég gat ómögulega stillt mig um að strjúka á honum æðisgenginn upphandlegginn og kurra: You have a very beautiful body. Ég hafði ekki fyrr sleppt orðinu en ég heyrði hvæst við hliðina á mér: Mamma! Síðan var rifið í handlegginn á mér og ég dregin á brott með þvílíkum látum að við lá að ég stæði lárétt út í loftið eins og flagg. Þegar sonur minn taldi óhætt að sleppa af mér takinu horfði hann á mig með reiðisvip og sagði: Hvað er eiginlega að þér manneskja? Þú ert 53 ára! Act your age, woman! Hann skammaðist sín svo fyrir mig að hann var blóðrjóður í framan.

Sem sagt: Ekki dást að ungum folum þegar viðkvæmir unglingssynir eru viðstaddir.


Hann á afmæli hann Styrmir

Gamla barnið mitt, hann Styrmir Bolli, er 36 ára í dag. Mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að ég var bara 19 ára þegar ég eignaðist hann. Hafði svo til engin afskipti haft af smábörnum og ég vissi það eitt að bleian átti að fara á þann endann sem öskraði ekki.

Sem betur fór fyrir þessa reynslulausu móður var Styrmir algjör engill frá fyrstu stundu. Einu áhyggjurnar sem þurfti að hafa af honum voru að gleyma honum einhvers staðar, hann var alltaf eins og ljós. Svo var hann líka fallegastur af öllum.

Svo varð hann eldri og bara fallegri með hverju árinu. Ég man eftir því að á febrúardegi þegar hann var 17-18 ára hringdi dyrabjallan. Ég fór niður og þá var þar leigubílstjóri með eina rauða rós til Styrmis. Þetta endurtók sig 7 eða 8 sinnum og ég var farin að halda að ég væri í falinni myndavél eða einhverju hrekkjabragði. Þegar Styrmir kom loksins heim og fór að opna kortin, sem ég hafði stillt mig um að opna af ofumannlegum viljastyrk, kom í ljós að þetta var út af Valentínusardeginum. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta eða annað skiptið sem eitthvað var gert úr honum hér og þetta datt mér ekki í hug.

Til hamingju með daginn, mömmusinnardúlludúskur, ég vona að þú fáir margar rauðar rósir í tilefni dagsins.


Sweet sixteen

Hann Úlli minn, mömmusinnardúlludúskur, er 16 ára í dag. Mér sem finnst svo stutt síðan hann fæddist. En tölurnar tala sínu máli þannig að þetta er víst óhrekjandi staðreynd. Nú eru bara tvö ár þangað til hann verður sjálfráða og ætla ég að nota tímann til að ráðskast með hann eins og ég mögulega get. Djók.

Nýlega útskrifaðist drengurinn úr grunnskóla. Hann kom vitanlega heim með afbragðs einkunnir og verðlaun eins og hann er vanur. Við foreldrarnir skiljum ekkert í þessu því við verðum eiginlega aldrei vör við að hann læri heima en samt segir umsjónarkennarinn að hann skili öllum verkefnum vel unnum og á réttum tíma. Alveg er þetta merkilegt.

Það er fleira merkilegt með hann Úlfar. Honum hefur tekist að lifa í 16 ár án þess að það hafi þurft að gera við eina einustu tönn í honum og hann hefur aldrei tekið sýklalyf. Svo er hann bara svo þægilegur í allri umgengni, rosalega jákvæður og bara yndislegur í alla staði.

Eins og þið kannski vitið er hann Úlli minn glasabarn. Ef tæknin hefði verið orðin svo mikil að ég hefði getað ráðið hvernig barn ég vildi er ég ansi hrædd um að ég hefði ekki haft hugmyndaflug í hann Úlla, það eina sem ég hugsaði um var að hann yrði jafnfrábær og Styrmir stóri bróðir sem hann og er.

Til hamingju með daginn, krílið mitt.


Forboðna mígildið

Í hittifyrra fórum við fjölskyldan að heimsækja Bolla bróður minn til Sjanghæ í Kína. Sjanghæ er mjög skemmtileg borg og margt að sjá en toppurinn á fríinu var samt lúxusferð sem Bolli bauð okkur í til Peking.

Í Peking var endalaust hægt að skoða, múrinn, sumarhöllin, hin ýmsu hof og svo vitanlega Forboðna borgin. Ég mun aldrei gleyma Forboðnu borginni af ýmsum ástæðum. Þegar við vorum rétt komin inn byrjaði mér að verða mál að pissa. Það jókst stöðugt þangað til ég var komin alveg í spreng. Þá kom ég auga á nokkra skúra sem hýstu klósett - eða þannig sko. Ég stökk inn og þá var þetta bara moldarkofi með gati á gólfinu. Fýlan var ólýsanleg. En ég bara VARÐ að pissa. Á meðan á þvagláti stóð skalf ég og titraði af viðbjóði og kúgaðast látlaust. Öll þessi ókyrrð varð svo auðvitað til þess að ég endaði með því að pissa utan í buxnaskálmina mína. Þaðan skjögraði ég út og stóð innan um allar gersemarnar skærgræn, skjálfandi og pissublaut í ofan á lag. Mér leið ömurlega. En buxurnar þornuðu, flökurleikinn lét undan síga svo ég gat loks notið þess að skoða allt það sem Forboðna borgin hefur að geyma sem er ekki lítið.

Þessi saga hefur sem sé sérstakan boðskap. Farið og skoðið Forboðnu borgina ef þið mögulega getið en í guðanna bænum munið að pissa fyrst.

Ef þú lest þetta, Bolli bróðir minn, vil ég enn og aftur þakka þér fyrir að gera þessa ferð ógleymanlega. Þú ert bestur.


Grobbin mamma

Ég stend á öndinni af stolti. Nú er nýlokið keppni grunnskólanema í stuttmyndagerð og voru verðlaunin veitt í Kringlubíói í gær. Úlli minn og vinir hans sendu inn mynd sem fékk verðlaun sem besta myndin. Ekki nóg með það, heldur fékk mömmusinnardúlludúskur verðlaun sem besti karlleikari í aðalhlutverki. Það voru rúmlega 80 myndir sendar inn svo mér finnst þetta alveg meiriháttar afrek hjá strákunum. Verð að bjóða þeim út að borða fljótlega til að halda upp á þessi afrek.

Sérstaklega finnst mér þetta frábært þar sem Úlli minn hefur verið ákveðinn í að verða leikari bara frá því hann var smápolli. Þegar honum voru afhent verðlaunin sagði talsmaður dómnefndar, já það var sko alvöru dómnefnd, að leikur hans hefði verið nánast fullkominn og að hann ætti örugglega framtíðina fyrir sér. Ég held að ég sé bara ennþá stoltari núna en þegar hann fékk íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar. Þetta svona togast á.

Móðurhjartað er alveg í klessu yfir þessu öllu saman. Aldrei hef ég haft annað en stolt og ánægju af þessum dreng. Hann er algjört yndi.


Næsta síða »

Um bloggið

Helga Magnúsdóttir

Höfundur

Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir
Höfundur er prófarkalesari, eiginkona, mamma, amma, kattakelling og elskar bækur.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...elga_517475
  • ...elga_517474
  • ...elga_517473
  • Helga

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband